Orkuveitan: "Ég er fullur tilhlökkunar"

"Horfur eru góðar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2008. Umsvif fara vaxandi og fjárfestingar eru miklar."

Orkuveituhusid

Þannig segir orðrétt í tilkynningu Orkuveitu Reykjavíkur, sem dagsett er 29. ágúst 2008. Reyndar er þetta tilkynning frá fyrirtæki, sem tapaði litlum 73 milljörðum króna þegar upp var staðið eftir 2008. Þannig að þessi tilvitnun er líklega eitthvert mesta öfugmæli í allri íslenskri fyrirtækjasögu.

Umrædd tilkynning OR birtist í tengslum við 6 mánaða uppgjör félagsins 2008. Kannski var þessi mikla bjartsýni OR í ágústlok sl. til marks um þann jákvæða viðsnúning, sem orðið hafði á 2. ársfjórðungi - eftir hroðalegan 1. ársfjórðung. Óneitanlega voru mánuðirnir þrír, apríl-júní, ansið mikið skárri í bókhaldi OR heldur en fyrstu þrír mánuðir ársins. En samt áttar Orkubloggið sig ekki alveg á því af hverju Orkuveitumenn urðu þarna í ágúst allt í einu svona hressilega bjartsýnir.

Það er eins og Orkubloggið rámi í, að horfurnar í efnahagsmálunum almennt hafi ekki verið alltof góðar þarna síðla í ágúst s.l. En kannski er það bara misminni; kannski leit þetta allt voða vel út. A.m.k. séð frá glæsihúsnæði Orkuveitunnar. Síðsumarútsýnið þaðan var örugglega yndislegt. Dýrðlegur blámi yfir borginni og framtíðin björt þátt fyrir nokkur gulnandi lauf.

En stundum er skynsamlegast að fagna ekki of snemma. Eftir að Orkuveitan birti umrædda bjartsýnis-tilkynningu sína um "góðar horfur 2008", varð íslenskt þjóðfélag fyrir örlitlu áfalli, sem kunnugt er. Þegar spilaborgin hrundi í einni svipan.

Niðurstaða ársins 2008 hjá Orkuveitunni varð allt annað en góð. Á síðasta ári var OR rekin með 73 milljarða króna tapi. Það er hátt í helmingi meira tap en Landsvirkjun varð fyrir sama ár. Reyndar varð ofurlítill rekstrarhagnaður hjá OR 2008; 4,7 milljarðar króna. En segja verður að heildarafkoma ársins hafi hreinlega verið skelfileg. Fjármagnsliðirnir voru neikvæðir um hvorki meira né minna en 92,5 milljarða króna. Og niðurstaðan varð sem sagt 73 milljarða króna tap!

orkuveitumerki

Þetta risatap OR fær líklega bronsið í keppninni um mesta tap fyrirtækis í Íslandssögunni. Þá eru auðvitað undanskildir bankarnir og aðrir risar á brauðfótum, sem fóru beint í þrot. Og Orkubloggið hefur ekki enn séð subbulegar afkomutölur fyrirtækja eins og t.d. Exista vegna 2008. En í dag er OR með þungt bronsið um hálsinn.

Aðeins Straumur og Eimskip hafa náð að toppa þetta risatap OR. Meira að segja hið gígantíska tap FL Group árið 1997, upp á 67 miljarða króna, hverfur í skuggann af tapi Orkuveitu Reykjavíkur á liðnu ári. M.ö.o. er vart unnt að mótmæla því, að fjármögnunarstefna OR hafi reynst ennþá ömurlegri en glapræðisstefna Hannesar Smárasonar og félaga í fjárfestingum FL Group.

Í síðustu færslu var Orkubloggið með smá áhyggjur vegna 380 milljarða króna skuldar Landsvirkjunar. OR nær ekki að toppa það; skuldir OR um síðustu áramót voru "einungis" 211 milljarðar króna. Samt lítur reyndar út fyrir að OR sé jafnvel í ennþá verri málum en Landsvirkjun. Yfir árið 2008 rýrnaði nefnilega eigið fé Orkuveitunnar úr 89 milljörðum króna í 48 milljarðar króna. M.ö.o. þá myndi annað ámóta annus horribilis eins og 2008 hreinlega gjörþurrka út allt eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur.

hellisheidarvirkjun

Þegar litið er til þessara tveggja orkufyrirtækja, Landsvirkjunar og OR, er freistandi að draga eftirfarandi ályktun:

Landsvirkjun hefur þrátt fyrir allt staðið sig ótrúlega vel í að verja sig á þessum erfiðu tímum. Orkubloggarinn getur ekki annað en tekið ofan fyrir starfsfólki LV að þessu leyti. Það má ekki gleyma því sem vel er gert - þó svo LV sé vissulega í erfiðum málum, eins og áður hefur verið minnst á hér á Orkublogginu.

Aftur á móti virðist fjármálastjórn Orkuveitu Reykjavíkur ekki hafa einkennst af viðlíka varkárni. Meðan óveðursskýin hrönnuðust upp í efnahagslífi bæði heimsins og Íslands fram eftir árinu 2008, lýstu Orkuveitumenn yfir bjartsýni og virtust fullir stolts yfir árangri sínum.

Guðlaugur Gylfi Sverrisson_1

Hvað um það. Þegar meirihlutinn í Reykjavík gerði Guðlaug Gylfa Sverrisson, verkefnisstjóra hjá Úrvinnslusjóði, að stjórnarformanni Orkuveitunnar í ágúst s.l. var haft eftir Guðlaugi: "Ég er fullur tilhlökkunar að taka við stjórnarformennsku í OR og veit að það er mikil ábyrgð".

Það er auðvitað stuð að verða stjórnarformaður í svona flottu fyrirtæki. Ekki síst um sama leyti og fyrirtækið býður glás af fólki á Clapton-tónleika í Egilshöllinni. 

Og það er líka flott að gefa í skyn að maður ætli að sýna ábyrgð. En Guðlaugur Gylfi og félagar hans sáu samt ekki ástæðu til að setja eitt einasta orð í skýrslu stjórnarinnar, um það hvort þetta hrottalega tap Orkuveitu Reykjavíkur teljist eitthvert tiltökumál.

Sú staðreynd að hátt í helmingur af eigin fé Orkuveitunnar hreinlega fuðraði upp eftir að Guðlaugur Gylfi tók við stjórnarformennskunni, virðist ekki einu sinni verðskulda smá vangaveltur um hvernig brugðist hafi verið við þessu svakalega áfalli. Kannski var þetta ekkert áfall í hugum þeirra sem þarna ráða - þetta eru líkelga barrrasta einhver sýndarverðmæti í eigu almennings; skattborgara í Reykjavík og nokkurra annarra volaðra drottinssauða.

Nánast einu skýringarnar sem gefnar í skýrslu stjórnarinnar á þessu ofsatapi, eru eftirfarandi: "Þróun gengis íslensku krónunnar hefur orðið með allt öðrum hætti á árinu en áætlanir samstæðunnar gerðu ráð fyrir". Þetta er sem sagt ástæða þess að góðar rekstrarhorfur brettust í martröð. Gott fyrir okkur vitleysingana að fá að vita það. Eða eins og segir í ársskýrslunni: "Þessi þróun veldur því að fjármagnskostnaðurinn hækkar verulega á árinu og eigið fé rýrnar". Hvað getur Orkubloggarinn annað gert, en að kinka kolli íhugull á svip þegar svona mikil speki er framreidd?

OR_inni

Og að auki er það einfaldlega þannig, að tap OR er auðvitað ekki stjórn Orkuveitunnar að kenna, né gjörsamlega misheppnuðum áætlunum fyrirtækisins um gengisþróun og áhættudreifingu. Eins og alltaf þegar illa fer, er það auðvitað öðrum að kenna.

Þetta veit Guðlaugur Gylfi og líklega öll stjórn OR. Í skýrslu stjórnarinnar segir orðrétt: "Í fjárhagsáætlun Orkuveitunnar fyrir árið 2008 var gert ráð fyrir að gengisvísitalan yrði 155 í árslok og var það byggt á spám greiningadeilda bankanna og opinberra aðila" (leturbreyting hér).

Það var sem sagt ekki Orkuveitan sem brást - heldur greiningadeildir fallinna banka og einhverjir ótilteknir mistækir álfar hjá hinu opinbera. Hjá Orkuveitunni eru menn auðvitað stikkfrí og geta ekkert gert að því að aðrir séu svona vitlausir. Og eiga því auðvitað áfram að sjá um þetta fjöregg Reykjavíkurborgar og skattborgaranna.

Orkubloggið leyfir sér að ljúka þessari færslu um Orkuveitu Reykjavíkur með örfáum spurningum, sem lesendur geta kannski svarað hver í sínu hjarta: 

gufuorka

Er eðlilegt, að í skýrslu stjórnar fyrirtækis sem skilar þvílíku megatapi, sé ekki stafkrók að finna um horfurnar framundan og hvort þetta fyrirtæki almennings telji sig þurfa hafa áhyggjur af því að tapið jafnvel haldi áfram? Er ársskýrsla kannski bara eitthvert leiðinda formsatriði?

Eða er kannski ársskýrsla Orkuveitu Reykjavíkur vegna 2008, einhver besta vísbendingin um ömurlegt "corporate governance" sem finnst alltof víða í íslenskri fyrirtækjamenningu?

Eða er Orkubloggarinn bara einhver leiðinda tuðari? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

þú ert þá bara leiðinda tuðari :-)

enda ekkert gaman að vera í pólitískum ábyrgðarstörfum ef alltaf er verið með svona titlingaskít.

Baldvin Kristjánsson, 8.4.2009 kl. 11:27

2 identicon

Ef ad allt er svona bjart hja orkuveitu,er ta ekki mogjuleiki ad fa vinnu med,markadslaunum.Og tad bara strax takk fyrir.uppl i sima 8623353.

Jon T.Halld'orssn. (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 13:04

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sæll Ketill. Þessi ársskýrsla sem þú vitnar til frá ágúst síðastliðnum hefur væntanlega verið þegar prentuð þegar fulltrúi okkar Framsóknarmanna Guðlaugur Gylfi Sverrisson tók við stjórnarformennsku í Orkuveitunni. Samt má í grein þinni ráða að þú gerir hann ábyrgan fyrir þeirri ársskýrslu, ársskýrslu sem var einmitt gerð fyrir það tímabil sem Framsóknarflokkurinn var EKKI í meirihluta í Reykjavik, tíma sem allir Reykvíkingar hljóta að minnast með hryllingi enda var allt í hers höndum í stjórnartíð Ólafs Magnússonar.  Þá var Kjartan Magnússon stjórnarformaður Orkuveitunnar, vil endilega minna þig á það.

Svo finnst mér þú setja ofan með að bera saman fjármögnunarstefna OR og fjármögnunarstefnu Landsvirkjunar og finna út að á einhvern hátt sé Landsvirkjun þar í vinningsstöðu. Nú er ástandið þannig að það er erfitt hjá bæði Landsvirkjun og Orkuveitunni, afar erfitt eins og hjá öllum íslenskum fyrirtækjum sem hafa mikil erlend lán. Munurinn er hins vegar að LAndsvirkjun hefur umtalsverðar tekjur í erlendri mynt en Orkuveitan ekki.

Það er rekstrarafgangur árið 2008 af starfsemi orkuveitunnar en þetta gríðarlega tap er ekki Kjartani Magnússyni að kenna og allra síst er það Guðlaugi Sverrissyni að kenna. Þetta er sama og er að gerast í öllum fyrirtækjum á Íslandi,  íslenskt samfélag - bæði einstaklingar og fyrirtæki eru blóðrisa eftir hremmingar í alþjóðlegu fjármálalífi sem veltu um koll þeim sem óstöðugastir voru þ.e. íslensku bönkunum. 

Það er ekkert að gera í þessari stöðu en að fara Framsóknarleiðina. Afskrifa hluta af skuldum bæði á fyrirtæki og einstaklinga.Við skulum horfast í augu við að það eru bæði stórfyrirtæki, stór og stöndug fyrirtæki eins og orkufyrirtækin okkar sem og minni fyrirtæki sem riða til falls ef ekki verða afskrifaðar skuldir

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.4.2009 kl. 14:36

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Er stjórnarformaðurinn, sem tók við í ágúst s.l., ekki ábyrgur fyrir ársskýrslunni vegna 2008? Ársskýrsla er vel að merkja vegna alls ársins 2008 og var afgreidd síðla í feb. 2009. Hann ber því að sjálfsögðu fulla ábyrgð á henni.

OR getur rétt eins og Landsvirkjun og önnur stór fyrirtæki beitt ýmsum aðferðum til að lágmarka áhættu sína af gengissveiflum. Þar virðist OR heldur betur hafa fatast flugið á liðnu ári.

Ekki ætla ég að blanda mér í póítíkina almennt og fara í rökræður vegna afskriftarleiðarinnar. En peningar verða ekki til úr engu - afskriftarleiðin þýðir að einhverjir aðrir þurfa að borga það sem verður afskrifað. Það gerist væntanlega með hærri sköttum og skertum lífeyrisgreiðslum.

M.ö.o. er um að ræða tilfærslu á fjármunum. Frá þeim sem sýndu ábyrgð í fjármálum og forðuðust gjaldeyrisbrask. Og frá eldri kynslóðinni sem hefur í áratugi barist við að koma sér upp lífeyrissjóði. Hvort slík tilfærsla fjármagns er réttlætanleg er auðvitað matsatriði. En ef afskriftarleiðin verður enn eitt höggið fyrir lífeyrissjóðina, þykir mér það slæm leið.

Ketill Sigurjónsson, 8.4.2009 kl. 15:04

5 identicon

Uppgjör OR fyrir 2008 kom út skömmu áður en Enron myndin var sýnd í sjónvarpinu. Þá varð mér að orði:

Það hafa augsýnilega margir horft á Enron myndina en það virðist enginn hafa notað hana sem tilefni til að fara að skoða ársreikninga íslenskra orkufyrirtækja. Tap OR á síðasta ári hefði þó átt að kveikja í mönnum.



Fjármagnsliðir neikvæðir um 93 milljarða króna. Næstum fjórfaldar heildartekjur og tæplega tuttugfaldur rekstarhagnaður. Þarna hefði verið gagnlegt ef fjármálasviðið hefði haft rænu á því að „taka stöðu gegn krónunni“, „veðja á veikingu krónunnar“ eða hvað sem gjaldeyrisvarnir eru kallaðar í dag. Orkuveitan er eins og hvert annað íslenkt heimili með tekjur í íslenskum krónum og skuldir í erlendum myntum og, að því er virðist, engar gengisvarnir.



Í rekstarreikningnum er tekjufærsla vegna frestaðra skattgreiðslna (kemur á móti skatti þegar félagið skilar hagnaði aftur) upp á 15 milljarða (þrefaldur rekstrarhagnaður) þannig að 88 milljarða tap lækkar niður í 73 milljarða.



Eignaaukning um 68 milljarða, en ekki vegna þess að það sé búið að framkvæma svona mikið, heldur vegna þess að á efnahagsreikningnum er stór liður sem heitir „Sérstakt endurmat“ þar sem dreifi- og framleiðslukerfið er fært upp til samræmis við markaðsvirði. Er þarna á ferðinni Mark-to-Market bókhald? Ég er ekki nógu fróður um bókhald...



Það eru allir orðnir ónæmir fyrir stórum tölum í dag, en rifjum upp að menn supu hveljur þegar einkafyrirtækið FL Group tapaði 67 milljörðum á sínum tíma (88 milljörðum fyrir skatta). OR er þó þegar allt kemur til alls á ábyrgð okkar skattborgaranna.



Heildartap deilt með rekstarhagnaði = 15,5 

Grímur (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 15:18

6 identicon

Rekja má stöðu OR núna aftur til þess tíma er R listinn komst til valda.  Þá var Hitaveitan skuldlaust eða skuldlítið fyrirtæki, gullkista Reykvíkinga ef svo má að orði komast en R-listaliðið tók einn Hannes á Hitaveituna, þ.e. byrjaði að skuldsetja Hitaveituna(seinna OR) og borga eigandanum(R.vík) út himinháar arðgreiðslu.  Svo fóru OR út í að virkja m.a. fyrir sölu til álvera og allt náttúrulega tekið að láni, vandamálið hins vegar að ekki fæst mikið fyrir söluna á rafmagni til álvera enda er sú sala frekar byggð á pólitískum forsendum en rekstrarlegum, þ.e. verið er að borga fyrir störf í álverum með lágu rafmagnsverði.  Þegar upp er staðið er OR orðin skuldsett upp í rjáfur, ofurseld gengisflökti hvers tíma og ekki lengur sú gullkista sem hún eitt sinn var.  Kanski er þetta helsta arfleið Alfreðs Þorsteinssonar og R-listans og við hæfi að skýra fyrirtækið upp á nýtt og kalla það SkuldaVeituna.

kalli (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 02:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband