3.7.2011 | 20:46
Umræða um orkumál

Á þriðjudaginn sem leið var haldinn opinn fundur hjá Arion banka, þar sem formlega var ýtt úr vör samstarfi allmargra íslenskra fyrirtækja um íslenska jarðvarmaklasann. Þarna var fullt hús, í nokkuð stórum sal í aðalstöðvum bankans við Borgartún.
Sennilega voru margir gestanna fyrst og fremst mættir til að sjá og heyra erindi próf. Michael's Porter, sem enn og aftur var kominn til Íslands. Porter lék þarna við hvurn sinn fingur og virðist sem hann hafi tekið miklu ástfóstri við Ísland. Gaman að því. Um kvöldið var svo viðtal við karlinn í Kastljósinu.

Samt má segja að það hafi verið Landsvirkjun sem stal senunni þennan þriðjudag. Því þá var birt athyglisverð skýrsla sem unnin var af GAM Management (GAMMA) fyrir Landsvirkjun og ber titilinn Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.
"Svimandi framtíðarsýn" - titill ritstjórnargreinar Fréttatímans nú um helgina - er kannski til marks um fyrstu viðbrögð margra sem skýrsluna lesa. Enda lýsir skýrslan hreint mögnuðum tækifærum Landsvirkjunar og Íslands. Þ.e. að raforkuframleiðsla Landsvirkjunar kunni allt að tvöfaldast á næstu 15 árum og á sama tíma gætu tekjurnar þrefaldist. Miðað við spár um þróun raforkuverðs myndi þetta geta leitt til stórkostlegrar arðsemi hjá Landsvirkjun og í íslenska orkugeiranum.

Þessi sviðsmynd GAMMA gerir ráð fyrir því að meðalverðið sem Landsvirkjun fái fyrir framleiðslu sína, hækki úr núverandi 25 USD pr. MWst í 40 USD árið 2020 og verði komið í 60 USD árið 2030 (m.v. núverandi verðlag). Þessi framtíðarsýn byggir m.a. á erlendum spám um þróun raforkuverðs í Evrópu og að Ísland komi til með að tengjast Evrópu með sæstreng.

Gangi þetta eftir myndi Landsvirkjun skila miklum hagnaði. Og þá myndi arðgreiðslugeta fyrirtækisins, skv. forsendum GAMMA, fara úr því að vera nánast engin í dag (til þessa hefur raforkan verið seld stóriðjunni á sem næst kostnaðarverði) í að verða hátt í 600 milljón USD árið 2020 og rúmlega 1 milljarður USD árið 2030! Og skv. GAMMA næmu þá arð- og skattgreiðslur Landsvirkjunar ásamt afleiddum skattaáhrifum samtals hvorki meira né minna en 3-6% af landsframleiðslu og yrðu á bilinu 9-14% af tekjum ríkissjóðs Íslands.
Í skýrslu GAMMA eru settar fram ýmsar skemmtilegar viðmiðanir til að skýra betur þessar stærðir. Þar segir t.d. að arðgreiðslan frá Landsvirkjun til ríkissjóðs árið 2030 myndi jafngilda vel rúmlega helmingi af öllum kostnaði við íslenska heilbrigðiskerfið. Og yrði u.þ.b. tvöfalt meiri en allur kostnaðurinn við íslenska háskóla- og framhalsskólakerfið.

Önnur viðmiðun sem GAMMA nefnir er sú að ríkið gæti nýtt arðinn til að lækka tekjuskatt einstaklinga um helming. Einnig mætti nýta arðinn til að að greiða niður allar erlendar skuldir íslenska ríkisins á stuttum tíma. Í framhaldinu mætti svo láta arðgreiðslurnar renna í sérstakan sjóð - sem við getum nefnt Orkusjóð Íslands.
Slíkur Orkusjóður gæti orðið einskonar risa-sparibaukur Íslendinga, ekki ósvipaður norska Olíusjóðnum. Til sjóðsins mætti grípa til að halda fjárlögum hallalausum - og hann yrði e.k. trygging að grípa til þegar miður áraði í íslensku efnahagslífi. Orkusjóðurinn hefði það reyndar umfram Olíusjóð Norðmanna að orkuauðlindir Íslands eru endurnýjanlegar og því myndu væntanlega bætast háar arðgreiðslur í sjóðinn á ári hverju - um alla framtíð!

Vissulega kann sumum að svima við að heyra þessa framtíðarsýn um stórfelldar fjárfestingar í nýjum virkjunum sem muni skila æpandi arðsemi. En allt miðast þetta vel að merkja við bestu eða bjartsýnustu sviðsmyndina. Gangi hún ekki eftir gerir GAMMA ráð fyrir nokkrum öðrum möguleikum. Allt niður í það að engar breytingar verði á raforkuverði Landsvirkjunar og jafnvel að engar nýjar virkjanir verði reistar.
Flestir fjölmiðlar virðast hafa litið framhjá því að skýrslan boðar ekki endilega bjarta tíma hjá Landsvirkjun. Einn möguleikinn sem lýst er í skýrslunni, er sá að við munum áfram sitja uppi með hið ferlega lága raforkuverð til stóriðjunnar sem verið hefur. Og arðurinn af orkuauðlindum Íslands renni þar með áfram fyrst og fremst til hinna útlendu stóriðjufyrirtækja. Lesendur skýrslunnar ættu að gæta sín á að líta ekki fram hjá þessum möguleika og huga að öllum þeim mismunandi sviðsmyndum sem fjallað er um í skýrslunni (sbr. taflan hér að neðan, sem eins og gröfin í þessari færslu eru úr skýrslu og kynningu GAMMA, sem nálgast má á heimasíðu fyrirtækisins).

Sumir hafa brugðist afar illa við þessari skýrslu; líkt henni við stríðshanska og segja hana vera sprengju inní umræðuna um hina margumtöluðu Rammaáætlun. Þetta eru sérkennileg viðbrögð. Í reynd ætti það að vera jákvætt fyrir alla að fyrir liggi sem mestar upplýsingar um hvaða efnahagslegu áhrif orkuauðlindir Íslands geti mögulega haft í framtíðinni.
Skýrsla GAMMA gerir vissulega ráð fyrir því að einn kosturinn sé að hér verði mikið virkjað í framtíðinni. Þess vegna er kannski eðlilegt að þeir sem eru mjög andsnúnir virkjunum hrökkvi við. En þetta eru fyrst og fremst upplýsingar. Í skýrslunni er einfaldlega útskýrt hvað mismunandi kostir gætu þýtt fyrir rekstur og arðsemi Landsvirkjunar, að tilteknum forsendum gefnum. Eðlilega gefur hæsta orkuverðið og mikil framleiðsla þar mestu arðsemina.

Þetta eru upplýsingar sem varpa athyglisverðu ljósi á mikilvægi íslensku orkuauðlindanna. Fólk getur að vild sett fram ábendingar um þau atriði sem það telur rangt með farið í skýrslunni, gagnrýnt forsendur hennar o.s.frv. Slíkar umræður eru hið besta mál. En það er að mati Orkubloggarans afar ómálefnalegt að lýsa skýrslunni sem e.h.k. stríðsyfirlýsingu eða sprengju.
Það er reyndar svo að með þessari skýrslu er Landsvirkjun bersýnlega að kalla eftir meiri umræðu í þjóðfélaginu um hinar ýmsu leiðir sem hægt er að fara m.t.t. nýtingar á orkuauðlindum Íslands. Um þetta má vísa til greinar eftir forstjóra Landsvirkjunar, sem birtist í Fréttablaðinu núna um helgina, þar sem hann einmitt kallar eftir slíkri umræðu.
Svo er eitt atriði sem vert er fyrir alla Íslendinga að hafa í huga. Í skýrslunni kemur fram sú skoðun GAMMA, að raforkuverðið eitt og sér er það sem öllu skiptir fyrir afkomu Landsvirkjunar og arðsemi ríkisins af orkuauðlindunum. Þ.e. að öll önnur efnahagsleg áhrif af virkjanaframkvæmdum skipti í reynd litlu máli fyrir þjóðina. Orðrétt segir í skýrslunni: "Kjarni málsins er sá að þegar söluaðili raforkunnar er opinber aðili sem greiðir arð til ríkisins en kaupandi er erlent stórfyrirtæki sem flytur allan hagnað úr landi ræðst þjóðhagslegur ábati vegna raforkuframleiðslu fyrst og fremst af því raforkuverði sem þessir aðilar semja um á milli sín."
Þarna er bent á staðreynd, sem hefur því miður alltof lítið verið rædd hér á landi: Að í reynd hefur nær allur arðurinn af orkulindum Íslands runnið til erlendu stóriðjufyrirtækjanna. Og verði ekki tekið tillit til stefnumótunar núverandi stjórnenda Landsvirkjunar, er hætt við að svo verði áfram; að það verði Glencore, Rio Tinto Alcan, Alcoa og félagar sem áfram hirða einir svo til allan arðinn af raforkuframleiðslu á Íslandi. Varla er það sem við helst viljum? Í staðinn getum við haft að leiðarljósi, að bæta arðsemi Landsvirkjunar og þannig aukið efnahagslega velferð Íslendinga - eins og GAMMA einmitt bendir á.

Þessi skýrsla GAMMA er allrar athygli verð. Samt verður ekki komist hjá því að nefna að skýrslan hefði mátt lesast a.m.k. einu sinni enn fyrir birtingu. Því þarna eru nokkrar óþarfa villur sem geta virkað svolítið óþægilega á lesendur. Orkubloggaranum þótti t.d. skrýtið að lesa þarna að einn elsti sæstrengur í Evrópu sé frá 1986 og að danska orkufyrirtækið Dong Energi sé skráð á hlutabréfamarkað. Hið rétta er jú að áætlanir danskra stjórnvalda um hlutabréfaskráningu Dong hafa legið í dvala síðan 2008 - og rafstrengur milli Bretlands og Frakklands var upphaflega lagður upp úr 1960.
En þetta eru aukatriði; aðalatriðið er að íslenskur raforkumarkaður kann nú að standa á tímamótum og þar með lífskjör okkar Íslendingra allra. Vonandi skilja stjórnmálamennirnir hversu miklir hagsmunir þarna eru í húfi. Og átta sig á því að raforkuverðið skiptir algeru höfuðmáli.
Landsvirkjun er tvímælalaust á réttri leið og mikilvægt að stjórn fyrirtækisins og fulltrúi eigenda (fjármálaráðherra) styðji viðleitni stjórnenda Landsvirkjunar til að auka arðsemi þessa langstærsta orkufyrirtækis á Íslandi. Gleymum því ekki að hagsmunir Landsvirkjunar og þjóðarinnar eru samtvinnaðir og að þarna er um að ræða einhvern allra mikilvægasta hlekkinn í hagsæld Íslendinga.

Þar með er Orkubloggarinn ekki endilega að tala fyrir því að tvöfalda eigi raforkuframleiðslu Landsvirkjunar á einungis 15 árum eða svo. Umhverfissjónarmið og ýmis önnur sjónarmið kunna að valda því að æskilegra sé að fara hægar í sakirnar. Grundvallaratriðið er að Íslendingar séu meðvitaðir um möguleikana sem raforkuframleiðsla og raforkusala skapa okkur. Stjórnmálamennirnir og þjóðin eiga að ræða þessa möguleika vandlega og meta og ákveða hvaða leið sé farsælust. Umrædd skýrsla GAMMA fyrir Landsvirkjun er þarft innlegg í þá mikilvægu umræðu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)