Bill Reinert

Bill_Reinert_Toyota_portraitOrkubloggið hefur ávallt hlustað af athygli á stórvesírinn Bill Reinert hjá Toyota. Og notað hann sem eins konar leiðsagnarvita um hvaða tækni komi til með að sigra í bílaiðnaðinum.

Það er vart ofmælt að sá ljúflingur sé einhver áhrifamesti náunginn í þróun bílaiðnaðarins. Hann er sá sem mestu ræður um það í hvaða átt Toyota hyggst stefna - og stefnan sem Toyota tekur er líklegt til að draga mest allan bílaiðnað heimsins í sömu átt.

Reinert hefur lengi varað við bjartsýni um vetnisbíla og jafnvel gert hálfgert grín að tilburðum Honda  í að þróa slíka bíla. Eins og fólk í bílabransanum veit, trúir Honda á vetnið sem orkugjafa og hefur þegar hafði tilraunaframleiðslu á vetnisbíl.

Honda_FCX-ClaritySá kallast FCX Clarity  og Honda hyggst hefja fjöldaframleiðslu á honum innan áratugar. Þar á bæ eru menn líklega með böggum Hildar þessa dagana, vegna nýrra áherslna Bandaríkjastjórnar. Sem hafa ákveðið að taka rafbílinn fram fyrir vetnisbílinn.

Bill Reinert hefur reyndar ekki látið sér nægja að gefa skít í vetnisbíla. Hann er einnig afar tortrygginn á framtíð rafbíla og álítur að það verði í reynd einungis tvinnbílarnir sem nái einhverri útbreiðslu. Hreinir rafmagnsbílar séu m.ö.o. vonlaust dæmi.

Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Vert er að hafa í huga að til er önnur útgáfa af vetnistækninni en sú að nota efnarafal. Og vetnisvæðingin er langt frá því að vera úr sögunni, þó svo hún sé kannski ekki alveg að bresta á og verði etv. frekar viðfangsefni komandi kynslóða en okkar sem nú mergsjúgum auðlindir jarðar.

toyota-priusÞað er reyndar svo mikið að gerast í bílaiðnaðinum þessa dagana, að nánast ómögulegt er að spá fyrir um hvernig hann muni þróast. En óneitanlega eru líkur á að Toyota standi uppi sem sigurvegari. eins og svo oft áður. Í þetta sinn með tvinn-bílana sína. Verður Prius‘inn  kannski brátt einn mest seldi bíll í Bandaríkjunum?


Sigraði raunsæið draumórana?

Fátt væri betra fyrir Ísland en að nýta mætti vetni sem orkugjafa . Í stórum stíl.

NyorkaÞar með myndi t.d. væntanlega fást mun betri nýting á íslenskum virkjunum. Rafmagnsnotkun á nóttu er minni en á daginn og verulegan hluta af rafmagnsframleiðslu næturinnar mætti nýta til að framleiða vetni. Vetnið myndi bæði draga úr þörfinni á innfluttu eldsneyti og auka nýtingu íslensku virkjananna. Fyrir vikið hafa sumir hér á landi eðlilega bundið miklar vonir við vetnisvæðingu. Í því sambandi má nefna fyrirtækið Íslenska nýorku og vetnisstrætisvagnana sem á tímabili óku um götur Reykjavíkur.

Hydrogen_car_Chevrolet_EquinoxEn þó svo vetnissamfélag væri e.t.v. upplagt á Íslandi, gildir annað í löndum sem þurfa að framleiða vetnið með því að brenna kolum eða gasi. Vissulega er vetnisrafallinn tær snilld; hann getur bæði knúið bíla og skip og frá honum fer einungis hrein vatnsgufa útí andrúmsloftið. Betra getur það varla orðið.

Það er bara eitt smá vandamál. Það þarf mikla orku til að framleiða vetni. Vetnið finnst ekki í náttúrunni nema tengt öðrum efnum og er einungis orkuberi. Til að umfangsmikil vetnisvæðing geti átt sér stað, myndu flest ríki þurfa að framleiða vetnið með því að brenna kol eða aðrar kolvetnisauðlindir. Þar liggur hundurinn grafinn. Vetnisvæðing í síkum löndum myndi þýða stóraukna losun gróðurhúsalofttegunda; vetnisvæðingin yrði ekki fráhvarf frá hefðbundnum orkugjöfum heldur væri frumorkugjafinn áfram hinn sami.

VetnisvagnÞar að auki eru ýmsir tæknilegir örðugleikar því fylgjandi að nota vetni til að knýja samgöngutæki. Undanfarin ár hefur reyndar mikil vinna verið lögð í að leysa þau vandamál. Sérstaklega hefur verið horft til möguleikans á vetnisbílum. Sbr. einmitt reykvísku vetnisstrætisvagnarnir ljúfu, sem liðuðust hér mengunarlausir um göturnar.

En nú er líklegt að bílaiðnaðurinn sé um það bil að missa áhugann á vetni sem orkugjafa. Þar ræður mestu nýleg ákvörðun bandarískra stjórnvalda, þess efnis að óralangt sé í að vetni verði skynsamlegur kostur og því tóm vitleysa að hið opinbera sé að moka peningum í slíkar rannsóknir. Nær sé að nota peningana í raunhæfari lausnir.

steven-chuJá - nú hafa bandarísk orkumálayfirvöld tekið af skarið. Og lýst því yfir að margir áratugir séu í að vetni verði orkugjafi sem einhverju máli skipti þar í landi. Það er sem sagt svo að hann Steve kallinn Chu, orkumálaráðherra Obama-stjórnarinnar, og orkuteymið hans hefur skrúfað fyrir nánast allan stuðning við vetnisiðnaðinn og rannsóknir á þessu sviði. Þess í stað verður ennþá meiri áhersla lögð á nærtækari kosti í orkumálum fyrir samgöngukerfið.

Þessi óvenju skýra afstaða bandarískra stjórnvalda, sem nú liggur fyrir, er líkleg til að hafa talsvert mikla þýðingu. Það mætti jafnvel halda því fram að raunsæið (lesist lífefnaeldsneytið og rafbílavæðingin) hafi þarna sigrað vetnið með afgerandi hætti. Á móti kemur að í olíulöndum eins og Bandaríkjunum mætti framleiða vetni fyrir tilstilli kjarnorku og einnig sólarorku. Þannig að þessi ákvörðun Chu kann að lýsa skammsýni.

diesel-engineReyndar telur Orkubloggið lang líklegast að ekkert leysi bensín- og díselvélar af hólmi um langa hríð. Rafbílavæðing mun kannski ná einhverri útbreiðslu, en hinn hefðbundni brunahreyfill verður áfram prímusmótorinn í bifreiðaiðnaðinum um langt skeið. Eftir því sem olíuverð kann að hækka munu bílar verða sparneytnari og rekstrarkostnaðurinn áfram haldast nógu lágur til að þetta verði ódýrasti kosturinn. Þess vegna er líklegt að olían verði áfram helsti orkugjafinn í samgöngugeiranum, eins og verið hefur svo lengi.

Þó svo þessi ofurlítið óvænta þróun mála í Ameríku sé etv. eilítið súr biti fyrir íslenska vetnis-vini, skiptir líklega meira máli að nú hafa bifreiðafyrirtækin fengið skýra framtíðarsýn. Og um leið hvatningu til að einbeita sér þróun rafbíla. Þar með næst kannski loks almennilegur árangur í rafbílaiðnaðinum; ekki verið að dreifa kröftunum í allar áttir.

Þessi niðurstaða Obama-stjórnarinnar kom Orkublogginu auðvitað ekki alveg í opna skjöldu. Efasemdaraddir um kosti vetnisvæðingar eru svo sem ekkert nýjabrum. Margir hafa bent á að vetnisvæðing yrði bæði flókin og dýr og að skynsamlegra sé leggja áherslu á raunhæfari og umhverfisvænni kosti í orkumálum.

hydrogen_Car__arnold_Bush forseti gerði sjálfan sig að fífli þegar hann dásamaði vetnisbíla sem tandurhreina lausn  fyrir Bandaríkjamenn og virtist ekki hafa hugmynd um hvernig vetni er unnið þar í landi. Flokksbróðir hans í Kaliforníu - sjálfur Termínatorinn - var á tímabili kominn á sama hála ísinn, en áttaði sig og fyrir vikið hafa vetnisdraumarnir eitthvað minnkað þar vestur í sólskinsríkinu.

Þetta þýðir samt ekki að draumar um vetnisvæðingu séu útí hött. Það sem skiptir meginmáli er að vetnið verði unnið með endurnýjanlegri orku. Þess vegna gæti vetnið hentað frábærlega á Íslandi. Vetnisvæðing er ekki endanlega úr sögunni, þrátt fyrir hugsanlegt tímabundið bakslag vestur í Ameríku.

purdue-university-black-and-gold[1]Sérstaklega eru athyglisverðar rannsóknirnar á þeim möguleika, að nota vetni til að auka orkuinnihald í lífmassa. Og þannig gera lífmassann nánast jafn orkuríkan eins og alvöru olíu.

Þar er á ferðinni hugmynd sem hugsanlega gæti gert lífmassann að hinum eina sanna arftaka olíunnar. Það væri einföld lausn, af því slík þróun kallar ekki á neinar flóknar breytingar á innviðum samfélagsins. Þær rannsóknir fara m.a. fram hjá hinum fornfræga Purdue-háskóla  vestur í Indíana-fylki. Skólinn sá er reyndar stundum nefndur Geimvísindaháskólinn sökum þess hve margir geimfaranna bandarísku komu þaðan. Líklega hefði Purdue hentað Orkubloggaranum fullkomlega hér fyrir rúmum tuttugu árum eða svo. Þegar bloggarinn stjórnaðist af verkfræði- og flugáhuga og hafði enn ekki álpast í lögfræði. En það er önnur saga.

H2CARÞessi vetnis-lífmassa tækni kann þó að vera of dýr; það á vonandi eftir að skýrast á næstu árum. Kannski meira um þessa möguleika vetnisbætts lífmassa síðar hér á Orkublogginu.


ACES

Nú eru líklega einungis fáeinar klukkustundir eða jafnvel mínútur í að Fulltrúadeild Bandaríkjaþings greiði atkvæði um óvenju mikilvægt lagafrumvarp á sviði orkumála.

CapitolBuildingArialViewUmrætt lagafrumvarp kallast American Clean Energy & Security Act (ACES; HR 2454). Það var afgreitt úr nefnd fyrir nokkrum vikum með frekar naumum meirihluta, þar sem flokkslínur riðluðust talsvert. Ekki er útséð með hvort frumvarpið verði samþykkt af Fulltrúadeildinni - það fjallar um mörg afar umdeild atriði og þykir mörgum það ýmist ganga of lengt eða of skammt í að breyta orkustefnu Bandaríkjanna. En verði frumvarpið samþykkt af Fulltrúadeildinni á það eftir að fara fyrir Öldungadeildina og svo til undirritunar Obama forseta, til að verða að lögum.

Um það leyti sem frumvarpið berst Obama gæti innihald þess verið orðið nokkuð útþynnt miðað við núverandi stöðu. Þ.a. kannski er best að hafa fæst orð um innihald þess, fyrr en endanlegt útlit og örlög liggja fyrir. En Orkubloggið stenst þó ekki mátið að benda á, að nái þetta frumvarp alla leið og verði að lögum, mun það væntanlega marka talsverð tímamót í orkumálum þar vestra. Svo ekki sé fastar að orð kveðið.

Waxman_PelosiMeðal þess sem finna má í frumvarpinu eru skýr og nokkuð metnaðarfull markmið um að draga úr kolefnislosun og komið verður á viðskiptakerfi með losunarheimildir. Þarna er líka að finna lágmarkskvóta á hlutfall endurnýjanlega orku og þess vegna hefur þetta frumvarp mikla þýðingu fyrir t.d. vindorku- og sólarorkuiðnaðinn. Verði það samþykkt gæti íslensk jarðhitaþekking einnig notið góðs af með því að selja þjónustu sína þar vestra.

Loks má nefna að frumvarpið er hugsað sem fyrsta skrefið á átt að því að gjörbreyta orkunotkun í Bandaríkjunum. Líklegt er að olíuiðnaðurinn verði brátt að sjá á bak flestum opinberum styrkjum sér til handa, sem er mikil breyting frá stefnu Bush-stjórnarinnar.

Energy_tomorrowVindurinn í Bandaríkjunum er m.ö.o. að snúast og mun hugsanlega héðan í frá blása af fullum krafti í segl endurnýjanlegrar orku. Spennandi.


Vofa Leópolds konungs

icesave_logo"Landsbankinn - banki allra landsmanna"!

Einhvern veginn þannig hljómaði slagorð Landsbankans, ef Orkubloggarinn man rétt. Nú stefnir allt í að Alþingi samþykki Icesave-samninginn og komi þessu slagorði loks í framkvæmd. Geri skuldir Landsbankans að skuldum allra landsmanna.

Orkubloggarinn og einhverjir fleiri hafa verið að væla undan því að Ísland beri enga ábyrgð á Icesave og eigi ekki að láta þvinga sig til slíkrar ábyrgðar. Hér var komið á fót innistæðutryggingakerfi í samræmi við tilskipun ESB og þar með hafði íslenska ríkið uppfyllt skyldur sínar gagnvart Icesave og öðrum innistæðum í íslensku bönkunum.

LeopoldÞað vesæla ESB-kerfi reynist ónóg trygging og þess vegna ákváðu gömlu nýlenduveldin Bretland og Holland að taka upp fyrri siði. Láta aðrar þjóðir borga fyrir heimsku þeirra sjálfra. Með aðferð sem Leópold Belgíukonungur, helsta ímynd nýlendukúgunarinnar, hefði fílað í tætlur.

Þessi atburðarás er sumpart skiljanleg. Þessar gömlu siglingaþjóðir hafa löngu glatað forystuhlutverki sínu í veröldinni og eru nú eins og hvert annað gjaldþrota elliheimili á beinni leið til glötunar. Hefði niðurstaðan ekki orðið sú, að láta Ísland bera ábyrgð á Icesave, hefði það í raun verið viðurkenning á því að allt bankakerfi Evrópusambandsins væri byggt á sandi. Sem hugsanlega hefði valdið áhlaupi á flesta ef ekki alla banka innan ESB og þar með algeru fjármálahruni innan sambandsins.

Já - mikill er máttur Icesave. Stórþjóðirnar urðu að hylja sannleikann, með afarkostum til handa Íslandi. Viðhalda blekkingunni um að bankakerfi Evrópu standi traustum fótum. Fjármálakerfi ESB er nefnilega í lítið skárri stöðu en orkumál sambandsins. Allt kolsvart og græna, fallega ásýndin tóm blekking. Meira að segja Danir, sem álfurinn hann Anders Fogh segir búa í hinum græna orkudal Evrópu eru algerlega háðir kolaorku og vindorkan þeirra mest punt. Eru sannir Surtar rétt eins og aðrar þjóðir innan ESB.

Þar að auki hafa þessi ríki góða æfingu í að láta heimsku ráðmanna og yfirstéttar bitna á almúganum. Besta dæmið eru auðvitað Versalasamningarnir í lok skotgrafastríðsins mikla í Evrópu 1914-18. Þá var þýska þjóðin gerð fjárhagslega ábyrg fyrir skelfingum, sem Þýskalandskeisari og brjálaðir pótintátar hans ollu evrópskum nágrönnum sínum í heimsstyrjöldinni fyrri. Og bundin í skuldafjötra, sem hlóðu undir ofstæki og uppgang Nasismans.

Bjorgolfur_i_myrkri

Nú ætla gömlu Evrópuþjóðirnar við Norðursjó í krafti aðstöðu sinnar að skuldbinda íslensku þjóðina fyrir misgjörðir bankadólga. Þeir landar Orkubloggarans sem eru skilningsríkastir gagnvart aðgerðum Breta og Hollendinga, benda á að með neyðarlögunum alræmdu hafi íslenskir innistæðueigendur verið teknir fram fyrir útlenda. Icesave-eigendurnir í útlöndum voru m.ö.o. skildir eftir útí á ísnum meðan íslenskum fjármagnseigendum var komið í skjól. Það hafi verið óeðlilegt og réttlæti viðbrögð Evrópuríkjanna.

Þetta er kannski sanngjörn ábending. Augljóst má vera að þeir sem áttu innistæður í útibúunum hér á landi voru fyrst og fremst Íslendingar og því má segja að neyðarlögin hafi hyglað Íslendingum á kostnað útlendinganna. En ef Bretar og Hollendingar eru eitthvað ósáttir við neyðarlögin er þeim í lófa lagið að sækja rétt sinn. Fyrir dómstólum. Stjórnvöld þessara ríkja virðast hafa með öllu gleymt því að ekki á að beita þvingunum og hótunum í samskiptum siðaðra ríkja. Ef einhver réttarágreiningur er uppi um neyðarlögin verða Bretland og Holland einfaldlega að leggja það mál fyrir dóm. En ekki beita íslensku þjóðina efnahagslegu ofbeldi.

Íslenskir stjórnmálamenn geta ekki leyft sér að gefast upp gagnvart svona ofríki. Ef það blasir við "að lausn á Icesave sé ein af forsendum þess að lánafyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og norrænna seðlabanka verði afgreidd", eins og haft er eftir Steingrími fjármálaráðherra, verður einfaldlega að koma vitinu fyrir þá hjá AGS og norrænu seðlabönkunum.

Ef íslensk stjórnvöld hefðu í gegnum tíðina valið uppgjafarleiðina, værum við núna í mesta lagi með 3 sjómílna fiskveiðilögsögu. Gleymum því ekki hvernig Bretar hegðuðu sér þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsögu sína árið 1952. Úr 3 í 4 sjómílur. Löndunarbann var sett á íslenskan fisk í breskum höfnum og þannig reynt að kúga Ísland til að afturkalla ákvörðunina. Bretar töldu sig eiga fullan rétt á að ryksuga upp þorskinn við Ísland og að Íslendingum kæmi það ekki við. Nú eins og þá verða íslensk stjórnvöld að sýna staðfestu.

cartoon_Gordon_BrownSorglegt er að breskir stjórnmálamenn skuli ekkert hafa skánað á þeirri rúmlega hálfu öld sem liðin er frá fyrsta þorskastríði íslenska lýðveldisins. Því miður eru Gordon Brown og félagar ekki í hópi siðaðra stjórnmálamanna. Nú eru Íslendingar þvingaðir í skjóli viðskiptahótana til að taka á sig ábyrgð af gjaldþroti banka, sem var í eigu einkaaðila og ekki með neinum hætti á ábyrgð íslensku þjóðarinnar né starfaði bankinn í umboði hennar. Þetta var banki sem tveir feðgar réðu yfir og til að framkvæma vilja þeirra höfðu þeir ráðið tvo bankastjóra til að stýra bankanum. Þeir stýrðu honum í þrot.

Einhverjum kann reyndar að þykja það full dramatískt hjá Orkublogginu - og jafnvel ósæmilegt - að líkja Icesave-niðurstöðunni við Versalasamningana. Og þar með bera stöðu Íslands saman við vonleysi Weimar-lýðveldisins. Og þar að auki voga sér að nefna brjálæðinginn Leópold Belgíukonung í tengslum við þetta lítilfjörlega peningamál. En í alvöru talað; það er varla hægt að trúa því að íslenska þjóðin skuli beitt slíkum þvingunum af hálfu stjórnvalda Vestur-Evrópskra ríkja, eins og gerst hefur í Icesave-málinu.

ESB-löggjöfin um tryggingasjóð innistæðueigenda var einfaldlega gölluð. Ísland hvorki ber né bar lagalega ábyrgð umfram það að koma hér á fót slíkum sjóði. Það að sá sjóður reyndist alltof lítill til að mæta falli Landsbankans í Bretlandi og á meginlandi Evrópu, er aftur á móti ekki á ábyrgð íslenska ríkisins. Hvað þá íslensku þjóðarinnar.

Germany_swallowing_versaillesOg neyðarlögin geta ekki talist andstæð réttarreglum Evrópska efnahagssvæðisins, nema að þar til bærir dómstólar komist fyrst að slíkri niðurstöðu. Allt annað er refsing án dóms og laga. Þvingun í krafti aflsmunar. Þess vegna tekur Orkubloggið undir með Sigurði Líndal, sem kemst þannig að orði í frétt  Morgunblaðsins fyrr í vikunni:

„Mér finnst óskiljanlegt að ekki skuli hægt að leggja málið fyrir dóm... Mér finnst að við hljótum að eiga rétt á því, það hlýtur að vera hægt að koma á fót slíkum dómstóli og menn ættu að geta sæst á það. Ég segi fyrir mig, ef ég á að svara hreinskilnislega; ég vil frekar tapa málinu þannig að réttarstaðan væri skýr en að vera í þessari óvissu og láta gagnaðilana einhliða ákvarða skyldur okkur.“

landsbankinn_logo_allra_landsmannaEn svo eru þeir sem vilja að Landsbankinn verði loks að "banka allra landsmanna"? Eða öllu heldur umbreyta lógóinu: "Landsbankinn - skuldir allra landsmanna".


W-laga kreppa?

Cartoon_Oil_Supply_DemandOrkubloggið hefur lýst hrifningu á því hvernig Sádunum tókst ætlunarverk sitt á undraskömmum tíma. Að koma olíutunnunni í 70 dollara með því að draga passlega úr framleiðslunni.

En engin rós er án þyrna. Nú vofir sú hætta yfir að Sádarnir hafi lagt heldur þungar byrðar á veröldina. Hækkandi olíuverð muni kæfa þann bata í efnahagslífinu sem teikn hafa verið á lofti um upp á síðkastið, t.d. bæði í Bandaríkjunum og í Kína.

Ýmsir vitringar hafa verið að kasta fram spádómum um ýmist U eða L-laga kreppu. Loks þegar vísbendingar voru að byrja að koma fram um að kreppan gæti hugsanlega orðið U-laga - botninum væri náð og efnahagsbati framundan - eru nú komnir fram nýir spádómar. Nú er spáð að þetta gangi ekki svo ljúflega, heldur að veröldin stefni hraðbyri í W-laga kreppu. Þar sem síðari dýfan verði enn verri enn sú fyrri.

Roubini_recentHækkandi olíuverð ásamt vaxandi verðbólgu muni snarlega kýla efnahagslífið niður á ný og jafnvel steinrota það í langan tíma. Og það er sjálfur efnahagssjándinn Nouriel Roubini sem nú varar við þessu. Hann segir aðstæður vera að skapast fyrir enn meiri dýfu og að atvinnuleysi eigi líklega ennþá eftir að aukast umtalsvert.

Roubini gengur svo langt að segja að Evrópusambandið kunni að liðast í sundur. Þar séu bankarnir í enn verri stöðu en komið hafi fram til þessa og verndarstefna gangi nú ljósum logum innan margra aðildarríkjanna. Slíkt sé afleitt því einangrunarstefna muni einfaldlega draga kreppuna á langinn.

Í reynd erum við öll á valdi Sádanna. Þeir kæra sig þó alls ekki um að kæfa okkur; vilja þvert á móti að við blómstrum svo við getum borgað þeim offjár fyrir olíufíkn okkar. Þess vegna kann að vera skynsamlegt fyrir þá að auka nú aðeins við olíuframleiðsluna. Fá smá slaka í verðið, svo efnahagslíf Vesturlanda hrökkvi ekki alveg upp af.

Nú er mikilvægt að spila rétt úr möguleikunum. Ekki bara fyrir Sádana, heldur ekki síður fyrir fámenna þjóð norður í Dumbshafi. Íslendingar eru í þeirri nánast einstöku aðstöðu að rafmagnsframleiðsla okkar er algerlega óháð kolvetniseldsneyti. Ef við gætum líka framleitt að verulegu leyti eigið eldsneyti á bíla- og skipaflotann yrðum við líklega sigurvegarar kreppunnar. Nú kann að vera hárrétti tíminn fyrir íslensk stjórnvöld að hefja endurreisnarstarf með því að gera Ísland óháðara innfluttu eldsneyti (nema hvað flugið fær auðvitað að njóta flugvélabensíns enn um sinn).

Biofuel-CoverStjórnvöld ættu að vinna þetta hratt. T.d. setjast niður með samtökum bænda og leita leiða til að  landbúnaðurinn geti dregið úr starfsemi sem skilar litlum arði og þess stað framleitt eldsneyti á íslenska bílaflotann. Lífefnaeldsneyti (biofuel) er líklega raunhæfasta og fljótvirkasta leiðin til að draga úr olíufíkninni.

Orkubloggarinn hefur lengi verið tortrygginn á lífefnaeldsneyti sem framtíðarlausn í orkumálum. Og hefur þá verið að vísa til fyrstu kynslóðar af slíku eldsneyti, sem byggist á ræktun á hefðbundnu ræktarlandi, sem er óheppilegt fyrir fæðuframboð í heiminum. Aftur á móti bindur bloggið miklar vonir við að biofuel komi til með að verða góður kostur þegar unnt verður að vinna það úr þörungum  (algae).

En hugsanlega er lífefnaeldsneyti nærtækasta, ódýrasta og skynsamlegasta lausnin. Ekki verður fram hjá því litið, að nýlega lýstu bandarísk stjórnvöld því yfir að vetni verði aldrei raunhæfur orkugjafi í stórum stíl. Það sé einfaldlega allt of dýrt og ópraktískt. Þokkalegt rothögg fyrir þann ljúfa iðnað.

biofuel_carEinnig eru uppi efasemdir um að til sé nægjanlegt liþíum  í veröldinni til að standa undir stórfelldri rafbílavæðingu. Og nokkuð langt virðist í að metanólið eða DME verði raunhæfur kostur. Þess vegna freistast Orkubloggið til að veðja á lífmassann sem skásta kostinn þegar horft er til ekki of fjarlægrar framtíðar. E.h.t. kemur svo kannski að því að allt gangi fyrir sólarorku - en ekki alveg á næstunni! 

Þegar horft er til lífmassans er s.k. þriðju kynslóðar lífefnaeldsneyti auðvitað mest spennandi; eldsneyti unnið úr þörungum. Vonandi verður sá möguleiki raunhæfur sem fyrst, svo forðast megi að ræktarland heimsins umbreytist í fóðurakra fyrir bílaflotann. Hér á Íslandi getum við aftur á móti leyft okkur að hafa litlar áhyggjur af fæðuframboði. Hér er mikið af ræktarlandi, sem upplagt væri að nota til hefðbundinnar lífmassaframleiðslu.

Það mætti sem sagt nota íslenskt lífefnaeldsneyti til að minnka þörfina á innfluttri olíu; þannig mætti bæði spara gjaldeyri og skapa ný störf hér heima. Að vísu yrði ríkið þá væntanlega af tekjum, sem nú fást í tengslum við sölu á því bensíni og olíu sem lífmassinn myndi leysa af hólmi. Ekki er raunhæft að lífefnaeldsneytið þoli eins mikla skattlagningu; til þess er framleiðslan líklega enn of dýr.

repja_ThorvaldseyriHeildaráhrifin af því að auka hlutfall innlendrar orku ættu þó að verða prýðilega jákvæð. Þarna myndu verða til störf, byggjast upp verðmæt þekking og reynsla og allt yrði þetta enn eitt skrefið að því að gera Ísland framtíðarinnar algerlega orkusjálfstætt. Ekki amalegt markmið að stefna að.

En til að svo megi verða er ekki nóg að nokkrir hugsjónamenn eða sérvitringar séu að bauka við þetta hver í sínu horni. Orkustefna er grundvallaratriði hjá hverju ríki. Íslensk stjórnvöld eiga að taka af skarið og móta sér skýra orkustefnu . Ekki bara í virkjana- og raforkumálum, heldur einnig um það hvernig við getum komið bílum og skipum sem mest á innlent eldsneyti. Íslenskan lífmassa!


"Spurðu vindinn"

Hannes_PeturssonEinu sinni fyrir mörgum, mörgum árum varð ég samferða nokkrum körlum í ferð þeirra austur með Síðu. Einn þeirra var Hannes Pétursson, skáld.

Við Foss á Síðu, þar sem fossinn fellur svo fallega hvítfyssandi lóðrétt niður af heiðarbrúninni, var stansað, gengið um og myndavélarnar mundaðar. Hannes stóð aftur á móti tómhentur og deplaði augunum svolítið sérkennilega. Aðspurður kvaðst hann líka vera að taka myndir; "Taka myndir með augunum". Spurður að því hvort slíkar myndir varðveittust nægjanlega vel, svaraði hann að bragði: "Spurðu vindinn, vinur minn. Spurðu vindinn".

Sé litið er til ljósmyndanna tveggja hér eilítið neðar kunna sumir að spyrja sig hvað veldur mismuninum? Af hverju er danska ströndin hér að neðan þakin vindrafstöðvum, en hin íslenska auð? Þrátt fyrir að sú síðar nefnda njóti líklega bæði meiri og stöðugri vinds og kunni því að henta enn betur fyrir vindorkuver en sú danska.

Klasi_Slide15Svarið er ekki mjög flókið. Danmörk hefur jú lengst af fengið nær allt sitt rafmagn frá kolaorkuverum og þar er vindorkan því kærkominn orkugjafi. Bæði til að minnka þörfina á innfluttri orku og ekki síður til að draga úr mengun svo og að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá kolaorkuverum.

Ísland aftur á móti er með með gnægð af vatnsafli og jarðvarma. Hér hafa orkufyrirtækin því sérhæft sig í slíkum virkjanakostum - og kunna jafn lítið á að virkja vindinn eins og þau kunna mikið á að beisla vatnsafl og jarðvarma.

Þar að auki voru það alkunn sannindi allt fram undir aldamótin síðustu, að vindorka var almennt talsvert dýrari orkuvinnsla en bæði vatnsafl og jarðvarmi. Þess vegna hefur lítil sem engin ástæða verið fyrir íslensku orkufyrirtækin að vera að spá í slíka sérvisku, nema kannski á útnárum eins og í Grímsey. Þess vegna er t.d. ekki ein einasta vindrafstöð risin á suðurströnd Íslands, en myndin hér að neðan er einmitt tekin við Dyrhólaey.

Klasi_Slide16En nú eru aldamótin löngu liðin og næstum áratugur í viðbót! Framþróun endurnýjanlegrar orku á heimsvísu er æpandi hröð og á síðustu tíu árum hefur orðið gríðarleg uppsveifla hjá vindorkufyrirtækjunum. Náðst hafa fram hreint ótrúlegar kostnaðarlækkanir í þessum iðnaði á stuttum tíma. Það er varla ofsagt að þau tímamót séu nú runnin upp, að hagstæðustu vindrafstöðvarnar jafnist nú á við hagkvæma vatnsaflsvirkjun eða jarðvarmaorkuver.

Það er mikil breyting frá því sem var fyrir einungis áratug eða svo. Fyrir vikið skyldi maður ætla að íslensku orkufyrirtækin og iðanaðraráðuneytið væru nú byrjuð að íhuga alvarlega þann möguleika að hér á landi rísi vindorkuver.

Klasi_Slide20Þegar litið er fáein ár fram í tímann eru góðar líkur á að stórar vindrafstöðvar muni verða jafnvel ennþá hagkvæmari heldur en gamla, góða vatnsaflið. Kostnaðurinn kann að verða svipaður, en langvarandi umhverfisáhrif vindorkuveranna eru miklu minni. Það hversu vindorkan er að verða ódýr veldur því að orkuver af því tagi spretta nú upp með ótrúlegum hraða víðsvegar um ólík lönd eins og Bandaríkin, Spán og Kína.

Hér á landi er raforka til stóriðju svo geysilega hátt hlutfall af heildarorkuþörfinni, að líklega verður rafmagn frá vindorkuverum seint mjög stór hluti raforkuframleiðslu landsmanna. Til þess er vindorkan of sveiflukennd og ótrygg; hún hentar stóriðjunni ekki nægjanlega vel.

Engu að síður gæti verið hagkvæmt að stórar vindrafstöðvar framleiði allt að 5% raforkunnar á Íslandi. Í dag myndi það líklega þýða framleiðslu upp á 600 GWh (miðað við að heildarraforkuframleiðslan á ári sé um 12 þúsund GWh). Til að framleiða svo mikið af raforku frá vindrafstöðvum þarf mikið uppsett afl; varla er raunhæft að gera ráð fyrir meira en ca. 25-30% nýtingu hjá íslenskum vindrafstöðvum.

Wind-deepwater-offshoreIllmögulegt er að fullyrða af neinni nákvæmni um það hversu mörg MW af vindrafstöðvum þarf hér á landi til að framleiða þessar 600 GWh. Engin raunveruleg hagkvæmnisathugun hefur verið gerð um þetta og ekki verið framkvæmdar þær vindmælingar sem nauðsynlegar eru til að meta hagkvæmnina af einhverju viti.

Þess í stað æða menn hér út um allar trissur að skoða möguleika á nýjum vatnsaflsvirkjunum og jarðhitavirkjunum. Og virða um leið að vettugi möguleikann á því að skynsamlegt kunni að vera að huga af alvöru að því að reisa hér vindorkuver. Ekki virðist hafa hvarflað að neinum manni að við gerð Rammaáætlunar um virkjanakosti á Íslandi, væri eðlilegt að skoða líka kosti vindorkuvera. En þar er einungis litið til vatnsafls og jarðvarma.

Það er að öllum líkindum einungis tímaspursmál hvenær útflutningur á rafmagni frá Íslandi um sæstreng verður raunhæfur kostur. Norðmenn hafa nú þegar lagt slíkan sæstreng eftir botni Norðursjávar og til Hollands. Þeir gera ráð fyrir að stórauka raforkusölu með þessum hætti á komandi árum. Í því skyni stefna Norsararnir á að reisa fjölda stórra vindrafstöðva all langt utan við ströndina og jafnvel að þær verði fljótandi. Þeir ætla að umbreyta vindinum sem þar blæs svo hressilega, í beinharðar gjaldeyristekjur.

foss_siduHér virðast ráðamenn aftur á móti fremur vilja að þjóðin gerist peningaþrælar Hollendinga og Breta. Að mati Orkubloggsins er orðið tímabært að Íslendingar hefji vinnu með það að markmiði að Ísland selji raforku í stórum stíl til Evrópu. Frá stórum vindorkuverum. Iðnaðarráðherra og ráðgjafar hennar hljóta að fara að skoða þessa möguleika ekki seinna en strax. Annað væri mikil skammsýni.


Kolefnisvísitalan

Undanfarin ár hefur nánast öll umræða um orku- og umhverfismál snúist í kringum gróðurhúsaáhrif, hlýnun jarðar, kolefnisjöfnuð, endurnýjanlega orku og nauðsyn þess að jarðarbúar „snúi af braut olíufíkinnar".

Engu að síður telur Orkubloggarinn óumflýjanlegt að kol, gas og olía verði helstu orkugjafar heimsins um langa framtíð - jafnvel næstu hundrað árin eða meira. Og að heimsbyggðin muni áfram vinna bullsveitt við að kreista hvern einasta olíudropa sem unnt er úr iðrum jarðar.

Syngas_Plant_USAÞar er enn af miklu að taka; miklu meira en margir virðast halda. Heimsendaspárnar um að við séum nú meira en hálfnuð með olíubirgðir jarðar dynja á okkur nær daglega og að senn fari verðið á olíutunnunni í 200-300 dollara er ekki óalgeng spá. En í reynd er miklu líklegra að ennþá sé unnt að framleiða á þokkalegu verði jafnvel þrisvar til fjórum sinnum meiri olíu en gert hefur verið síðustu hundrað árin. Um þetta er vissulega mikil óvissa, en Orkubloggið hallast að því að meðalverð á olíu næstu árin verði vel undir 200 dollurum tunnan miðað við núvirði.

Ef olíuverðið helst hógvært mun ekkert draga úr eftirspurn eftir olíu. Ef aftur á móti verðið rýkur upp langt yfir 100 dollara tunnan, er líklegt að nýr svartur risaiðnaður líti dagsins ljós. Olíuvinnsla úr kolum. Það er sem sagt sama hvernig olíuverðið þróast; kolvetnisvinnsla verður grunnurinn í orkugeira heimsins um langa framtíð. Ódýr olía mun auka olíueftirspurn en dýr olía mun auka eftirspurn eftir gasi og kolum. Þetta er eins konar sjálfskaparvíti eða úlfakreppa.

Tæknilega er löngu orðið unnt að framleiða olíu úr kolum og af kolum eru til heil ósköp. Þessi framleiðsla er nokkuð dýr og hefur þess vegna ekki orðið umfangsmikil. En ef olíuverð fer til langframa yfir 100 dollara tunnan mun þessi s.k. synfuel-framleiðsla vaxa hratt - það er óumflýjanlegt. En það mun þýða hrikalega aukningu í kolefnislosun. Eflaust má segja að sú mengun ein og sér sé hreinn viðbjóður, en ýmsir óttast enn meira veðurfarsbreytingarnar sem kolefnislosun kann að valda.

Sasol_CEO_Pat_DaviesÞessi subbulegi synfuel-iðnaður - sem kannski mætti kalla kolaolíu upp á íslensku - vex hratt en hljóðlega. Eins og Orkubloggið hefur áður getið um er það Suður-Afríska fyrirtækið Sasol, sem er í fararbroddi synfuel-iðnaðarins. Æðsti presturinn í þessum kolsvarta bransa er tvímælalaust Pat Davies, forstjóri Sasol.

Þeir Sasol-menn standa langt í frá einir. T.d. hefur stærsta jarðhitafyrirtæki heims - sem reyndar er mun þekktara fyrir olíuframleiðslu sína - sett mikið fjármagn í synfuel-framleiðslu. Hér er auðvitað verið að tala um Chevron, en Chevron á nú í nánu samstarfi við Sasol.

Kannski eru þær kenningar hárréttar að kolvetnisbruni mannkyns valdi hlýnun á jörðinni. Kannski. Kannski ekki. Orkubloggarinn er svolítið efins um að þær kenningar gangi eftir - en þykir þó sjálfsagt að sýna aðgát og reyna að takmarka þessa losun. Þó ekki sé nema til að minnka mengunina sem stafar frá öllum kolaorkuverunum og samgönguflotanum.

En hvað sem umræðunni og tilraunum ríkja til að draga úr kolefnislosun líður, er þetta eiginlega dæmt til að mistakast. Við byggjum allt okkar líf á orkunni og hún er og verður að mestu framleidd með kolvetnisbruna. Þess vegna streymir fjármagnið sleitulaust í iðnað eins og synfuel. Þó svo auðvitað sé miklu meira talað um þá fáeinu aura sem iðnfyrirtækin láta renna til þróunar í endurnýjanlega orkugeiranum. Meðan ekki kemur fram ný grundvallarlausn í orkumálum heimsins, mun kolvetnisbruninn halda áfram að vaxa í heiminum. Hvað sem öllum fögrum fyrirheitum líður. Það þarf eitthvað mikið að koma til, til að breyta þeirri þróun.

sasol_chevron_logo_2Þetta kann að hljóma nokkuð neikvæð spá. En Orkubloggarinn þjáist af miklu raunsæi. Hugsanlega verða þóríum-kjarnorkuver lykilatriði í umbreytingu í orkugeiranum. Ennþá betra væri ef kjarnasamruni verður tæknilega mögulegur. Enn er þá eftir að koma með snilldarlausnina í samgöngugeiranum. Rafmagnsbílar verða kannski hluti af lausninni en þó vart neitt grundvallaratriði. Meira eins og að kasta krækiberjum í kolsvarta Kolefnisrisann. Hér þarf eitthvað miklu meira að koma til. Það má öllu raunsæju fólki vera augljóst að umbreytingin mun taka langan tíma og óumflýjanlegt að kolvetnisbruni mun halda áfram að aukast lengi enn.

Meðan hlutabréfavísitölur æddu upp komst lítið annað að í fjölmiðlunum en gagnrýnislausar hallelúja-fréttir um uppganginn í efnahagslífinu. Upp á síðkastið hafa verðbréfabréfamarkaðirnir orðið æstir í að miðla viðskiptum með kolefnisheimildir. Nýjasta útspilið í fjármálalífinu er sem sagt að gera sér bisness úr gróðurhúsaáhrifunum.

climate_change_billboardStærstu viðskiptamiðstöðvar heimsins hafa löngum skreytt sig með ljósaskiltum, sem sýna helstu verðbréfavísitölurnar. Nýjasta brumið er innlegg risabankans Deutsche Bank. Sem nú hefur líklega mestar áhyggjur af því hvort þeir þurfa að taka Actavis upp í skuldir.

Þar þykir mönnum ganga hægt að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Til að leggja áherslu á þetta komu þeir nýlega fyrir 25 metra háu skilti sem sýnir vegfarendum í New York magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Þar í hjarta Manhattan getur fólk nú séð teljarann æða áfram. Hver og einn verður svo að hafa sína skoðun á því hvort þetta sé raunveruleg dómsdagsklukka eða merkingarlaus tala.

Sagt er að hálf milljón manns sjái þetta skilti á degi hverjum. Við hin getum fylgst með tölunni hér.


Endurkoma styrjunnar?

Landsvirkjun undirbýr nú virkjanir í neðri hluta Þjórsár og þar á meðal stendur til að virkja Urriðafoss. Væntanlega stendur til að a.m.k. verulegur hluti þeirrar raforku fari í nýjan áliðnað á suðvesturhorni landsins. Á sama tíma eru nú uppi hugmyndir um að loka nokkrum af helstu vatnsaflsvirkjununum á vatnasvæði Columbiafljótsins vestur í Bandaríkjunum og láta stórar, nýjar vindrafstöðvar leysa þær af hólmi.

Wind_Oregon_2Vindorkuver spretta nú upp víða á vindbörðum sléttum Bandaríkjanna - og það jafnvel í nágrenni jarðhitavirkjananna í Kaliforníu og vatnsaflsvirkjana norðvesturfylkjanna Oregon og Washington. Vindorkan er einfaldlega að verða einn albesti kosturinn í virkjanamálum og stundum jafnvel sá sem bestur þykir.

Í síðustu færslu minntist Orkubloggið á hinar svakalegu vatnsaflsvirkjanir í Columbiafljótinu. Þær voru mikilvægur hluti í endurreisnaráætlun Roosevelt's forseta í Kreppunni miklu og veittu mörgum atvinnulausum Bandaríkjamanninum vinnu og nýja von. Ódýr raforkan frá virkjununum varð undirstaða gríðarlegs áliðnaðar þar vestra og sá iðnaður var lengi mikilvægur hluti atvinnulífsins í viðkomandi fylkjum.

En tíminn stendur ekki í stað og allt er breytingum háð. Að því kom að álverin í norðvestrinu gátu ekki lengur keppt við nýja kaupendur. Inn á svæðið komu háþróaðri fyrirtæki sem gátu skilað meiri virðisauka en álverksmiðjurnar og voru viljug til að borga mun meira fyrir raforkuna en álfyrirtækin treystu sér til.

Fyrir vikið hefur hverju álverinu á fætur öðru verið lokað þarna í nágrenni hinnar ægifögru náttúru í nágrenni Klettafjallanna. Og álfyrirtækin leitað á ný mið - til landa sem eiga mikið af ónýttri orku og eru með lítt þróaðan iðnað. Ekki skemmir ef í viðkomandi landi eru stjórnmálamenn við völd sem eru æstir í að virkja jafnvel þó svo lítill arður fáist af orkusölunni.

salmon-snake-riverHátækniálverin þarna vestra gátu sem sagt ekki keppt við "eitthvað annað" sem kom inn á svæðið. Það voru talsverð tímamót. Og nú gætu enn á ný verið að bresta á tímamót í orkuiðnaði Washington og Oregon. Það eru nefnilega uppi hugmyndir  um að nýta vindorku til að loka vatnsaflsvirkjunum í Columbiafljóti og endurheimta fjölbreytt lífríki árinnar.

Hugmyndin er sem sagt sú að vindorkan leysi vatnsorkuna af hólmi - að einhverju marki. Það er reyndar alls óvíst að þessar hugmyndir gangi eftir. Satt að segja þykir Orkublogginu heldur ólíklegt að svo fari, því stóru vatnsaflsvirkjanirnar í Columbia framleiða líklega einhverja ódýrustu raforku sem þekkist. Á móti kemur að virkjanirnar höfðu mikil neikvæð umhverfisáhrif í för með sér og freistandi að endurheimta hluta af hinum horfna heimi.

celilo_fallsColumbiafljót var áður m.a. þekkt fyrir gríðarlega laxagengd og margar fallegar fossaraðir. Heiti eins og Celilo Falls, Priest Rapids og Kettle Falls eru nú einungis endurminning um villt straumvatnið sem var kæft með stíflumannvirkjum fyrir mörgum áratugum og sökkt í djúpið. Vegna virkjananna og miðlunarlóna hvarf fjöldi flúða og fossa og laxinn gat ekki gengið lengur upp fljótið eins og verið hafði. Á svæðum þar sem áður höfðu veiðst milljón laxar á ári varð Columbia einfaldlega laxalaus. Efnahagslega bitnaði þetta einkum á indíánaættflokkum á svæðinu sem áttu veiðiréttinn og kannski var það ein ástæða þess að menn gerðu ekki mikið úr þessu á sínum tíma.

Sturgeon_Snake_riverAuk laxins hafði Columbia að geyma mikið af styrju, en vegna stíflnanna eyðilögðust mörg helstu hrygningarsvæðin og styrjan hætti að geta gengið upp með ánni eins og verið hafði síðan í árdaga. Í dag er stofn Hvítstyrjunnar í Columbia ekki svipur hjá sjón. Þar að auki fór talsvert mikið land undir miðlunarvatn, sem eftirsjá þykir í. Þess vegna eru margir sem nú vilja nota vindorkuna til að leysa virkjanir í Columbia af hólmi og færa hluta árinnar til fyrra horfs.

Maður hefði kannski ætlað að möguleikar í vindorku í Bandaríkjunum miðuðu fyrst og síðast að því að draga úr þörfinni á rafmagni frá gas- og kolaorkuverum! En nú eru sem sagt komnar fram hugmyndir um að vindorka leysi af hólmi einhverjar af stóru vatnsaflsvirkjununum á vatnasvæði Columbia-fljótisins. Raforkufyrirtækið Bonneville Power Administration (BPA), sem selur stærstan hluta raforkunnar frá virkjununum í Columbia, Snákafljóti og öðrum virkjunum á þessu gríðarstóra vatnasvæði, íhugar nú að auka mjög raforkuframleiðslu frá vindorkuverum. Einkum til að mæta vaxandi eftirspurn eftir raforku og líka til að skapa sér grænni ímynd. Með nýjum vindorkuverum gæti BPA dregið úr raforku sinna frá gasorkuverum, sem nú er næst stærsta raforkuuppspretta BPA (á eftir vatnsaflinu).

Wind_US_NorthWestVafalust bjuggust stjórnendur BPA við því að þessum áætlunum þeirra yrði fagnað með látum. En það fór ekki alveg eins og þeir vonuðust eftir. Því til eru þeir sem vita að laxastofnarnir í stórám norðvestur-fylkjanna voru annað og meira fyrir tíð vatnsaflsvirkjananna. Margir eygja nú möguleikann á að endurheimta eitthvað af forni frægð Columbia-laxins. Þess vegna hefur BPA vinsamlegast verið bent á að þeir eigi einfaldlega að nýta vindorkuna til að minnka þörfina á vatnsaflsvirkjununum, þ.a. þær megi rífa niður og frelsa laxinn úr áratuga ánauð sinni.

Það kom BPA örlítið á óvart að vindorkuverin þeirra yrðu vatn á myllu þess að loka virkjunum í Columbiafljótinu. Þeir hafa beint á að vatnsaflsvirkjanir og vindorkuver spili mjög vel saman. Henti vel til að jafna álagið og þetta sé einfaldlega samsetning sem smellpassar í raforkuframleiðslu. Vatnsaflið muni þróast í að verða varaafl, en það hlutverk er nú aðallega í höndum gasorkuveranna.

Það er óneitanlega athyglisvert ef aukning vindorku þarna í æpandi náttúrufegurð Oregon og Washington verður ekki til að fækka um eitt einasta gasorkuver og hvað þá kolaorkuver. Heldur að vindorkan leysi þess í stað gamlar og löngu uppgreiddar vatnsaflsvirkjanir af hólmi. Svolítið undarleg þróun, a.m.k. svona við fyrstu sín. Maður hélt jú að endurnýjanleg orka í bæði Evrópu og Bandaríkjunum hefði einkum það hlutverk að takmarka kolefnisbruna og þörf á innfluttri orku.

Augljóslega yrði kostnaðarsamt að ráðast í aðgerðir af þessu tag, þ.e. að loka vatnsaflsvirkjunum. En líklega hefur það þó sjaldan verið eins auðvelt og nú. Kreppupakkinn kenndur við Obama (Obama Stimulus Package) felur það í sér að lánamöguleikar BPA frá alríkisstjórninni hafa aukist úr tæpum 4,5 milljörðum dollara í næstum því 8 milljarða dollara. Fyrirtækið á nú m.ö.o. greiðan aðgang að miklu og ódýru lánsfé og þrýst er á þá að hugleiða sína siðferðislegu ábyrgð og bæta fyrir eitthvað af því mikla umhverfistjóni sem fylgdi virkjununum á vatnasvæði Columbia.

Snake_River_colourSérstaklega hefur verið bent á þann möguleika að rífa burtu virkjanirnar í neðri hluta Snákafljóts, sem er ein stærsta þverá Columbia. Virkjanirnar þar reyndust hafa hvað neikvæðust áhrif á laxinn og með því að fjarlægja þær mætti líklega stórefla lífríkið á svæðinu. Af hálfu BPA hefur verið bent á að bygging nýrra vindorkuver sem einungis myndu mæta framleiðslutapinu vegna umræddra virkjana, myndu kosta 400-550 milljónir dollara (til samanburðar má nefna að á liðnu ári voru heildartekjur BPA rétt rúmir 3 milljarðar dollara). Sumir segja aftur á móti að þetta séu smápeningar miðað við ávinninginn sem þetta myndi skila lífríkinu í Snákafljóti. Og nú sé tækifæri að láta enn umhverfisvænni orku bæta fyrir umhverfistjón fyrri tíma. Skyldi koma að því að vindorka verði meginuppspretta raforkuframleiðslu Landsvirkjunar, en vatnsaflið verði fyrst og fremst varaafl?


Græni herinn

At Bonneville now there are ships in the locks.
The waters have risen and cleared all the rocks.
Shiploads of plenty will steam past the docks.
So roll on, Columbia, roll on.

Woody_GuthrieÞessi texti sveitasöngvarans frábæra Woody heitins Guthrie, er líklega ágætis inngangur að umfjöllun Orkubloggsins um vatnsafl í norðvesturríkjum Bandaríkjanna.

Columbia sú sem þarna er sungið um er auðvitað Columbiafljótið, sem er mesta vatnsfall í norðvesturríkjunum. Það ber gríðarlegt vatnsmagn frá Klettafjöllunum og til Kyrrahafsins á um 2 þúsund km leið sinni gegnum bæði Kanada og Bandaríkin. Upptökin liggja í Kanada en tilkomumest er Columbia í Washingtonfylki. Alls mun vatnasvæði Columbia vera hvorki meira né minna en 670 þúsund ferkílómetrar!

Vegna mikillar fallhæðar hentar Columbiafljót afar vel til vatnsaflsvirkjana og stendur undir þriðjungi af öllu virkjanlegu vatnsafli í Bandaríkjunum. Enda eru nú samtals um hálfur annar tugur virkjana í fljótinu sjálfu, sumar þeirra gríðarstórar. Að auki er fjöldi annarra virkjana í þveránum, en af þeim er Snake River hvað þekktust.

Snákafljót er eitt af þessum dásamlegu örnefnum í bandarískri náttúru - nöfnum sem fá hjarta Orkubloggarans til að þrá frumbyggjalíf 19. aldar á indíánaslóðum. Ekki er stubburinn minn, 8 ára, síður spenntur fyrir Frumbyggjabókunum en pápi hans. Í kvöldlestrinum erum við einmitt komnir að lokabókinni í þessum skemmtilega norska bókaflokki og heitir bókin sú ekki amalegra nafni en Gullið í Púmudalnum!

Snake_River_AdamsFrægustu virkjanirnar í Columbiafljótinu eru kenndar við smábæinn Bonneville, en í reynd er nafnið Bonneville-stíflurnar(Bonneville Dams) oft notað sem samheiti yfir fjölmargar virkjanir í fljótinu. Þar eru stærstar Grand Coulee með hvorki meira né minna en um 6.800 MW framleiðslugetu og Chief Joseph Dam, sem getur framleitt um 2.600 MW. Til samanburðar þá er framleiðslugeta Kárahnjúkavirkjunar um 700 MW. Alls geta virkjanirnar í Columbiafljóti framleitt lítil 25 þúsund MW og eru þá virkjanirnar í Snákafljóti og öðrum þverám Columbia EKKI taldar með. Sem sagt dulítið rafmagn þarna á ferðinni.

Columbia_River_dams_mapLengi vel var stærstur hluti rafmagnsins frá Columbia-virkjununum nýttur til álframleiðslu. En með fjölbreyttari atvinnurekstri í Seattle og nágrenni fór svo að álfyrirtækin lentu í erfiðleikum með að keppa um orkuna. Á síðustu árum hefur hverri álverksmiðjunni á fætur annarri verði lokað þarna í hinu magnaða norðvestri. Samdrátturinn í áliðnaðinum þar er sagður allt að 80% á örfáum árum. Þess í stað fer orkan frá vatnsaflsvirkjununum nú til fyrirtækja eins og Google, sem hefur unnið að uppbyggingu gagnavera á svæðinu. Kannski umhugsunarvert fyrir Íslendinga?

Álfyrirtækin fóru aftur á móti að leita að ódýrara rafmagni en framleiðendurnir í Columbiafljótinu buðu. Og fundu það fljótt í þriðja heiminum - svo og á eyju einni norður í Dumbshafi þar sem stjórnvöld eru þekkt fyrir flaður sitt upp um álrisa.

Hvað um það. Annað atriði sem Orkubloggaranum þykir athyglisvert er hverjir standa að rafmagnsframleiðslunni í Columbaifljóti. Kannski halda sumir frjálshyggjusinnaðir Íslendingar að öll rafmagnsframleiðsla í Bandaríkjunum sé í höndum Mr. Burns og félaga hans. Sem sagt einkarekstur. Því fer fjarri. Meira að segja Bandaríkjamenn er vel meðvitaðir um mikilvægi þess að ríkið sé bakhjarlinn í rafmagnsframleiðslunni.

Bonneville_dam_explainedJá - öll fer þessi geggjaða orka frá Bonneville í gegnum ríkið. Sala og dreifing er í höndum ríkisfyrirtækisins Bonneville Power Administration (BPA), en rekstur og viðhald sjálfra virkjananna er á vegum sérstakrar alríkisstofnunar, sem nefnist því virðulega nafni US Army Corps of Engineers. Þetta er stofnun með meira en 35 þúsund starfsmenn sem heyrir undir bandaríska varnarmálráðuneytið og sagan háttar því svo að þessi merkilega stofnun hefur komið að byggingu og rekstri mikils fjölda vatnsaflsvirkjana þar vestra.

US_ACEUSACE sinnir einnig margs konar annarri uppbyggingu í landinu og er eitt af þessum undarlegu dæmum um ofboðsleg umsvif alríkisins í landi sem oftast er kennt við einkaframtak. Kannski mætti kalla þessa ágætu bandarísku stofnun hinn eina sanna Græna her?

Bygging Bonneville-virkjananna hófst árið 1934 í kreppunni miklu. Auk þess að skapa mikinn fjölda starfa fyrir atvinnulausa Bandaríkjamenn, reyndust þessar virkjanir ein mikilvægasta undirstaða iðnaðaruppbyggingar landsins í aðdraganda styrjaldarátakanna og þar með hornsteinn í sigri Vesturveldanna gegn Japan og Nasista-Þýskalandi. Orkan var, sem fyrr segir, að miklu leyti nýtt í álbræðslur á svæðinu, sem voru mikilvægur þáttur í hernaðarmaskínunni sem sigraði síðari heimsstyrjöldina.

Reyndar er öll saga BPA stórmerkileg. Fyrirtækið var stofnað af Bandaríkjaþingi í þeim tilgangi að sjá um dreifingu og sölu á öllu rafmagni frá Bonneville-virkjununum. Á næstu áratugum óx framleiðslugetan jafnt og þétt með nýjum virkjunum á svæðinu og samhliða því sá BPA um byggingu á sífellt öflugra dreifikerfi.

BPA_logoÍ dag kemur um 45% alls þess rafmagns sem notað er í norðvesturfylkjum Bandaríkjanna frá BPA og fyrirtækið rekur eitt stærsta dreifikerfi rafmagns í Bandaríkjunum. Það er m.ö.o. ekki bara einkarekstur sem tíðkast þarna vestra – þvert á móti er ríkið þar stórtækara en í mörgum löndum Evrópu. Það er kannski eitt af skemmtilegum leyndarmálum hagfræðinnar.


Icesave

Jon_HelgiJón Helgi Egilsson hefur rétt fyrir sér.

Og Orkubloggið sér Icesave-málið með þessum augum: Eftir hrun bankanna kom í ljós að innistæðutryggingakerfi ESB og EES var þess eðlis að það kom ekki að gagni við svo umfangsmikið fjármálahrun. ESB hafði einfaldlega gleymt að gera ráð fyrir að svona svakalegar fjármálahamfarir gætu átt sér stað í einu landi.

Með Icesave-skuldbindingunni eru íslensk stjórnvöld að gera Íslendinga ábyrga fyrir klaufaskapnum hjá ESB. Það er gjörsamlega útí hött.

Það er algerlega fráleitt að íslensk stjórnvöld velti skuldaábyrgð á íslenskan almenning, vegna skulda sem almenningur ber enga ábyrgð á lögum samkvæmt. Ef bresk og hollensk yfirvöld vilja fá þessa peninga aftur verða þau að eiga það við bankann, aðaleigendur hans og stjórnendur.

Cartoon_IcesaveVilji Bretar og starfsmenn ESB aldrei tala við okkur aftur ef við ekki kyngjum afarkostum þeirra, verður bara að hafa það. Við eigum ekki að samþykkja ofbeldi af þessu tagi.


Völva og snillingur

Í dag bárust skilaboð í tölvupósthólf Orkubloggsins. Frá EIA; upplýsingaskrifstofu bandaríska Orkumálaráðuneytisins.

Washington_DC_joyful_youngÞetta er svo sem ekki í frásögur færandi. Því sjálfsagt hafa milljónir annarra ef ekki miklu fleiri fengið nákvæmlega þennan sama póst. Sem fær okkur öll til að brosa út að eyrum. En Orkubloggarinn er sem sagt áskrifandi að öllum helstu tilkynningum EIA (US Energy Information Administration) um orkutölfræði.

Það athyglisverða við póst dagsins var að EIA sendi þarna út spá sína um að eftirspurn eftir olíu muni aukast á næstu vikum. Og verðið muni af þessum ástæðum stíga eitthvað á næstunni; a.m.k. fram í júlí.

Ekki vorum við aðdáendur svarta gullsins fyrr búnir að lesa þennan nýjasta spádóm olíuvölvunnar miklu en olíuverðið á Nymex tók að hækka. Og fór hvorki meira né minna en yfir 70 dollara tunnan nú þegar leið á daginn. Mikill er máttur skriffinnanna hjá EIA vestur í Washington DC.

Oil_Price_Nymex_jan-june_2009Hver hefði trúað því á frostdögunum í febrúar s.l. þegar olíutunnan lafði rétt í 35 dollurum, að verðið myndi verða tvöfalt hærra á sveittum sumardegi í New York fjórum mánuðum síðar? Vissulega var Orkubloggarinn ávallt staðfastur á því að olíutunnan færi í ca. 70-75 dollara. Það væri bara tímaspursmál hvenær Sádarnir næðu tökum á framboðinu. Kannski óþarfi að minna enn einu sinni á það að 70-75 dollarar er nefnilega einmitt verðið sem Sádarnir þurfa til að ríkiskassinn þar verði ekki tómur. Svo einfalt er það nú.

En jafnvel Orkuofvitann að baki blogginu óraði ekki fyrir því að þetta myndi gerast svona hratt. Vesturlönd eru í dúndrandi fjármálakreppu og samt er olíuverðið komið í þá tölu sem Sádarnir vilja... en Vesturlönd hata þetta sama verð!Ali_al_Naimi_cool

Hvað segir þetta okkur? Að framtíðin sé björt og efnahagslífið verði brátt komið á bullandi skrið um allan heim? Eða að besti vinur bloggarans, hann Ali Al Naimi olíumálaráðherra Sádanna, sé einfaldlega snillingur? Hann ætlaði sér að ná verðinu upp. Lét OPEC skera niður framleiðsluna í nokkrum áföngum - næstum helst til varlega að Orkublogginu fannst. En viti menn - aðeins hálfu ári síðar er óskaverð Sádanna komið fram. Alveg magnað.

Já - kallinn er brilljant. Og tilefni fyrir hann að kasta kuflinum í svona eins og eina kvöldstund og smella sér í kúl lúkkið. Svarti leðurjakkinn bíður í skápnum og nóttin er ung.

Illar tungur - eða öllu heldur apagreiningadeildirnar vestra - segja okkur reyndar að þessar hækkanir á olíuverði undanfarið séu bara til komnar vegna veikingar á dollar. Geisp. Alltaf eru þessir greiningadeildakjánar samir við sig. Málið er einfalt; olíuverðið er komið yfir 70 dollara tunnan vegna þess að honum Ali Al Naimi og félögum tókst ætlunarverk sitt. Nú þurfa þeir bara að passa upp á það að áframhaldandi hrun efnahagslífsins hér í Vestrinu dragi ekki olíuverðið niður á ný.

Ali_al_Naimi_cheerfulNei - ljúflingarnir þarna í sandinum gula mega ekki verða værukærir. En þeir geta a.m.k. leyft sér að brosa í dag. Sjálfur ætla ég núna í háttinn. Af einhverjum ástæðum sofna ég nefnilega alltaf svo vært þegar ég veit að honum Ali Al Naimi líður vel. Smitandi gleði.


Í jöklanna skjóli

„Vernd eða nýting?“. Þannig hljóðar fyrirsögn auglýsingar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag. Þar er verið að tilkynna um fund vegna rammaáætlunar íslenskra stjórnvalda þar sem unnið er að því að skilgreina virkjanakosti framtíðarinnar.

electricity_gridÍ kjölfar erindis sem Orkubloggarinn flutti nú um helgina á málþingi Náttúruverndarsamtaka Suðurlands var bloggaranum bent á að hann hafi oftrú á vexti. Okkur sé nær að stefna að jafnvægi fremur en að leita sífellt að vaxtartækifærum.

Þetta kann að vera sanngjörn ábending. Því verður a.m.k. ekki neitað að Orkubloggarinn er vissulega á þeirri skoðun að við verðum að leita vaxtartækifæra. Áfram, hraðar, hærra! Bloggarinn er líka fullviss um að rafmagnsnotkun og þar með orkunotkun muni áfram aukast um allan heim, hvað sem líður smá kreppuhiksta. Bloggarinn er einnig handviss um að ekki líði langur tími þar til stóriðjufyrirtæki muni á ný leita eftir orkusamningum á Íslandi með það að markmiði að byggja hér nýja stóriðju.

China_CarsVið stöðvum ekki tímann. Og enn fjölgar Íslendingum jafn og þétt. Orkubloggarinn er á því að samkeppnin sé manninum í blóð borin og að allt hjal sumra um að Vesturlandabúar eigi að sætta sig við að hámarki velmegunar sé þegar náð, sé út í hött. Reyndar myndi það ekki skipta neinu höfuðmáli þó svo Vesturlandabúar allt í einu gerðust almennt nægjusamir og sáttir við tilveru sína. Það eru nefnilega hundruð milljóna fólks úti í hinum stóra heimi, sem ekki sætta sig við sín kjör og dreymir um betra líf. Þetta kallar á sífellt meiri iðnað, sífellt meiri orkunotkun og sífellt meira peningamagn í umferð. Vöxtur efnahagslífsins er óhjákvæmilegur og sá vöxtur mun áfram þrengja að náttúruauðlindum jarðar.

Orkubloggarinn upplifir sig oft hálfgerðan einstæðing. Vegna þess að bæði er bloggarinn yfirleitt harður talsmaður náttúruverndar - en um leið fylgjandi því að fleiri virkjanir rísi á Íslandi. Af einhverjum ástæðum virðist algengt að fólk telji sig einungis tilheyra öðrum þessara hópa. Bloggarinn álítur aftur á móti að við eigum bæði að leitast við að fara vel með náttúruauðlindirnar og varast að ofnýta þær - og um leið þurfum við áfram að að huga að nýjum virkjanakostum. Það er ekkert „annað hvort eða“. Og hreinn barnaskapur að segja að nú sé komið nóg; þetta sé orðið gott. Í lýðræðisþjóðfélagi - þjóðfélagi þar sem fólk er frjálst að skoðunum og að haga lífi sínu eftir eigin höfði - er samkeppni nánast náttúrulögmál. Krafan um sífellt betri lífskjör er manninum eðlileg og um leið verður sífellt meiri þörf á raforku. Orka er undirstaða þjóðfélaga nútímans og til að viðhalda velferðarþjóðfélögunum og það sem er ennþa´mikilvægara – þ.e. að auka velferðina hjá fátækari þjóðum - þarf meiri orku.

ansel-adams-yosemiteÞað er absúrd hugmynd að mannkynið muni virða það að jörðin þoli einungis einhvern tiltekinn fjölda fólks sem takmarki neyslu sína við einhverja tiltekna viðmiðun eða tiltekið hámark. Í þessari skoðun felst alls ekki uppgjöf. Íslendingar eiga vel efni á því að t.d. taka frá tiltekin landsvæði og vernda þau líkt og Bandaríkjamenn hafa gert í Yosemite, Yellowstone og víðar. Náttúrufegurð kann að vera afstæð, en í huga Orkubloggsins er fáránlegt að t.d. Langisjór og Eldgjá skuli ekki vera vernduð svæði og hluti af þjóðgarði. Um leið er Orkubloggarinn hallur undir hugmyndir um að virkjanir rísi í einhverjum af jökulvötnunum í héruðunum suðaustan við umræddar náttúruperlur. Það er þó alger forsenda, að mati Orkubloggsins, að hið opinbera setji ekki fjármuni í slíkar virkjanir nema horfur séu á að þær skili viðunandi ávöxtun.

HVERFISFLJOT_FOSSVissulega er rétt að fara varlega í vatnsfallsvirkjanir á þessum svæðum landsins, þar sem vötnin eru t.d. undirstaða einstæðra veiðisvæða, þar sem skaftfellski sjóbirtingurinn er konungur ríkisins. En hjá þjóð sem mun í framtíðinni brátt þurfa meira rafmagn en hún framleiðir í dag er samt eðlilegt að horfa til þess að virkja í einhverju mæli það mikla og endurnýjanlega afl sem felst í jökulfljótunum suður af Skaftárjökli og þar austur af. Ef t.d. góðan og arðbæran virkjunarstað er að finna í Hverfisfljóti eða Skaftá hlýtur það að verða skoðað af skynsemi.

Cartoon_IcesaveEinhverjum kann að þykja þessi skoðun á skjön við fyrr yfirlýsingar Orkubloggsins um að Kárahnjúkavirkjun hafi verið misráðin. Ástæðan fyrir þeirri skoðun bloggarans er að þegar horft er til heildaráhrifa þeirrar miklu framkvæmdar, hafi ekki verið sýnt fram á réttmæti hennar. Það er t.d. með ólíkindum að við arðsemismat á Kárahnjúkavirkjun var verðmæti landsins utan eignarlanda virt að vettugi. Að auki var pólitísku valdi beitt til að hnekkja faglegu mati um umhverfisáhrif virkjunarinnar. Vísindunum var ýtt til hliðar og um leið var öll löggjöfin um umhverfismat höfð að háði og spotti. Að mati Orkubloggsins er það alvarlegt dæmi um virðingarleysi framkvæmdavaldsins við lýðræðið og dæmi um undirlægjuhátt Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Loks má líklega þakka fyrir ef skuldirnar vegna Kárahnjúkavirkjunar setja ekki Landsvirkjun á höfuðið. Þá fyrst verður Icesave bara smámál.

Thor_VilhjalmssonEn nú er Orkubloggarinn sennilega bæði búinn að misbjóða náttúruverndarsinnum og virkjunarsinnum. Svo það er réttast að ljúka þessu á tilvitnun í Thor Vilhjálmsson. „Maðurinn er alltaf einn“ Þessa dagana er reyndar vinsælla að vitna í Enar Ben: Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur“.

Að lokum má nefna að fyrirsögnin í áðurnefdri auglýsingu í Morgunblaðinu hefði auðvitað átt að vera „Vernd OG nýting“!

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband