Grænn markaðssigur sósíalista í Brasilíu?

Nú fyrir helgina fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Skotlandi þar sem Skotar höfnuðu því að Skotland verði sjálfstætt ríki. Það væri freistandi að velta fyrir sér hvað kann að leiða af þeirri niðurstöðu. En þess í stað ætlar Orkubloggið hér í morgunsárið á þessum rólega laugardegi að beina athyglinni að öðrum kosningum. Í landi þar sem íbúafjöldinn er fjörutífalt meiri en hjá Skotum. 

Brazil-Germany_1-7-2014

Það fer nefnilega að styttast í forsetakosningarnar hjá orkuboltunum í Brasilíu. Hér er um að ræða kosningar sem eru ennþá mikilvægari og ennþá dramatískari en sú merka skoðanakönnunin sem við vorum að fylgjast með í Skotlandi. Það er því fullt tilefni til að staldra dágóða stund við kosningarnar í Brasilíu.

Það bendir allt til þess að þessar forsetakosningar verði æsispennandi. En það sem kannski er athyglisverðast er að svo virðist sem markaðsöflin þarna suður í Brasilíu voni að núverandi forseti, Dilma Rousseff, lúti í lægra haldi fyrir græningjanum og sósíalistanum Marínu Silva.

brazil-marina-silva-in-rio-de-janeiro-2.jpgÞetta kann sumum að þykja nokkuð sérkennilegt. Ástæðan er ekki sú að á Suðurhveli er sólin í norðri í hádegisstað og þar með allt öfugsnúið. Skýringin á stuðningi margra stórfyrirtækja og jafnvel brasilískra auðmanna við Silva skýrist af því að frambjóðendur miðjumanna og hægrimanna eiga einfaldlega ekki séns á sigri í kosningunum. Og fyrirtækjaeigendur og atvinnurekendur sjá margir betri tækifæri í því fyrir brasilískt efnahagslíf að Silva verði forseti fremur en Rousseff - jafnvel þó svo Silva sé t.d. harður andstæðingur nýrra vatnsaflsvirkjana á Amazonsvæðinu, tortryggin á olíuiðnaðinn og ákafur stuðningsmaður endurnýjanlegrar orku.

En það eru ekki fyrirtækin sem greiða atkvæði í forsetakosningunum, heldur almenningur. Almenningur í Brasilíu, þ.e.a.s. sjálfir kjósendurnir, virðast líka margir á þeirri skoðun að tími sé kominn á breytingar og forsetaskipti. Fylgi umræddra tveggja frambjóðenda, Dilma Rousseff og Marina Silva, er þó hnífjafnt og ómögulegt að segja til um hvernig fer. 

Lula og Partido dos Trabalhadores

Brasilía er eitt fjölmennasta land og lýðræðisríki heimsins; íbúarnir eru yfir 200 milljónir og í síðustu kosningum þar greiddu um 100 milljónir manna atkvæði (til samanburðar má nefna að Skotar eru alls um 5 milljónir). Forsetakosningarnar í Brasilíu fara fram þann 5. október n.k. Þá verður líka kosið til þjóðþingsins og fylkisþinga, auk þess sem fylkisstjórar verða kosnir.

brazil-lula.jpg

Til að ná kjöri þarf forsetaframbjóðandi að fá meira en 50% fylgi þeirra sem afstöðu taka. Í þetta sinn virðist algerlega öruggt að enginn frambjóðendanna muni ná því marki. Þá verður kosið aftur á milli tveggja efstu frambjóðendanna og sú síðari umferð kosninganna fer fram þann 26. október.

Í 12 ár hefur forseti Brasilíu komið úr röðum vinstriflokksins Partido dos Trabalhadores eða PT (sem á íslensku myndi nefnast Verkamannaflokkurinn). Flestir lesendur Orkubloggsins muna eflaust eftir hinum fádæma vinsæla Lula da Silva, sem sat tvö kjörtímabil sem forseti Brasilíu (árin 2004-2010). Tvö samfelld kjörtímabil eru sá hámarkstími sem sami einstaklingur má sitja samfellt sem forseti Brasilíu. Lula gat því ekki boðið sig fram til endurkjörs í forsetakosningunum haustið 2010.

Brazil-Lula-Rousseff-kiss

Engu að síður fór frambjóðandi PT með sigur af hólmi árið 2010 og Dilma Rousseff varð forseti. Hún hafði áður gegnt mikilvægum embættum í stjórn Lula; var orkumálaráðherra Brasilíu árin 2002-2005 og síðar starfsmannastjóri forsetans.

Í forsetakosningunum 2010 sigraði Rousseff frambjóðanda miðhægrimanna nokkuð örugglega. Til þess þurfti hún þó tvær umferðir. Dilma fékk 47% atkvæða í fyrri umferðinni en 56% í þeirri síðari.

Frá hrávöruuppsveiflu til niðurlægingar á HM

Á embættistíma sínum naut Lula góðs af uppganginum í efnahagslífi heimsins, sem var ekki síst að rekja til mikillar eftirspurnar Kína eftir hrávörum. Þar með er ekki verið að gera lítið úr stjórnvisku Lula; það er bara staðreynd að hátt hrávöruverð styrkti mjög efnahagslífið í Brasilíu, sem flytur t.d. mikið út af járngrýti. Þetta skilaði bættum hag almennings og ýtti undir vinsældir forsetans. En Lula er reyndar óvenju mikið sjarmatröll og hefði sjálfsagt verið feikivinsæll jafnvel þó svo uppsveiflan í efnahagslífi Brasilíu hefði verið eitthvað minni.

brazil-inflation_2009-2014.png

En efnahagslífið gengur upp og niður. Þegar líða fór á kjörtímabil Dilma Rousseff tók að halla nokkuð undan fæti. Á valdatíma Lula varð Kína stærsti útflutningsmarkaður Brasilíu og nú kemur um 20% allra útflutningstekna landsins frá Kína. Síðustu misseri og ár hefur hægt töluvert á efnahagsuppganginum í Kína. Afleiðing þess er m.a. minnkandi eftirspurn eftir vörum frá Brasilíu. Hægari efnahagsvöxtur í Kína olli því líka að margar hrávörur lækkuðu i verði - og það hefur bitnað með nokkuð víðtækum hætti á tekjum Brasilíu. Undanfarið hefur því þrengt að efnahag Brasilíumanna og hagvöxtur hefur snarminnkað frá því sem þjóðin var farin að venjast. 

Þetta hefur gert Rousseff erfiðara með að halda fylgi sínu til endurkjörs sem forseti. Og þegar harðnaði á dalnum urðu margir óánægðir með hvernig brasilíska ríkið hafði eytt stórfé í að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu s.l. sumar. Sú gagnrýni hefur eðli málsins samkvæmt beinst talsvert að forsetanum Rousseff - og ekki urðu hrakfarir Brasilíumanna á mótinu til að hjálpa henni að auka fylgi sitt.

Engu að síður var Rousseff með dágott forskot í skoðanakönnunum um forsetakjörið nú fram eftir sumri. Hún virtist reyndar nánast örugg um að verða endurkjörinn forseti Brasilíu. Allt þar til örlagadaginn 13. ágúst s.l. þegar einungis tæplega tveir mánuðir voru til kosninganna. Þann dag varð óvæntur og sorglegur atburður til þess að skyndilega er varaforsetakandídatinn, blökkukonan og umhverfisverndarsinninn Marina Silva orðin líkleg sem næsti forseti Brasilíu. Það eru mikil tíðindi.

Hörmulegt flugslys

Allt fram undir miðjan ágúst s.l. var Marina Silva alls ekki í framboði til forseta. Hún náði reyndar góðum árangri í forsetakosningunum 2010, þar sem hún náði þriðja sæti með tæplega 20% atkvæða sem frambjóðandi græningja. Það var talinn mjög góður árangur og varð m.a. til að vekja athygli á Silva víða erlendis.

brazil-marina-silva-dima-roussef.jpg

Í aðdraganda kosninganna núna mistókst græningjum aftur á móti að ná flugi og ekkert varð af forsetaframboði flokksins. Þess í stað samþykkti Silva að vera varaforsetaefni frambjóðanda sósíalistaflokksins; Eduardo Campos.

Rétt er að geta þess að Marina Silva er allsendis óskyld Lula fyrrum forseta þrátt fyrir sama eftirnafn. Það er líka vert að geta þess að þrátt fyrir flokksnafnið (Sósíalistaflokkurinn; Partido Socialista Brasileiro eða PSB) telst flokkur Campos nær því að vera krataflokkur en hefðbundinn sósíalistaflokkur. Flokkurinn er a.m.k. ekki jafn mikið til vinstri á pólitíska litrófinu eins og Verkamannaflokkur þeirra Rousseff og Lula (PT). PSB hefur þó staðið nærri PT og Campos studdi t.a.m. Rousseff sem forseta allt þar til hann ákvað sjálfur síðla árs 2013 að fara í forsetaframboð.

brazil-marina-silva-and-eduardo-campos.jpgÞað var í apríl s.l. (2014) að tilkynnt var að Marina Silva yrði varaforsetaefni Eduardo Campos og PSB. Með þessu skrefi sínu var Marina Silva að stíga eilítið til hægri frá því sem verið hafði - eftir að hafa áður verið innan Græningja og þar áður innan Verkamannaflokksins.

Þegar leið á sumarið 2014 virtist nokkuð augljóst að Marina Silva ætti vart nokkurn séns á að verða varaforseti. Af því að fylgi Campos mældist innan við 10% og hann langt að baki þeim tveimur efstu. Baráttan stóð á milli Rousseff og frambjóðenda miðhægrimanna (Partido da Social Democracia Brasileira eða PSDB); Aécio Neves. Reyndar var forskot Rousseff á Neves það mikið að langlíklegast var að hún myndi bera sígur úr bítum í kosningum haustsins.

En skjótt skipast veður í lofti. Að morgni miðvikudagsins 13. ágúst s.l., þegar minna en tveir mánuðir voru til kosninganna, var staðan sem sagt sú að allt benti til þess að Rousseff myndi sigra Neves í annarri umferð kosninganna. En nú gjörbreyttist staðan líkt og hendi væri veifað. Þegar forsetaframbjóðandinn Eduardo Campos fórst ásamt sex öðrum í flugslysi skammt frá Sao Paulo, þar sem hann var á kosningaferðalagi.

Mögnuð fylgissveifla

Fylgissveiflan sem varð í kjölfar þess að Eduardo Campos lést og Marina Silva var útnefnd sem forsetaframbjóðandi sósíalista í hans stað, var ótrúlega hröð. Einungis tveimur vikum eftir flugslysið hafði Silva jafnað fylgi Neves og var þar með komin í harða baráttu við hann og Rousseff um forsetaembættið. Fáeinum dögum síðar skautaði hún fram úr Neves. Og áður en varði hafði hún rúmlega þrefaldað það fylgi sem Campos hafði notið skömmu fyrir slysið!

brazil-marina-silva_eduardo_campos-funeral.jpg

Staðan snemma í september s.l. var sem sagt sú að Marina Silva var orðin á pari með Rousseff. Og enn hélt fylgið við Silva áfram að aukast. Fyrir um tíu dögum - þegar tæplega mánuður var til kosninganna - sögðu skoðanakannanir að þær Rousseff og Silva væru orðnar jafnar; hvor um sig með um 35% fylgi. Neves kom næstur með einungis um 20%. Og það sem meiru skipti; skoðanakannanir bentu nú ekki aðeins til þess að kosið yrði milli Rousseff og Silva í síðari umferð kosninganna, heldur að þar myndi Silva sigra! Og það bara nokkuð örugglega. Skoðanakannanir sögðu að Silva fengi um 48% atkvæða í síðari umferðinni, en Rousseff um 41%. 

Brazil-Marina-Silva-Campos-funeral-1

Þannig umpólaðist kosningabaráttan í Brasilíu á örskömmum tíma og er allt í einu orðin að einvígi milli Rousseff og Silva. En þrátt fyrir það að Silva næði nú forskoti er sigur hennar þó alls ekki í hendi. Kosningabaráttan hefur farið mjög harðnandi síðustu dagana og Rousseff virðist vera að endurheimta fylgi. Hún virðist nú aftur vera komin með afgerandi mest fylgi frambjóðendanna í fyrri umferð kosninganna; hefur þar um 37%, Silva er með 30% og Neves er nú með 17%. Í síðari umferðinni virðist sem þær Rousseff og Silva ætla að verða nánast hnífjafnar eða hvor um sig með um 45% atkvæða. Silva er reyndar með örlítið forskot, en það er innan óvissumarka. Síðustu dagana hefur Rosseff sem sagt verið að vinna á og kannski má segja að Silva hafi toppað aðeins of snemma. 

Ólæsa stelpan frá gúmmíekrunum í Amazon

brazil-marina-silva-young-bw.png

Verði Marina Silva kjörinn forseti Brasilíu gæti það haft veruleg áhrif á þróun orkumála í landinu. M.a. gæti þetta gjörbreytt áætlunum Brasilíu um stórfellda uppbyggingu nýrra vatnsaflsvirkjana í fljótunum sem renna um Amazonskóginn. Því Silva er alfarið á móti slíkum virkjunum í Amazon.

Silva reis úr sárustu fátækt til æðstu metorða í brasilískum stjórnmálum. Hún er fædd 1958 og ólst upp ásamt tíu systkinum sínum djúpt inni á Amazonsvæðinu í afskekktasta horni Brasilíu. Hún er af afrísku bergi brotin og þó svo hún sé einnig með portúgölsk gen og jafnvel líka brasilískt indjánablóð í æðum skilgreinir Silva sig sem blökkukonu.

Lífsviðurværi fjölskyldunnar var að tappa gúmmíi af gúmmítrjám og lítil tækifæri voru til skólagöngu. Enda lærði Marína ekki að lesa fyrr en á unglingsárum eftir að báðir foreldrar hennar voru látnir. Sextán ára munaðarleysinginn fékk skjól hjá nunnum í höfuðstað fylkisins (Rio Branco í Acrefylki). Þar hlaut hún lestrarkennslu og fékk líka lækningu við bæði malaríu og lifrarbólgu sem hrjáði hana í æsku.

Umhverfisvernd og barátta gegn skógeyðingu

Jafnskjótt og Marína komst í skóla sýndi hún bæði greind og frumkvæði. Hún nam sagnfræði í Acreháskóla og til að gera langa sögu stutta þá varð Silva brátt virkur þátttakandi í verkalýðsbaráttu í Acrefylki. Þar var hún í fararbroddi mótmælenda gegn skógeyðingu á svæðinu. Skógarhögg og landbúnaður hefur leitt til stórfelldrar skógeyðingar á Amasonsvæðinu og sú þróun hefur bersýnilega mótað mjög umhverfisvitund og stjórnmálaskoðanir Marínu.

Brazil-Amazon-Deforestation

Barátta þessa einlægi umhverfisverndarsinna fór fram við aðstæður sem eru afar ólíkar þeim kurteisislega ágreiningi um umhverfismál sem við eigum að venjast hér í velferðinni í norðri. Í Brasilíu á þessum tíma var alþekkt að fólk í forsvari umhverfisverndarbaráttu á Amazonsvæðinu væri barið til óbóta og jafnvel myrt með köldu blóði. Það urðu t.a.m. örlög eins nánasta samstarfsmanns Silva á þessum árum; Chico Mendez

Pólitísk afstkipti Marínu Silva urðu sífellt meiri og árið 1994 var hún í fyrsta sinn kjörin á þjóðþing Brasilíu. Þar var hún frambjóðandi brasilíska Verkamannaflokksins (Partido dos Trabalhadores eða PT). Minnt skal á að það er einmitt flokkurinn sem nú hefur verið við völd í Brasilíu í rúmlega áratug og Dilma Rousseff leiðir. Þar komst Silva til verulegra áhrifa, sem náðu hámarki þegar Lula útnefndi hana umhverfisráðherra í ríkisstjórn sinni árið 2003.

Umhverfisráðherra eins fjölmennasta og stærsta ríkis í heimi

brazil-marina-silva-lula-kiss.jpgÞarna tæplega fimmtug var Marina Silva sem sagt orðin umhverfisráðherra Brasilíu. Þar bauðst henni áhugavert tækifæri til að vinna að stefnu sinni um aukna umhverfisvernd og þá einkum verndun skóglendis í Amazon. En þegar á leið ofbauð henni virkjanaáætlanir ríkisstjórnarinnar á Amazonsvæðinu. Hún var líka ósátt við áætlun stjórnarinnar um stórfelldar áveituframkvæmdir, þar sem vatn úr Sao Franciscofljóti skyldi nýtt til umfangsmikillar vökvunar á landbúnaðarsvæðum. Svo fór að Silva sagði af sér ráðherradómi árið 2008 og ári síðar sagði hún svo skilið við Lula og PT og gekk til liðs við flokk græningja.

Eins og fram kom hér að ofan var Silva forsetaframbjóðandi græningja forsetakosningunum í Brasilíu árið 2010 og hlaut þar talsvert fylgi. Hún varð í þriðja sæti með rétt tæplega 20% atkvæða. Þessi góði árangur hennar varð til þess að frambjóðandi PT, Dilma Rousseff, náði ekki nægjanlega mörgum atkvæðum í fyrri umferð kosninganna til að sigra strax þá - en hún sigraði svo í annarri umferðinni eins og áður var nefnt.

brazil-marina-silva-rubber-tree.jpg

Góður árangur Silva í forsetakjörinu 2010 olli því að áratugalöng barátta hennar fyrir verndun skóglendis í Brasilíu komst nú í kastljós heimspressunnar. Um leið varð hún skyndilega alþjóðlega þekkt sem einn helsti leiðtogi Græningjahreyfingarinnar. Hún hlaut fjölmargar viðurkenningar og var m.a. tilnefnd sem einn af hundrað helstu hugsuðum heimsins (100 Top Global Thinkers). Minna var talað um nokkuð sérkennilegar trúarskoðanir hennar og ansið þröngsýn viðhorf gagnvart t.d. samkynhneigð og fóstureyðingum.

Óvænt forsetaframboð með skömmum fyrirvara

Eins og áður sagði var ekki á dagskrá að Marina Silva yrði í forsetaframboði í ár. En örlögin hafa orðið til þess að nú eru um helmingslíkur á því að bláfátæka og ólæsa stelpan frá Amazon verði kjörinn forseti Brasilíu; eins fjölmennasta ríki heimsins. Þar með yrði Silva fyrsti blökkumaðurinn á þeim valdastóli og líka fyrsti Brasilíumaðurinn af Amazonsvæðinu sem yrði forseti Brasilíu.

brazil-marina-silva-reporters.jpg

Það er óneitanlega athyglisvert að þegar fylgi Marínu Silva rauk upp nú síðsumars og fylgi Rousseff dalaði reyndist það hafa þau áhrif að traustið á efnahag Brasilíu jókst. A.m.k. hækkuðu hlutabréf þar almennt í verði og brasilíski gjaldmiðillinn styrktist gegn bandaríkjadal.

Í þessu sambandi er líka athyglisvert að leiðtogar brasilísku risasamsteypunnar Itaúsa hafa lýst yfir stuðningi við Silva. Itaúsa er risastórt einkafyrirtæki, sem er m.a. í bankarekstri, fasteignarekstri og rekur mörg geysistór iðnfyrirtæki. Samsteypan veltir nú um 5 milljörðum USD árlega og er meðal mikilvægustu fyrirtækjanna á brasilískum fjármálamarkaði. Það er sem sagt svo að markaðsöflin virðast fremur vilja umhverfisverndarsinnan Marínu Silva sem forseta Brasilíu heldur en Rousseff.

brazil_dilma-rousseff-finger.jpg

Það er vissulega svo að Dilma Rousseff á sér afar róttæka fortíð (hún var áður maóisti og var fangelsuð og pyntuð á dögum brasilísku herforingjastjórnarinnar). Og flokkur hennar, brasilíski verkamannaflokkurinn, skilgreinir sig afgerandi sem vinstriflokk verkalýðsins. Pólitíkin sem flokkurinn hefur staðið fyrir undanfarin áratug er þó vart nein gallhörð vinstripólitík.

Óánægja meðal almennings og fyrirtækjaeigenda með Rousseff kemur til vegna þess að fólk hefur áhyggjur af stöðnun í efnahagslífinu og spillingu í stjórnkerfinu. Rousseff þykir af mörgum - með réttu eður ei - vera orðin táknmynd fyrir spillingaröfl og henni er kennt um efnahagsstöðnunina.

Brazil-Rousseff-Petrobras

Þetta tvennt - ásakanir um spillingu og stöðnun - tvinnast saman í olíurisanum Petrobras. Félagið er að meirihluta í eigu brasilíska ríkisins og auk grafalvarlegra spillingarmála innan fyrirtækisins hefur Petrobras ekki gengið alltof vel að skila olíu á land. Þetta vinnur gegn Rousseff og er ein skýring þess að Marina Silva nýtur nú mikils stuðnings hjá bæði almenningi og einkageiranum. Silva þykir af mörgum boða nauðsynlegar umbætur og breytingar sem muni bæði að skapa ný störf og að losa um stirðnaðan ríkisrekstur. 

Þó skal minnt á, að það er alls ekki útilokað að Rousseff nái endurkjöri. Hún nýtur ennþá mikils fylgis meðal kjósenda og nú síðustu dagana hamrar hún á því að ef Silva nái kjöri verði hinir ríku ennþá ríkari og hinir fátæku ennþá fátækari - og að Silva skorti reynslu og sambönd til að geta tekist á við forsetaembættið. Á móti kemur að almenningur hefur einmitt hrifist af því hversu sjálfstæð Marína Silva er og virðist gjörsamlega laus við nokkuð sem kalla má spillingu í fortíð sinni.

Verður fátæka blökkustelpan tákn um grænan markaðssigur í Brasilíu? 

Brazil-Marina-Silva-in-Rio-de-Janeiro

Orkugeirinn í Brasilíu er ennþá að stærstum hluta á hendi ríkisins. Silva er ekki boðberi einkavæðingar, en hefur lagt áherslu á að bæta þurfi rekstur Petrobras og hreinsa þar til í yfirstjórninni. Hún vill líka minnka áhersluna á jarðefnaeldsneyti og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Sérstaklega hvetur hún til meiri etanólframleiðslu. Með þessu síðastnefnda hefur hún sennilega náð að höfða til brasilískra bænda og leiðtoga þeirra. Ekki veitir af í hnífjafnri keppninni um forsetaembættið - það er jú svo að langvarandi barátta Silva gegn skógeyðingu hafði leitt til þess að áður fyrr var fáum jafn illa við hana eins og brasilískum bændum. 

brazil-marina-silva-flag.jpgOft hefur verið sagt að Brasilía sé land framtíðarinnar - en líka að hætt sé við því að svo muni verða um alla framtíð! En bæði fólk og fyrirtæki virðast nú sjá hina 56 ára blökkukonu Marinu Silva sem mikilvægan boðbera ferskra vinda í brasilískum stjórnmálum og brasilísku efnahagslífi. Sjálf segir hún að ef hún nái kjöri verði hún fyrsti græni forseti þjóðríkis í heiminum og að það muni hafa mikla þýðingu.

Það kemur svo í ljós í október hvort það verður Silva eða Rousseff sem leiðir brasilísku þjóðina næstu fjögur árin. En hvor svo sem sigrar - Silva eða Rousseff - er athyglisvert að sjá tvær konur berjast um forsetaembættið í þessu risastóra landi, sem ekki er beinlínis þekkt fyrir jafnrétti eða sterka stöðu kvenna. Við hljótum því að geta leyft okkur að líta á þessar forsetakosningar sem jákvætt skref fyrir hagsmuna- og jafnréttisbaráttu kvenna í Brasilíu. Hvort þetta muni hafa mikil samfélagsleg áhrif í þessu risastóra og fjölmenna landi verður tíminn að leiða í ljós. Góða helgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband