"Lögleysa" Egils Helgasonar

silfur_egils_2009"Hér skal áréttuð sú skoðun, að hlutdrægni Egils Helgasonar í afstöðu hans til manna og málefna geri hann óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál, eigi þátturinn að lúta lögum um ríkisútvarpið. Lögleysan í kringum þátt Egils, verður ekki afsökuð með því, að hann sé einhver öryggisventill fyrir almenningsálitið, sem annars brytist fram á enn hroðalegri hátt en í nafnlausri illmælgi á bloggsíðu Egils. Hver hefur heimild til að leysa Egil Helgason undan lögum um ríkisútvarpið? Páll Magnússon, útvarpsstjóri? Sé svo, ætti hann að sýna eigendum RÚV hana." 

Þessi færsla Björns Bjarnasonar á vefsíðu hans, bjorn.is, er hreint stórfurðuleg. Og varð Orkubloggaranum tilefni til að senda eftirfarandi skilaboð til Björns:

------------------------------

Komdu sæll Björn.

Mig langar að koma á framfæri til þín eftirfarandi athugasemd vegna orða í bloggfærslu þinni í gær (20.okt) um Egil Helgason.

Þú segir Egil óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál vegna þess að hann sýni hlutdrægni. Og þú virðist telja að þar með sé brotið gegn lagaákvæðum um óhlutdrægni RÚV.

Fyrst hélt ég reyndar að þú værir kannski að grínast. En svo er líklega ekki og þess vegna langar mig að setja hér fram nokkrar hugleiðingar mínar.

Í fyrsta lagi álít ég að það sé fráleitt að túlka lagaákvæðin um óhlutdrægni RÚV þannig að þáttastjórnendur og dagsárgerðamenn RÚV megi aldrei láta í ljós skoðanir sínar í störfum sínum.

Egill_snjorÍ öðru lagi hefur mér virst gestirnir í Silfri Egils af öllum toga og ekki séð merki þess að Egill misbeiti valdi sínu sem þáttastjórnandi. Hann hefur vissulega skoðanir á málum - en almennt þykir mér hann fara mjög vel með að draga fram ólík sjónarmið. Eina skiptið sem mér þótti hann ganga helst til langt, var þegar hann tók viðtal við Jón Ásgeir eftir Hrunið og nánast missti stjórn á sér af reiði. En jafnvel reyndum þáttastjórnanda getur líklega einstaka sinnum ofboðið siðblinda manna.

Ég velti fyrir mér hvort þú viljir í alvöru að helsti fjölmiðill landsins - RÚV og þ.m.t. Sjónvarpið - eigi að vera skoðanalaus? Bara einhver hlutlaus fréttaveita, sem hvorki spyr gagnrýninna spurninga né grefst fyrir um sannleikann?

Viljum við aftur fá RÚV eins og það var fyrir 30 árum eða svo? Þegar viðtölum lauk jafnan á þessum nótum: "Vill ráðherrann segja eitthvað að lokum?". Ég vil það ekki og sem einlægur aðdáandi bandarískrar lýðræðisuppbyggingar, álít ég gríðarlega mikilvægt að fjölmiðlar ræki hlutverk sitt sem "fjórða valdið". Það á líka við um RÚV.

Bjorn_Bjarnason_2Ég býst reyndar við því að þú eigir auðvelt með að neita því að þú viljir skoðanalaust RÚV. Og að ekki beri að skilja gagnrýni þína í bloggfærslunni svo. Þess vegna vil ég leggja áherslu, að jafnvel þó svo RÚV eigi að gæta að hlutleysi með því að leyfa ólíkum sjónarmiðum að koma fram, þykir mér afar vafasamt að ætlast til þess að þáttastjórnendur og dagskrárgerðarmenn eigi ávallt að vera skoðanalausir í störfum sínum. Ég álít reyndar þvert á móti mikilvægt að þeir séu ágengir og tel hreinlega bæði gott og nauðsynlegt að þeir séu sjálfir boðberar gagnrýninnar hugsunar.

Í slíkum störfum hljóta alltaf að koma fram, með einhverjum hætti, skoðanir viðkomandi starfsmanns RÚV. Sem sumir vilja kannski kalla hlutdrægni. Á móti segi ég að eitt það mikilvægasta í starfsemi RÚV ætti einmitt að vera málfrelsi og skoðanafrelsi ekki aðeins viðmælenda heldur einnig starfsfólksins.

Ég get tekið undir það að nafnlaust athugasemdakerfi, eins og á vefnum eyjan.is skapar ákveðin vandamál. Mér er reyndar ekki kunnugt um hvort eyjan.is tengist RÚV. En nafnlaus óhroði er eitthvað sem ekki er bundið við Eyjuna, heldur miklu stærra mál sem löggjafinn ætti kannski að huga að í heildarsamhengi. Tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það hér.

Jon_Asgeir_Silfrid_2Ef við getum lært eitthvað af hruninu, er það að fjölmiðlarnir hefðu átt að vera miklu ágengari í eftirlitshlutverki sínu. Og þar hefði RÚV átt að fara fremst í flokki. Of mikil áhersla á óhlutdrægni starfsfólks RÚV er beinlínis hættuleg samfélaginu og lýðræðinu. Íslendingar virðast oft eiga erfitt með að skilja mikilvægi tjáningarfrelsisins. Kannski hefðu hlutirnir hér farið á betri veg ef tjáningarfrelsið væri meira metið - þ.á m. tjáningarfrelsi starfsfólks RÚV í störfum þess.

Mér hefur löngum þótt þú sýna ríka skynsemi og þótt vænt um hversu duglegur þú hefur verið t.d. að sýna íslenskri menningu mikinn áhuga og stuðning. Þeim mun frekar þykir mér miður að lesa hina sérkennilegu gagnrýni þína á Egil Helgason.

Bestu kveðjur,
Ketill Sigurjónsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

gott bréf hjá þér, verður gaman að vita hvort BB virði þig svars...

Óskar Þorkelsson, 21.10.2009 kl. 20:49

2 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Ég minni á kærur til Útvarpsréttarnefndar, Menntamálaráðherra og Lögreglustjórans í Reykjavík yfir framgöngu Egils Helgasonar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Lýðræðishreyfingin var útilokuð úr þáttum Egils Helgasonar á meðan aðstandendur og frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar fengu ítrekað óheftan aðgang.

Þetta er brot á lýðræðislegri jafnaðarreglu, kosningalögum og lögum um Ríkisútvarpið.  Svo einfalt er það! Burt með Egil Helgason. Hann er vanhæfur á RÚV!

Ástþór Magnússon Wium, 21.10.2009 kl. 21:18

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Svar frá Birni Bjarnasyni:
-----------------------------

Sæll Ketill,

hið eina, sem ég er að segja, er, að Agli Helgasyni ber að fara að lögum um RÚV. Ég tel, að hann geri það ekki.
Starfaði hann við aðra opinbera stofnun, yrði slík framganga ekki liðin. Gilda sérreglur um Egil? Eða RÚV? Er slík sniðganga við lög best til þess fallin að auka virðingu Íslendinga fyrir lögum og rétti?

Með góðri kveðju
Björn Bjarnason

Ketill Sigurjónsson, 21.10.2009 kl. 22:05

4 Smámynd: Haraldur Pálsson

Virkilega góðar hugleiðingar Ketill.

En eitt liggur þó algjörlega í augum uppi og telst svo auðsjáanlegt að gúrka til um getið.

Það er að fréttaflutningur RÚV, forgangsröðun frétta og viðmælendur ásamt álitsgjöfum er allt saman gríðarlega hlutdrægt og svo langt á vinstri kantinum að um verður ekki villst. Án þess að ég nefni nokkur nöfn, eða tiltekin fréttaflutning þá hvet ég fólk til að athuga hverjir eru þeir hagfræðingar, stjórnmálafræðingar, lögfræðingar, ásamt öðrum álitsgjöfum sem sem fréttastofa RÚV leitar ávallt til og hvar þeir standa í pólitíksum skoðunum.

Hér er aðeins um einstefnu að ræða og yfirleitt aðeins rætt við sömu aðilana ítrekað, án þess að leita álita annara sérfræðinga í samfélaginu.

Haraldur Pálsson, 21.10.2009 kl. 23:52

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Það sem er kannski sorglegast, er að fyrrum dómsmálaráðherra (og á þeim tíma líka mannréttindamálaráðherra) skuli leggja meira upp úr því að þáttastjórnendur hjá RÚV hafi skoðanir, en því grundvallaratriði að þeir hafa stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi.

Líka mjög sérkennilegt að ráðherrann fyrrverandi gefi út yfirlýsingu um "lögbrot" án þess að dómstóll hafi fjallað um málið.  

Ketill Sigurjónsson, 22.10.2009 kl. 08:54

6 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Ráðherrann hefur auðvitað vanist því að sjálfstæðisguttar þreifi sig áfram á ríkisfjölmiðlum og tali bara við sína. Augljóst dæmi var Gísli Marteinn. Nefni ekki fleiri, sem enn eru við störf en hafa sjóast og jafnvel gleymt Flokknum, en Kastljós var afleitt í stjórnartíð Björns og fréttirnar í sjónvarpinu afar hlutdrægar. Mér fannst það síst til fyrirmyndar og man ég ekki eftir að Björn hafi gert athugasemdir þá...

GRÆNA LOPPAN, 22.10.2009 kl. 12:41

7 Smámynd: Anna Einarsdóttir

"Hér skal áréttuð sú skoðun, að hlutdrægni Egils Helgasonar í afstöðu hans til manna og málefna geri hann óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál"... segir Björn Bjarnason.

Má þá ekki á sama hátt segja "að hlutdrægni Björns Bjarnasonar í afstöðu hans til manna og málefna, hafi gert hann óhæfan til að sinna embætti dómsmálaráðherra Íslands"? 

Er einhver munur þarna á ?

Anna Einarsdóttir, 22.10.2009 kl. 13:50

8 identicon

Sæll Ketill og þakka þér gott innlegg í umræðuna um fjölmiðla og um tjáningarfrelsi og gagnrýna umfjöllun í RÚV.

RÚV er ekki hlutlaus fjölmiðill og hefur aldrei verið og það er mikill kostur. Frá fyrstu tíð gat almenningur sagt skoðun sína þar á ýmsan hátt og fréttir eru alltaf háðar mati, bæði hverjar þeirra eru sagðar koma í fjölmiðilinn og hvernig

Það sem Björn er í raun og veru að tala um er hinsvegar að blaðamaður sem hefur líst því yfir að hann sé miðjumaður stýri umræðuþætti þar sem fjallað er um þjóðmál á gagnrýninn hátt. Í slíkum þáttum kemur t.d. fram skoðanir sérfræðinga sem eru upplýsandi um málefni dagsins og umræða og upplýsingar um stjórnmálamenn og það sem þeir hafa gert/ekki gert. Meðal þess sem hefur verið áberandi er gagnrýni á ýmsa sem eru skjóstæðingar Sjálfstæðisflokksins  svo og upplýsingar um tengslin milli flokksins, manna og málefna. Björn er úr þeim hópi sem sýnir umræðusmekk sinn á fjölmiðli eins og Mogganum, hann og hans menn eru vanir að ráða fyrir ríkinu og hafa komist upp með ýmislegt í sambandi við umræður, ráðningar og skipulag RÚV. Hann er líka vanur því að sjónvarpsfréttmenn RÚV séu flestir hans meginn í pólitík og faglegri afstöðu og því erfitt fyrir hann og hans líka að kyngjaAgli og hans líkum. Hrunið hefur leitt margt í ljós sem að mati Björns á ekki að tala um á þennan hátt, ekki satt?

Ef er hlutdrægni í umræðu og fréttaflutningi í RÚV finnst mér að hún sé Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hagstæð.

Hvar er línan hjá Sigmari, Elínu, Jóhönnu Vigdísi, Ingólfi Bjarna, Þórhalli, Ragnheiði Steinunni, Boga og fleirum og fleirum? Eru þau að brjóta útvarpslög því þau eru áberandi til vinstri eða hvað?

En þau fá ekki neina "skoðanalöggu" á sig af því að vinstri menn myndu líklega seint skrifa um þau eins og Björn skrifar um Egil. 

Unnur G. Kristjánsóttir (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband