Hver ræður við Drekann?

Síðustu færslu Orkubloggsins lauk með þeim orðum að næst yrði spáð í það hvort umsækjendurnir um Drekasvæðið séu nógu tæknilega og fjárhagslega sterkir til að Orkustofnun veiti þeim sérleyfi til rannsókna og vinnslu.

Þessari umfjöllun Orkubloggsins um tæknilega og fjárhagslega getu þeirra sem sækast eftir sérleyfum á Drekanum, verður skipt í tvennt. Í dag verður athyglinni beint að tæknilegri/ faglegri getu. Þ.e. hvort umsækjendurnir þrír nú í öðru útboði vegna Drekasvæðisins séu líklegir til að geta tekist á við verkefnið m.t.t. reynslu sinnar og sérþekkingar. Um fjárhagslegan styrk umsækjendanna verður svo fjallað í næstu færslu.

Sérleyfi til rannsókna og vinnslu

Hér í upphafi er rétt að taka fram að hafdýpi á Drekasvæðinu er víðast hvar mjög mikið, þarna er nákvæmlega engin reynsla af olíuborunum og allir innviðir olíubransans eru víðsfjarri. Drekasvæðið er m.ö.o. bæði dýrt og áhættusamt olíuleitarsvæði. En gefur jafnframt von um mikinn ávinning ef vel tekst til. 

Það er líka vert að minna á það, að fyrirtækin sem sóttu um sérleyfi á Drekasvæðinu eru ekki að falast eftir einföldu leyfi til olíuleitar. Heldur er þarna um að ræða umsóknir um einkaréttarleyfi á rannsóknum og vinnslu á afmörkuðum reitum (hér eftir nefnt sérleyfi). Í slíku sérleyfi felst bæði einkaleyfi til rannsókna á viðkomandi svæðum og forgangsréttiur til vinnslu.

Oil-exploration-seismic-ship-2

Um olíuleitina og sérleyfin segir í lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis; lög nr. 13/2001 sem hér eftir verða einfaldlega nefnd olíulögin. Sérleyfið gildir í ákveðinn tíma og ef til gas- og/eða olíuvinnslu kemur tekur við vinnslutímabil sem einnig gildir í tiltekinn tíma.

Samkvæmt lögunum getur svona einkaleyfi eða sérleyfi verið til allt að 12 ára, sem er þá rannsókna- og olíuleitartímabilið. Heimilt er að framlengja leyfið, þ.a. það gildi í allt að 16 ár. Á þessu tímabili fara fram margvíslegar og ítarlegar rannsóknir á viðkomandi svæði, þar sem leitað er vísbendinga um olíu og/ eða gas á svæðinu. Þessar rannsóknir geta t.d. falist í hljóðendurvarps- og fjölgeislamælingum, sýnatökum, borun grunnra rannsóknahola og djúpum tilraunaborunum.

E.h.t. á þessu rannsóknatímabili rennur upp sá tímapunktur sem menn í olíubransanum nefna "drill or drop". Finnist nokkuð skýr merki um olíu á sérleyfissvæðinu er eina leiðin til að staðreyna hvort hún sé í vinnanlegu magni oft sú að bora djúpt undir hafsbotninn (drill) og þá jafnvel nokkra brunna. Sýni rannsóknirnar aftur á móti ekki merki um vinnanlega olíu er alls ekki jafn freistandi að leggjast í miklar boranir. Sérleyfið kann þá að vera látið renna út eða vera skilað (drop). Eftir atvikum gæti sérleyfishafinn framselt sérleyfið til annarra sem vilja taka upp þráðinn, en það gerist þó einungis með samþykki Orkustofnunar.

Oil-semi-submersible_Sedco-706-rig_North-Sea_winter- 2000-01

Jákvæð útkoma úr rannsóknum á vegum sérleyfishafa á Drekasvæðinu myndi þýða að eftir allt að 16 ára rannsóknatímabil tæki við vinnslutímabil. Samkvæmt olíulögunum á viðkomandi sérleyfishafi forgangsrétt til vinnslu á svæðinu til allt að 30 ára.

Sérleyfi veitir sérleyfishafanum réttindi sem geta reynst ákaflega verðmæt. Um leið tekst sérleyfishafinn ýmsar skyldur á herðar, sem lúta að bæði rannsóknunum og vinnslunni ef til hennar kemur. Þar getur verið um að ræða framkvæmdir sem fela í sér geysilega miklar fjárhagslegar skuldbindingar.

Vert er að hafa í huga að olíuleit og -vinnsla á djúphafssvæðum er alveg sérstaklega dýr og áhættusöm. Enda fóru menn ekki að horfa til olíunnar á djúphafssvæðunum fyrr en fyrir fáeinum árum, þegar olíuverð tók að hækka hratt þ.a. slík vinnsla fór að borga sig. Í dag er lágmarksolíuverð sem réttlætt getur vinnslu á djúphafssvæðum oft sagt vera í kringum 70 USD. Djúphafssvæðin eru sem sagt almennt bæði tæknilega flóknari og fjárhagslega áhættusamari verkefni heldur en hefðbundin olíuvinnsla á landgrunninu. Þess vegna er langt í frá að hvaða olíufélag sem er geti farið með svona verkefni alla leið. Það skiptir því afar miklu hverjir sérleyfishafarnir á Drekasvæðinu koma til með að verða.

Hvaða skilyrði setur Orkustofnun? 

Drekasvæðið krefst mikillar tækniþekkingarreynslu og áhættufjármagns. Því er ekki skrítið að í olíulögunum segir að Orkustofnun megi einungis veita sérleyfi til aðila sem að mati stofnunarinnar hafa nægilega sérþekkingu, reynslu og fjárhagslegt bolmagn til að annast umrædda starfsemi. Í lögunum segir einnig að við veitingu rannsókna- og vinnsluleyfis skuli einkum taka mið af fjárhagslegri og tæknilegri getu umsækjenda, að vinnsla auðlindar sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og á hvaða hátt framlögð  rannsóknaráætlun getur náð settu markmiði.

OS-logo-english

Þarna er Orkustofnun með sínu faglega mati falin gríðarleg ábyrgð. Af olíulögunum leiðir að við mat á sérleyfisumsóknum ber Orkustofnun að leggja ríka áherslu á bæði tæknilega og fjárhagslega getu umsækjendanna og horfa til þess hvaða reynslu þeir hafa. Skilyrðin sem Orkustofnun getur sett sérleyfishöfum eru engu að síður nokkuð sveigjanleg. Þess vegna er niðurstaðan um það hverjir fá sérleyfi á Drekasvæðinu í reynd mjög háð mati stofnunarinnar. 

Þarna vakna ýmsar spurningar. Mun Orkustofnun t.d. álíta að einungis eitt fremur lítið olíufélag ásamt fáeinum íslenskum fjárfestum/ fyrirtækjum sé fullnægjandi sterkur umsækjandi til að öðlast sérleyfi? Eða mun stofnunin gera kröfu um að til að öðlast sérleyfi þurfi sérleyfishópur að innihalda olíufélag með mikla reynslu af rannsóknum og borunum á djúphafssvæðum? 

Stena-don-3

Einnig má velta fyrir sér hvort sérleyfishöfunum verði gert skylt að bora t.d. þrjá eða fjóra brunna á hverjum úthlutuðum leitarreit? Slíkt er oft talið eðlilegt og nauðsynlegt til að ná árangri í olíuleit á á lítt þekktum landgrunnssvæðum. Eða verður bara sett skilyrði um nokkrar laufléttar bergmálsmælingar og svo sem eins og eina smávægilega tilraunaholu?

Stóra spurningin er sem sagt hversu ríkar kröfur Orkustofnun mun gera. Eðlilegast væri að stofnunin horfi þar til skilyrða sem tíðkast á svæðum sem eru í svipuðum erfiðleikaflokki eins og Drekasvæðið. Þetta myndi sennilega útiloka að notast við sambærileg skilyrði eins og sjá má í Norðursjó, hvort sem er í lögsögu Bretlands, Danmerkur eða Noregs. Í Norðursjónum er t.d. hafdýpið almennt miklu minna en á Drekasvæðinu og því kallar Norðursjórinn ekki á sömu þekkingu á djúptækninni. Með svipuðum rökum er einnig líklegt að skilyrði vegna Drekasvæðisins verði mun strangari en t.d. þau sem almennt má sjá í Noregshafi.

Dreki-Jan-Mayen-Ridge

En hvaða svæði gætu verið besta fyrirmyndin fyrir Orkustofnun við ákvörðun á skilyrðum vegna sérleyfa? Hvaða svæði minna mest á Drekasvæðið? Við þeirri spurningu er ekkert eitt einfalt svar. En þarna gæti verið freistandi að nefna djúp svæði utan við austurströnd Kanada, þar sem ný sérleyfi eru einmitt að líta dagsins ljós. Svo mætti mögulega einnig horfa til þess sem hefur verið að gerast við Grænland. Þar hófst alvöru olíuleit fyrir fáeinum árum og þó svo hafdýpið þar sé ekki nærri eins mikið eins og finnst á Drekanum, þá eru þetta hvort tveggja lítt þekkt svæði og áhættan að ýmsu leyti sambærileg. Loks er freistandi að líta til annarra djúpra svæða þar sem komin er hvað mest reynsla á olíurannsóknir og uppbyggingu á olíuvinnslu. Þar er ytri hluti Mexíkóflóans nærtækur til viðmiðunar.

Deepwater_horizon_burning_sinks

Þetta síðastnefnda leiðir hugann að slysinu sem varð á Mexíkóflóa í apríl 2002. Þegar olíuborpallurinn Deepwater Horizon nánast sprakk, þar sem hann var að bora tilraunaholu á um 1.500 m hafdýpi á reit 252 á s.k. Macondo-svæði. Fjöldi manna fórst og olíumengunin í flóanum varð svo mikil að þetta er talið eitt af allra mestu umhverfisslysum í sögu Bandaríkjanna.

Slysið hafði m.a. þær afleiðingar að víða eru nú gerðar mun ríkari kröfur um öryggi og mengunarvarnir í tengslum við svona landgrunnsboranir. Væntanlega mun Orkustofnun einmitt leggja mikla áherslu á að sérleyfishafar uppfylli bæði ströng skilyrði um öryggiskröfur og varnir gegn mengun. Það gæti orðið afar kostnaðarsamt fyrir sérleyfishafana.

Sá sem hefur með höndum rannsóknir og boranir á landgrunninu þarf sem sagt að uppfylla margvíslegar skuldbindingar og skilyrði. Hvaða skyldur Orkustofnun mun leggja á sérleyfishafana er ekki unnt að fullyrða um, enda fjalla olíulögin og reglugerð sem á þeim byggir einungis um þetta með mjög almennum hætti. En augljóslega skiptir alveg sérstaklega miklu máli hver það nákvæmlega verður sem mun sjá um reksturinn á svæðinu (í þessu sambandi er talað um rekstraraðila eða það sem nefnist operator á ensku). Þess vegna er rétt að skoða hverjir koma þar til greina, skv. þeim umsóknum sem nú liggja fyrir. Hver eða hverjir munu bera meginábyrgðina á rannsóknunum á Drekasvæðini og undirbúningi olíuvinnslu þar?

Hverjir verða operators á Drekasvæðinu? 

Skilyrðin sem Orkustofnun mun setja fyrir sérleyfum ná bæði til sérleyfishafans sjálfs og einnig til rekstraraðilans. Rekstraraðilinn er sá sem stjórnar starfseminni á svæðinu og hann gegnir því afar þýðingarmiklu hlutverki. Þó svo gerð sé krafa um að allir leyfishafarnir hafi sérþekkingu og reynslu af svona rannsóknum og vinnslu, má búast við að alveg sérstaklega ríkar kröfur verði gerðar til fyrirtækisins sem er operator.

Stena Don

Kannski er rétt að skýra þetta aðeins nánar, þ.e. af hverju sumir sérleyfishafanna koma ekkert að framkvæmdum eða rekstri olíusvæða. Í olíuvinnslu heimsins er mjög algengt það fyrirkomulag að nokkur félög standi saman að sérleyfis-umsóknum. En einungis eitt þeirra hafi umsjón með rannsóknunum og framkvæmdum á viðkomandi reit(um). Það félag er þá nefnt rekstraraðilinn (operator). Hin félögin sem eru leyfishafar eða hluthafar í viðkomandi sérleyfi eru aftur á móti nánast óvirkir fjárfestar í leyfinu (hafa þó stundum eitthvað meira hlutverk).

Ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi er m.a. sú að dreifa áhættunni. Olíufélög eiga t.d. gjarnan 10-40% hlut í fjölda sérleyfa. Þegar þannig er um hlutina búið minnka líkurnar á að það verði algert rothögg þó að sum og jafnvel mörg sérleyfi og dýrar rannsókir skili engum árangri eða mjög litlum. Nóg er að einungis fáein sérleyfanna skili mjög ábatasamri olíuvinnslu og tryggi þannig olíufélaginu bærilega arðsemi.

Oil-Gulf-of-Mexico-deepwater-operators

Oftast eru það stóru olíufélögin sem eru rekstraraðilinn á hafsbotnssvæðunum - og það er svo til algilt á djúphafssvæðunum. Þar má þó stundum sjá meðalstór og áhættusækin félög í hlutverki rekstraraðila og þá jafnvel sem stór hluthafi í sérleyfinu. Á djúphafssvæðunum eru lítil félög aftur á móti sjaldnast áberandi og sjást þá í mesta lagi sem litlir hluthafar í sérleyfum.

Á auðveldari og ódýrari svæðum kýla lítil félög aftur á móti gjarnan á það að eiga stóran hlut í fáeinum sérleyfum (jafnvel allt að 100% hlut) og eru þá stundum sjálf rekstraraðilinn. Eðli málsins samkvæmt er slíka strategíu lítilla félaga helst að finna á olíuvinnslusvæðum sem eru vel þekkt. Þ.e. á svæðum þar sem olíuvinnsla á sér langa sögu og mikil fyrirliggjandi þekking er á jarðfræði og jarðsögu svæðisins. Rannsóknir og vinnsla á nýjum reitum á slíkum svæðum er ekki eins hrikalega áhættusöm eins og t.d. á nýjum djúphafsvinnslusvæðum. Á þeim síðastnefndu eru stóru olíufélögun nær allsráðandi sem operators.

Thunder-Horse-semi-submersible-Platform-Gulf-of-Mexico

Það eru vel að merkja einungis örfá ár síðan olíubransinn fór út á djúpið mikla. En þegar olíuverð var orðið nægilega hátt jókst mjög að stóru og meðalstóru fyrirtækin færu í rannsóknir og olíuvinnslu á djúpum hafsvæðum. Eins og t.d. utarlega á Mexíkóflóa og út af ströndum Angóla.

Á slíkum svæðum er algengast að rekstraraðiliinn sé ávallt sjálfur beinn aðili að viðkomandi sérleyfisumsókn og oft er hann stærsti hluthafinn í sérleyfinu. Af íslensku olíulögunum virðist aftur á móti sem það sé ekki skilyrði að rekstraraðilinn sé beinn aðili að sérleyfinu. Þess í stað virðist nóg að sérleyfishafarnir hafi tryggt samning við rekstraraðila áður en sérleyfi er gefið út. En í reglugerð nr. 884/2011 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis er aftur á móti gert ráð fyrir að rekstraraðilinn komi beint að sérleyfinu. Þetta er svolítið óheppilegt misræmi. En Orkustofnun mun væntanlega gera þá kröfu að sérhver umsækjendahópur uppfylli það skilyrði að hafa innan sinna vébanda tilgreindan rekstraraðila, með nægjanlega þekkingu og reynslu til að ráðast í olírannsóknir og byggja upp og stunda olíuvinnslu. Þá er bara spurningin hverjir af umsækjendunum núna verða í hlutverki rekstraraðila?

Tækniþekkingin á olíurannsóknum og -vinnslu kemur utan frá 

Þrjár umsóknir bárust um einkarétt til rannsókna og vinnslu á tilteknum reitum nú í öðru útboðinu vegna Drekans. Þessar sérleyfisumsóknir voru í fyrsta lagi frá Eykon Energy, í öðru lagi frá Kolvetni ehf. og Valiant Petroleum og í þriðja lagi frá Íslensku kolvetni ehf. og Faroe Petroleum. Um það hvaða fyrirtæki þetta eru og hvaða íslensku hluthafar eru þar að baki vísast til síðustu færslu Orkubloggsins.

heidar-mar-arion_gudjonsson-oliuleit

Þegar litið er til sérþekkingar og reynslu verður ekki séð að neinn af þeim sem standa að umsókn Eykon Energy uppfylli skilyrði um að geta verið rekstraraðili. Þar er einfaldlega ekki neinn aðili með nægilega sérþekkingu og reynslu af svona starfsemi. Það eitt og sér virðist nánast útiloka að þessi sérleyfisumsókn fái brautargengi hjá Orkustofnun. Í þessu sambandi má kannski nefna að óstofnað og reynslulaust raforkufyrirtæki hefði t.d. seint fengið úthlutað virkjunarleyfi við Kárahnjúka. Og er þó áhættan þar miklu minni en í olíubransanum.

Að vísu er möguleiki á að sterkur samstarfsaðili Eykons dúkki upp meðan á umsóknarferlinu stendur. Því Heiðar Már Guðjónsson hefur sagt í fjölmiðlum að Eykon Energy sé í samstarfi við þekkta alþjóðlega fjárfesta og alþjóðleg olíuleitarfyrirtæki sem hafi reynslu af svipuðum og jafnvel erfiðari slóðum heldur en Drekasvæðið er. En hverjir þetta eru hefur ekki komið fram opinberlega og varla ósanngjarnt að segja að það dragi úr trúverðugleika umsóknarinnar.

Stena Don-2

Það er ekki bara Eykon Energy sem skortir þekkingu og reynslu á olíurannsóknum og -vinnslu. Þetta gildir í reynd um alla íslensku umsækjendurna, sem koma að umsóknunum þremur. Einhver íslensku fyrirtækjanna kunna að vísu að geta lagt til ýmsa þekkingu sem myndi nýtast við framkvæmd verkefnanna. Sbr. einkum verkfæðifyrirtækið Mannvit og kannski líka Verkís, en þau eiga aðild að tveimur umsóknanna. Fyrst og fremst virðist þó sem þátttaka íslensku umsækjendanna sé einfaldlega hugsuð sem áhættufjárfesting og/ eða tækifæri til að selja þjónustu sína til viðkomandi verkefna.

Það er sem sagt nokkuð augljóst að mestöll faglega þekkingin, sem er eitt skilyrðanna fyrir veitingu sérleyfis, þarf að koma erlendis frá. Þ.e. frá erlendu olíufélögunum sem aðild eiga að sérleyfisumsóknunum. Þar er um að ræða bresku fyrirtækin Faroe Petroleum og Valiant Petroleum. Þau félög eru því væntanlega í hlutverki rekstraraðilans í þeim tveimur sérleyfisumsóknum sem félögin eiga aðild að.

Er fagleg þekking og reynsla Faroe Petroleum og/eða Valiant nægjanleg? 

Bæði Faroe Petroleum og Valiant búa yfir töluverðri reynslu og bæði eru þessi félög þátttakendur í fjölmörgum sérleyfum t.a.m. í Norðursjó. Í flestum tilvikum eru þau reyndar aðeins hluthafar í verkefnum og þá oft einungis með lítinn hlut. Þó eru dæmi um verkefni þar sem þau eru stórir hluthafar og operators. Við fyrstu sýn kunna þetta því að sýnast bærilega sterkir umsækjendur um sérleyfi til olíurannsókna og -vinnslu á Drekasvæðinu.

Faroe-Petroleum_Maersk-Guardian_jack-up rig

Það er samt ekki hægt að horfa framhjá því að þessi tvö félög virðast aldrei hafa verið operators á jafn lítt þekktu og djúpu hafsvæði sem Drekasvæðið er. Og tjakkborarnir sem Faroe Petroleum rekur í Norðursjónum eru ansið hreint óralangt frá vísindaskáldsögulegum fljótandi djúphafspöllunum eða rándýrum djúpsjávar-borskipunum sem þarf á Drekasvæðið.

Fyrirfram hefði Orkubloggarinn aldrei búist við því að Faroe Petroleum myndi sækja um sérleyfi á Drekasvæðinu nema í samstarfi við sterkara og reyndara félag eins og t.d. Statoil. Sama má mega segja um Valiant; einnig þar virðist vera fremur takmörkuð þekking á framkvæmdum á svona djúpum og lítt þekktum svæðum.

Á endanum veltur þetta þó alfarið á því hvaða skilyrði Orkustofnun setur. Ef stofnunin hyggst einungis gera kröfu um smáræðis bergmálsmælingar og enga tilraunabrunna, þá munu bæði Faroe Petroleum og Valiant væntanlega ráða prýðilega við að koma því í kring. Að því búnu myndu félögin svo túlka niðurstöður þeirra mælinga og út frá því taka ákvörðun um hvort viðkomandi svæði sé áhugavert til borana eða hvort frekari rannsóknir séu lítt spennandi.

Gallinn er bara sá að litlar rannsóknir og lítil skilyrði gagnvart sérleyfishöfum á Dreksvæðinu myndu takmarka möguleikann á árangri og því að fá skýra mynd af viðkomandi svæðum. Til að öðlast betri skilning af því hvað raunverulega er að finna á Drekasvæðinu, væri æskilegt að Orkustofnun bindi sérleyfin því skilyrði að nokkuð umfangsmiklar tilraunaboranir fari fram á hverjum reit. Þá yrði svæðið sennilega á mörkum þess að vera viðráðanlegt fyrir Faroe Petroleum og Valiant og boða þyrfti til nýs útboðs. Orkustofnun mun varla fara þá leiðina strax, heldur skoða framkvæmdasögu þessara tveggja fyrirtækja mjög nákvæmlega og út frá því meta hvort þau séu álitleg sem sérleyfishafi og jafnvel rekstraraðili á Drekanum.

Niðurstaða 

Að mati Orkubloggarans er alls ekki augljóst að nokkurt af þeim fyrirtækjum sem eiga aðild að umsóknunum þremur hafi nægilega sérþekkingu og reynslu til að annast þá starfsemi á Drekasvæðinu sem umsóknirnar lúta að. Það hvort sérleyfi verði veitt einhverju þeirra fer þó auðvitað eftir því hvernig Orkustofnun túlkar skilyrðin í olíulögunum.

Sérstaklega er vandséð að Eykon Energy uppfylli umrædd fagleg skilyrði. Nema ef nýr og mjög öflugur aðili komi að umsókninni núna í umsóknarferlinu eða að slíkur aðili leynist að baki fyrirtækinu Dreki Holding, sem mun vera einn hluthafanna í hinu óstofnaða fyrirtæki Eykon Energy. En eins og umsókn Eykons var kynnt í fjölmiðlum virkar hún hvorki sterk né trúverðug.

Cairn- Energy_Stena Don-1

Mögulegt er að Kolvetni ehf. og Valiant Petroleum verði af Orkustofnun álitin uppfylla almennu faglegu skilyrðin. Einnig er mögulegt að Íslenskt kolvetni ehf. og Faroe Petroleum teljist af hálfu Orkustofnunar uppfylla umrædd skilyrði. Í báðum tilvikum hlýtur það þó að veikja umsóknir þessara fyrirtækja hversu litla reynslu þau hafa af hafsbotnssvæðum sem eru svo lítt þekkt og djúp.

En áður en Orkubloggarinn lætur sitt endanlega álit í ljós er auðvitað nauðsynlegt að skoða einnig fjárhagslegan styrk umsækjendanna. Auk faglegrar sérþekkingar og reynslu þurfa sérleyfishafarnir skv. olíulögunum jú einnig að hafa fjárhagslegt bolmagn til að takast á við verkefnið. Og þegar um er að ræða rannsóknir og olíuleit á djúphafssvæðum er ekki verið að tala um neinar smá upphæðir.

Hvaða fjárhagslegu skilyrði er eðlilegt að Orkustofnun setji sérleyfishöfunum? Þessi fjárhagslega hlið málsins verður skoðuð í næstu færslu Orkubloggsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Orkubloggarinn er nú meiri stríðnispúkinn, nú veit Orkustofnun ekki í hvorn fótinn hún á að stíga og verður að bíða eftir dómsorði bloggaranns. Gaman.

Sigurjón Jónsson, 7.8.2012 kl. 11:29

2 identicon

Takk fyrir finar greinar og vangaveltur um Drekasvædid.

Eg var reyndar mjøg hissa tegar ljost var hvada fyrirtæki budu i serleyfin,

helt reyndar ad tetta væri bara grin. En tad er nu frabært ef tessi fyrirtæki hafa tessa tekkingu og fjarmagn til ad byrja.

Einnig er tad lika merkilegt eins og fram hefur komid ad engin af storu nøfnunum  høfdu ahuga.

Eftir ad nidurstødur ur seismikk rannsoknum liggur fyrir og allt er jakvætt gæti vinnsla hafist eftir nokkur ar.

Reyndar eru stundadar seismikk rannsoknir med 3D a yfir 2000m dypi.

Tad verdur frodlegt ad sja hvernig tetta fer ad lokum.

steingrimur M. (IP-tala skráð) 24.9.2012 kl. 07:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband