Grænni framtíð

Toyota_Prius_WhiteNýverið ók Orkubloggarinn um á tvinnbílnum Toyota Prius í nokkra daga. Og tekur undir orð nágranna síns; "ef þetta er ekki framtíðin, þá veit ég ekki hvað!".

Það tók smá stund að venjast því að setja bílinn í gang með því að ýta á takka - rétt eins og þegar maður kveikir á ljósi. En Prius'inn reyndist í alla staði vel. Og eyðslan í blönduðum akstri var ekki nema 5,9 lítrar á hundraðið. Það þótti bloggaranum ótrúlega lítið, því ekki var um neinn sparakstur að ræða. Innan borgarinnar virtist bíllinn eyða u.þ.b. 6,3 l á hundraðið.

Reyndar skal fúslega viðurkennt að bloggið er haldið smá tortryggni gagnvart rafbílavæðingu. Og finnst líklegra að lífefnaeldsneyti verði hagkvæmari kostur. En þessir tvinnbílarnir og tengiltvinnbílarnir eru engu að síður mjög athyglisverðir. Þessi tækni ætti að leiða til betri eldsneytisnýtingar og fyrir Íslendinga væri auðvitað upplagt ef rafbílavæðing yrði að veruleika. Við sem erum með allt þetta endurnýjanlega rafmagn myndum njóta góðs af slíkri þróun.

European_Business_worst_bestÞað eru margir sem binda miklar vonir við rafbílavæðingu. Og telja hana jafnvel björtustu vonina í átt að grænni orkugeira. Fyrir stuttu síðan útnefndi tímaritið European Businesstíu bestu og verstu grænu orkutækifærin, sem nú eru mikið á vörum fólks. Og til að gera langa sögu stutta, þá var tengiltvinnbíllinn þar valinn besta og grænasta hugmyndin.

Toyota_Hybrid_X_ConceptÉuropean Business álítur sem sagt Plug in Hybrids  vera bestu og grænustu hugmyndina. Það er ekki alveg sama og Toyota Prius, heldur er þetta næsta kynslóð af tvinnbílum. Munurinn er sá að hægt verður að hlaða tengiltvinnbíla með því að stinga þeim í samband.

Tvinnbílarnir í dag - eins og t.d. Toyota Prius - eru aftur á móti nánast hefðbundnir bílar, sem einnig nýta rafmagn til að knýja bílinn. Bíllinn gengur sem sagt bæði fyrir rafmagni og hefðbundnu eldsneyti; er þess vegna kallaður tvinnbíll. Kannski væri tvíbíll  betri íslenska? Næsta kynslóð tvinnbíla er að auki hönnuð fyrir innstungu. Þar með mun bíllinn fara einu skrefi nær því að verða tær rafmagnsbíll.

European_Business-cover_jan_2009Það ætti að gleðja Landann að í annað sæti setja ljúflingarnir hjá European Business jarðhitaveitur. Þar er t.d. verið að horfa til þess að nýta hitann á lághitasvæðum í Þýskalandi og Svíþjóð. Sem kunnugt er hafa íslensk jarðvarmafyrirtæki einmitt komið að byggingu slíkra virkjana í Þýskalandi. Vegna veikrar stöðu Geysis Green Energy um þessar mundir er líklega óvissa uppi um framtíð útrásar af þessu tagi, sem hefur farið fram á vegum dótturfyrirtækja GGE.

Bestu hugmyndirnar eru sem sagt tengiltvinnbílar og jarðvarmavirkjanir. Verstu hugmyndina segir European Business aftur á móti vera fyrstu kynslóðar lífefnaeldsneyti. Sem unnið er úr korntegundum. Það þykir nefnilega ekki fínt að nota kornið, sem gæti farið til manneldis, til að framleiða etanól á bíla.

Af einhverjum ástæðum er European Business líka tortryggið á lífdísel  úr t.d. repju. Aðallega sökum þess að þetta sé fjárhagslega óhagkvæm leið og geti aldrei orðið nógu umfangsmikill iðnaður til að koma að einhverju raunverulegu gagni. Þarna erum við á kunnuglegum slóðum; Orkubloggið hefur einmitt bent á að það sé tómt mál að tala um nýjar tegundir af eldsneyti nema framleiðslan geti orðið mjög umfangsmikil.

European Business er ennþá verr við hugmyndir um að auka raforkuframleiðslu með nýjum gasorkuverum og s.k. „hreinum" kolaorkuverum. Um þetta síðast nefnda er Orkubloggið algjörlega sammála. Clean Coal er ekkert annað en markaðstilbúningur kolaorkufyrirtækjanna. Þessi meinta framtíðartækni í kolaorkuiðnaðinum er bæði rándýr og vægast sagt vísindalega vafasöm. Kannski meira um það síðar hér á Orkublogginu.

Skogasandur_lupinaLoks má nefna að auk tengiltvinnbíla og jarðvarmahitunar er European Business líka hrifið að vindorku, sólarorku og af viðskiptakerfi með kolefnisheimildir. Og þeir telja einnig annarrar kynslóðar lífefnaeldsneyti  vera snilldarhugmynd. Þar er um að ræða tiltölulega hefðbundinn lífeldsneytisiðnað, nema hvað eldsneytið er unnið úr plöntum sem ekki er hægt að nýta í fæðuframleiðslu.

Land eins og Ísland, með mikið af ræktarlandi sem betur mætti nýta, ætti tvímælalaust að skoða möguleika í þeirri athyglisverðu sneið orkugeirans. Íslenskur lífolíuiðnaður kann að vera mjög áhugaverður kostur.


Bloggfærslur 28. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband