Raforkuspá BNEF til 2040

BNEF-Energy-Outlook-2015-2040-cover

Hvernig munu raforkumarkaðir þróast næstu 25 árin? Eftir þann tíma verður árið 2040 gengið í garð. Bloomberg New Energy Finance (BNEF) var að birta raforkuspá sína fram til 2040 (BNEF New Energy Outlook 2040; NEO 2015). Þar kennir ýmissa grasa, en meginniðurstaða BNEF felst í eftirfarandi fimm atriðum:

Meginatriðin í raforkuþróun fram til 2040

  1. Gríðarlegur vöxtur í nýtingu sólarorku.
  2. Stóraukin raforkuframleiðsla á vegum einstaklinga og almennra fyrirtækja, einkum með nýtingu sólarorku, ásamt því að öflugir rafgeymar verða nýttir til að safna raforku og auka hagkvæmni.
  3. Aukinn orkusparnaður vegna tækniþróunar sem lýtur að lýsingu og loftkælingu. Þetta mun að mati BNEF spara svo mikla raforku að raforkunotkun innan OECD mun fara minnkandi. Og raforkunotkunin innan þess ríkjahóps verða minni árið 2040 en 2014.
  4. Áhrif aukinnar jarðgasvinnslu munu að mati BNEF að mestu takmarkast við Bandaríkin og ekki hafa nein afgerandi áhrif á orkunotkun í heiminum.
  5. Þrátt fyrir mikla fjárfestingu í endurnýjanlegri orku álítur BNEF að notkun kola muni aukast svo mikið í þróunarríkjunum, að losun koltvísýrings muni halda áfram að vaxa allt fram til ársins 2029. Og að árið 2040 muni árleg losun koltvísýrings í heiminum verða um 13% meiri en losunin var árið 2014.

Mikill vöxtur raforkuframleiðslu frá endurnýjanlegum auðlindum

BNEF-Energy-Outlook-2015-1Samkvæmt NEO 2015 verður fjárfest fyrir rúma 12 þúsund milljarða USD í raforkuframleiðslu í heiminum á tímabilinu 2015-2040. Þar af muni um 78% fjárfestingarinnar eiga sér stað í nýmarkaðslöndum, þ.e. utan OECD. BNEF álítur að um 2/3 allrar fjárfestingarinnar, þ.e. um 8 þúsund milljarðar USD, verði í endurnýjanlegri raforkuframleiðslu. Og að afgangurinn, um 4 þúsund milljarðar USD, muni dreifast nokkuð jafnt á kjarnorku, kol og jarðgas.

BNEF-Energy-Outlook-2015-2040-investmentÞessi mikla fjárfesting í endurnýjanlegri orku merkir að hlutfall hennar mun vaxa mikið. Þ.e. fara úr því að vera rúmlega 20% í dag og í um 46% árið 2040. Þessari miklu aukningu í nýtingu endurnýjanlegrar orku fylgja ýmis tækifæri. Vind- og sólarorka nema í dag um 5% framleiddrar raforku, en skv. BNEF munu þessir orkugjafar standa undir um 30% allrar raforkuframleiðslu árið 2040!

Þetta er vel að merkja hvort tveggja mjög sveiflukennd tegund raforkuframleiðslu. Fyrir vikið þarf geysileg aukning að verða í sveigjanlegri raforkuframleiðslu. Sú þróun er óhjákvæmileg til að mæta því þegar sólin skín ekki og/eða þegar vind lægir. Slík sveigjanleg eða stýranleg raforkuframleiðsla felst einkum í gasorkuverum og vatnsaflsvirkjunum með miðlunarlónum.

HVDC-Europe-America_Hydro-Power_Askja-Energy-Partners-Map-2Þessi þróun myndi vafalítið gera hið sveigjanlega íslenska vatnsafl ennþá verðmætara en áður - að því gefnu að Íslandi hafi aðgang að t.d. evrópskum raforkumarkaði. Það á svo eftir að koma í ljós hvort þróun rafmagnskapla mun leiða til þess að á þessu tímabili, þ.e. fram til 2040, verði lagður sæstrengur/ sæstrengir milli t.d. Evrópu og N-Ameríku. Eitt er víst; tækniþróunin stoppar ekki og ný tækifæri eru sífellt að skapast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband