Íslandskapallinn tilkynntur

Íslandskapallinn verður tilkynntur á ráðstefnu í París nú í vikunni. Um er að ræða rafmagnsstreng (háspennu jafnstraumskapal) sem lagður verður milli Íslands og Evrópu. Í framhaldinu verður mögulega farið að huga að slíkum rafmagnstengingum frá Grænlandi og jafnvel milli Evrópu og Norður-Ameríku. 

Þetta er reyndar aðeins orðum aukið. Hið rétta er að á umræddri ráðstefnu, sem byrjar í París nú í dag 25. ágúst, mun stórfyrirtækið ABB kynna nýja tækni, sem gerir það verkum að umræddur Íslandskapall er raunhæfari og hagkvæmari kostur en áður hefur verið talið. Slíkur kapall er m.ö.o. ekki lengur tæknilega óviss hugmynd - heldur raunverulega framkvæmanlegt verkefni.

Allt að 2.600 MW, 1.500 km langir neðansjávarkaplar og raforkutapið sáralítið 

Það var á fimmtudaginn var, 21. ágúst, sem ABB tilkynnti um þetta mikilvæga framfaraskref í jafnstraumsflutningum. Undanfarin ár hefur fyrirtækið verið að þróa tækni sem gerir háspennukapla af þessu tagi (HVDC) bæði öflugri og hagkvæmari en áður hefur þekkst (þess má geta að ABB ver meira en milljarði USD í rannsóknir og þróun árlega). Að sögn fyrirtækisins verður nú unnt að leggja geysilega öfluga háspennustrengi allt að 1,500 km vegalengd neðansjávar. Þessir kaplar eiga að ráða við raforkuflutninga sem jafngilda allt að 2.600 MW afli og raforkutapið á hinni gríðarlega löngu leið verður innan við 5%.

abb-hybrid_hvdc-breaker-paper-cover-2012.png

Ekki virðist ofmælt að í yfirlýsingu ABB felist staðfesting á því að tæknin til að leggja kapal milli Íslands og Evrópu er til staðar. Hin mikla vegalengd og hafdýpið milli Íslands og Evrópu er sem sagt ekki óyfirstíganleg hindrun fyrir rafmagnskapli þarna á milli. Lítið raforkutap skýrist m.a. af nýrri einangrun sem fyrirtækið hefur þróað og því að spennan í köplunum verður hærri en þekkst hefur til þessa eða 550 kV.

Þetta er afar athyglisverð þróun - kapall milli Íslands og Evrópu yrði jú allt að þrefalt lengri en lengsti neðansjávarstrengur af þessu tagi er í dag (NorNed kapallinn). Þessi tíðindi koma samt ekki á óvart. Því þetta er í fullu samræmi við það sem ABB (og fleiri fyrirtæki) hafa talað um síðustu 2-3 árin sem afar líklega framtíðarsýn. Og nú er sem sagt komið að því að þessi tækni er raunveruleg og ennþá hagkvæmari en áður var talið. Og bara spurning hvar fyrsti ofurkapallinn af þessu tagi verður lagður. Það gæti t.d. orðið við norðanvert Atlantshaf eða milli landa í austanverðri Asíu. Og jafnvel þó svo ekki verði strax af framkvæmdum við Íslandskapal, blasir við að slík tenging sé einungis tímaspursmál.

ABB er í fararbroddi í jafnstraumstækninni

Það er afar viðeigandi að það sé raftæknirisinn ABB sem hefur nú fundið lausnina á því að gera svona neðansjávarstrengi lengri, afkastameiri og hagkvæmari en mögulegt hefur verið fram til þessa. Um þessar mundir fagnar ABB því nefnilega að 60 ár eru liðin frá því fyrsti jafnstraumskapalinn var lagður - eftir hafsbotninum milli Svíþjóðar og sænsku eyjarinnar Gotlands í Eystrasalti. Þetta var nettur 20 MW kapall, spennan var 100 kV og vegalengdin um 90 km. Og það var einmitt ABB sem var framleiðandinn.

abb-hvdc-gotland-cable.pngÞað var að vísu undanfari ABB, sænska fyrirtækið Allmänna Svenska Elektriska Aktiebolaget eða ASEA, sem framleiddi Eystrasaltskapalinn. ABB varð jú ekki til fyrr en á níunda áratug liðinnar aldar, þegar ASEA sameinaðist svissneska fyrirtækinu Brown, Boveri & Cie.

Á þeim sex áratugum sem liðnir eru síðan ABB/ASEA framleiddi Gotlandskapalinn - ásamt tilheyrandi spennistöðvum sem umbreyta riðstraumi í jafnstraum og svo aftur í riðstraum - hafa fjölmargir neðansjávarkaplar verið lagðir. Þeir hafa smám saman orðið bæði lengri og öflugri. Lengsti HVDC neðansjávarkapallinn í dag er 700 MW NorNed strengurinn milli Noregs og Hollands. Spennan þar er 450 kV og lengdin er 580 km. Það var einmitt ABB sem framleiddi bæði spennistöðvarnar og stærstan hluta kapalsins - og nú er fyrirtækið sem sagt í fararbroddi að þróa og framleiða ennþá lengri og öflugri kapla af þessu tagi.

hvdc-norned-cable-abb-1.jpg

Lokið var við lagningu NorNed árið 2008. Áður hafði ABB m.a. framleitt Baltic Cable (Eystrasaltskapalinn), sem liggur milli Svíþjóðar og Þýskalands. Kapallinn sá var lengsti rafmagnsstrengur neðansjávar áður en NorNed var lagður. ABB er einnig framleiðandinn á lengstu og öflugustu háspennustrengi sem lagðir hafa verið á landi. Þar er um að ræða kapla í Brasilíu og Kína; kapallengdin þar er á bilinu 2.000-2.500 km og spennan 600-800 kV. Þessir ofurkaplar geta flutt raforku fá virkjunum sem nema mörg þúsundum MW . Og þróunin er í sömu átt neðansjávar; líka þar eru að koma lengri og að sögn ABB verulega hagkvæmari kaplar.

Stórt skref í jafnstraumstækninni og raforkuflutningum neðansjávar

abb-hvdc-europe-map-august-2014.jpg

ABB lýtur bersýnilega á þetta nýja skref í þróun rafmagnskapla sem afar mikilvægt og þetta muni gera kleift að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Þar kemur ekki síst til sá möguleiki að reisa hagkvæmari vindorkuver á hafi úti, en einnig að tengjast svæðum með mikið vatnsafl. Þar er Ísland eðlilega góður kostur.

Það var reyndar annað fyrirtæki en ABB sem virtist nýlega hafa tekið forystuna í þróun rafmagnskapla neðansjávar. Undanfarið hefur ítalska Prysmian Group í samstarfi við Siemens unnið að kapli sem tengja á Skotland og England og liggja utan við vesturströnd Bretlands. Verkefnið nefnist UK Western Link og verður sá kapall um 420 km langur. Það sem gerir UK Western Link að tímamótaverkefni er að kapallinn á að vera með mun hærri spennu en þekkst hefur hjá neðansjávarstrengjum til þessa eða 600 kV.

Það virðist aftur á móti sem Prysmian Group hafi lent í einhverjum vandræðum í framleiðslunni á þessum ofurkapli. Neðansjávarstrengirnir sem ABB er nú að kynna eiga eins og áður sagði að ráða við spennu allt að 550 kV. Eflaust eru einhverjir sem búast við því að ABB sé að fara fram úr sér og muni líka lenda í vandræðum í framleiðslunni. Reynslan ein getur leitt í ljós hvort ABB stendur við fyrirheitin.

Kapall milli Íslands og Evrópu er raunverulegur kostur 

ABB er vel að merkja að ganga mun lengra en felst í verkefni Prysmian og Siemens. ABB er að boða framleiðslu á köplum sem verða miklu lengri en UK Western Link eða allt að 1.500 km langir - og að þrátt fyrir þessa geysilegu lengd verði orkutapið innan við 5%.

Þetta merkir að orkutapið verði lítið meira en er í lengsta neðansjávarstrengnum í dag (NorNed), þó svo nýju kaplarnir verði allt að þrefalt lengri! Þetta er stórt skref og gerir Íslandskapal sannarlega að raunhæfum kosti. Þetta eru mikil tíðindi því þarna gæti verið á ferðinni stærsta efnahagslega tækifæri Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

ER TIL NÆG ORKA Í LANDINU FYRIR allar þessar nýju kísil-verksmiðjur??

Hvað þá að selja mikla orku úr landi?

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1412216/

Jón Þórhallsson, 25.8.2014 kl. 08:37

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Um orkuþörfina og hvað þarf að virkja vegna kísilveranna má t.d. lesa í þessari frétt:

http://www.ruv.is/frett/raforka-landsvirkjunar-er-uppseld

Þar sgir m.a.:

„Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, segir að búið sé að tryggja United Silicon þá raforku sem fyrirtækið þarf á að halda. Hún kemur úr raforkukerfi Landsvirkjunar en er ekki eyrnamerkt einni einstakri virkjun. Vegna kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka sé horft til Þeistareykjavirkjunar en hugsanlegir samningar við aðra kaupendur, svo sem Thorsil og Silicor Material, þýði að öllu óbreyttu að til nýrra virkjana þurfi að koma.

Björgvin Skúli segir að þá sé fyrst og fremst horft til virkjanakosta í nýtingarflokki rammaáætlunar. Einnig komi til greina að Hvammsvirkjun, sem nú er í biðflokki, verði flutt í nýtingarflokk næsta haust - og segir Björgvin Skúli að hún verði þá einnig á meðal þeirra virkjanakosta sem litið verði til.“

Ef ráðist yrði í kapal milli Íslands og Evrópu myndi þurfa að virkja meira. Hversu mikið myndi ráðast af stærð kapalsins og öðrum samningum tengdu því verkefni.

Ketill Sigurjónsson, 25.8.2014 kl. 09:42

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ef þetta er rétthjá þér Ketill, má segja að umræðan um sæstreng geti loks hafist. Hingað til hefur þessi umræða verið byggð á draumsýn.

Ef hægt er að hefja þessa umræðu þarf fyrst og fremst að svara tveim spurningum strax í upphafi. Þessar spurningar þurf að leggjast fyrir eigendur Landsvirkjunnar, íslensku þjóðina.

Fyrri spurningin er hvort þjóðin er tilbúin að fara út í stórfelldar virkjanaframkvæmdir til að seðja hungur Evrópu eftir ódýru rafmagni.

Síðari spurningin er hvort þjóðin sé sátt við að allur virðisaukinn sem af orkuvinnslu fæst skili sér til annara þjóða en okkar íslendinga. 

Verði þessum spurningum svarað játandi er hægt að halda í gerð hagkvæmnisútreininga. Þá hefur þjóðin gefið sitt svar og er tilbúin að fórna gulleplinu úr landi.

Það er ljóst að skortur á hagkvæmu rafmagni er að setja Evrópu í uppnám. Framleiðslukostnaður fyrirtækja þar er að verða ósamkeppnishæfur.

Það er einnig ljóst að jafnvel þó við sjálf tækjum upp kerti og kynntum okkar hús með rekavið, svo öll virkjanlega orka hjá okkur gæti farið úr landi, er ekki um svo mikla orku að ræða að það skypti sköpum í raforkuskorti Evrópu.

Við gætum hins vegar létt nokkuð á raforkunotkun Evrópulanda með því að taka að okkur nokkur fyrirtæki frá þeim og framleiða fyrir þær vörur. Þannig gæti sparast orka þar ytra, við fengið meiri vinnu og síðast en ekki síst þarf þá ekki að framleiða orku til að vega gegn því orkutapi sem óneitanlega verður á svo langri leið sem kapalinn er.

Gunnar Heiðarsson, 25.8.2014 kl. 13:14

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég er ósammála því að ljóst sé að skortur á hagkvæmu rafmagni sé að setja Evrópu „í uppnám“. Það er aftur á móti staðreynd að raforkuverð á stórum svæðum í Evrópu er nokkuð hátt og það gerir raforkusölu þangað um sæstreng áhugaverða.

Hugsunin að baki sæstreng er ekki að leysa orkuvanda í Evrópu. Magnið sem færi frá Íslandi um strenginn yrði þó nægjanlega mikið til að mæta t.d. allri raforkuþörf Edinborgar eða þar um bil, svo dæmi sé tekið. Það er talsvert.

Ég er líka alveg ósammála því að sæstrengur milli Íslands og Evrópu myndi þýða að „allur virðisaukinn sem af orkuvinnslu fæst skili sér til annara þjóða“. Arður Íslendinga af orkuvinnslu gæti þvert á móti aukist geysilega með tilkomu sæstrengs og það er auðvitað mikilvægasta forsenda þess að ráðist verði í slíka framkvæmd.

Rafstrengur myndi ekki kalla á meiri virkjanaframkvæmdir en t.d. álver í Helguvík. Hvort sátt yrði um slíkar framkvæmdir verður að koma í ljós. Það er reyndar ekki útilokað að eitt álveranna hér hætti starfsemi fyrr en margir telja og þá yrði mikil raforka á lausu.

Að auki vil ég benda á t.d. eftirfarandi greinar þar sem nánar er fjallað um hugmyndina og arðsemina:

Vannýttir eiginleikar íslenska vatnsaflsins;

http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/audlind/1401496/

Nýtum tækifærin í orkustefnu Bretlands;

http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/audlind/1379435/

Ketill Sigurjónsson, 25.8.2014 kl. 13:41

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvaða umframorku á svo að flytja úr landi um kapalinn?

Guðmundur Ásgeirsson, 26.8.2014 kl. 00:17

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ísland er einangrað raforkukerfi og virkjanir og miðlunarlón eru hönnuð þannig að ávallt sé unnt að útvega stóriðjunni orku (líka þegar koma erfið vatnsár eins og var nýverið). Flest árin er vatnsmagnið svo mikið, að unnt er að framleiða mun meiri raforku (hún er seld sem ótrygg orka eða umframorka).

Þar að auki kemur fyrir að lón fyllist að sumri og þá rennur vatn um yfirfall. Ef unnt væri að selja raforkuna á hærra verði, yrði hagkvæmt að bæta við hverflum og nýta þetta vatn til raforkuframleiðslu.

Þarna er því oft veruleg orka fyrir hendi sem kalla má umframorku og unnt væri að selja með mjög góðum hagnaði ef við værum tengd öðru og stærra raforkukerfi.

Ég vil að auki vekja athygli á þessari grein:

Vannýttir eiginleikar íslenska vatnsaflsins;

http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/audlind/1401496/

Ketill Sigurjónsson, 26.8.2014 kl. 07:45

7 identicon

Býð velkomin aftur öll 2007 stikkorðin. "öfluga og hagkvæmari", "geysilega öfluga", "eeki óyfirstíganlegt", "hærri spenna en áður þekkist", "þessi tækni er raunveruleg", "fyrsti ofurkapallin", "einungis tímaspursmál", "afar viðeigandi". Og svo síðasta setningin: "Þetta er stórt skref og gerir Íslandskapal sannarlega að raunhæfum kosti. Þetta eru mikil tíðindi því þarna gæti verið á ferðinni stærsta efnahagslega tækifæri Íslands."

Eitthvað segir mér að þessi texti sé skrifaður á auglýsingastofu og kostaður af sérhagsmunaaðilum því svo sannarlega hefur þetta ekkert að gera með hagsmuni þjóðarinnar. Að eyðileggja það sem eftir er af íslenskri náttúru og fallvötnum svo hægt sé að selja ódýra orku til Evrópu í stað þess að vernda mestu verðmæti þjóðarinnar er eiginlega ekki góð hugmynd.

Þór Saari (IP-tala skráð) 26.8.2014 kl. 07:54

8 identicon

Loksins ... en ég vil leiðrétta eitt atriði.  Og það er það, að þessi strengur er ekki þróaðurm, nema að einhverju leiti hjá þessum góðu mönnum.  Strengurinn er þrekvirki, sem Kínverjar unnu fyrir nokkrum árum, þegar þeir þróuðu kapal og tækni sem gat flutt sterkari straum en þangað til var hægt.  Þetta var lagt í byggðarlínu Kínverja, sem einnig er í sæstrengjum þeirra.  Kínverjar tóku, fyrir nokkrum árum, "leader role" í þróun þessarar tækni, vegna þessarra byggðarlína sem þeir löggðu.

Vonandi geta Íslendingar nú, farið að láta þessi álver borga "meir" fyrir rafmagnið, en minna.  Þar sem nú er hægt að fá keppinauta við kaup á raforku.  Það yrði bara gott mál fyrir Ísland, að losna við nokkur álver ... sem eru að mestu leiti, umhverfis spilling.

Síðan má vona, að peningarnir sem fást verði notaðir í eitthvað sem veitir allri þjóðinni tillveru.  Ekki bara einstökum aðilum, með skelfilegum afleiðingum eins og 2008.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 26.8.2014 kl. 07:57

9 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þór; þú gætir eins haldið því fram að það að flytja út fisk og sjávarafurðir hafi ekkert að gera með hagsmuni þjóðarinnar og leiði til eyðileggingar á lífríki hafsins.

Það er mikilvægt fyrir hagsmuni þjóðarinnar að skapa útflutningsverðmæti og njóta góðar arðsemi af auðlindunum og um leið gæta hófs við nýtingu þeirra. Hér verður vel að merkja ekkert virkjað né neinar raflínur lagðar nema í samræmi við lög. Þegar þjóðinni þykir þingmenn ganga of nærri auðlindunum hlýtur þjóðin að kjósa sér aðra þingmenn.

Bjarne Örn; ég vek athygli á því að stóru HVDC rafmagnskaplarnir sem lagðir hafa verið í Kína undanfarið, ásamt tilheyrandi spennistöðvum. eru fyrst og fremst framleiðsla vestrænna fyrirtækja eins og ABB og Siemens. En það er vissulega svo að kínversk fyrirtæki eru að vinna í þróun þessarar tækni. Þar má t.d. nefna C-EPRI, NR Electric og XD Group.

Ketill Sigurjónsson, 26.8.2014 kl. 08:59

10 identicon

Þetta er verðugt verkefni og það þarf að ræða hvernig á að leysa eða friða öllu heldur nokkra þætti, s.s. niðurgreiðslu til rafmagnshitunar á köldum svæðum, áhrif á ylrækt og umskipti á samfélagslegum hornstein núverandi stefnu "orku fyrir störf". Það er bara vonandi að þessi umræða verði hófstillt, sem ég er reyndar ekki bjartsýn fyrir.

En það sem athyglisverðast á þessari mynd er staðsetning vindorku í Evrópu. Verði þetta verkefni að veruleika (sem ég reyndar vona) þá mun væntanlega það kalla á stóraukna fjárfestingu (og mótmæli) í vindaflsvirkjunum hér á landi fyrst við suðurströndina og svo á hinum ýmsu annesjum.  

Takk fyrir góð og athyglisverð skrif.  

Magnús Þór Bjarnason (IP-tala skráð) 27.8.2014 kl. 11:28

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvaða umframorku á svo að flytja úr landi um kapalinn?

Í stað þess að nota hana til fullvinnslu afurða hérlendis?

Eða á Ísland að vera hráefnisskaffari að eilífu?

Guðmundur Ásgeirsson, 29.8.2014 kl. 02:22

12 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Það væri hæpið að segja að núverandi nýting á íslenskri raforku feli í sér „fullvinnslu afurða hérlendis“. Nálægt 75% raforkunnar hér fer til álveranna þriggja. Sá iðnaður gengur út á það að ná álinu úr sambandi við önnur efni. Álið er síðan selt út um heiminn þar sem það er nýtt í ýmsa vinnslu.

Geysimikinn rafstraum þarf til að kljúfa súrál í frumefni sín og það er þetta sem gert er í álverunum hér. Sumir myndu eflaust segja að rafmagnsnotkun af þessu tagi sé bara þáttur í hrávöruvinnslu (þar sem álið er hrávaran). Aðrir myndu segja þetta vera notkun á rafmagni til vöruframleiðslu, en að útflutningur á raforku sé hrávörusala. Þannig getur hugtakanotkun verið á ýmsa vegu.

Staðreyndin er sú að rafmagn er vara. Og það er líka staðreynd að Íslendingar eru sú þjóð í heiminum sem framleiðir langmest af þessari vöru (þ.e. raforku). að teknu tilliti til fólksfjölda (per capita). Þess vegna skiptir miklu máli fyrir okkur að hámarka arðinn sem þessu framleiðsla skapar. Vegna þess hversu raforkuverð er hátt víða í Evrópu er áhugavert að selja hluta af þessari vöru sem við framleiðum (rafmagn) til Evrópu.

Ketill Sigurjónsson, 29.8.2014 kl. 09:28

13 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Um það hvaðan raforka sem flutt yrði út um kapalinn ætti að koma má t.d. vísa til kynningar Landsvirkjunar s.l. haust:

http://www.landsvirkjun.com/Company/Mediacentre/Events/autumn-meeting-2013/

Að auki bendi eg á svar mitt hér talsvert ofar og endurtek það hér:

Ísland er einangrað raforkukerfi og virkjanir og miðlunarlón eru hönnuð þannig að ávallt sé unnt að útvega stóriðjunni orku (líka þegar koma erfið vatnsár eins og var nýverið). Flest árin er vatnsmagnið svo mikið, að unnt er að framleiða mun meiri raforku (hún er seld sem ótrygg orka eða umframorka).

Þar að auki kemur fyrir að lón fyllist að sumri og þá rennur vatn um yfirfall. Ef unnt væri að selja raforkuna á hærra verði, yrði hagkvæmt að bæta við hverflum og nýta þetta vatn til raforkuframleiðslu.

Þarna er því oft veruleg orka fyrir hendi sem kalla má umframorku og unnt væri að selja með mjög góðum hagnaði ef við værum tengd öðru og stærra raforkukerfi.

Ég vil að auki vekja athygli á þessari grein:

Vannýttir eiginleikar íslenska vatnsaflsins;

http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/audlind/1401496/

Ketill Sigurjónsson, 29.8.2014 kl. 09:29

14 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Meira um kynningu ABB á því nýjasta i umræddri tækni:

"The new HVDC 525 kV cable system steals the show in Paris"

http://www.abb-conversations.com/2014/08/hvdc-generates-buzz-at-cigre-2014/?_ga=1.215429975.1532730262.1264699533

Ketill Sigurjónsson, 1.9.2014 kl. 13:12

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sæll Ketill.

Hvaða álver hættir hugsanlega fyr en menn hafa gert ráð fyrir?

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.9.2014 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband