11.7.2011 | 09:30
Virkjað í Eldsveitum

Í vikunni sem leið fjölluðu fjölmiðlar talsvert um drög að Rammaáætlun, sem nú virðist komin á langþráðan lokasprett.
Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði felst í mati á helstu virkjunarkostum hér á landi og þar er fjallað um áhrif þeirra á náttúru og minjar, umhverfi, hlunnindi og þróun byggðar. Hugsunin er að þetta mat verði haft að leiðarljósi við ákvörðun Alþingis og stjórnvalda um hvar skuli virkja og hvar ekki.
Alþingi á þó eftir að fjalla um áætlunina og ekki gott að segja hver niðurstaðan verður þar á bæ. En sé litið til skýrslunnar sem verkefnastjórn Rammaáætlunar skilaði af sér í liðinni viku má kannski leyfa sér að draga þá ályktun, að vilji verði hjá stjórnvöldum til að nýta t.d. flesta þá virkjanakosti sem Landsvirkjun horfir nú til. Og að sömuleiðis verði talsvert meiri jarðvarmi virkjaður á næstu árum bæði á Reykjanesi og á Hellisheiði. Að því gefnu auðvitað að kaupendur séu að raforkunni og það þá vonandi á verði sem skili orkuvinnslunni viðeigandi arðsemi.

Niðurstöður verkefnastjórnar um Rammaáætlun gefa líka vísbendingar um hvaða svæði verði friðuð, þ.e. ekki virkjuð. Þar er sumt sem kalla mætti sjálfsagða hluti. Að mati Orkubloggarans ætti t.d. öllum að vera augljóst að það væri galið að ætla að virkja í náttúrparadís eins og Vonarskarði. Sömuleiðis væri vart fyrirgefanlegt að fórna Dettifossi og þess vegna er einn allrastærsti virkjunarkosturinn á Íslandi líklega úr sögunni, sem er Arnardalsvirkjun.
Sökum þess hversu náttúröflin skekja Vestur-Skafafellssýslu hressilega þessi misserin, er vert að staldra við þá virkjunarkosti sem Rammaáætlunin fjallar um á þeim slóðum. Um sýsluna renna margar jökulár, sem ýmist koma úr Vatnajökli, Mýrdalsjökli eða Torfajökli. Þar mætti t.d. nefna Djúpá, Hverfsifljót, Skaftá, og Hólmsá.

Svæðið er einnig þekkt fyrir bergvatnsár af öllum gerðum, með tilheyrandi bleikju- og silungsveiði. Mörgum þykir skaftfellski sjóbirtingurinn einhver besti matfiskur sem hugsast getur. Orkubloggarinn mun seint gleyma glænýjum sjóbirtingnum, sem var stundum á borðum á æskuheimilinu á Krikjubæjarklaustri þegar öðlingurinn hann Valdi í Ásgarði hafði átt leið um hlaðið með þennan gljáandi fallega fisk. Ennþá hefur bloggarinn ekki bragðað ljúfengara hnossgæti og hefur þó víða um heiminn farið og margt gott fengið.
Ekkert af jökulvötnunum austur í Skaftafellssýslum hefur verið virkjað enn sem komið er - að frátalinni Smyrlabjargavirkjun austur í Suðursveit í A-Skaftafellssýslu (sú virkjun fær reyndar meira af afli sínu frá dragám en jökulvatni). Í Vestursýslunni er líklega Skaftá það fljót sem flestir kannast við og að henni verur athyglinni beint í þessari færslu Orkubloggsins.

Þess má geta að þó svo Vestur-Skaftfellingar hafi ekki ennþá virkjað jökulfljótin, er það engu að síður staðreynd að þar í Eldsveitunum var unnið gríðarlega merkilegt frumkvöðlastarf í upphafi vatnsaflsnýtingar á Íslandi. Þar var um að ræða bæði smíði á túrbínum og byggingu ótalmargra heimarafstöðva, sem margar hverjar hafa verið nýttar í hálfa öld eða meira. Á þessa merku sögu var einmitt minnst á hér á Orkublogginu í færslu haustið 2009.
Skaftá er áin sem sveitarfélagið Skaftárhreppur er kennt við. Áin setur mikinn svip á þessar slóðir, þar sem hún rennur úr Skaftárjökli og niður í sveitirnar. Leið Skaftár liggur vestan við Lakagíga og sker sig þar meðfram Fögrufjöllum, en hinumegin við þau liggur Langisjór. Áfram heldur Skaftá austan við Hólaskjól í nágrenni Eldgjár, en að byggð kemur áin fyrst við sveitabæina Skaftárdal (þar er reyndar ekki lengur heilsárbúseta) og Búland. Við Skaftárdal lækkar landið hratt og þar fellur áin í talsverðum flúðum og er hún þar stórfengleg á að líta í vatnavöxtum og hlaupum. Það er á þessum slóðum sem Skaftá mun áður fyrr hafa runnið í djúpu gljúfri, sem fylltist af hrauni í Skaftáreldum fyrir rétt rúmum tveimur öldum.

Þegar niður á undirlendið kemur klofnar áin í tvennt. Eystri kvíslin heldur heitinu Skaftá og rennur austur eftir Síðu, í farvegi á milli Eldhraunsins og móbergsfjallsins. Þegar áin kemur úr hrauninu við Eldmessutanga rennur hún áfram austur að Kirkjubæjarklaustri, en þar sveigir hún niður á flatlendið austan Landbrots og rennur loks til hafs niður á söndunum, þar sem heitir Skaftárós.
Vestari kvísl Skaftár nefnist Eldvatn. Sem eftir stutta ferð myndar upphaf Kúðafljóts (ásamt vatni úr Tungufljóti og Hólmsá). Að auki renna lænur úr Skaftá inní hraunið sem síar jökulleirinn burt og er það vatn væntanlega helsta undirstaðan að kristaltærum uppsprettunum sem koma undan hrauninu bæði í Landbroti og Meðallandi. Það er þetta vatn sem myndar þekktar veiðiár eins og t.d. Tungulæk og Grenlæk í Landbroti (sbr. myndin hér að neðan) og Eldvatn í Meðallandi. Síðastnefnda áin er vel að merkja allt annað Eldvatn heldur en það sem tengir Skaftá og Kúðafljót - og örnefnið Eldvatn á líka við um bergvatnsá sem rennur um eystri hluta Eldhrauns, austan við Orrustuhól. Leiða má líkum að því að eftir Skaftárelda hafi fólk freistast til að nefna ár Eldvatn sem leituðu í nýja farvegi eða spruttu undan hrauninu.

Sem fyrr segir þá er Skaftá ennþá óvirkjuð. Vatn úr ánni hefur þó verið nýtt fyrir heimarafstöðvar eins og þá sem t.d. var lengi við bæinn Hólm í Landbroti. Uppi hefur verið sú hugmynd að byggja netta rennslisvirkjun í ánni við bæinn Skál, sem er eyðibýli í hlíðunum ofan við Eldhraunið vestur af Kirkjubæjarklaustri, en Orkubloggarinn veit ekki hvort sú hugmynd er enn á sveimi.
Undanfarið hefur aftur á móti verið mikill gangur í að vinna rannsóknir til undirbúnings á byggingu stórrar virkjunar, sem nýti afl Skaftár þar sem fall hennar er mest, ofan við Skaftárdal. Er þá ýmist talað um Skaftárvirkjun eða Búlandsvirkjun, en útfallið myndi verða í nágrenni við bæinn Búland í Skaftártungu. Margir sem farið hafa um Fjallabaksleið nyrðri kannast við það býli, því helsta leiðin upp á Fjallabak liggur rétt hjá Búlandi.
Í Rammaáætluninni er fjallað er um þrjá virkjanakosti í Skaftá. Þar af eru tveir möguleikanna miðlanir eingöngu (þar sem vatni úr Skaftá yrði miðlað yfir á vatnasvæði Tungnaár og nýtt í virkjanirnar í Tungnaá og Þjórsá). Þessir þrír kostir til að virkja eða miðla Skaftá eru eftirfarandi:
A. Skaftárvirkjun / Búlandsvirkjun (virkjun auðkennd sem nr. 18 í Rammaáætlun).
Reist yrði stífla neðan Hólaskjóls, sem myndi veita Skaftá (ásamt Syðri-Ófæru) um jarðgöng í miðlunarlón á s.k. Þorvaldsaurum. Þorvaldsaurar liggja rétt vestan við vegaslóðann sem fólk ekur milli Hólaskjóls og Skaftártungu á Fjallabaksleið nyrðri. Lónið yrði myndað með byggingu annarrar stíflu, á þeim slóðum þar sem Tungufljót rennur nú (vatnsmagn Tungufljóts þar sem það fellur niður Skaftártungu, myndi því væntanlega minnka mikið ef af þessum virkjunarframkvæmdum yrði). Frá miðlunarlóninu yrði vatnið svo leitt inn í fallgöng að stöðvarhúsi neðanjarðar og svo áfram eftir göngum að útfalli skammt neðan við Búland.

Þarna næðist veruleg fallhæð eða alls um 180-190 m og afl virkjunarinnar yrði allt að 150 MW. Þetta yrði því myndarleg virkjun; myndi t.a.m. framleiða sem samsvarar hátt í fjórðungi af því rafmagni sem Kárahnjúkvirkjun nær að skila frá sér.
Þó svo Orkubloggaranum þyki eftirsjá af hvítfryssandi afli Skaftár þar sem hún steypist niður í þrengslum við Skaftárdal, er þetta sennilega skynsamlegur virkjunarkostur. Að því gefnu að menn hafi góða lausn á að takast á við svakaleg Skaftárhlaupin. Og að stíflurnar og fjúkandi jökulleir úr lónsstæðinu hafi ekki umtalsverð áhrif á ægifagurt svæðið í nágrenni Eldgjár.
Þessari virkjun myndi að sjálfsögðu fylgja einhverjar vegaframkvæmdir og lagning nýrrar háspennulínu, sem kann að vera óprýði af eins og oft er með slík mannvirki. Loks má nefna að það hlýtur að vera afar áríðandi fyrir heimafólk í Skaftárhreppi að sem mest af raforkunni yrði nýtt heima í héraði. Vegna hafnleysis kann að vísu að verða þungt að laða iðnað að svæðinu. En ef á annað borð verður ráðist í stærsta virkjunarkostinn á svæðinu, væri svolítið dapurlegt ef það væri til þess eins að selja orkuna burt.

B. Skaftárveita - án miðlunar í Langasjó (nr. 17). Sumir hafa nokkuð lengi gælt við þá hugmynd að veita Skaftá til vesturs, í tilbúið lón norður af Langasjó sem kallað hefur verið Norðursjór. Þaðan yrði vatnið leitt um jarðgöng til vesturs inn á vatnasvið Tungnaár.
Þessi miðlun myndi kippa fótunum undan áðurnefndri Skaftárvirkjun (Búlandsvirkjun). Því þykir Orkubloggaranum ólíklegt að slík miðlun myndi fást samþykkt af sveitarstjórn Skaftárhrepps, ef hún á annað borð kæmist af hugmyndastiginu. En þetta er sem sagt einn af þeim þremur möguleikum til að nýta Skaftá til raforkuframleiðslu, sem fjallað er um í Rammaáætluninni.

C. Skaftárveita með miðlun í Langasjó (nr. 16). Önnur hugmynd um að nýta Skaftá í virkjanir á Tungnaár- og Þjórsársvæðinu er að veita ánni í Langasjó. Og nota þannig þetta sérstæða og fallega stöðuvatn á hálendinu sem miðlunarlón, sem síðan yrði tengt Tungnaá með göngum og skurðum. Skv. samkomulagi umhverfisráðuneytis og sveitarstjórnar Skaftárhrepps fyrr á þessu ári (2011), er nú unnið að friðlýsingu Langasjávar (og Eldgjár). Það er því orðið ólíklegt að Langisjór verði nýttur sem miðlun fyrir Skaftá.
---------------
Talað er um að Rammaáætlun muni skapa sátt um orkunýtingu á Íslandi. Það er reyndar alls ekki víst að sú von gangi eftir. Hvað Skaftá snertir, þá mun talsverður stuðningur vera meðal heimafólks í Skaftárhreppi við byggingu Búlandsvirkjunar. En það er líka fyrir hendi andstaða við virkjunaráformin. Þar til marks má nefna nýstofnuð náttúruverndarsamtök, sem heita því hljómfagra og viðeigandi nafni Eldvötn.

Það er fyrirtækið Suðurorka sem hefur þennan virkjunarkost til athugunar, en þar er HS Orka stór hluthafi. Það hvort virkjunin verður að veruleika mun væntanlega ráðast af endanlegu útliti Rammaáætunarinnar, eftir meðferð Alþingis, auk þess sem afstaða sveitarstjórnar Skaftárhrepps hlýtur að skipta miklu. Ennþá eru líklega nokkur ár í það að niðurstaða liggi fyrir um hvort Búlandsvirkjun verði byggð eða ekki.