Áhrif olíunnar

Sem kunnugt er átti olíuvinnsla 150 ára afmæli fyrir tveimur dögum. Eins og Orkubloggið minntist á fyrr í þessum mánuði.

titusville_drillÞað væri líklega að bera í bakkafullan lækinn að fjalla meira um þetta stórafmæli hér á blogginu. Nær að vísa í fjölmargar aðrar góðar umfjallanir fjölmiðla víða um heim. En Orkubloggaranum finnst samt tilefni til að birta hér mynd af endurgerð olíuborsins sem þeir Drake og Smith notuðu sumarið 1859 vestur í Pennsylvaníu.

Margt og mikið hefur verið ritað um áhrif olíunnar á veröld okkar. Sem eru jú talsverð, svo maður noti hógvært orðalag. Og um áhrif olíunnar hafa risið fjölmargar athyglisverðar kenningar. Ein er sú að olían hafi bjargað búrhvelinu frá útrýmingu. Það er sennilega alveg hárrétt; olíulampar leystu lýsislampa af hólmi og þar með hrundi eftirspurn eftir hvalalýsi. Önnur skemmtileg kenning er að olían hafi komið í veg fyrir klofning Bandaríkjanna:

Lieutenant_BlueberrySkammt var liðið frá því olían tók að streyma upp pípurnar í Pennsylvaníu þegar bandaríska borgarastríðið hófst árið 1861. Sumir hafa haldið því fram að sala Norðurríkjanna á olíu til Evrópu hafi veitt Lincoln forseta og Yankee'unum fjármagnið sem var forsenda þess að Suðurríkin lutu í lægra haldi eftir 4ra ára baráttu. M.ö.o. er sagan sú að ef olíuiðnaðurinn hefði fæðst einungis örfáum árum síðar hefðu Suðurríkin náð fram vilja sínum og Ameríska þrælaríkið litið dagsins ljós sunnan við Bandaríkin. Þetta er auðvitað bara svona ef, ef leikur en skemmtileg pæling engu að síður. Það má líka halda áfram að fabúlera og ímynda sér hvað hefði gerst ef olíuiðnaðurinn hefði fæðst í Texas en ekki hjá Norðanmönnunum. Þá hefði Þrælaríkið í Suðrinu kannski orðið mesta iðnveldi heims á 20. öldinni?

Fyrstu árin var það steinolían sem var málið. Hún var mikið nýtt til lýsingar og einnig var olían nýtt sem smurefni í iðnaði. Það olli mönnum aftur á móti sárum leiðindum hvað mikið af öðru gumsi þurfti að hreinsa úr olíunni til að fá steinolíuna og aðrar nothæfar olíuafurðir. Meðal mestu drullunnar var illaþefjandi sull sem menn þarna vestra kölluðu gasoline (bensín). Hreinn viðbjóður og algerlega gagnslaust. Þetta breyttist reyndar dulítið um aldamótin 1900 þegar menn uppgötvuðu að bensín væri notadrjúgt í tækni sem er svo alkunn að óþarft er að rekja frekar. Bílaiðnaðurinn tók bensínið upp á sína arma og í einu vetfangi varð bensín mikilvægasta olíuafurðin í stað steinolíu.

gone-with-the-wind-posterNú eru margir sem óttast að búið sé að nota meira en helminginn af allri vinnanlegri olíu sem Jörðin hefur að geyma. Og að eftir einungis örfáa áratugi verðum við búin að nota megnið af þeirri olíu sem eftir er. Um þetta er í reynd alger óvissa - en vinnslan hefur vissulega smám saman orðið erfiðari og þess vegna dýrari. Það mun leiða til verðhækkana á olíu til framtíðar. En það hversu marga USD olían mun kosta á NYMEX árið 2020 er trilljóndollara-spurning. Sem enginn getur svarað af neinu viti.

Enda skiptir þetta engu máli. Því sama hvað verður um olíuna þá lifa hin mannlegu gildi áfram - og áfram mun ástin blómstra í anda Suðurríkjanna þó svo bæði Texas og Louisiana verði olíulaus. Góða helgi!

 


Kínverjar á orkuveiðum

Hvernig myndi Íslendingum líða í dag, ef Hafró hefði í vikunni birt lauflétta fréttatilkynningu um endurskoðað mat á stærð þorskstofnsins? Nánar tiltekið að líkur væru á að þorskstofninn hafi fram til þessa verið stórlega vanmetinn; um næstum 40 %. Það væri líklega tilefni til að skála í sosum eins og einum öl.

GAS-flamesTilefni þessara vangaveltna Orkubloggsins er að fyrir stuttu síðan birtist frétt um það vestur í Bandaríkjunum að gasbirgðir þar í jörðu séu að öllum líkindum 40% meiri en áætlað hefur verið. Þetta er enn eitt lóð á vogarskál þeirra sem ásamt Orkubloggaranum hafa talið að Bandaríkin standi þrátt fyrir allt nokkuð vel í orkumálum.

Þetta breytir því samt ekki að Bandaríkjamenn verða að huga vel að því hvaðan þeir eiga að fá olíu og gas í framtíðinni. Þeir kæra sig ekki um að lenda í sömu sporum og Evrópa - sem er orðin skuggalega háð gashrammi Rússa. Kínverjar og Indverjar eru líka meðvitaðir um mögulegan orkuvanda heimsins í framtíðinni. Jafnvel ennþá meðvitaðri en Bandaríkjamenn. Þess vegna fara þessi risastóru Asíuríki nú eins og eldur í sinu um heiminn í þeim tilgangi að tryggja sér yfirráð yfir orkulindum.

Þar hefur Kínverjunum orðið sérlega vel ágengt. Alkunnar eru t.d. fjárfestingar þeirra í olíulindum Angóla; þeim mikla olíuspútnik sem á örskömmum tíma er orðin annar stærsti olíuframleiðandi í Afríku. Og nú síðast voru Kínverjar að tryggja sér væna sneið af einhverri mestu gaslind í Suðurhöfum; nánar tiltekið gaslind utan við norðvesturströnd Ástralíu.

Hvorki Bandaríkin né Evrópa hafa sömu langtímahugsunina eins og kínversk stjórnvöld. Það hlægilegasta í þessu nýjasta dæmi suður í Ástralíu er kannski sú staðreynd að fyrirtækin sem munu næstu áratugina selja ástralska flotgasið (LNG) til Kína, eru öll með rætur í Bandaríkjunum og Evrópu.

Það verður íklega seint sagt að Shell, Chevron eða ExxonMobil  þjáist af sterkri föðurlandsást. Sá sem fær gasið sem þau vinna úr ástralska landgrunninu, er einfaldlega sá sem býður best. Með úttroðnar kistur af dollurum eiga kínversk stjórnvöld létt með að yfirbjóða allar aðrar þjóðir, nú í á tímum lánsfjárkreppu. Þess vegna hefur þetta vestræna olíuþríeyki nú samþykkt að selja Kínverjunum Ástralíugasið.

Gorgon gas project_mapÁstralska gasið sem Kínaverjarnir voru að festa sér mun koma frá svæði sem kallað er Gorgon  og liggur undir hafsbotninum um 80 sjómílur utan við NV-strönd Ástralíu. Hafdýpið þarna er víðast einungis u.þ.b. 200 metrar en í reynd ná umræddar gaslindir yfir 2 þúsund ferkílómetra svæði og dýpið sumstaðar allt að 1.300 m. Í samanburði við Drekasvæðið er þetta þó hreinn barnaleikur.

Gasið verður svo leitt eftir pípum dágóðan spotta (50 sjómílur) til Barrow-eyjar, sem mun breytast í gasvinnslustöð. Þar á þessari 200 ferkm eyju sem liggur í nágrenni við Montebello-eyjarnar, þar sem Bretar stunduðu kjarnorkutilraunir sínar á 6. áratugnum, verður gasinu umbreytt í flotgas  (LNG; liqified natural gas). Þaðan verður gasið flutt með sérstökum tankskipum um langan veg til kaupendanna í Kína og fleiri ríkja í A-Asíu.

Gas_Australia_Peter_GarretÞað var 18. ágúst s.l. að hún Donna Faragher, umhverfisráðherra fylkisins Vestur-Ástralía, veitti endalegt leyfi fyrir gasstöðvunum á Barrow-eyju og nú virðast allar hindranir úr vegi fyrir þessari gríðarlegu fjárfestingu. Að vísu þarf umhverfisráðherra alríkisstjórnarinnar í Canberra, Peter nokkur Garret, einnig að blessa gjörninginn, en talið er víst að það muni gerast nokkuð ljúflega. Framkvæmdaaðilarnir eru jafnvel að gæla við að geta hafist handa á Barrow-eyju strax núna í september.

Gorgon-gaslindirnar vestur af sólbökuðum eyðimörkum Ástralíu eru kenndar við risann ógurlega; ófreskjuna með gullvængina sem sagt er frá í grísku goðafræðinni. Þarna eru sagðir liggja heilir 1.100 milljarðar teningsmetra af gasi. Sem er nokkuð mikið - t.d. fimm sinnum meira en norsku Mjallhvítarlindirnar eru sagðar hafa að geyma. Sem sagt mikið - mjög mikið af gasi.

LNG-framleiðslan á að komast í gang 2014 og ganga fyrir fullum afköstum næstu 40 árin. Þegar framleiðslan verður í hámarki á að verða unnt að framleiða 15 milljón tonn af LNG árlega, sem samsvarar u.þ.b. 20 milljörðum rúmmetra af gasi á dag (Mjallhvít hin norska mun framleiða hátt í 6 milljarða rúmmetra árlega).

PetroChina_SignÞað er kínverski ríkisorkurisinn PetroChina  sem er nú búið að festa kaup á samtals rúmum fimmtungi af Gorgon-gasinu næstu 20 árin eða 3,25 milljónum tonna árlega. Seljendurnir eru áðurnefnd Chevron, Shell og ExxonMobil, sem hafa með höndum vinnslu á þessu geggjaða gassvæði. Nú eru horfur á að LNG sé sú orkuvinnsla sem mun vaxa hvað mest á næstu árum og áratugum. Það er aftur á móti óvíst að Vesturlönd fái mikið af þeim gasbita til sín. Sífellt meira er um það að Asíuþjóðir á borð við Kínverja, Indverja og Suður-Kóreumenn festi sér LNG áratugi fram í tímann.

Til marks um umfang Kínverja, þá er gassölusamningurinn vegna Gorgon hvorki meira né minna en stærsti samningur í ástralskri viðskiptasögu. Þessi risasamningur er til marks um það hvernig Kínverjarnir eru snillingar í að tryggja sér framtíðaraðgang að helstu auðlindum jarðar. Þar að auki gæti tímasetningin vart verið betri fyrir Kínverjana. Verð á gasi er í nefnilega djúpum skít þessa dagana. Af einhverjum dularfullum ástæðum hefur gasverð haldið áfram að lækka, þrátt fyrir verðhækkanir á olíu og aukna bjartsýni í efnahagsmálum.

LNG_ship_carrierM.ö.o. þá er gas einfaldlega á tombóluverði nú um stundir og Kínverjarnir með fullar hirslur af dollurum sjá sér leik á borði að kaupa nú upp gas langt fram í framtíðina. Enda veitir þeim ekki af. Búist er við að gasnotkun í Kína þrefaldist á næstu tíu árum. Í dag flytja Kínverjar inn um 6 milljón tonn af fljótandi gasi árlega og segjast ætla að auka þetta í 20 milljón tonn fyrir 2020. Þess vegna eru þeir nú í óða önn að tryggja sér aðgang að bæði gasi og olíu um veröld víða.

Hér heima á Klakanum góða er fólk eitthvað að rífast út af því að verið sé að selja útlendingum orkuauðlindir landsins. Það sorglega er að upphæðirnar sem þar er verið að tala um eru soddan tittlingaskítur. Í stað þess að vera að eyða tíma í þennan kanadíska Silfurref  frá Magma Energy og aurana sem hann þykist ætla að borga fyrir HS Orku, væri nær að gera þetta almennilega. Munum hvað Kínverjar eru hrifnir af drekum. Nú er barrrasta að nota tækifærið og einfaldlega selja þeim vinnsluréttindin á Drekasvæðinu.

Kronan_sekkurVerðið fyrir Drekann íslenska? Til dæmis sama upphæð og Kínverjarnir borga fyrir ástralska gasið frá Gorgon-lindunum: 40 milljarðar dollara. Það eru rúmir 5 þúsund milljarðar ISK á druslugengi dagsins. Ætti að bjarga okkur yfir versta hjallann eftir dýrasta viðskiptaævintýri sögunnar.

En svo talað sé í fullri alvöru... Nú er verið að stíga fyrstu skref í þá átt að selja íslensku orkufyrirtækin til útlendinga. Orkublogginu líst reynda nokkuð vel á þennan mann að baki Magma Energy; Ross Beaty. En því miður er samt ekki ólíklegt að hér muni þjóðin vakna upp einn daginn við það að orkufyrirtækin hafi verið seld - á slikk. Stjórnmálamönnum á Íslandi virðist a.m.k. einkar lagið að búa illa um hnútana þegar kemur að sölu (einkavæðingu) mikilvægra opinberra fyrirtækja.


Geitskór og gasið í Rúþeníu

Carpatho-Rusyn_sub-groups_-_Transcarpathian_Rusyns_in_original_goral_folk-costumes_from_Maramureº_.[1]Eih bennek, eih blavek!

Að Ísland eigi sér viðreisnar von er farið að verða svolítið hæpið. Hér virðist fjármálaspillingin hafa farið létt með að slá út bæði Enron og rússnesku einkavæðinguna. Heyrst hefur að meira að segja íbúar Rúþeníu hafi hugsanlega efni á meiri bjartsýni en Íslendingar.

Nei - Orkubloggið er ekki að grínast! Hér er fúlasta alvara á ferðum. Þó svo að þjóðbúningarnir í Rúþeníu og fjallendið þar hafi hugsanlega verið meðal þess sem gaf Hergé hugmyndina að Austur-Evrópuríkinu Syldavíu, er Rúþenía enginn tilbúningur.

tinni_VeldissprotiVissulega er Orkubloggarinn einlægur aðdáandi Tinnabókanna. Og þekkir því vel til hinna athyglisverðu samfélaga bæði Syldavíu og Bórdúríu. En vitund bloggarans og áhugi á Rúþeníu vaknaði aftur á móti ekki fyrr en fyrir örfáum mánuðum, þegar bloggarinn dvaldi nokkra daga austur í Kíev; höfuðborg Chernobyl-landsins Úkraínu. Hvar hið dúndrandi geislavirka fljót Dnepr streymir í gegnum borgina með alla sína miklu sögu og oft myrka fortíð.

Rúþenía er eitt af mörgum héruðum þessa merkilega lands og liggur í fjalllendinu vestast í Úkraínu, að landamærum Póllands, Slóvakíu, Ungverjalands og Rúmeníu. Sem sagt hjarta Evrópu!

Við nánari athugun bloggarans kom í ljós að Rúþenía er ekki aðeins hluti af hinum fallegu Karpatafjöllum, heldur er héraðið nánast í lykilhlutverki í orkubúskap allrar Evrópu. Af því tilefni ætlar Orkubloggið að staldra við þetta vestasta hérað Úkraínu, sem fyrir margt löngu naut þess í EINN DAG að vera sjálfstætt ríki.

Rutenia_skjaldarmerkiJá - lýðveldið Rúþenía lifði einungis í einn dag. Eða í mesta lagi þrjá, allt eftir því við hvaða heimild er miðað. Þetta gerðist á óróatímanum skömmu fyrir heimsstyrjöldina síðari og þá var héraðið hluti af Tékkóslóvakíu.

Eðlilega skapaðist mikil ólga á þessum slóðum þegar ofurhrammur Nasismans byrjaði að láta til sín taka. Sjálfstæðissinnar austast í Tékkóslóvakíu sáu sér leik á borði þegar Hitler tók Súdetahéruðin 1938. Víða urðu skærur og til eru sögur um grimmilega bardaga slóvenskra, rúþenskra og ungverskra herflokka í snævi þöktum Karpatafjöllunum veturinn 1938-39.

Svo fór að þann 15. mars 1939 lýsti rúþenska þjóðernishetjan Augustin Voloshyn  og fylgismenn hans yfir sjálfstæði Rúþeníu.

Avgustyn_Voloshyn_1Lýðveldið nefndu þeir reyndar ekki Rúþeníu heldur Karpata-Ukraínu  (Карпатська Русь). Héraðið liggur við vesturhlíðar Karpatafjallanna, sem er einhver mesti fjallgarður í Evrópu og lýðveldisnafnið endurspeglaði sterk tengsl Rúþena við Úkraínumenn fremur en Slóvaka, Ungverja eða Pólverja.

Þessar aðgerðir Voloshyn‘s  töldu Ungverjar vera upplagða tylliástæðu til að ráðast inn í héraðið af fullum þunga - að sjálfsögðu með blessun Hitlers. Einungis fáeinum klukkutímum síðar var mestöll Rúþenía á valdi ungverska hersins. Til eru hroðalegar frásagnir af því hvernig illa vopnaðir lýðveldissinnarnir frá Rúþeníu voru stráfelldir af Ungverjum. Þeir Rúþenar sem náðust lifandi voru leiddir fyrir aftökusveitir og frosnum líkunum svo hrúgað í fjöldagrafir. Það er erfitt að ímynda sér grimmdina sem ríkti þarna í hjarta Evrópu í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar.

zakarpattia_valleyÞar með lauk hinni örstuttu sjálfstæðissögu Rúþeníu á ísköldum vordögum árið 1938. Þess má líka geta að við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar bjó mikið af gyðingum í héraðinu og voru þeir allir með tölu fluttir til Auschwitz og gjörsamlega útrýmt. Eftir síðari heimsstyrjöldina var Rúþenía gerð að sérstöku héraði vestast í Úkraínu og þar með hluti af Sovétríkjunum.  

Voloshyn  átti aldrei aftur eftir að strjúka um frjálst höfuð og mun hafa látist í sovésku fangelsi á árinu 1945. Héraðið var eftir yfirtöku Sovétríkjanna nefnt Zakarpattia og ber það heiti enn þann dag í dag. Héraðið er nú hluti af Úkraínu og er um 13 þúsund ferkílómetrar. Íbúafjöldinn í dag er um 1,3 milljónir og þar af eru um 80% Úkraínumenn, 10% Ungverjar en afgangurinn ýmis önnur þjóðabrot.

Kannski eru ekki margir Íslendingar sem kannast við Rúþeníu og reyndar er umdeilt hvort Rúþenar uppfylla lágmarksskilyrði til að geta talist sérstök þjóð. Bæði fólkið og tungumálið er náskylt Úkraínumönnum og úkraínsku (sem er mjög lík rússnesku) og sjálfstæðishugmyndir fólksins í Rúþeníu hafa óvíða fengið stuðning.

Ruthenia_gas_pipesEn á allra síðustu misserum hafa vonir sumra íbúanna þar um aukna sjálfsstjórn óvænt glæðst. Vegna þess að skyndilega er þetta flestum gleymda hérað skyndilega orðið mikilvægur hlekkur í orkukeðju Evrópu. Þarna um héraðið liggja nefnilega flestar af gasleiðslunum, sem flytja rússneskt gas til landa í Evrópusambandinu.

Vegna gasdeilna Rússa og Úkraínumanna og truflana á gasstreyminu til Evrópusambandsríkjanna hefur athygli manna óvænt beinst að Rúþeníu. Rúþenía - eða Zakarpattia - er allt í einu orðið mál málanna. Af þeim sökum hefur sjálfsöryggi og sjálfsvitund íbúa Rúþeníu líklega sjaldan verið jafn sterk eins og þessa dagana.

Sumir telja að þjóðin sem kennir sig við Rúþeníu (Rúþenar eða Rusyns eins og þeir kallast á erlendum tungum) telji hugsanlega allt að tvær milljónir manna - aðrir segja að þeir séu einungis um 50 þúsund. Sama hver talan er, þá er vitað að fæstir Rúþenanna búa í héraðinu. Stór hluti þeirra býr í öðrum héruðum Úkraínu og í nágrannalöndunum, eins og Karpatahéruðum Slóvakíu og Póllands og meira að segja í fyrrum lýðveldum Júgóslavíu.

andy_warhol_self_portraitÞekktasti Rúþeni allra tíma er oft sagður vera yfirfígúran og listamaðurinn Andy Warhol. Þegar hann var spurður hvaðan hann væri ættaður mun Warhol gjarnan hafa svarað að hann kæmi „from nowhere". Foreldrar Warhol voru innflytjendur frá Slóvakíu, en áttu ættir að rekja til héraðanna þar austan af og hafa mögulega verið Rúþenar (þó það sé reyndar óljóst; kunna að hafa verið af úkraínskum ættum). Warhol hitti þarna á góðan punkt; mörgum Rúþenum þykir einmitt erfitt að staðsetja rætur sínar og uppruna. Það er vandamál sem við Íslendingar þekkjum ekki hér á Klakanum góða.

Nú hefur skyndilega færst nýr kraftur í sjálfstæðissinna í Rúþeníu, undir forystu manns að nafni Pétur Geitskór  (reyndar heitir hann Petr Getsko). Það var í desember s.l. (2008) að Getsko ásamt nokkrum áhangendum lýsti yfir sjálfstæði Rúþeníu. Og þessi fríði flokkur útnefndi Getsko sjálfan sem forsætisráðherra hins nýstofnaða ríkis.

Europe_Gas_PipelinesÞetta uppátæki er einungis táknrænt og hefði hugsanlega ekki vakið mikla athygli, nema fyrir það að í viðtölum við fjölmiðla var Getsko sérlega duglegur að benda á eina markverða staðreynd. Nefnilega þá, að stór hluti af öllu gasinu frá Rússlandi til Evrópu fari um leiðslur sem liggja um Rúþeníu - þetta vestasta hérað Úkraínu.

Það á enn eftir að koma í ljós hvort eitthvað verður úr digurbarkalegum yfirlýsingum Getsko‘s um sjálfstæða Rúþeníu. Rætnar tungur segja að þarna hafi hann einungis fengið sínar 15 mínútur af frægð. Sem kunnugt er var það einmitt Rúþeninn Andy Warhol, sem mælti á sínum tíma þessi fleygu orð: „In the future, everyone will be world famous for 15 minutes". Warhol virðist svo sannarlega hafa séð Internetið fyrir.

Hvernig svo sem fer með sjálfstæðisyfirlýsingu Getsko's og fylgismanna hans, þá væri örugglega gaman að koma til Rúþeníu. Karpatafjöllin eru enn nokkuð óspillt og þar eru t.d. gríðarlega mikil tækifæri í uppbyggingu vetraríþróttasvæða.

zakarpattia-snowy_mtsEn Rúþenía lifir ekki aðeins sem gömul saga eða von um nýtt ríki. Það er nefnilega til frumefni (málmur) sem kallað er rúþen (ruthenium) og er talið geta nýst í sólarsellutækni. Nánar tiltekið við gerð sérstakra örþunnra sólarsella, sem eiga að verða margfalt hagkvæmari en núverandi sellur (Orkubloggið hefur að sjálfsögðu áður minnst á þessar s.k. thin-film  sólarsellur). Þannig tengist bæði Rúþenía og rúþenið Orkublogginu...


Volt: 1 lítri á hundraðið!

Einn af þeim rafbílum sem menn bíða spenntir eftir er tengiltvinnbíllinn Chevrolet Volt. Að sögn General Motors  fer nú að styttast í Volt‘inn, sem á einungis að eyða sem svarar 1 galloni á 230 mílur. Sem er sama og einn á hundraðið. Já - einn lítri á 100 kílómetra! Ef þetta reynist rétt eru þeir hjá GM búnir að búa til sannkallað furðuverk.

VOLT_Chevrolet_ConceptÞessa eyðsla yrði margfalt minni en uppgefin eyðsla eins helsta keppinautarins; Toyota Prius. Þar er opinbera talan í Bandaríkjunum 48 mílur á gallonið, sem jafngildir um 4,9 lítrum á hundraðið (niðurstaða Orkubloggsins var að Prius‘inn eyði reyndar um 5,9 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri).

Margir bílaáhugamenn urðu efins á svip þegar GM tilkynnti um þessa ofurlágu bensíneyðslu nú fyrir um viku síðan. Í reynd er þessi eyðsla háð nokkuð þröngum forsendum. Þannig er nefnilega að eyðslutölurnar miðast við tiltekna meðalvegalengd sem hinn almenni vísitölukani ekur á hverjum degi. Sökum þess að rafmagnshelðslan dugir fyrstu 40 mílurnar (64 km) og umræddur meðalakstur er lítið umfram það, er auðvelt að ná bensíneyðslunni í þessum tölfræðileik undir 1 l á hundraðið.

epa_logoNú bíða menn auðvitað spenntir eftir því hvort úrskurður bandarísku umhverfisstofnunarinnar EPA (US Environmental Protection Agency) um eldsneytiseyðslu Volt‘sins verði í samræmi við þessar yfirlýsingar GM. Verði það niðurstaðan verður Volt fyrsti bíll veraldar sem kemst í þann flokk sem kallast „triple-digit gas mileage". Það táknar að viðkomandi bíll komist meira en 100 mílur á einu galloni (eyði minna en 2,4 lítrum á hundrað kílómetra). Eyðslan hjá Volt‘inum á heldur betur að sprengja þennan skala; 230 mílur á gallonið eða 1 lítri á hundraðið, sem fyrr segir!

Rétt eins og Toyota Prius verður Volt knúinn bæði með hefðbundnum brunahreyfli og rafknúinn. En Volt‘inn verður að auki þannig útbúinn að hægt verður að hlaða rafgeyminn með venjulegri heimarafstungu. Hann er sem sagt enn eitt skrefið í átt að rafbíl; s.k. tengil-tvinnbíll.

Bíllinn á að verða tilbúinn á næsta ári (2010). Þar er þó einungis um að ræða nokkra tugi eintaka, sem eru fyrst og fremst sýningareintök. Nefna má að Volt'inn á að taka fjóra farþega og ná 160 km/klkst hraða. Liþíum-jóna rafgeymirinn á að geta enst í heilan áratug og til að gera bílinn ennþá umhverfisvænni verður hægt að fá hann með sólarsellurafhlöðu á þakinu. Það verður þó ekki standard-búnaður; almennt verður rafgeymirinn hlaðinn heima við yfir nótt.

Volt_2011Enn eru mörg tæknileg vandamál óleyst til að Volt verði að veruleika. T.d. mun hafa gengið heldur brösuglega að láta rafgeyminn og brunahreyfillinn vinna saman sem skyldi og einnig er talsvert langt í land með að rafgeymirinn verði nægilega endingagóður til að þetta dæmi gangi upp.

Loks hljómar verðið frekar hrottalega; fyrsta kynslóðin á að kosta í kringum 40 þúsund dollara. Hjá GM binda menn vonir við að bandarísk stjórnvöld hvetji til rafbílavæðingar með skattaafslætti, sem muni koma verðinu niður í allt að 30 þúsund dollara. Til samanburðar þá kostar t.d. nýr öflugur gæðajeppi einmitt um 40 þúsund dollara þar vestra og fá má prýðilegan 5 sæta fjölskyldubíl fyrir 15-20 þúsund dollara.

Auk tæknivandamála er ýmislegt annað sem veldur mönnum efa um að þetta Volt-ævintýri gangi upp hjá GM. Þetta er í raun stærra mál en margan grunar. GM er hugsanlega að leggja allt undir. Volt‘inn á að bjarga fyrirtækinu og ef hann floppar er GM kannski endanlega búið spil. Þar á bæ hafa menn reyndar viðurkennt að jafnvel þó svo færi að bíllinn seldist eins og heitar lummur á 40 þúsund dollara stykkið, myndi verða tap á framleiðslunni. Þarna virðist viðskiptaáætlunin byggð annað hvort á mikilli bjartsýni um að framleiðslukostnaðurinn muni senn hrynja eða að ívilnanir stjórnvalda til rafmagnsbílaframleiðslu muni tryggja hagnað af Volt.

Það var vissulega nokkuð snjallt af stjórnendum GM að láta framtíð fyrirtækisins ráðast af „grænum" bil. Þessi stefna stjórnunarteymisins byggðist í raun á þeirri lymsku, að með Volt mætti nánast endalaust réttlæta skattaívilnanir, niðurgreiðslur eða annars konar stuðning úr sjóðum bandarískra skattborgara. Þar með fengi GM svigrúm til að þróa Volt‘inn og aðra rafbíla, uns hagkvæmni yrði náð.

gm-meltdownEn því miður vann tíminn ekki með GM. Þeir sukku endanlega í skuldadýið í sumar sem leið og eftir lauflétt kennitöluflakk er stærstur hluti þessa gamla bílarisa nú í eigu bandaríska ríkisins. Hvort það verður gott eða slæmt fyrir þróunina á Volt mun tíminn leiða í ljós.


Svört bjartsýni eða björt svartsýni?

TIME_Japan_mar_1981Hagvöxtur í Japan varð þokkalegur á 2. ársfjórðungi. Fjölmiðlar stukku margir á agnið og átu hver upp eftir öðrum að kreppan væri búin. Vöxtur væri hafinn á ný.

Reyndar hafa líka verið að birtast fréttir um vöxt í Evrópu. Vandamálið er bara að það er alltof, alltof snemmt að fagna. Ein smá uppsveifla segir ekki neitt. Kannski er kreppan búin - en kannski er ennþá talsvert langt í land og kannski á heimurinn senn eftir að upplifa ennþá dýpri efnahagslægð en hingað til.

Þó svo hagvöxtur í Japan hafi numið 0,9% á 2. ársfjórðungi var hann í reynd minni en margir bjuggust við! Spár höfðu gert ráð fyrir meiri uppsveiflu þarna í landi hinnar rísandi sólar, eftir hinar hressilegu efnahagsaðgerðir japanskra stjórnvalda undanfarið.

Það er ekki nóg með japönsk stjórnvöld verði senn búin að kaupa upp nánast hverja einustu viðskiptakröfu milli japanskra fyrirtækja - þar hefur Seðlabankinn einnig hreinlega afnumið vexti á lánsfé til fyrirtækjanna. Fjárinn hafi það; varla er liðin vika síðan japanski Seðlabankinn ákvað að halda vöxtum áfram 0,1%! M.ö.o. þá er lánsfé nú svo gott sem ókeypis í Japan og búið að vera svo í dágóðan tíma. Samt varð vöxturinn á 2. ársfjórðungi minni en flestir höfðu gert ráð fyrir. Þarna er einfaldlega ennþá allt í kaldakolum.

Dow_Jones_August_17_2009Niðurstaðan í Japan núna ætti fremur að vekja vonbrigði en gleði. Og það vita verðbréfabraskararnir á Wall Street. Þess vegna lækkuðu hlutabréfavísitölur vestan hafs í dag um heil 2-3% (myndin hér til hliðar sýnir Dow Jones í dag, en hún lækkaði um 2%). Hér heima voru fréttirnar um "uppsveifluna" í Japan aftur á móti matreiddar eins og allt sé að smella í lag. Heldur öfugsnúið.

China_what_directionMenn hafa sem sagt verulegar áhyggjur... ekki síst af Asíu. Þessi útkoma í Japan er hundslöpp - og gæti verið undanfari enn válegri tíðinda. Nefnilega þeirra að Kína fari að hægja á sér fyrir alvöru. Þá fyrst yrði fjandinn laus.


Rennur endurnýjanleg orka útí sandinn?

IRENA_logoÞví miður rættist ekki sá draumur Orkubloggsins, að aðalstöðvar IRENA - nýju alþjóðasamtakanna um endurnýjanlega orku - yrðu staðsettar á Íslandi. Enda höfðu íslensk stjórnvöld lítinn áhuga á að vinna að því markmiði.

Irena_UEA_happyKannski getum við huggað okkur við það að Ísland hefði hvort sem er verið yfirboðið og hefði aldrei átt neina möguleika í að fá IRENA til sín. Meira að segja Þjóðverjarnir urðu að láta í minni pokann fyrir arabísku olíupeningunum í slagnum um aðalstöðvar IRENA.

Já - það er búið að ákveða að aðalstöðvar IRENA verði í gullna sandinum í olíuveldinu Abu Dhabi. Það er ástæðan fyrir því að þeir félagarnir Sheikh Mohammed bin Rashid Al Maktoum, varaforseti Sameinuðu Arabísku furstadæmanna og einvaldur í Dubai og hans hágöfgi Khalifa bin Zayed Al Nahyan, fursti í Abu Dhabi, ískra af kátínu þessa dagana. Þetta vitum við auðvitað öll af þeirri einföldu ástæðu að einn uppáhaldsvefurinn okkar orkufíklanna hlýtur að vera hinn safaríki vefur www.sheikhmohammed.ae!

uae-oilÞað voru sem sagt Arabarnir í Abu Dhabi sem unnu sigur í kapphlaupinu um aðalstöðvar IRENA. Þjóð furstadæmisins telur um eina milljón manns, en Abu Dhabi er eitt af sjö furstadæmum sem mynda ríkið Sameinuðu arabísku furstadæmin  (United Arab Emirates eða UAE). Þetta ofurríka olíuveldi býr yfir einhverjum mestu olíubirgðum heims; er með um 90% af allri olíu og gasi innan UEA og því einhver almesti olíupollur veraldar. Enda átti furstinn ekki í vandræðum með að yfirbjóða önnur ríki sem þyrsti í að hýsa IRENA innan sinna landamæra. Sigraði þar ekki aðeins Þjóðverja, heldur einnig Austurríkismenn, Dani og Tékka, sem allir sóttust eftir því að fá IRENA til sín.

Með loforðum um tugmilljóna dollara styrki til orkuverkefna í þróunarríkjunum tryggði Abu Dhabi sér stuðning fjölmargra þróunarríkja á undirbúningsráðstefnu IRENA og auk þess lofuðu þeir að kosta byggingu og rekstur skrifstofunnar þarna í steikandi eyðimörkinni. Þessi gylliboð dugðu til að tryggja Abu Dhabi sigurinn.

IRENA_renewablesAðrar borgir sem sóttust eftir að fá IRENA til sín voru allar evrópskar; Bonn, Kaupmannahöfn, Prag og Vín. Þjóðverjar töldu sig lengi vel eiga hvað besta möguleikann, enda ýmis góð rök með því að gera Þýskaland (Bonn) að heimsmiðstöð endurnýjanlegrar orku:

Í fyrsta lagi hafa þýsk stjórnvöld um árabil sýnt ríka viðleitni til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku og skapað vistvænni orku nokkuð hagstætt rekstrarumhverfi í landinu. Í annan stað eru nokkur af öflugustu fyrirtækjum heims á sviði bæði vindorku og sólarorku staðsett í Þýskalandi - þó svo nánast öll raforka þýsku þjóðarinnar komi reyndar frá kolum og gasi. Í þriðja lagi hefur það gríðarlega þýðingu fyrir Bonn að fá til sín slíka alþjóðastofnun; það vita allir sem hafa gengið um gömlu sendiráðsstrætin í Bonn og horft á tómar skrifstofubyggingarnar sem þar standa í röðum. Í Bonn eru nú þegar aðalstöðvar Eyðumerkursamningsins (Desertification Convention) og Loftslagssamningsins (Climate Change Convention), Enn er þó langt í að þessi fyrrum höfuðborg Vestur-Þýskalands nái sér eftir blóðtökuna sem varð þegar stjórnsýslan og sendiráðin fluttu sig til Berlínar eftir sameiningu þýsku ríkjanna tveggja.

Borse_Dubai_LogoEðlilega samglöddust leiðtogar hinna furstadæmanna sex meðbræðrum sínum í Abu Dhabi þegar niðurstaðan varð ljós. Það er talsvert púður í því fyrir Sameinuðu arabísku furstadæmin að fá til sín slíka alþjóðastofnun og sumir tala um að UAE hafi með þessu loks fengið viðeigandi viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Þó svo Abu Dhabi sé auðugast furstadæmanna innan UEA af olíu og gasi, hefur athygli umheimsins undanfarin ár meira beinst að öðru furstadæmi í þessu sérkennilega ríki. Nefnilega Dubai. Þar hefur um skeið ríkt nánast ævintýralegt byggingaæði og glæsilegar nýbyggingarnar fangað athygli bæði auðmanna og kvikmyndastjarna.

Kannski vonast höfðingjarnir í UAE til þess að kastljósið sem nú beinist að Abu Dhabi og UEA verði til þess að draga orkufyrirtæki að hinni nýju kauphöll Borse Dubai. Utan UAE vonast aftur á móti ýmsir til þess að staðsetning aðalstöðva IRENA í Abu Dhabi leiði til þess að olíupeningarnir frá furstadæminu verði drifkraftur í vexti endurnýjanlegrar orku um allan heim. Svo eru enn aðrir sem líkja þessari niðurstöðu við að Kínverjar myndu gerast helstu boðberar heimsins í mannréttindamálum. Logarnir sem standa upp af hinum óteljandi olíu- og gasbrunnunum í Abu Dhabi eru ekki beint í takt við ásýnd endurnýjanlegrar orku.

CSP_Torresol_TowerHvað sem þessu líður, þá virðast olíu-shékarnir í Abu Dhabi talsvert áhugasamir um endurnýjanlega orku. Orkubloggarinn minnist t.d. heimsóknar sinnar á liðnu ári (2008) til aðalstöðva spænska sólarorkufyrirtækisins Torresol suður í Madrid. Það athyglisverða fyrirtæki, sem hyggst veðja á CSP-turntæknina, er einmitt að stórum hluta í eigu fjárfestingasjóðs stjórnvalda í Abu Dhabi. Það er einungis eitt af mýmörgum dæmum um fjárfestingar olíusjóðsins í Abu Dhabi í endurnýjanlegum orkufyrirtækjum á Vesturlöndum og víðar í heiminum.

IRENA_green_ArabNú þegar olíushékarnir í Abu Dhabi hafa landað IRENA, er stefnt að því að þessi alþjóðlega miðstöð endurnýjanlegrar orku rísi senn í hinni furðulegu framtíðarborg Masdar. Takmark shékanna er sjálfsagt að IRENA verði ein af helstu táknmyndum þessarar „vistvænu og grænu" framtíðarborgar þarna í steikandi sandauðum hins olíuauðuga furstadæmis.

Engu að síður efast Orkubloggið um að skrifstofa IRENA í Masdar eigi eftir að láta að sér kveða af einhverju viti. Sem sárabót fyrir Þjóðverjana var nefnilega ákveðið að tæknimiðstöð IRENA (Center of Technology and Innovation) verði staðsett í Bonn. Í reynd er sólar- og vindorkan í Abu Dhabi mest upp á punt, meðan þetta er hvort tveggja alvöru bissness í Þýskalandi. Því þykir blogginu líklegt að hin raunverulega miðstöð IRENA verði í reynd tæknisetrið í Bonn.

En það merkir ekki að starfsfólkið í aðalstöðvum IRENA í Abu Dhabi verði verkefnalaust. Það eru nefnilega líkur á að þar verði mikil áhersla lögð á að sinna einni tegund orku sem reyndar er ekkert sérstaklega endurnýjanleg. Þ.e. kjarnorkan!

IRENA_Hélène_Pelosse_Interim_DirectorÞó svo myndir af grænustu möguleikunum í raforkuframleiðslu prýði gjarnan fréttir af IRENA, þá er stofnunin þegar farin að hneigjast í átt til kjarnorkunnar. Dæmi er að nýbúið er að ganga frá ráðningu kjarnorkusérfræðings sem forstjóra stofnunarinnar. Það er hin franska Hélène Pelosse. Þótt Helena sé gjarnan titluð sem sérfræðingur í endurnýjanlegri orku hafa störf hennar fyrir frönsku stjórnina að mestu tengst kjarnorku. Enda er Frakkland stórveldi á því sviði og framleiðir næstum allt sitt rafmagn með kjarnorkuverum. 

Að auki bætist svo við sú staðreynd að stjórnvöld í Abu Dhabi hafa nú uppi metnaðarfulla kjarnorkuáætlun. Og hafa í því sambandi komið á samstarfi bæði við bandarísk stjórnvöld og franska orkufyrirtækið Areva.

Sarkozy_Abu Dhabi_3Þetta er reyndar hluti af risastórri franskri kjarnorku-uppbyggingu í Persaflóanum, en um það hefur sperrileggurinn Sarkozy  verið sérlega áhugasamur. Í staðinn fyrir kjarnorkuþekkinguna, fá Fransararnir flotastöðvar og fleira fínerí á þessu strategíska mikilvæga svæði. Þannig klórar hver silkihúfan annarri og allir verða glaðir.

Það er þess vegna alls ekki ólíklegt að kjarnorkan komi til með að verða efst á blaði hjá IRENE í Abu Dhabi. Það er líka kannski barrrasta nokkuð lógískt. Hvað annað en kjarnorkan getur leyst núverandi orkugjafa af hólmi? Ætli hin sanna endurnýjanlega orka renni útí gulan Arabíusandinn eða drukkni þar í ofboðslegu olíugumsinu og glampandi kjarnorkuáætlunum?


150 ára afmæli olíuvinnslu - og leitin að "næsta búrhveli"

Ekki er ofsagt að olían hafi bjargað einu stærsta dýri jarðar frá útrýmingu. Búhvalnum.

Sperm_Whale_1Á 19. öld jókst eftirspurn eftir hvalalýsi hratt. Lýsið var bæði notað sem smurefni á vélar og í lýsislampa (þ.á m. stóra lampa í vitum). Þó svo bæði tólg og svínafita væri einnig nýtt í þessum tilgangi, þótti lýsið af búrhvalnum hvað best. Þess vegna voru búrhvalir eltir um öll heimsins höf og stundum af mikilli grimmd að sumum fannst. Sbr. sagan sígilda um Moby Dick.

Líklega hefði búrhvölum verið gjörsamlega útrýmt ef menn hefðu ekki allt í einu áttað sig á því að nýta mátti steinolíu í stað hvalalýsis. Þar kom til gamla góða lögmálið um framboð og eftirspurn.

george-bissellUm 1850 var verðið í Bandaríkjunum fyrir eitt gallon af hvalalýsi orðið ansið hátt eða sem nam fjórðungi af mánaðarlaunum góðs verkamanns. Þá kom til sögunnar bandarískur iðjuhöldur að nafni George Bissell  (1821-1884). Bissell hafði séð olíusullið, sem víða lak upp úr jörðinni í norðausturríkjum Bandaríkjanna og vissi að þetta var eldfimt efni. Hann velti þess vegna fyrir sér hvort etv. mætti nýta þetta dökkleita sull sem eldsneyti í stað hvalalýsis. Bissell bar málið undir efnafræðinga hjá Yale-háskóla, sem leist vel á hugmyndina og töldu vel mögulegt að koma þessu í framkvæmd. Svo fór að Bissell stofnaði félag í þeim tilgangi að vinna olíu og kallaðist félagið Pennsylvania Rock Oil Company (síðar breytt í Seneca Oil). Þetta var í raun fyrsta olíufélag heimsins og árið var 1854.

Helsta vandamálið var hvernig ná ætti olíunni upp í nægjanlega miklu magni til að þetta gæti borgað sig. Bissel og félagar vissu að menn boruðu víða niður í jörðina eftir salti, sem þar mátti finna í jarðlögum og töldu rétt að reyna að nota sömu bortæknina til að ná upp olíu. Að öðrum kosti yrði þetta aldrei arðbær bissness.

Drake_Oil_Tower_TitusvilleFlestum öðrum þótti hugmyndin einfaldlega fáránleg - eins og stundum vill vera með góðar hugmyndir. En Bissell var sama hvað öðrum fannst. Hann útvegaði sér mann til verksins, Edwin nokkurn Drake  og síðla árs 1858 byrjaði Drake að bora við bæinn Titusville í Pennsylvaníu.

Skemmst er frá að segja að í águst 1859 - fyrir nákvæmlega 150 árum síðan - gerðist það að Drake og Smith aðstoðarmaður hans hittu á olíulind. Eins og áður  hefur verið sagt frá hér á Orkublogginu. Olían sprautaðist af miklum krafti upp eftir rörinu og markaði upphaf bandaríska olíuævintýrisins. Sem ennþá er í fullum gangi.

Bissell lagði strax meiri pening í boranirnar í Titusville og varð fljótt vellauðugur af olíunni. Menn hlógu ekki lengur að Bissell og ekki leið á löngu þar til menn þyrptust til Titusville til að bora eftir svarta gullinu. Þessi bortækni varð grundvöllur að nýjum iðnaði óg fyrir vikið hefur Bissell oft verið kallaður faðir bandaríska olíuiðnaðarins.

Titusville_Oil_boomÞað var þó annar maður sem náði að verða ennþá auðugri af þeim ljúfa bransa. Til að olían kæmi að gagni þurfti að meðhöndla hana og svo fór að þar reyndust hvað mestu tækifærin liggja. Það var John D. Rockefeller sem þar sá sér leik á borði og náði hann brátt einokunaraðstöðu í olíuhreinsuninni.  En það er allt önnur saga.

Þeir sem höfðu mesta ástæðu til gleðjast þegar fyrsta olían spýttist upp rörin í Titusville voru samt ekki afkomendur Rockefeller's - heldur auðvitað búrhvalirnir. Smám saman leysti steinolían hvalalýsið af hólmi. Þannig tekur eitt við af öðru í veröld eldsneytisins og þar ræður hagkvæmnin alltaf lang mestu.

Elizabeth_I_TudorTil gamans má nefna annað dæmi um það hvernig jarðefnaeldsneytið hefur ítrekað bjargað lífríki á jörðinni. Á dögum Elísabetar I í lok 16. aldar voru skógar Englands helsta eldsneyti þjóðarinnar og höfðu verið um aldir. Nú var kominn upp talsverður iðnaður í ríki hennar hátignar og víða spruttu upp verksmiðjur sem unnu ýmist járn eða gler. Þessi þróun olli stóraukinni ágengni í trjávið í verksmiðjueldinn.

Fyrir vikið var nú svo illa komið fyrir mörgum skógum Englands að árið 1581 samþykkti þingið í London lög um stórfellda skógfriðun. Þetta var einn fyrsti „hvatinn" til stórfelldra breytinga í orkugeiranum. Iðnaðurinn leitaði nýrra lausna og skömmu eftir aldamótin 1600 fundu menn í gleriðnaðinum upp á því að nota kol í stað viðareldsneytis. Sem hendi væri veifað hófst nú stórfelldur kolanámarekstur í Englandi. Það reyndist snjöll hugmynd; tæknin var tiltölulega einföld og kolin reyndust ódýr lausn. Þar með hófst gullöld kolanna og næstu 350 árin voru þau helsti orkugjafi bresku þjóðarinnar.

coal_plant_modernNú standa menn á torgum og segja bæði olíuna á þrotum og vilja banna kolabruna vegna gróðurhúsaáhrifa. Ennþá eru kol og olía lang mikilvægustu orkugjafar mannkyns. Til að við getum lagt þessa orkugjafa til hliðar þarf að finna „nýtt búrhveli". Og það engan smá hval heldur risastórt kvikyndi sem helst getur veitt okkur öllum og kynslóðum framtíðarinnar orku um ókominn tíma.

Á tímabili voru margir sem trúðu því að kjarnorkan væri stóra lausnin. Það gæti reyndar verið rétt; kjarnorkan er líklega eini raunhæfi orkugjafinn til að leysa olíu, gas og kol af hólmi að verulegu leyti. Þ.e.a.s. tímabundið - því kjarnakleyf efni eru einungis til í takmörkuðu magni.

Nuclear_Fusion_SunKannski felst framtíðarlausnin í kjarnasamruna. Eins og menn eru að dunda við að þróa hjá kanadíska fyrirtækinu General Fusion. Eða að fundin verði ný, einföld og hagkvæm leið til að virkja sólarorkuna. Enn er lausnin ekki fundin, enda ennþá nóg af olíu, gasi og ekki síst kolum.

Kannski verður lausnin einfaldlega sú að hætta gróðurhúsatalinu og nota þau kol sem til eru. Unnt er að búa til olíu úr kolum og kolabirgðir jarðar gætu jafnvel nýst okkur og afkomendunum í einhverjar aldir enn. Með ömurlegum afleiðingum fyrir lífríki og umhverfi kolavinnslusvæðanna, en til bjargar orkuþyrstu mannkyni.

Þetta er auðvitað ekki sú græna leið sem við flest vonandi viljum. En kannski er þetta samt framtíðin næstu öldina eða svo. Það er vissulega nokkuð svört framtíðarsýn - en kannski raunsæ?


Skeppa af sojabaunum...

Eftir að verðafall varð á ýmsum hrávörumörkuðum á seinni hluta liðins árs (2008) hefur olía og ýmis önnur hrávara hækkað mikið í verði aftur síðustu mánuðina.

commodities_hottest_2009Nýlega tóku þrír starfsmenn CNBC saman yfirlit um hvaða hrávörur hafa hækkað mest frá síðustu áramótum (hugtakið hrávara er hér notað yfir enska orðið commodity, sem nær yfir margs konar einsleitar framleiðsluvörur, sem viðskipti eiga sér stað með).

Viðmiðunardagsetningin var 3. júní 2009, þ.e. reiknuð var verðbreytingin milli 1. janúar og 3. júní 2009. Einnig var skoðað hvernig verð á viðkomandi hrávörum hafði sveiflast síðustu 52 vikurnar fyrir umrædda dagsetningu, þ.e. yfir 12 mánaða tímabil.

Niðurstöðurnar eru nokkuð athyglisverðar. T.d. komst gull ekki á topp tíu listann yfir þær vörur sem hafa hækkað mest. Það kemur á óvart miðað við allt krepputalið sem verið hefur bæði vestan hafs og austan. Líklega verða menn ekki almennilega spenntir fyrir gullinu nema verðbólgan fari af stað. Tekist hefur að halda aftur af henni - næstum of vel því farið er að bera á verðhjöðnun - þó svo ýmsir telji reyndar enn möguleika á að verðbólgudraugurinn æði senn af stað víða um heim.

Ennþá er of snemmt að segja til um hvernig málin þróast út árið og full snemmt að tilnefna heitustu hrávörurnar 2009. Það eru t.d. ýmsir sem segja að olíubirgðir séu orðnar svo miklar út um allan heim, að olíuverð hljóti senn að falla hratt. Aðrir telja að von sé um að kreppan hafi þegar náð botni, en það muni valda aukinni eftirspurn og verðhækkunum á olíu og fleiri hrávörum. Menn eru skemmtilega ósammála um þróun efnahagslífsins næstu misserin.

Commodities_CCI_2009_07_17_chartHér til hliðar má sjá hvernig hrávöruvísitalan CCI  (Continuous Commodity Index) hefur þróast síðustu ár og fram í miðjan júlí s.l. (2009). Þessi þekkta hrávöruvístala er samsett úr 17 hrávörum og á m.a. að geta nýst til átta sig á því hvort verðbreytingar á hrávörum séu "eðlilegar" eða hvort spekúlantar séu að hafa mikil áhrif.

Gríðarlegar hrávöruhækkanir urðu í aðdraganda hrunsins á síðari hluta liðins árs (2008). Þá kom mikið fall, en nú hafa aftur orðið talsverðar hækkanir á mörgum hrávörum. Það skýrist væntanlega helst af vaxandi bjartsýni um að kreppunni sé brátt að ljúka.

oil_dollar_3Reyndar ber að hafa í huga að sveiflur á dollar hafa líka mikil áhrif á hrávöruverð. Hrávörumarkaðurinn notast við bandaríkjadal og lækkandi dollar hefur þau áhrif að hrávara hefur tilhneigingu til að hækka í dollurum - og öfugt.

Allra síðustu vikur hefur dollarinn verið að styrkjast og ef sú þróun heldur áfram gæti það slakað á hækkunum á hrávörumörkuðum. Verðmyndunin þarna er þó flókið samspil miklu fleiri þátta, svo í reynd er ómögulegt að segja til um þróunina. En skoðum hvaða hrávörutegundir hafa hækkað mest frá síðustu áramótum, skv. útreikningum CNBC:

commodities_hottest_2009_9_Heating_oilÍ 10. sæti kom nikkel. Þar var lokaverðið 13.950 dollarar á tonnið, sem er rúmlega 19% hækkun frá áramótum. Síðustu 12 mánuðina hafði verðið á nikkeli sveiflast á bilinu 8.850-25.000 dollarar fyrir tonnið. Hæsta verðið var sem sagt næstum þrefalt á við lægsta verðið á tímabilinu!

Næst kom olía til húshitunar í 9. sætinu. Þar var hækkunin svipuð og hjá nikkelinu eða um 20,5%. Einnig þar var mikil verðsveifla síðustu 12 mánuðina; milli 1.252 og 4.158 dollarar. Lokaverðið 3. júní s.l. var aftur á móti 1.738 dollarar.

commodities_hottest_2009_8_SoybeansSojabaunirnar voru í 8. sætinu með nánast sömu hækkun; 20,6% frá áramótum. Þarna sveiflaðist verðið síðustu 12 mánuðina frá 7,77 dollurum á skeppuna og upp í 16,35 dollara (bandaríska rúmmálseiningin skeppa  eða bushel  jafngildir um 35,24  lítrum). Lokaverðið á soja-skeppunni þann 3. júní s.l. var 11,82 dollarar.

Í 7. sæti var blessað kaffið, sem Orkubloggarinn getur ekki án verið. Lokaverðið var 1,383 dollarar pundið. Það merkir að verðið hækkaði um 23,5% á tímabilinu frá áramótum. Verðsveiflan á 12 mánaða tímabilinu var frá 1,025 dollurum pundið og upp í 1,563 dollara; sem sagt u.þ.b. 50% sveifla.

commodities_hottest_2009_4_orange_juiceHlaupum nú örlítið hraðar yfir sögu. Í 6. sæti kom hrásykur með 26,08% hækkun. Í 5. sæti yfir þær hrávörur sem hækkað hafa mest frá áramótum var silfur, en hækkun þess nam 35,55%. Þarna erum við sem sagt kominn upp um einn flokk, ef svo má segja. Hinar hrávörurnar höfðu hækkað þetta 20-25% en nú erum við komin í meira en 35% hækkun á fyrstu 5 mánuðum ársins.

Í 4. sæti kom svolítið skemmtileg hrávara, sem er ávaxtadjús. Eða réttara sagt appelsínudjús. Hann hækkaði um 36,6% á þessu 6 mánaða tímabili í dollurum talið.

commodities_hottest_2009_3_OilÞá erum við komin að máli málanna. Sem auðvitað er hráolían. Hún er þarna í 3. sæti; hefur hækkað um rúmlega 48% frá áramótum. Á 12 mánaða tímabili sveiflaðist olían milli 33,2 dollara og hinna háfrægu 147,27 dollara fyrir tunnuna. Lokaverðið 3. júní s.l. var 66,12 dollarar.

Bæði þessi 48% hækkun á hráolíu frá áramótum og verðsveiflan yfir 12 mánaða tímabilið er nokkuð mögnuð.  Og eiginlega er svolítið sérkennilegt að olía skuli hafa hækkað svo mikið síðustu mánuðina, á tímum mikils samdráttar í efnahagslífinu. Í dag eru, sem fyrr segir, afar mismunandi skoðanir uppi um það hvernig olíuverðið þróist næstu mánuði og misseri. Í trausti þess að Sádarnir lesi markaðinn rétt er Orkubloggið hallara undir þær skoðanir að verðið hækki til lengri tíma litið. Um skammtímasveiflur er aftur á móti ómögulegt að segja. Bloggið bíður auðvitað afar spennt eftir því hver niðurstaðan verður í þessu æsispennandi fjárhættuspili.

commodities_hottest_2009_2_copperEinungis tvær tegundir hrávara hafa hækkað meira frá áramótum en hráolían . Það eru kopar og bensín. Hækkunin á kopar á umræddu 5 mánaða tímabili nam tæpum 57% og var lokaverðið þann 3. júní s.l. 2.212 dollarar fyrir pundið. Þegar litið er til 12 mánaða tímabilsins sést að koparverðið hefur sveiflast milli 1,255 og 4,08 dollarar pundið.  Sem sagt mikil sveifla þar á ferðinni.

Þá komum við að sjálfum "sigurvegaranum", sem er bensínið. Bensín er sem sagt sú hrávara sem hækkað hefur mest á bandaríska hrávörumarkaðnum frá áramótum. Hækkunin nemur 79%!

commodities_hottest_2009_1_gasolineHafa má í huga að lítil fylgni getur verið milli verðbreytinga á hráolíu og bensíni. Þótt það kannski hljómi undarlega, er þetta staðreynd. Stundum verður verulegt misræmi milli birgðasöfnunar á bensíni annars vegar og olíu hins vegar. Það getur myndast stífla í bensínbransanum þegar mjög hægir á olíuhreinsun og vinnslu á bensíni úr hráolíunni. Þess vegna getur bensín t.a.m. hækkað mikið þó svo efnahagslífið sé í lægð - sem sumum finnst skrýtið. Ástæðan fyrir slíkum bensínhækkunum er sú að olíuframleiðslan skilar sér þá ekki í aukinni bensínframleiðslu - þess í stað fer hráolían öll meira eða minna í birgðageymslur til að hamla gegn verðfalli og þá getur bensínverð hreinlega rokið upp.

VLCC_darknessEin möguleg ástæða þess að bensín hefur verið að hækka meira undanfarið en hráolía, er m.ö.o. að menn séu að hamstra hráolíu en ekki að vinna hana jafnóðum í afurðir. Þetta gæti þýtt að birgðasöfnun á hráolíu sé komin útí vitleysu og olíuverðið muni senn kolfalla. Þarna er óvissan samt alger, sem einmitt gerir olíuspekúlasjónir svo geysilega skemmtilegar! Og minna má á sögur um að víða um heimsins höf liggi nú dularfull risatankskip drekkhlaðin af olíu, sem beðið er með að fari á markaðinn.

Hvað um það. Hækkunin á bensíni á bandaríska hrávörumarkaðnum frá síðustu áramótum nemur sem sagt meira en 79%. Sú þróun er ekki beint til þess fallin að hjálpa bandarískum bifreiðaframleiðendum í viðleitni sinni til að auka bílasölu. Lokaverðið á bensíni 3. júní s.l. var 1,9016 dollarar pr. gallon og verðsveiflan á 12 mánaða tímabili þar á undan var á milli 0.785 og 3,631 dollarar fyrir gallon af bensíni (eitt gallon samsvarar 3,8 lítrum).

oil_Prices_lookingÍ reynd eru svona upptalningar á verðbreytingum tilgangslitlar ef ekki tilgangslausar og segja manni nákvæmlega ekkert um það hvernig verðið muni þróast næstu mánuðina eða misserin. En af einhverjum undarlegum ástæðum hefur fólk oft voða gaman af svona talnaleikjum. Rétt eins og það er skemmtilegt að taka "quiz" á Fésbókinni um það hvaða poppstjörnur menn þekkja... eða hversu flinkur maður er í þeirri list að kyssa. Sem sagt óttalegt bull - en skemmtilegt engu að síður!


Sólargangurinn

Þó svo Orkubloggið forðist almennt að mæla með hlutabréfum til kaups, eru glöggir lesendur bloggsins eflaust löngu orðnir meðvitaðir um hrifningu Orkubloggarans á bandaríska sólarsellufyrirtækinu First Solar.

First_Solar_Revenue_NetIncome_2006-2008Sú hrifning er enn til staðar. Þess vegna er auðvitað gaman að sjá hversu vel First Solar hefur spjarað sig nú í fjármálakreppunni ægilegu. Meðan Applied Solar virðist stefna hraðbyri í gjaldþrot og fjölmörg önnur sólarsellufyrirtæki hafa lent á heljarþröm síðustu mánuðinu, hefur First Solar haldið áfram að styrkja sig í sessi sem fyrirtæki með réttu hugsunina í sólarsellubransanum.

Í lok júlí var tilkynnt að hagnaður First Solar hefði rúmlega tvöfaldast á öðrum ársfjórðingi 2009 m.v. árið áður (181 milljón dollara 2009 m.v. 70 milljónir dollara 2008). Þetta var miklu meiri hagnaðaraukning en flestir höfðu gert ráð fyrir og er til marks um sterka stöðu First Solar í markaðssetningu á ódýru þunnsellunum sínum (Thin Film PV).

Hagnaðaraukning First Solar endurspeglast vel í vaxandi tekjum fyrirtækisins. Á öðrum ársfjórðungi í fyrra (2008) voru tekjur þessara ljúflinga vestur í Arisóna 267 milljón dollarar en í ár skilaði ársfjórðungurinn 526 milljónum dollara í tekjur. Töluglöggir lesendur taka eflaust líka eftir því að hlutfall hagnaðar af tekjum hefur aukist. Sólin skín sem sagt glatt á First Solar.

Thin_Film_PV_CdTeÞað virðist einkum vera sterk staða First Solar í Þýskalandi sem nú styður við þetta öfluga fyrirtæki Wal Mart-fjölskyldunnar. Kemur kannski ekki á óvart. Í Þýskalandi eru jú hvað sterkastir hvatar fyrir fólk og fyrirtæki til að auka hlutdeild endurnýjanlegrar raforku í orkunotkun sinni. Fyrir vikið eru sérstaklega mikil vaxtartækifæri þar fyrir hendi fyrir endurnýjanlega orkugeirann og PV er löngu orðin vel þekkt fyrirbæri þar í landi.

Það eru þó alls ekki bara niðurgreiðslur á endurnýjanlegri raforku eða aðrir hvatar af því tagi sem skýra góðan árangur First Solar. Til að First Solar geri það gott þurfa þeir að auka markaðshlutdeild sína jafnt og þétt og um leið framleiða sífellt ódýrari sólarsellur. Það er enginn hægðarleikur; samkeppnin í sólarselluiðnaðinum er hreint gríðarleg og ekkert gefið eftir í verðstríðinu.

Rífandi gangur First Solar kemur samt Orkublogginu ekki í opna skjöldu. Hinar örþunnu kadmín tellúríð sólarsellur (CdTe) hafa reynst lygilega ódýrar í framleiðslu miðað við hefðbundnar sílikonflögur, sem ennþá eru algengastar á sólarsellumarekaðnum. Nýju sellurnar hafa sannað gildi sitt og fyrir sílikon-sólarsellu-framleiðendur er svo sannarlega  ástæða til að hafa áhyggjur af uppgangi First Solar.

first_solar_costperwatt_milestonesÁ timum lánsfjárkreppu hafa sjónir manna beinst í enn ríkari mæli að því sem er ódýrast og hagkvæmast. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um sólarsellubransann. Þó svo sílikon-sellurnar bjóði upp á betri nýtingu á sólarorkunni hefur kadmín-tellúríið reynst ódýrari lausn; hlutfallslega er nýting þeirra sólarsella betri miðað við framleiðslukostnaðinn. Eða eins og Orkubloggið hefur áður sagt: Hagkvæmnin skiptir öllu máli!

Svo virðist sem þessi árangur First Solar í Evrópu og bjartsýni vestra vegna orkuáætlunar Obama séu helstu skýringar þess að hlutabréfaverðið er nú um 50% hærra en eftir mikið fall bréfanna síðla árs 2008. En það er ekki fyrir taugaveiklaðar sálir að taka þátt í hlutabréfa-rússíbanareiðinni í sólaorkunni. First Solar var fyrst skráð á markað 2006 og á um einu ári rúmlega tífaldaðist verð hlutabréfanna; fór úr 25 dollurum og í 270 dollara í árslok 2007! Þetta wild-ride hélt áfram með olíuverðhækkununum á fyrri hluta ársins 2008. Þá fór verðið á First Solar hæst í um 310 dollara og allt virtist stefna í að sólarsellurnar væru gulls ígíldi. Svo fór olían að lækka, lánsfjárkreppan dró úr eftirspurn eftir sólarsellum og First Solar tók að renna hratt niður á við.

First_Solar_2007-2009Bréfin fóru vel niður fyrir 100 dollara í október 2008. Og hafa verið að sveiflast milli 150 og 200 dollaranna síðustu mánuðina. Í dag var verðið rúmlega 146 dollarar. Og sé kíkt inn á fjármálanetsíðurnar virðist sem margir „sérfræðingar" telji 130-160 dollara vera „rétt verð" fyrir bréfin. Geisp.

Helsta ógnin fyrir First Solar er eflaust hugsanlegt verðfall á sílíkoni. Slíkt mynda veikja samkeppnisstöðu First Solar all hressilega og fá hefðbundnari sólarsellu framleiðendur til að brosa breitt. Langvarandi kreppa gæti vissulega leitt til talsverðar verðlækkunar á sílíkoni, þó svo það sé kannski ekkert óskaplega líklegt. Svo er líka mögulegt að „kigsið" komi til með að sigra kadmín-tellúríið. Orkubloggið er engu að síður bjartsýnt fyrir hönd First Solar og kadmín-tellúríðs þunnildanna þeirra.

Thin_Film_PV_photoSamt skal fúslega viðurkennt að uppsveiflan á First Solar 2007-08 var yfirgengileg. Líklega má taka undir orð sumra raunsæismanna, að það sýni best geggjunina sem stundum tekur völdin á hlutabréfamörkuðunum, að P/E hlutfallið (V/H) hjá First Solar var á tímabili komið vel á annað hundraðið. Var meira að segja farið að nálgast 200 þegar verðið fór sem hæst árið 2008!

Það kostulegasta er að líklega voru margir verðbréfamiðlarar á háum launum við að mæla með kaupum á bréfunum á þessu ruglverði - og jafnvel þegið fínan bónus fyrir. Því miður virðist sem verðbréfamarkaðir þurfi alltaf að þróast yfir í glæpastarfsemi á 20 ára fresti eða svo.

Þetta hlutfall er aðeins skárra í dag; P/E First Solar er nú „einungis" rétt að slefa yfir 20. Það þykir Orkublogginu samt ennþá svolítið óþægilega hátt hlutfall. Engu að síður er bloggið sem fyrr hrifið af First Solar og Thin-Film stöffinu þeirra. En það eiga örugglega eftir að verða all svakalegar sviptingar í sólarselluiðnaðinum á næstu árum. Niðurstaðan kann að verða fremur fá en risastór sólarsellufyrirtæki. Í dag er fjöldinn hreint svimandi og allir þykjast vera með bestu lausnina. Þarna á hugsanlega eftir að verða svipuð þróun og í vindorkunni, þar sem einungis örfáir framleiðendur eru nú ráðandi á markaðnum.

SolstormurSólarsellumarkaðurinn er samt mun flóknari en gildir í vindorkunni og tæknilausnirnar margbreytilegri og styttra á veg komnar. Þess vegna er ekki víst að þessi iðnaður sé tilbúinn að þróast nákvæmlega eins og gerðist í vindorkunni, þar sem hefur orðið gríðarleg samþjöppun. Þó svo gaman væri að spá um hverjir verði hinir endanlegu sigurvegarar í sólarselluiðnaðinum, er það til lítils. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Hvort First Solar kemur til með að verða Coca Cola eða bara Sól Kóla sólaselluiðnaðarins, mun tíminn leiða í ljós.


Laufið og „Le Cost Killer"

Næstu árin gætu orðið miklar breytingar í bílaiðnaðinum.

Nissan-Leaf-EV-1Margir veðja á biofuel - lífefnaeldsneyti - enda virðist Bandaríkjastjórn telja það vænlegasta kostinn. Tvinnbílar og tengiltvinnabílar munu eflaust líka smám saman verða útbreiddari og margir bílaframleiðendur að hella sér í þá samkeppni. Aðrir ætla að taka stóra skrefið og bjóða upp á tæran rafmagnbíl. Rafmagnsbíl sem stendur undir kröfum um að vera bæði notadrjúgur og ódýr í rekstri.

Nissan var að svipta hulunni af Laufinu sínu. Er hægt að hugsa sér grænna heiti á rafmagnsbíl; Nissan Leaf! Fyrstu Laufin eiga að koma á markað í Japan, Evrópu og Bandaríkjunum í árslok 2010 og fjöldaframleiðsla upp á 200 þúsund Lauf árlega á að vera komin í gagnið 2012.

Ghosn_Leaf_1Aðeins eru örfáir dagar síðan Carlos Ghosn, forstjóri Nissan, sýndi fyrsta fölbláa Laufið austur í aðalstöðvum Nissan í Yokohama. Ghosn og aðrir hjá Nissan binda bersýnilega gríðarlegar vonir við Laufið sitt. Tala um nýtt upphaf hjá fyrirtækinu. Það er líka táknrænt fyrir þessi tímamót að Nissan er nú aftur komið „heim" til Yokohama. Fyrir margt löngu voru aðalstöðvar fyrirtæksiins einmitt í hafnarborginni Yokohama, en hafa síðustu 40 árin verið í Tokyo.

Já - Nissan ætlar sér að ná forystu í rafbílavæðingunni. Haft er eftir Ghosn að árið 2020 verði tíundi hver bíll rafmagnsbíll! Gangi það eftir má kannski áætla að 2030 verði hlutfallið orðið þriðjungur? Það væri mun hraðari þróun í rafbílavæðingu en raunsæismenn telja horfur á. En auðvitað alls ekki ómögulegt.

Ghosn er á þeirri skoðun að tvinnbílakonseptið muni aldrei ná mikilli útbreiðslu. Sú tækni sé of dýr og miklu meiri möguleikar í því að fara barrrasta beint í fjöldaframleiðslu á rafbílum. Þarna er Ghosn ofurlítið einmana að mati Orkubloggsins. T.d. álítur Toyota og fleiri bílaframleiðendur að margir áratugir séu í það að rafbílar verði orðnir sæmilega hagkvæmir í rekstri og geti ekið nægilega langar vegalengdir til að höfða til fjöldans. Orkubloggið hallast að því sjónarmiði og sér lífefnaeldsneyti sem miklu vænlegri kost allra næstu áratugina. Þó svo auðvitað verði bensín og díselolía það sem víðast verður notað áfram!

nissan_leaf-plug_1Aðalmálið í rafbílavæðingunni er batteríið. Liþíum-jóna rafhlaðan. Framtíð rafbílsins á þess vegna mikið undir saltstorknum eyðimörkum Suður-Ameríkuríkjanna Chile og Bólivíu og ekki síður tíbetsku hásléttunnar. Ghosn segir að Laufið muni ná 140 km/klst hámarkshraða og hafi drægi upp á 160 km. Það nægi 80% af öllum ökumönnum heimsins. En það er bara ekki aðalmálið. Aðalmálið er nefnilega sjálft batteríið.

Liþíum-jóna rafhlaðan í Laufinu á að fullhlaðast á sjö tímum. En á reyndar að ná allt að 80% hleðslu á einungis 30 mínútum! Verðið á bílnum á að verða sambærilegt við bíla í viðkomandi stærðarflokki. En þar er smá svindl á ferðinni - því verðið á rafhlöðunni er ekki meðtalið. Það netta stykki kostar nefnilega um 10 þúsund dollara í framleiðslu! Það eru núna litlar 1,3 milljónir íslenskra krónuræfla. Sic.

Þetta ætla þau hjá Nissan að leysa með því að leiga batteríið á vægu verði. Þar að auki eru Ghosn og félagar bjartsýnir um að kostnaður við rafhlöðuframleiðsluna lækki mikið þegar fjöldaframleiðslan fer á fullt. Bjartsýni er góð. En þegar Ghosn segir að helsta vandamál Nissan sé að þeir muni kannski ekki ná að framleiða nóg af Laufum til að mæta æpandi eftirspurninni, finnst Orkublogginu sem þessi ljúflingur skjóti aðeins yfir markið. 

Reyndar hefur verið svolítið gaman að fylgjast með belgingnum í forstjórum helstu bifreiðaframleiðenda heimsins. Flestir þykjast þeir vera miklir sjáendur og geta spáð fyrir um þróunina. Meðan margir þeirra segja óralangt í fjöldaframleidda almennings-rafbílinn, hefur Ghosn fussað og sveiað yfir tvinnbílunum. Viðurkennir að vísu að líklega muni Nissan taka þátt í þeim iðnaði líka, því einhver þokkalegur markaður verði fyrir slíka bíla. En það sé samt heldur óspennandi.

Ghosn_Biz_WeekEins og sjá má af myndum hefur Ghosn ekki mikið japanskt blóð í æðum. Þessi litríki karakter er fæddur í Brasilíu 1954, en foreldrar hans komu frá Líbanon. Mamma hans flutti fljótlega aftur heim og Carlos litli ólst frá 6 ára aldri upp í Beirut. Mjög sterk söguleg tengsl eru milli Líbanon og Frakklands og þangað hélt Ghosn til náms í verkfræði. Hann hóf ungur störf hjá franska dekkjarisanum Michelin  og tengdist þannig fljótt bílaiðnaðinum. Þar var Ghosn í heil 17 ár og vann sig upp í að verða yfir öllum rekstri Michelin í Bandaríkjunum. Hann var hjá Michelin allt þar til hann fór til Renault  árið 1996. Þaðan lá leiðin til Nissan, en Nissan og Renault hófu samstarf 1999. Ghosn var svo gerður að forstjóri Nissan skömmu eftir að hann hóf störf þar. Og árið 2005 var bætt um betur og hann varð þá líka forstjóri Renault!

Nefna má að þegar Ghosn kom til Nissan var fyrirtækið á barmi gjaldþrots. Nánast allar bílategundir Nissan voru reknar með tapi en Ghosn sagðist geta losað fyrirtækið við allan 20 milljarða dollara skuldhalann á fimm árum. Hann greip til mikilla sparnaðaraðgerða, sagði upp starfsfólki í tugþúsundavís og lokaði verksmiðjum. Fyrir vikið fékk Ghosn ýmis viðurnefni eins og t.d. "Samúræinn svakalegi" og "Le Cost Killer"  upp á "frensku".

Ghosn_mangaÞessar aðgerðir voru mjög í andstöðu við japanskar fyrirtækjavenjur sem hafa löngum einkennst af miklum stöðugleika og trúnaði gagnvart starfsfólki. En tilþrif Ghosn skiluðu góðum fjárhagslegum árangri og mjög snöggum umskiptum til hins betra hjá Nissan. Fyrir vikið hafa Japanir tekið Ghosn í sátt og hann nú almennt elskaður og virtur þar í landi hinnar rísandi sólar. Það munu meira að segja vera til Manga-teiknimyndasögur þar sem Ghosn er súperhetjan sem kemur öllum til bjargar.

Loks má nefna að Ghosn situr að auki í stjórnum heimsþekktra fyrirtækja eins og t.d. Sony og var í stjórn IBM. Og svo er Ghosn væntanlega líka mikill Íslandsvinur því hann situr nú í stjórn Alcoa - sem á álverið á Reyðarfirði. Svona erum við Íslendingar nátengdir heimskapítalismanum og í raun alltaf nafli heimsins!


Veolia og vatnið í Kína

Hver er stærsti erlendi fjárfestirinn í Kína? Ekki ætlar Orkubloggið að reyna að svara því. En bloggið fullyrðir aftur á móti að sá erlendi fjárfestir sem vex hvað hraðast þessa dagana þar í landi drekans, sé franska risafyrirtækið með ljóðræna nafnið: Veolia Environment. Í dag ætlar bloggið að beina athyglinni að Veolia og vatninu í Kína.

Changzhou_Grand_canalHöldum til borgarinnar Changzhou við Yangtze-fljót. Sem einmitt tengist síðustu færslu Orkubloggsins, sökum þess að atvinnulíf borgarinnar hefur löngum byggst á kínverska undraskipaskurðinn Beijing-Hangzhou Grand Canal.

Eftir að skipaskurðurinn sá tengdist borginni þarna 150 km frá ósum Yangtze um árið 600, varð Changzhou afskaplega mikilvæg verslanamiðstöð og m.a. þekkt fyrir að vera einn helsti markaðurinn fyrir silki, hrísgrjón og te. Í dag hefur efnahagsuppgangurinn í Kína löngu haldið innreið sína í borgina og þar byggst upp mikilvægur textíliðnaður og einnig umfangsmikill matvælaiðnaður. Úrgangurinn frá bæði verksmiðjunum og mannfólkinu rennur beint út í Yangtze og þar er allur fiskur löngu horfinn og áin umbreyst á skömmum tíma í sorapoll. Mengunin er sem sagt gríðarleg og einnig hefur snögg fólksfjölgun í borginni valdið skorti á neysluvatni.

Water_China_Changzhou_1Þetta er ekki bara vandamál í Changzhou. Léleg vatnsveitukerfi einkenna fjölda borga og bæja í Kína og stjórnvöldum alþýðunnar hefur víða gengið fjarska illa að tryggja íbúum og atvinnulífi viðunandi vatn.

En Kínverjar kunna lausn á öllu. Rétt eins og þeir sáu möguleika í því að leyfa takmarkaðan kapítalisma  í sínu kommúníska hagkerfi til að örva efnahagslífið, hafa kínversk stjórnvöld nú tekið forystuna í því að einkavæða  vatnsveiturnar. Eftir að yfirvöld í Changzhou hófu samstarf við erlend vatnsveitufyrirtæki fyrir fáeinum árum hafa fjölmargar aðrar kínverskar borgir fylgt í kjölfarið. Þar á meðal er sjálf Shanghai, sem er ein fjölmennasta borg heims. Og æ fleiri kínverskar borgir hafa á síðustu misserum og árum bæst í þennan ljúfa vatnsveitu-einkavæðingarhóp.

Veolia_EnvironmentFyrirtækið sem hefur farið fremst í að semja við kínversk stjórnvöld um vatnsveitumál er einmitt hinn fyrrnefndi franski vatnsrisi Veolia Environment. Þetta franska fyrirtæki, sem stýrt er frá glæsibyggingu í nágrenni Sigurbogans  í miðri París, er í dag líklega langstærsta vatnsveitufyrirtæki heims. Eflaust svalur fílingur að stjórna kínverskum risavatnsveitum frá hundrað ára gömlu skrifborði við Avenue Kléber þarna í 16. glæsihverfinu.

Suez_constructionÞað er athyglisvert hvernig Fransmenn hafa orðið yfirburðarveldi í alþjóðlega vatnsveitubransanum. Þar að baki eru sögulegar ástæður. Frakkar hafa nefnilega löngum verið flinkir við að eiga við vatn. Upphafið má líklega rekja til franska fyrirtækisins Suez, sem hefur starfað samfleytt allt frá árinu 1822 og byggði einmitt Súez-skurðinn skömmu eftir miðja 19. öld.

Í dag er Suez Environment  eitt af stærstu vatnsveitufyrirtækjum heims, þó svo það sé reyndar aðeins peð í Suez-samsteypunni og jafnist ekki á við Veolia Environment. Bæði Veolia og Suez eru jafn frönsk eins og... eins og Gérard Depardieu. Þess vegna má hiklaust segja að Frakkar séu stórveldið á þessu sérkennilega sviði viðskiptanna.

Sá ljúfi bisness er ekki einungis rekstur í anda góðu gömlu Vatnsveitu Reykjavíkur. Líka er um að ræða tæknilega flókna hreinsun á vatni og endurnýtingu þess. Þetta er sá bransi sem vex hvað hraðast í Kína þessa dagana. Vatnsveitumál eru víða í hörmulegu ástandi í hratt vaxandi borgum þessa fjölmennasta lands í heimi og þess vegna hafa kínversk stjórnvöld horft til þess að bæta ástandið með einkavæðingu. Þarna eru einfaldlega ómæld tækifæri fyrir Veolia og aðra þá sem starfa í alþjóðlega vatnsveitubransanum.

veolia_LogoÁður en lengra er haldið er rétt að gefa smá hugmynd um stærð Veolia Environment. Svo skemmtilega vill til að starfsmannafjöldi fyrirtækisins er nánast nákvæmlega sá sami og fjöldi drottinssauða hér á Íslandi. Hjá Veolia starfa nefnilega um 320 þúsund manns. Á síðasta ári (2008) var velta þessa rótgróna franska fyrirtækis rúmlega 36 milljarðar evra, sem jafngildir um 6.500 milljörðum ISK. Til samanburðar má hafa í huga að allar tekjur Landsvirkjunar á liðnu ári voru innan við 60 milljarðar króna (m.v. núverandi gengi) og verg landsframleiðsla Íslands sama ár mun hafa verið innan við 1.500 milljarðar króna. Ársvelta Veolia er sem sagt vel rúmlega fjórum sinnum meiri en VLF Íslands.

enron_ken_lay_cartoonÞað er ekkert nýtt að stórfyrirtæki taki yfir vatnsveitur hingað og þangað um heiminn. Þarna fara fremur fáir leikendur með hreint gífurlega hagsmuni, sem snerta neysluvatn hundruða milljóna fólks.

Óneitanlega hræða sporin. Eitthvert þekktasta dæmið um sorgarsögu einkavæðingar á vatnsveitum, er þegar sú leið var farin í Buenos Aires  og víðar í Argentínu í kjölfar efnahagsþrenginga þar fyrir all mörgum árum. Meðal þeirra sem komu að þeirri einkavæðingu, var nokkuð þekkt fyrirtæki með bandarískar rætur - fyrirtæki að nafni Enron.

Já - vatnsveitur voru á tímabili eitt af stóru áhugamálum Enron, sem stefndi á að verða stór player á því sviði. En guggnaði á því í kjölfar þess að vera nánast fleygt útúr Argentínu fyrir afspyrnulélega frammistöðu sína.

Einkavæðing af þessu tagi hefur oft verið bjargarleið ríkja sem hafa lent í djúpri kreppu og bráðvantað gjaldeyri. Veolia hefur komið að slíkri einkavæðingu víða í Suður-Ameríku, en oftast með heldur slælegum árangri. Í þeirri rómönsku heimsálfu hefur einkavæðingin jafnan leitt til stórhækkunar á vatni til neytenda og fyrirtækja. Þá hafa gæði vatnsins oft verið fyrir neðan allar hellur og ævintýrin víða endað með ósköpum; uppþotum og ofbeldi.

Water_China_Changzhou_2Í Kína er hvatinn að baki einkavæðingunni aftur á móti af eilítið öðrum toga en var í Suður-Ameríku. Kínverjana skortir ekki gjaldeyri, heldur sjá þeir annan kost við aðkomu erlendra stórfyrirtækja að vatnsveitunum. Þessi fyrirtæki hafa nefnilega tækniþekkinguna og reynsluna sem Kínverja vantar svo sárlega í stórborgirnar, hvar iðnaðaruppbyggingin hefur farið langt fram úr innviðunum.

Þó svo Kínverjarnir hafi almennt verið miklu mun skipulagðari en t.d. indversk stjórnvöld og bæði rafmagns- og símatengingar séu víðast hvar í betra horfi í Kína en á Indlandi, hefur vatnsskortur víða verið áberandi í borgum og bæjum Kína. Kínversk stjórnvöld virðast hreinlega ekki hafa séð fyrir þá gríðarlegu mengun sem fylgdi iðnaðaruppbyggingunni og þess vegna lentu vatnsveitumálin svo víða í miklum ólestri.

China_water_smogLausnin hefur verið að veita Veolia og fleiri erlendum vatnsveiturisum tímabundin einkaleyfi í nokkrum borgum Kína. Þá er jafnan samið um sameiginlegt eignarhald, þar sem stjórnvöld eiga oft 50% í vatnsveitunni á móti einkafyrirtækinu. Það er kannski ekki svo galin leið í einkavæðingu.

Hin dæmigerða afleiðing hefur verið að verð á vatni hefur hækkað um léttan helming eða svo. En í staðinn hafa íbúarnir notið þess að fá mun hreinna vatn en áður - þó svo sumstaðar þurfi reyndar ennþá að sjóða vatnið til að tryggja að það sé ekki heilsuspillandi til drykkjar.

Vatnsveitusamningar Kínverjanna við Veolia hafa gjarnan verið til 50 ára þ.a. vatnið í milljónaborgum Kína á eftir að mala gull í áratugi fyrir Frakkana. En kínversk stjórnvöld eru útsmogin; sem fyrr segir eiga þau gjarnan stóran hlut í vatnsveitufyrirtækjum Veolia í Kína og njóta því líka góðs af hinum skyndilega arðbæra kínverska vatnsveitubransa.

Water_China_YantzeJá - þarna eystra hefur almenningur og atvinnulífið loks fengið betra vatn. Um leið fær Veolia pening í kassann og sameiginlegir sjóðir á vegum stjórnvalda njóta líka góðs af. Kannski má segja að allir séu sigurvegarar í kínversku vatnseinkavæðingunni. Á endanum er það þó auðvitað almenningur sem borgar brúsann - sama hvort í honum er vatn eða eitthvað annað.

Nú er bara spurningin hvort Orkuveita Reykjavíkur hugleiði að fara í vatnsveituútrás. Vatn Erlendis Invest. Er ekki VEI örugglega miklu flottara en REI?


Kínverski risaskurðurinn

Það er allt ofurlítið stærra í Kína en annars staðar. Um það þarf líklega ekki sérstök lýsingarorð. Einfaldlega stórt land og margt fólk.

China_Grand_Canal_2En sumt það ótrúlegast við Kína er lítt umtalað. Meðal þess er Skurðurinn mikli - oft kallaður Beijing-Hangzhou Grand Canal. Þessi nærri 1.800 km langi skipaskurður tengir saman milljónahundruðin í norðanverðu og sunnanverðu Kína og hefur í 2.500 ár verið einhver mikilvægasta samgönguleiðin í landinu. Í dag heldur Orkubloggið á slóð þessa merkilega skurðar þarna óralangt í austri.

Flestar stórár Kína renna frá vestri til austurs. Skipaskurðurinn liggur aftur á móti norður/suður og tengir því saman allar helstu ár Kína.

CHINA_Beijing-Hangzhou Grand Canal_MAPÞessi samgönguleið hefur haft ómælda efnahagslega þýðingu fyrir Kína í gegnum aldirnar. Þó svo rekja megi elstu hluta skurðsins þúsundir ára aftur í tímann var stærstur hluti hans grafinn á áratugunum í kringum aldamótin 600. Þetta var á tímum Sui-keisaraættarinnar en þá áttu sér stað miklar umbætur í landbúnaði og koma þurfti afurðunum á áfangastað. Sagt er að litlar 5 milljónir verkamanna hafi unnið við skurðinn á tímabilinu ca. 580-620.

Og til að gera laaaanga sögu stutta, skal látið nægja að nefna að næstu aldirnar var talsvert miklu bætt við þetta magnaða skurðakerfi. Sem í dag hlýtur að teljast eitt af verfræðiundrum veraldarinnar og jafnast á við sjálfan Kínamúrinn. Orkubloggarinn hefur reyndar aldrei séð þessi mögnuðu fyrirbæri með eigin augum. En Marco Polo hreifst af skurðinum og þó einkum af hinum mörgu glæsilegum brúm þar yfir.

Já - Kínverjar hafa lengi kunnað þá list að leika sér með vatn. Byrjuðu fyrir þúsundum ára á þeim lipra leik að grafa skurð þvert yfir landið til að tengja landshlutana saman. Og í dag er það Þriggja gljúfra stíflan - stærsta vatnsorkuver heims sem nú rís í ánni Yangtze - sem er helsta táknmyndin fyrir snilli Kínverja í að nýta vatnið.

China_Beijing-Hangzhou Grand Canal_2Allra mestu tækifærin í kínversku vatnssulli kunna þó að leynast í því að byggja upp nýjar og betri vatnsveitur í hinum hratt vaxandi stórborgum Kína. Vandamál sem skapast hafa vegna iðnaðaruppbyggingarinnar í Kína síðustu árin, hafa leitt til þess að kínversk stjórnvöld eru í stórum stíl að einkavæða vatnsveiturnar. Þarna í landi hins austræna kommúnisma eru evrópsk risafyrirtæki orðin stórtæk í einhverjum stærsta vatnsveitubransa veraldarinnar. Að reka vatnsveitur í Kína er sko engin sjoppubransi, heldur risavaxin viðskipti. Kannski meira um þau blautu en gríðarlega ábatasömu tækifæri í næstu færslu Orkubloggsins.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband