Bankamenn í hlutverki Fáfnisbana?

Íslenskir lífeyrissjóðir eru meðal stærstu fjárfestanna í Fáfni Offshore. Sem er íslenskt fyrirtæki sem á þjónustuskipið Polarsyssel. Þetta mikla skip er s.k. Platform Supply Vessel (PSV) og er sérhannað til að þjónusta olíuborpalla á Norðurslóðum. En er nú í þjónustu fyrir Sýslumannsembættið á Svalbarða.

Nýverið hafði DV samband við Orkubloggarann, þar sem m.a. var spurt út í stöðu Fáfnis (sbr. þessi frétt). Í framhaldi af því tók ég mig til og skoðaði betur það sem er að gerast hjá Fáfni - og kom þá ýmislegt athyglisvert í ljós.

Hér verður sjónum beint að því sérkennilega ástandi sem nú er uppi hjá þessu unga fyrirtæki; Fáfni Offshore. Ástandinu má í hnotskurn lýsa þannig að með óskynsamlegum eða kæruleysislegum aðgerðum stjórnar fyrirtækisins sé mikilvægum viðskiptasamningi þess nú stefnt í hættu. Afleiðingin gæti orðið sú að fótunum yrði kippt undan rekstrargrundvelli félagsins. Þá myndu hluthafarnir einfaldlega tapa mestu af fjárfestingu sinni, en þar eru íslenskir lífeyrissjóðir með mest undir. Það er því afar mikilvægt af stjórn fyrirtækisins átti sig á stöðu mála og einbeiti sér að því að koma þarna í veg fyrir bruna á verðmætum.

Einkennileg feimni um hluthafahópinn

Þarna er um mikla fjárhagslega hagsmuni að ræða. Af fréttum má ráða að heildareign lífeyrissjóðanna í Fáfni Offshore nemi um helmingi hlutafjár. Og að fjárfesting þeirra sé nálægt 2.000 milljónum króna (þ.e. hlutafjárframlag lífeyrissjóðanna eingöngu). Auk hlutafjárins er fyrirtækið fjármagnað með stórum bankalánum.

Svalbard-Longyearbyen-harbourÞegar Orkubloggarinn grennslaðist fyrir um nánari upplýsingar og sundurliðun á eign lífeyrissjóðanna í fyrirtækinu, fékk hann reyndar þau svör að það væri trúnaðarmál. Það eitt og sér að svona fjárfestingar lífeyrissjóða séu trúnaðarmál - eða öllu heldur leyndarmál - er reyndar nokkuð sérkennilegt.

Öllu alvarlegra er þó að lífeyrissjóðirnir - eða réttara sagt stjórn Fáfnis sem hlýtur að starfa m.a. í umboði lífeyrissjóðanna - virðist á góðri leið með að klúðra fjárfestingunni. Því mikið uppnám er nú í Fáfni Offshore. Og ekki verður betur séð en að talsverð hætta sé á að félagið kunni að missa af mikilvægum samningi við sýslumanninn á Svalbarða. Ef það gerist er hætt við að félagið lendi brátt í greiðsluþroti og/eða að stærsti lánveitandi þess muni gjaldfella milljarðalán sitt og miklir fjármunir tapist.

Afar mikilvægur samningur við sýslumanninn á Svalbarða

Hið glæsilega skip Fáfnis Offshore, Polarsyssel, er sérhannað til að þjónusta olíuiðnað á Norðurslóðum. Skipinu var þó strax ráðstafað til annarra verkefna. Gerður var samningur við Sýslumannsembættið á Svalbarða og er skipið þar í vinnu í sex mánuði á ári. Samningurinn sá er til sex ára frá og með 2014, með mögulegri framlengingu í allt að fjögur ár í viðbót (tvisvar sinnum tvö ár). Sem sagt allt fram á 2024.

Polarsyssel-helicopter-fafnir-offshoreÞessi samningur við sýslumanninn á Svalbarða reyndist mikill happafengur fyrir Fáfni Offshore. Því um sama leiti og skipið var sjósett fyrir rúmu ári síðan, hrundi olíuverð. Og þjónustuskip af þessu tagi urðu hvert af öðru verkefnalaus. Hér á Orkublogginu var einmitt fjallað um Fáfni og Polarsyssel fyrir nánast sléttu ári. Þar sagði m.a. eftirfarandi:

Samkvæmt nýlegu áliti ráðgjafafyrirtækisins IHS er búist við umtalsverðu offramboði af þjónustuskipum af þessu tagi á næstu árum. IHS segir að eftir nokkurra ára tímabil þar sem gott jafnvægi var í framboði og eftirspurn, bendi pantanir og staða hjá skipasmíðastöðvum núna til þess að mjög fjölgi í PSV-skipaflotanum á næstu árum. Og það mun hraðar en nemi aukningu í eftirspurn eftir þjónustu skipanna. Þetta gæti verið áhyggjuefni fyrir Fáfni Offshore, sem er jú að byrja í bransanum. Hér má líka hafa í huga að hratt lækkandi olíuverð síðustu mánuði hefur dregið verulega úr eftirspurn eftir þjónustu svona skipa.

Viðbótarsamningurinn gæti bjargað fyrirtækinu

Þessar áhyggjur Orkubloggarans síðla árs 2014 reyndust sannarlega á rökum reistar. Auk mikils framboðs af þessum skipum, hefur olíuverðlækkunin orðið mjög djúp og olíufyrirtæki snarlega dregið úr verkefnum sínum; þ.á m. verkefnum á landgrunninu. Saman skapar þetta hrikalegan vanda fyrir flest þau fyrirtæki sem gera út þjónustuskip af þessu tagi. Eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur snarminnkað og stór hluti þessara skipa eru nú verkefnalaus og liggja bundin við bryggju. Og alls ekki bjart framundan í þessum bransa næstu misserin.

Svalbard-Arctic-mapÞað var því augljóslega mikil gæfa fyrir Fáfni Offshore að hafa náð að landa áðurnefndum langtímasamningi við sýslumanninn á Svalbarða. Það má án efa fyrst og fremst þakka frumkvöðlinum að baki fyrirtækinu, Steingrími Erlingssyni. Sem tókst að ná þeim samningi þrátt fyrir mikla þekkingu Norðmanna sjálfra á þessari þjónustu og fjölmörg norsk fyrirtæki sem hana bjóða. Það að Íslendingur skuli hafa náð þessum samningi á Svalbarða má reyndar teljast viðskiptalegt afrek.

Sennilega og reyndar örugglega er þó slík sex mánaða árleg vinna fyrir sýslumannsembættið þar í norðri ekki nóg til að tryggja jákvæðan rekstur Polarsyssel. Þess vegna hefur samdrátturinn á hinum almenna markaði með svona skip (þ.e. spot-markaði PSV) örugglega skapað Fáfni mikinn vanda. Þ.e. verið mjög erfitt að finna skipinu verkefni hinn helming ársins sem það er ekki í þjónustunni á Svalbarða.

Það hljóta því að hafa verið sannkölluð gleðitíðindi fyrir hluthafa fyrirtækisins, þ.á m. íslensku lífeyrissjóðina sem þarna eiga mjög stóran hlut, þegar framkvæmdastjóri Fáfnis landaði nýjum samningi við sýslumanninn á Svalbarða nú í haust sem leið (2015). Skv. fréttum felur sá samningur það í sér, að héðan í frá, þ.e. frá og með 2016, verður Polarsyssel í verkefnum þarna í norðri í 9 mánuði á ári (í stað 6 mánaða). Þar með eru góðar horfur á því að rekstur Polarsyssel sé að komast í var, á þessum miklu óveðurstímum í bransanum. M.ö.o. þá er þessi nýi samningur félaginu bersýnilega afar mikilvægur á þessum erfiðu tímum.

Stofnandi fyrirtækisins lykilmaður en vissulega umdeildur

Samkvæmt heimildum Orkubloggarans úr norsku stjórnsýslunni er þessi nýi samningur þó ekki alveg skotheldur ennþá. Því þó svo kveðið hafi verið á um fjárframlag til sýslumannsembættisins á Svalbarða í norska fjárlagafrumvarpinu, vegna 9 mánaða leigu, virðist nú raunveruleg hætta á því að samningurinn falli niður. Vegna hinnar óvæntu nýlegu ákvörðunar stjórnar Fáfnis að segja framkvæmdastjóranum, Steingrími Erlingssyni, fyrirvaralaust upp störfum og skilja fyrirtækið eftir án hæfs leiðtoga og með afar óljós markmið um framtíðina. 

Samkvæmt upplýsingum úr norsku stjórnsýslunni er nokkuð skýrt skilyrði eða fyrirvari í samningi Fáfnis við sýslumanninn á Svalbarða, sem veldur því að umrædd uppsögn og órói í yfirstjórn Fáfnis heimili sýslumanninum að rifta samningnum. Ef honum sýnist svo. Og á því virðist raunveruleg hætta.

Steingrimur-Erlingsson_Fafnir-OffshoreSamkvæmt heimildum Orkubloggarans er mikill persónulegur velvilji í garð Steingríms hjá Norðmönnunum sem þekkja til Polarsyssel. Og að ánægja hafi verið á Svalbarða með samstarfið við hann - og þar hafi uppsögnin bæði verið óvænt og vakið undrun.

Eðlilega tjáir þó sýslumaðurinn á Svalbarða sig ekki um þetta opinberlega, enda um að ræða innanhúsmál hjá Fáfni. En það sem er alvarlegt í málinu er sem sagt það að nú eru skyndilega komnar upp aðstæður sem valda því að mögulegt er að sýslumaðurinn á Svalbarða muni nýta samningsbundna heimild sína til að rifta samningnum við Fáfni Offshore. Og/eða jafnvel yfirtaka rekstur Polarsyssel í samstarfi við stærsta kröfuhafann, sem er norsk lánastofnun í eigu norska ríkisins (Eksportkreditt Norge).

Rekstur á svona skipi sem Polarsyssel er, er vel að merkja ansið flókinn. Og ekki á færi annarra en þaulvanra manna í útgerð, með góða þekkingu og skilning á landfræðilegum og félagslegum aðstæðum á Norðurhjara, að geta leyst úr þeim margvíslegu óvæntu vandamálum sem upp geta komið í rekstri svona skips þarna lengst í norðri. Með uppsögn framkvæmdastjórans virðist afar sennilegt að ekki sé lengur nauðsynleg sérþekking innan Fáfnis Offshore til að geta rekið skipið snurðulaust.

Fafnir-Offshore_Polaryssel-in-SvalbardTitringurinn hjá félaginu núna hefur því gert ýmsa í norska stjórnkerfinu bæði undrandi og nokkuð órólega. Og það er athyglisvert að skv. heimasíðu Fáfnis er ekki að sjá að nýr framkvæmdastjóri sé þar kominn til starfa.

Tekið skal fram að Orkubloggarinn þekkir vel til þess að Steingrímur Erlingsson er umdeildur maður og ekki öllum sem þykir hann lipur í samskiptum. En það kemur mjög á óvart og er eiginlega með ólíkindum að hann skuli hafa verið rekinn frá Fáfni núna - á þessum viðkvæma tímapunkti - og það meira að segja án þess að nýr og hæfur maður kæmi í hans stað hjá fyrirtækinu. Þarna hlýtur líka að skipta miklu að með því að segja framkvæmdastjóranum upp störfum er hætt við að trúnaðarsamband Fáfnis við sýslumanninn á Svalbarða hafi rofnað - og nýja samningnum við sýslumanninn þar með mögulega stefnt í uppnám. Þessi staða mun varla hjálpa fyrirtækinu í þeim ólgusjó sem það nú er statt í.

Nýja samningnum stefnt í voða

Það þarf auðvitað ekki að vera að uppsögn framkvæmdastjórans þarna sé eitthvert aðalatriði. Kannski kemur þarna maður í manns stað. En það getur varla verið traustvekjandi fyrir t.a.m. stærstu eigendurna í Fáfni (þ.e. lífeyrissjóðina), né fyrir hinn mikilvæga viðskiptavin (sýslumanninn á Svalbarða), að þarna skuli ekki nýr og hæfur stjórnandi hafa verið strax til taks þegar framkvæmdastjóranum var sagt upp störfum. Og ef til þess kæmi að sýslumaður rifti samningnum við Fáfni núna, vegna vandræðanna í yfirstjórn fyrirtækisins, myndi það sennilega leiða til þess að Fáfnir Offshore færi í gjaldþrot. Með hliðsjón af þessari áhættu, þá lítur brottrekstur framkvæmdastjórans út sem hreinn og klár afleikur hjá stjórninni. A.m.k. er afar erfitt að sjá að félagið standi betur eða sterkara að vígi eftir þann gjörning!

Polarsyssel-in-SeasEf til þess kemur að sýslumaðurinn á Svalbarða rifti samningnum myndi þó slík aðgerð varla eiga sér stað nema í einhvers konar samráði við stærsta lánveitandann (kröfuhafann). Sem er áðurnefnt Eksportkreditt.

Hagsmunir þessa stærsta lánveitanda fyrirtækisins eru sennilega þokkalega tryggir - vegna fyrsta veðréttar í Polarsyssel. Vegna verðfalls á þessum markaði er að vísu hætt við að Eksportkreditt myndi þarna tapa einhverjum fjármunum. En tapið yrði þó fyrst og fremst hjá sjálfum hluthöfunum. Og þar myndu lífeyrissjóðirnir íslensku verða fyrir stærsta högginu. Það hlýtur því að skipta þá algeru höfuðmáli að þarna verði forðast að brenna verðmæti og reynt að tryggja sem farsælasta niðurstöðu.

Að auki er svo hætt við miklu tapi hjá þeim íslenska banka sem tók þátt í fjármögnuninni. Fyrir Íslandsbanka hlýtur því einnig að skipta miklu að vandað sé til verka og að forðast verði að verðmæti fari þarna forgörðum. Taka má fram að fjármögnunin á Polarsyssel fól í sér fyrsta sambankalán íslenskra banka með Eksportkreditt eftir hrun. Það væru varla meðmæli með nýja endurreista íslenska bankakerfinu ef þarna tekst illa til.

Lífeyrissjóðir með Svarta-Pétur

Þetta er allt hið undarlegasta mál. Samkvæmt fjölmiðlum á áðurnefndur Steingrímur um fimmtungshlut í fyrirtækinu. Og skv. heimildum Orkubloggarans eiga lífeyrissjóðirnir mjög stóran hlut í fyrirtækinu. Það er þó reyndar ekki alveg svona einfalt - því eignarhlutir lífeyrissjóðanna í Fáfni eru í gegnum tvo sjóði sem starfræktir eru af fyrirtækjum í eigu Íslandsbanka og Landsbankans. Fyrir vikið er valdið í stjórn Fáfnis Offshore ekki hjá lífeyrissjóðunum (sem þó samanlagt eiga þar jafnvel meirihluta). Heldur í höndum umræddra sjóða, sem eru í umsjá Landsbréfa (hjá Landsbankanum) og Íslandssjóða (hjá Íslandsbanka). Þessir sjóðir eru annars vegar Akur og hins vegar Horn II.

Polarsyssel-SvalbardEkkert hefur komið fram opinberlega um ástæður uppsagnar framkvæmdastjóra Fáfnis. En hvað svo sem olli þeirri uppsögn, þá hlýtur núna að skipta mestu að með viðbótarsamningnum við Sýslumannsembættið á Svalbarða er rekstur Polarsyssel á réttri leið. Og því má segja að félagið standi bærilega miðað við markaðsaðstæður. Og algert lykilatriði að stefna umræddum samningi ekki í hættu.

Auðvitað skiptir þarna líka máli að Fáfnir Offshore þarf einnig að takast á við það að senn fær fyrirtækið í hendur annað skip. Þar er um að ræða Fáfnir Viking, sem nú er í smíðum og stóð til að yrði afhent nú á árinu 2016. Samkvæmt fréttum hefur nú verið samið um seinkun á afhendingu skipsins sem verður 2017. Þess vegna er varla orðið tímabært að örvænta þó verkefnastaðan þess skips sé sennilega ennþá óskrifað blað. En gallinn er kannski sá að bæði Akur og Horn II eru hugsaðir sem skammtímasjóðir (líftími sjóðanna er einungis áætlaður fáein ár og þá á þeim að vera slitið). Þess vegna gera þessir sjóðir ríka kröfu um snögga ávöxtun og eru eðli málsins samkvæmt varla mjög þolinmóðir fjárfestar. Það er því hætt við langtímahugsun endurspeglist lítt í stjórn Fáfnis Offshore.

Svo virðist sem stjórn fyrirtækisins, þar sem bankamenn ráða meirihlutanum í umboði lífeyrissjóðanna, sé þarna á nokkuð þokukenndri siglingu. Auk þess sem nýr samningur við sýslumanninn á Svalbarða virðist geta komist í uppnám, hefur Orkubloggarinn fengið þær upplýsingar frá Danmörku að stjórn Fáfnis hafi nýverið hafnað tilboði um þátttöku fyrirtækis þaðan i kaupunum á Fáfni Viking. Allt virðist þetta markað af nokkru kæruleysi innan stjórnarinnar. Og við þessar aðstæður minnir áhrifaleysi stærstu eigendanna (lífeyrissjóðanna) óneitanlega á það þegar setið er uppi með Svarta-Pétur.

Dæmigerður umboðsvandi?

Að mati Orkubloggarans væri skynsamlegast fyrir Fáfni Offshore að leggja nú höfuðáherslu á að rækta samband sitt við stærsta viðskiptavininn - sem er sýslumaðurinn á Svalbarða. Þar er um að ræða afar traustan greiðanda (að baki honum stendur sjálfur norski ríkissjóðurinn). Gott samband þarna á milli er þar að auki líklegt til að viðhalda trausti gagnvart stærsta kröfuhafanum, sem einnig er í eigu norska ríkisins (Eksportkreditt). Stjórn Fáfnis eða a.m.k. meirihluti hennar virðist aftur á móti vera með annað í huga. Og virðist heldur ekki mjög áhugasöm um að ræða við mögulega samstarfsaðila sem takmarkað geta áhættu fyrirtækisins. Þetta er bæði merki um skort á varúð og skynsamlegri langtímahugsun.

Polarsyssel-in-SvalbardKannski er þetta mál ágætis dæmi um það hvernig farið getur þegar klippt er á sambandið milli stærstu fjárfestanna og sjálfs fyrirtækisins. Það getur varla verið skynsamlegt fyrir lífeyrissjóði að vera svo stórir eigendur í fyrirtæki án þess að vera þar með sína eigin fulltrúa í stjórn. Þó svo skiljanlegt sé að lífeyrissjóðir treysti fárfestingasjóðum fyrir hluta af fjármagni sínu, þá verða lífeyrissjóðirnir að gæta sín og fara mjög varlega í þetta fjárfestingaform. En það er kannski annar handleggur.

Orkubloggarinn ætlar engu að spá um það hvernig þessu máli lyktar. En hvað stjórn Fáfnis er nú að hugsa sér með Polarsyssel er ráðgáta. Hin óvænta og kæruleysislega atburðarás upp á síðkastið bendir óneitanlega til þess að stjórnin sé ekki að skilja málið rétt og kunni að hafa skapað félaginu ennþá meiri gjaldþrotahættu. Hvernig úr þessu spilast skýrist væntanlega á næstu vikum. Vonandi finnst þarna farsæl lausn - og vonandi er þessi stóra tímamótafjárfesting lífeyrissjóðanna í rekstri erlendis nú eftir hrunið ekki í voða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband