Æsist nú olíuleikurinn

Ótrúlegir atburðir eru nú að gerast á olíumarkaði. Og engu líkara en alræmdir ólígarkar séu með flugumenn í innsta hring bandaríska stjórnkerfisins.

Í dag uppfærðu bandarísk stjórnvöld lista sinn yfir einstaklinga og fyrirtæki sem sæta viðskiptaþvingunum. Bandarískum borgurum og fyrirtækjum er óheimilt að eiga viðskipti við þá sem eru á þessum lista og eignir þeirra (og tengdra fyrirtækja) innan bandarískrar lögsögu eru frystar. Flest okkar erum orðin vön að heyra af slíkum aðgerðum gagnvart t.d. Íran og ýmsum hryðjuverkahópum, en nú beinast spjótin að rússneskum hagsmunum (vegna deilunnar um Krímskaga). 

gennady-timchenko-2014.jpgÁ listanum frá í dag eru nokkrir sannkallaðir stórlaxar. Hér skal sérstaklega nefndur hinn „finnski“ Gennady Timchenko. Þó svo Timchenko sé með finnskan ríkisborgararétt og sé ættaður frá Armeníu eru fáir viðskiptajöfrar með jafn mikil rússnesk tengsl. Timchenko var starfsmaður í sovéska viðskiptaráðuneytinu og er sagður hafa kynnst Pútín á tíunda áratugnum þegar á sá síðarnefnd var meðal æðstráðenda í Skt. Pétursborg.Smám saman varð Timchenko sífellt umsvifameiri í viðskiptalífinu og er í dag einn auðugasti maður veraldar.

Meðal stærstu eigna hans er um fimmtungshlutur í gasrisanum Novatek, sem er stærsta gasfyrirtækið í Rússlandi á eftir Gazprom. Timchenko er einnig stór hluthafi í fjölmörgum stórum fyrirtækjum í rússneska efnaiðnaðinum, byggingaiðnaðinum, fjármálageiranum og á járnbrautir, timburfyrirtæki o.s.frv. Mestu skiptir þó væntanlega tæplega helmingseign hans í Gunnvöru- Gunvor - sem er eitt af stærstu olíuviðskiptafyrirtækjum heimsins.

gunvor-homepage-trusted-partner.pngRisavöxtur Gunnvarar má ekki síst rekja til þess að þegar rússneska ríkið þjóðnýtti olíurisann Yukos. Þó svo eigir Yukos rynni fyrst og fremst inn í rússneska ríkisfyrirtækið Rosneft, var það Gunnvör sem hreppti stærstan hluta af útflutningssamningum Yukos. M.ö.o. rennur stærstu hlutinn af rússnesku olíunni um hendur Gunnvarar, sem fær í sínar hendur passlega þóknun af öllum þeim risaviðskiptum. Það kemur því ekki á óvart að Gennady Timchenko sé stjarnfræðilega efnaður og af sumum talinn meðal allra ríkust manna heims með auð upp á allt að 25 milljarða USD (tölur um auð hans eru mjög á reiki).

Þó svo hjá Gunnvöru séu menn gefnir fyrir að vinna fremur hljótt hefur kastljósið upp á síðkastið óhjákvæmilega beinst að fyrirtækinu og hreint ótrúlegum og stundum nokkuð furðulegum umsvifum þess. Gunnvör er í dag ekki bara milligönguaðili um útflutning á rússneskri olíu. Heldur alþjóðlegur hrávörurisi með aðalstöðvar í snyrtipinnalandinu Sviss. Það hefur þó ekki orðið til að kveða niður kviksögur um að Pútín sjálfur sé stór hluthafi í Gunnvöru - eða njóti a.m.k. ávaxtanna sem þar verða til. En hvort sem bandarísk stjórnvöld telja föt fyrir þeim sögum eða ekki, þá var sem sagt verið að setja Timchenko á svarta listann. Það hefði að óbreyttu getað stöðvað stóran hluta af olíuviðskiptum Gunnvarar. En í dag birtust svo þær mögnuðu fréttir að í gær hafi Timchenko selt allan hlut sinn í Gunnvöru!

torbjorn-_tornqvist-1.jpgKaupandinn er sagður vera viðskiptafélagi hans og hinn aðaleigandinn; Svíinn Torbjörn Törnqvist. Þetta eru augljóslega risastór viðskipti því t.d. eru árlegar tekjur Gunnvarar nálægt 100 milljörðum USD. Stóra spurningin er bara hvort að það var í alvöru Timchenko eða Pútín sem þarna var að losa um aura - og koma þeirri eign undan hinum langa armi bandaríska stjórnkerfisins? En það er varla sanngjarnt að Orkubloggið sé að byggja á einhverjum kjaftasögum. Og þess vegna kemur Pútin þarna hvergi að málum! Það virðist þó sem bandarísk stjórnvöld telji sig af ástæðu til að álíta, að tengslin þarna á milli séu einhver og jafnvel ansið náin.

Varla er Gennady Timchenko sérstaklega sáttur við það að vera ekki lengur hluthafi í gullgerðarvélinni Gunnvöru. En það er kannski huggun harmi gegn að hann ætti að hafa fengið nokkra milljarða USD fyrir lítilræðið. Skemmtilegust er þó auðvitað samt sú „einskæra tilviljun“ að hlutur Timchenko's í Gunnvöru hafi skipt um eigendur einmitt daginn áður en bandarísk stjórnvöld ætluðu að ná tökum á Pútín með því að beina spjótum sínum að stærsta hluthafanum í fyrirtækinu. Það verður spennandi að sjá hvernig Bandaríkjamennirnir bregðast við þessu. 

Viðbót 21. mars: Bandarísk stjórnvöld virðast ekki í vafa um bein tengsl Pútín's við Gunnvöru: "Putin has investments in Gunvor and may have access to Gunvor funds" (sbr. hér). Fyrir okkur orkuboltana væri áhugavert að sjá sannanir bandarískra stjórnvalda fyrir þessum tengslum - því annars eru þetta ennþá bara getgátur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband