Tífalt hærra verð?

Hátæknifyrirtækið ABB segir að tæknilega sé unnt að leggja rafstreng milli Íslands og Evrópu. Bresk stjórnvöld greiða nýjum vindorkuverum utan við bresku ströndina um og yfir 180 USD/MWst. Í því skyni að fá aðgang að meiri raforku og um leið til að auka hlutfall grænnar raforku. Gallinn er bara sá að vindurinn blæs ekki alltaf við eða á Bretlandi. Sem dæmi má nefna, þá var nýting breskra vindorkuvera að morgni 4. október s.l. nánast engin eða vel innan við 1%.

UK-Wind_Sept-Oct-2015Þennan morgun framleiddu bresk vindorkuver, með samtals afl upp á rúmlega 9.000 MW, raforku sem samsvarar einungis um 66 MW aflstöð. Það var sem sagt dauðalogn um svo til allt Bretland og meira að segja utan við ströndina (viðmiðunin 9.000 MW er uppfærð tala miðuð við skilgreiningar Clive Best, en í reynd er afl breskra vindrafstöðva ennþá meira eða rúmlega 13.000 MW) .

UK-Wind-OffshoreRisavaxin fjárfesting í breskri vindorku er því að skila afar óáreiðanlegri orkuframleiðslu. Þess vegna yrði það kærkomið fyrir Breta að eiga aðgang að sæstreng - sem gæti skilað þeim þó ekki væri nema nokkur hundruð MW.

Íslensk raforka er sem sagt miklu betri kostur en bresk vindorka - bæði ódýrari og áreiðanlegri kostur. Þess vegna er líklegt að bresk stjórnvöld kunni að vera tilbúin að kosta miklu til fyrir sæstreng og kaup á íslenskri raforku.

Slík viðskipti gætu skapað okkur Íslendingum einstakt tækifæri til stóraukinnar arðsemi af raforkuframleiðslunni hér. Vegna þess að sterk rök eru fyrir því að íslenska raforkan yrði verðlögð á bilinu 80-120 USD/MWst. Tregða íslenskra stjórnvalda til að ræða þessi mál við bresk stjórnvöld er afar sérkennileg. En kannski gefst tækifæri til að taka skref í átt að slíkum viðræðum, þegar forsætisráðherra Bretlands kemur til Íslands nú í vikunni? Það hlýtur a.m.k. að vera áhugavert fyrir íslensk stjórnvöld að kanna nánar áhuga Breta á því að kaupa héðan raforku - á verði sem gæti verið u.þ.b. tíu sinnum hærra en t.d. Century Aluminum (Norðurál) og Alcoa (Fjarðaál) eru að greiða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ein helsta breytan um úrslit seinni heimstyrjaldarinnar var að í bandaríkjunum voru iðnfyrirtækin með að kalla má ótakmarkaðan aðgang að ódýrari og oft gefins orku. Í BNA voru fyrirtæki og fólk með þekkingu og aðgang að auðlindum sem breytti gangi stríðsins.

Þessi kapall til Bretlands færir fyrirtæki og fólk með þekkingu og aðgang að auðlindum frá íslandi til Bretlands. þess vegna er svona mikill áhugi á þessu hjá sæmilega upplýstum brskum stjórnmálamönnum en enginn hjá þessum íslensku.

Guðmundur Jónsson, 27.10.2015 kl. 10:20

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Skv. ofangreindri athugasemd myndi kapall milli Íslands og Bretlands færa fyrirtæki og fólk með þekkingu og aðgang að auðlindum frá Íslandi til Bretlands. Það væri áhugvert að þú skýrðir þetta nánar, Guðmundur. 

Ketill Sigurjónsson, 27.10.2015 kl. 12:01

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Nánar!!  þetta er stórt orsakasamhengi sem maður útskýrir ekki í stuttri ath. Dæmið frá seinna stríði var leið framhjá því.

Guðmundur Jónsson, 27.10.2015 kl. 12:38

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Merkir þetta að þú, Guðmundur, treystir þér ekki til að útskýra af hverju kapall milli Íslands og Bretlands myndi færa fyrirtæki og fólk með þekkingu og aðgang að auðlindum frá Íslandi til Bretlands?

Ketill Sigurjónsson, 27.10.2015 kl. 18:57

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar litið er á arð af stóriðju, má ekki eingöngu líta á arðsemi raforkusölunnar. Fyrirtækið Landsvirkjun hefur vissulega skyldu að gegna gangvart eiganda sínum, þ.e. að arðsemi sé af raforkusölunni og arðsemin er vissulega fyrir hendi, þó ýmsir gagnrýni að sú arðsemi megi vera meiri.

En LV hefur líka samfélagslegri skyldu að gegna og sala á raforku til afskekktra byggða er t.d. ekki arðbær m.t.t. flutningskostnaðar og niðurgreiðslna vegna húshitunar. Sömuleiðis er raforkusala til heimila ekki mjög arðbær í okkar stóra og dreifbýla landi. En við eigendur LV, högnumst samt á lágu raforkuverði.

Ef tekin er heildar arðsemi þjóðarbúsins af starfsemi Alcoa í Reyðarfirði sjáum við að fyrirtækið aflað þjóðarbúinu tæpra 200 milljarða króna frá árinu 2008, þar af um 33 milljarða á síðasta ári, í formi skatta og opinberra gjalda, launa, innkaupa frá innlendum birgjum á vöru og þjónustu auk samfélagsstyrkja. Skattar og opinber gjöld námu 1,5 milljarði króna 2013 og frá 2007 hefur Alcoa greitt tæpa níu milljarða í skatta hér á landi.

Við þurfum að skoða arðsemina út frá heildar dæminu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2015 kl. 00:21

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar við horfum á arð af sölu raforku um sæstreng til útlanda, megum við ekki einblína á þær krónur sem koma inn vegna þess, heldur einnig skoða hvaða tekjum við verðum af með því að nýta ekki orkuna innanlands. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2015 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband