Orkusóðar?

Það er opinbert. Það er staðfest. Ísland er það land heimsins sem notar mesta orku. Miðað við fólksfjölda að sjálfsögðu.

Energy-Use-per-capita-2011-2Við vorum þarna lengst af „eftirbátar“ olíu- og gasríkjanna við Persaflóa, eins og Katar, Kuwait og Abu Dhabi. Og við vorum líka lengi vel í harðri „samkeppni“ við olíu- og gaslöndin Brunei og Trinidad & Tobago. En nú erum við búin að ná efsta sætinu! Engin þjóð notar jafn mikið af orku eins og Íslendingar. Þá eru auk okkar Mörlanda meðtalin orkunotkun fyrirtækjanna hér. Þannig fæst heildarorkunotkun landsins.

Fróðlegt er að velta fyrir sér ástæðum þess að við notum svo mikla orku. Þá er fyrst að nefna að við eigum það sameiginlegt með hinum ríkjunum sem þarna eru efst á listanum, að geta nýtt eigin orkugjafa til að uppfylla raforkuþörf okkur. Með raforkuþörf okkar er líka átt við þá raforku sem fer til stóriðju sem hér er og sækir í lágt raforkuverð. 

Energy-Use-per-capita-2011-3Öll umrædd ríki eiga það einmitt sameiginlegt að reyna að koma orku sinni í verð með raforkusölu til álvera. Enda eru þetta allt lönd sem búa yfir geysimiklum orkulindum, en orkan er að miklu leyti strönduð. Þ.e. flókið og kostnaðarsamt að selja orkuna annað en innanlands. Í tilviki hinna ríkjanna er að vísu einfalt að flytja út olíu. En annað gildir um jarðgasið - rétt eins og vatnsaflið og jarðvarmann hér á landi. Þetta er að stærstu leyti strönduð orka. Og þetta er ein skýring þess af hverju einmitt þessi umræddu lönd eru þarna efst á lista.

Þó svo við eigum það sameiginlegt með löndunum við Persaflóa og Brunei og Trinidad & Tobago að vera með strandaða orku, þá er samsetning orkulinda okkar reyndar með allt öðrum hætti en hinna umræddu landanna. Í okkar tilviki kemur jú svo til öll raforkan frá endurnýjanlegum náttúruauðlindum. En hin löndin knýja raforkuframleiðslu sína með bruna á jarðefnaeldsneyti.

Energy-Use-per-capita-2011-1Í okkar tilviki þurfum við aftur á móti að flytja inn svo til alla þá orku sem knýr bílaflotann ásamt skipum og flugvélum. Áðurnefnd olíu- og gasríki geta að stóru leyti og jafnvel öllu uppfyllt þá þörf með eigin orkugjöfum. Þess vegna virðist óneitanlega afar eðlilegt að t.d. Persaflóaríkin séu mjög hátt á listanum yfir mestu orkunotendurna per capita. Og kemur kannski svolítið á óvart að við skulum nota svo mikla orku sem raun ber vitni - við sem þurfum jú að kaupa allt jarðefnaeldsneytið dýru verði erlendis fá.

Energy-Use-per-capita-2011-4Í þessu sambandi er reyndar athyglisvert að Norðmenn eru langt á eftir okkur í orkunotkun. Þeir með allt sitt vatnsafl, jarðgas og olíu ættu að vera sjálfsagður kandídat í að vera mesti orkunotandi veraldar. Kannski er ein helsta ástæða þess að við erum þarna nokkuð langt fyrir ofan Norðmenn á listanum, að við erum með hlutfallslega geysistóran fiskiskipaflota. Stærsti áhrifaþátturinn er þó eflaust sá hversu áliðnaðurinn hér er hlutfallslega gríðarlega stór (notar um 75% allrar raforkunnar).

Staðreyndin er sú að við Íslendingar notum geysimikla orku. Og mjög stór hluti orkunnar kemur frá endurnýjanlegum auðlindum - sem hlýtur að teljast mjög gott. Engu að síður má spyrja hvort við séum  orkusóðar? Í einhverjum skilningi þess orðs. 

Höfum líka í huga að við erum ekki bara mestu orkunotendur heimsins, heldur líka mestu raforkunotendurnir. Miðað við stærð orkuauðlinda okkar og umfang orkuvinnslunnar hér skilar orkuframleiðslan okkar litlum arði (t.d. ekkert í líkingu við það sem er hjá Norðmönnum). Það er áleitin spurning hvort við séum ánægð með það ástand? Eða hvort við viljum huga meira og betur að orkusparnaði og/eða að hagkvæmni og arðsemi í orkuframleiðslunni okkar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Getur ekki hugsast að við framleiðum mest ál per íbúa og við erum ef til vill með stærsta fiskiskipaflota miðað við fólksfjölda og það að við búum á eyju þar sem allur vöru og fólksflutningur til og frá landinu fer annaðhvort fram með skipum eða flugi?  Ég er nokkuð viss um að þar liggur eyðsla okkar á orku en ekki í því að persónuleg notkun okkar á orku sé meiri en í viðmiðunarlöndum.

Kjartan Sigurgeirsson, 14.11.2014 kl. 22:23

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

"Engu að síður má spyrja hvort við séum  orkusóðar? Í einhverjum skilningi þess orðs".

Ketill, ég átta mig ekki á í hvaða skilningi hægt sé að nota orðið orkusóðar um okkur Íslendinga.

Ágúst H Bjarnason, 15.11.2014 kl. 08:40

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Kjartan; þetta spilar held ég allt saman. Hlutfallslega gríðarmikil álframleiðsla hér skiptir þarna væntanlega mestu, því álbræðsla er jú einhver orkufrekasti iðnaður sem þekkist. Svo er það vafalitið fiskiskipaflotinn. Og mikil bílaeign og dreifbýlt land og litlar almenningssamgöngur. Og einangrað land, sem þýðir miklir skipaflutningar og flugfeðir í millilandaflutningum.

Forvitnilegt væri að sjá samanburð á orkunotkun heimila í mismunandi löndum. Slíkur samanburður er mögulega aðgengilegur á netinu. 

Ketill Sigurjónsson, 15.11.2014 kl. 11:10

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ágúst; ég hef stundum heyrt fólk segja að við séum orkusóðar af því við spörum ekki við okkur rafmagn eða hita (enda orkuverðið afar lágt). Svo og af því við eigum kannski sum óþarflega marga og stóra bíla. Ekki að ég sé sérstaklega að taka undir þetta - en samt kannski eitthvað til í þessu.

Ketill Sigurjónsson, 15.11.2014 kl. 11:11

5 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Þetta er forvitnileg hugmynd að bera saman orkunotkun heimila í umhverfi okkar. það er sennilega nokkuð til í því að við berum ekki næga virðingu fyrir raforkunni, við eigum nóg af henni og fáum hana fyrir lítið.  Hús á Íslandi eru almennt vel byggð, og einangruð í það minnsta á við hús í öðrum löndum, þannig að til húshitunar fer sennilega minni orka en hjá þjóðum sem búa við svipað hitastig okkar.  Ég hef þá trú að orkuneysla okkar í samgöngum ráðist að einhverju leiti af því að hvergi á byggðu bóli er jafn stutt á milli umferðarljósa og í Reykjavík. Það mætti örugglega spara talsverða orku með því að koma á jöfnu og hnökralausu flæði umferðar.

Kjartan Sigurgeirsson, 15.11.2014 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband