Pippa & Percy eru sjóðandi heit

Nú styttist í áramótin. Það er því kannski viðeigandi að vera með efni í léttari kantinum. Þó svo öllu gamni fylgi jú alltaf nokkur alvara.

Pippa-Middleton-1

Í sumar sem leið var Filippía Middleton einhver umtalaðasta skutlan í slúðurpressu heimsins. Það ættu því allir að vita deili á stúlkunni. Ef einhverjir lesendur Orkubloggsins eru litlir aðdáendur slúðurfrétta, er rétt að geta þess að stelpan sú er litla systir Katrínar nokkurrar Middleton. Þeirri sem í vor giftist Vilhjálmi erfðaprinsi bresku krúnunnar; eldri syni þeirra Karls ríkisarfa og Díönu heitinnar.

Pippa er vissulega augnayndi og kannski ekki skrítið að fjölmiðlafólk hafi sýnt henni æpandi mikla athygli. En það sem Orkublogginu þykir athyglisverðast við Pippu, er að hún er komin á kaf í orkumálin! Og meira að segja í þann hluta orkugeirans hvar Íslendingar standa fremstir. Því Pippa Middleton er komin í vinnu hjá jarðvarmafyrirtæki! Fyrirtæki sem ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.

cluff-Geothermal-logo

Nei; þetta hefur því miður ekkert að gera með mannabreytingar hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Því vinnuveitandi Pippu er ekki Or, heldur nýstofnað breskt jarðvarmafyrirtæki, Cluff Geothermal. Sem hyggst einbeita sér að jarðvarmaverkefnum í Bretlandi. Til framtíðar horfir Cluff Geothermal einnig til meginlands Evrópu, enda er þar víða að finna svæði þar sem góðir möguleikar eru til að nýta jarðvarma.

Eins og flest önnur ríki innan Evrópusambandsins hefur Bretland uppi áætlanir um mikla aukningu á nýtingu endurnýjanlegrar orku. Í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku á Bretlandseyjum um 3,5% (þar að baki eru árleg endurnýjanleg orkuframleiðsla sem nemur um 54 TWst). Markmið breskra stjórnvalda er að þetta hlutfall verði komið í 15% árið 2020 og á bilinu 30-45% árið 2030. Eðlilega er markmiðið vegna 2030 nokkuð loðnara en vegna 2020. En jafnvel til að ná hlutfallinu í 15% þarf risaátak.

UK-Renwables-2011

Til að ná markmiðinu um að árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegrar orku á Bretlandseyjum komið í 15%, er áætlað að þá muni Bretar þurfa að framleiða alls 234 TWst af endurnýjanlegri orku (árið 2020 er búist við að árleg orkuþörf Breta muni jafngilda 1.557 TWst). Í dag nemur endurnýjanleg orkuframleiðsla í Bretlandi, sem fyrr segir, um 54 TWst á ári (u.þ.b. helmingur þess er raforka en hinn helmingurinn aðallega lífmassi brenndur til upphitunar). Samkvæmt umræddu markmiði ætla Bretar því árið 2020 að vera búnir að rúmlega fjórfalda endurnýjanlega orkuframleiðslu sína og þá  framleiða 180 TWst meira af grænni orku en gert er árlega nú um stundir.

Til að setja þetta í íslenskt samhengi má nefna að þessi netta viðbót jafngildir rúmleg tífaldri raforkuframleiðslu á Íslandi í dag. Tíföld raforkuframleiðsla Íslands bara sem hrein viðbót í breska græna orkumengið. Og það ekki seinna en árið 2020. Þetta kann mörgum að þykja ansið hressileg aukning. Það verður þó að viðurkennast að allra síðustu árin hefur Bretum t.d. gengið nokkuð vel að byggja upp græn raforkuver. Þar hefur vindorkan leikið stærsta hlutverkið. Og þar á að halda áfram á fullri ferð - því mest af þessari nýju endurnýjanlegu orku á einmitt að verða raforka frá vindorkuverum.

Pippa-Percy-5

Einnig er áætlað að sjávarorkuver og lífmassi leiki þarna stórt hlutverk - sem virðist raunar byggt á hreinni óskhyggju. Loks er svo talað um að jarðvarmi og sólarorka (þetta tvennt er flokkað saman hjá Bretunum) komi einnig til með að aukast mikið og muni saman nema um 6% af aukningunni. Það merkir að samtals muni jarðvarmi og sólarorka skila 14 TWst árið 2020. Það er nánast jafn mikið eins og öll raforkuframleiðsla Landsvirkjunar í dag.

Í dag eru jarðvarmi og sólarorka einungis vel innan við 2 TWst af orkumengi Bretlands. Stærstur hluti þeirrar orku er nýting á sólarhita til að hita upp vatn (s.k. solar thermal). Ef ná á takmarkinu um að jarðvarmi og sólarorka skili 14 TWst árið 2020 þarf því mikil aukning að koma til í þessum geirum orkuframleiðslunnar.

Umræddar áætlanir breskra stjórnvalda um stórfellda aukningu í framleiðslu á endurnýjanlegri orku kalla á geysilega mikil fjárútlát ríkisins. Bæði í formi beinna fjárframlaga og alls konar niðurgreiðslna, óbeinna styrkja, skattaafslátta o.s.frv. Þó svo efndirnar eigi eftir að koma í ljós, virðist sem breskum stjórnvöldum sé full alvara. Og fyrir vikið sjá t.d. bæði sólarorkufyrirtæki og jarðvarmafyrirtæki nú möguleika á mikilli uppsveiflu á sínu sviði í Bretlandi.

Pippa-Percy-4

Enn sem komið er hefur jarðvarmi nær einungis verið nýttur til upphitunar í Bretlandi - og það í afskaplega litlum mæli. Enda er óvíða að finna aðgengilegan og góðan hita þar í jörðu og lághitasvæðin sem sumstaðar bjóða upp á einhverja möguleika eru ekkert í líkingu við það sem við þekkjum hér á eldfjallalandinu okkar.

Og raforkuframleiðsla fyrir tilstilli jarðvarma er þarna enn sem komið er óþekkt, þó svo núna sé reyndar verið að vinna að slíkum virkjanaverkefnum. Þar er um að ræða tvær fyrirhugaðar virkjanir á Cornwall; annars vegar 10 MW virkjun Geothermal Engineering og hins vegar 4 MW virkjun sem er hluti af s.k. Edensverkefni, en þar er á ferðinni risastórt ferðamannagróðurhús. Líklega hafa framkvæmdaaðilarnir átt ferð um Hveragerði áður en Eden brann; a.m.k. er hugmyndin af sama toga og nafnið líka hið sama. Skemmtilegt.

Pippa-Percy-6

Nýjasta jarðvarmaverkefnið á Bretlandi eru svo áætlanir Pippu og Cluff Geothermal. Ástæðan fyrir aðkomu Pippu að því verkefni, mun vera sú að annar stofnenda fyrirtækisins er náinn vinur hennar; maður að nafni George Percy. Sá hin sami og er að dúllast með Pippu á ljósmyndinni hér til hliðar og myndunum tveimur þar fyrir ofan.

Percy þessi, sem er vel að merkja af sannkölluðum heiðkóngabláum breskum aðalsættum, var einmitt hér á Íslandi í fyrrasumar (2010). Hann var þá að kynna sér nýtingu jarðvarmans á Íslandi. Og svo skemmtilega vill til að hann hefur líka verið í samskiptum við Orkubloggarann vegna verkefnisins. Því miður hefur bloggarinn aftur á móti ekki heyrt stakt orð frá Pippu!

Það er þó ekki hinn bráðungi Percy sem er aðaleigandinn að Cluff Geothermal. Þar er á ferðinni annar og reyndari bissnessmaður. Sá er nokkuð litskrúðugur amerískur auðmaður að nafni Algy Cluff

Cluff-algy-1

Algy Cluff hefur marga fjöruna sopið. Hann gerði það fyrst gott í gúmmíframleiðsu í Malasíu eftir seinna stríð. Síðar græddi hann vel á olíufjárfestingum í Norursjó. Eftir það tók hann til við að fjárfesta duglega í námavinnslu í Afríku og fann á 10. aratugnum einhverja stærstu gullnámu síðari tíma í Tansaníu. En núna á gamals aldri fannst honum bersýnilega viðeigandi að setja nokkra aura í endurnýjanlega orku.

Verkefnum Cluff Geothermal tengjast líka vísindamenn frá Newcastle-háskóla sem hafa sérhæft sig í jarðvarma. Og nú segjast þau Algy Cluff, Percy, Pippa og félagar þeirra, að þau ætli að bora 3ja km djúpa holu í Durhamsýslu (rétt sunnan við Newcastle). Þar stendur til að komast í 120 gráðu heitt vatn og nýta það til raforkuframleiðslu.

Það er nú samt svo að lítill fugl hvíslaði því að Orkubloggaranum að þetta geti orðið svolítið erfið fæðing hjá Cluff Geothermal. Það verður a.m.k. nóg að gera hjá Pippu ætli hún að gera Cluff Geothermal að alvöru jarðvarmafyrirtæki. Með raðgjaldþrotum sólarorkufyrirtækja nú síðsumars vestur í Bandaríkjunum virðist sem loftið sé byrjað að síga all hressilega úr grænu orkublöðrunni. Það er jafnvel hætt við því að þessi græni geiri atvinnulífsins rekist enn einu sinni á kolsvartan vegg raunveruleikans. Og að sagan frá níunda áratug liðinnar aldar endurtaki sig. 

kenya_geothermal_1

Það lítur þar að auki út fyrir að gamli Algy Cluff sé ekki sérstaklega trúaður á þetta jarðvarmaævintýri Cluff. Nýlegar fréttir af kallinum eru nefnilega þær að hann sé aftur kominn á fullt í alvöru sótsvört hrávöruverkefni suður í Afríku.

En reyndar herma ennþá nýrri fréttir að Cluff Gothermal hafi nú tekist að sameina jarðhita- og Afríkuáhuga þess gamla. Því Cluff mun vera komið í dúndrandi jarðvarmaverkefni í Kenýa. Og er þar m.a. í samstarfi við nokkuð kunnuglegt fyrirtæki, sem Cluff kallar Mannvitt á heimasíðu sinni. Og þar með leyfir Orkubloggarinn sér að líta svo á að Pippa Middleton sé orðinn Íslandsvinur! 

Pippa_middleton_-2

Hlutverk Pippu hjá Cluff Geothermal er sagt vera eins konar kynningarstjóri fyrirtækisins. En það er spurning hvort þau Percy og Pippa hafi í reynd einhverjar stundir aflögu til að sinna fyrirtækinu? Því það tekur jú dágóðan tíma að vera celeb og hertogasonur; hvort sem er að mæta á Wimbledon, láta mynda sig í dúllulegum róðratúrum í sveitinni eða allt partýstandið. En auðvitað vonum við samt að þau Pippa og Percy geti náð eyrum bæði breskra stjórnvalda og almennings, þ.a. jarðvarminn í Bretlandi komist í uppsveiflu. Þau eru a.m.k. bæði alveg sjóðandi heit!

-------------------------------------------

Vegna tímafrekra en skemmtilegra verkefna mun Orkubloggið líklega verða með stopulla móti næstu mánuðina. Orkubloggarinn óskar lesendum gleðilegs komandi árs.

 


Vongóður í landi Væringjanna

Pólland er land orkutækifæranna um þessar mundir. Eins og sagt var frá í nýlegri færslu Orkubloggsins, er þar nú að hefjast mikið gasgullæði. Enda streyma stóru orkufyrirtækin til Póllands til að festa sér land til að bora eftir gasi.

Ukraine-Shale-gas-map

Svo gæti farið að eftir nokkur ár verði kolalandið Pólland orðið einn mesti gasframleiðandi Evrópu. Ævintýrin gerast enn í orkuiðnaðinum. Meira að segja í gömlu Evrópu. 

En það er nú þegar búið að selja vinnslurétt á stórum hluta Póllands. Þess vegna eru spekúlantarnir strax farnir að svipast um eftir nýjum möguleikum. Svæðum sem eru líkleg til að verða næsta gasæði að bráð. Og þá beinast sjónir manna að löndum eins og Búlgariu og þó enn frekar Úkraínu.

Enn og aftur er það nýja gasvinnslutæknin sem er að valda straumhvörfum. Þ.e. sú aðferð að sprengja upp grjóthörð jarðlögin djúpt undir ökrunum með efnablönduðu háþrýstivatni - fyrst niður og síðan lárétt gegnum sandsteininn - og losa þannig um innikróuð lög af jarðgasi. 

Gas-shale-Seismology-exploration-trucks-Lugansk-Ukraine

Í Evrópu er vestanverð Úkraína hugsanlega mjög spennandi. Gasleitin þar er þó enn mjög skammt á veg komin þarna austan Karpatafjalla og rétt svo að fyrstu teymin séu farin að þreifa fyrir sér. Í sumar sem leið fréttist þó af fáeinum trukkum, sem mjökuðust um gamaldags sveitavegi vestarlega í Úkraínu með búnað til endurvarpsmælinga og fleira góðgæti.

Það sem gerir Úkraínu sérstaklega áhugaverða er að þar er samkeppnin um land miklu minni, heldur en í Póllandi Evrópusambandsins. Þarna er að vísu við það smávægilega vandamál að etja, að aðgangur útlendinga að úkraínsku landi er háður ýmsum takmörkunum. En með réttu samböndunum og þefskyn á lagaglufur er lítið mál að höndla það! Það geta lögfræðingarnir ljúfu á viðkunnalegum skrifstofum Salans við Volodymyrskagötu í Kænugarði eflaust staðfest við lesendur Orkubloggsins.

Europe-soccer-2012-poland-ukraine

Það er óneitanlega svolítið skemmtilegt að gasspekúlantar skuli nú horfa bæði til Póllands og Úkraínu. Þessi lönd stóðu nefnilega saman að boði um að halda næstu úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu - og höfðu þar á endanum sigur. Það verður næsta sumar (2012) að bestu knattspyrnumenn álfunnar koma saman í bæði Kiev og Varsjá og nokkrum örðum borgum Póllands og Úkraínu. Og etja þar kappi um sjálafan Evrópumeistaratitilinn.

Eftir að hafa kaflesið heilu skýrslubunkana og pælt gegnum háa gagnastafla um slétturnar austan Karpatafjalla, er niðurstaða Orkubloggarans sú að þarna séu tvímælalaust æpandi tækifæri fyrir hendi. Svo skemmir ekki fyrir að Úkraína er bæði fallegt og fjölbreytt land. Sjálf Kiev er líka bæði notaleg og falleg borg - þrátt fyrir að hafa orðið illa úti í stríðinu og þrátt fyrir það að vera einungis u.þ.b. 100 km frá kjarnorkuverinu alræmda í Chernobyl.

Í heimsstyrjöldinni ærðist Stalín þegar Kiev féll í hendur Þjóðverja. Moskva, Stalíngrad og Kiev voru hið heilaga þríeyki og stolt Stalíns, sem aldrei skyldu falla í hendur hersveita Hitlers. Kiev slapp reyndar miklu betur en Stalíngrad (og eins og allir vita komust Þjóðaverjar mjög nálægt Moskvu en máttu undan láta). En þó svo Kiev hafi ekki verið jöfnuð við jörðu, þá er borgin ævarandi minning um geðveiki styrjaldarinnar.

Kiev-Babi-Yar-memorial-4

Kiev varð nefnilega vettvangur einhverra hryllilegustu fjöldamorða í stríðinu öllu. Þegar þýski herinn og SS-sveitirnar slátruðu meira en þrjátíu þúsund gyðingum á tveimur sólarhringum í útjaðri borgarinnar, þar sem heitir Babi Yar. Um þessar mundir eru einmitt liðin nær slétt 60 ár frá þessum skelfilegu fjöldamorðum. Þetta var 30. og 31. september 1941. Og Babi Yar varð áfram vettvangur grimmdarverka Þjóðverja á Úkraínumönnum. Alls voru 100-150 þúsund Úkraínumenn myrtir við Baby Yar; mest gyðingar en einnig sígaunar, andspyrnumenn, stríðsfangar og almennir borgarar. Þjóðverjarnr voru duglegir að ljósmynda aðfarirnar og eru þær myndir skelfilegri en orð fá lýst. Orkubloggarinn hreinlega treysti sér ekki til að setja myndir af þeim hryllingi hér í færsluna (forvitnir og fróðleiksfúsir geta auðveldlega nálgast umrætt myndefni á Netinu).

Í dag er löngu búið að fylla Babi Yar með grjóti og jarðvegi og byggja blokkir þar yfir. Þarna eru þó faéin minnismerki. Sbr. höggmyndin af börnunum hér að ofan, sem er eitt minnismerkjanna um skelfinguna við Babi Yar.

Kiev-statue_Maidan-nezalezhnosti-3

Ja - sagan drýpur svo sannarlega af hverju strái þarna austur í Úkraínu. Og sjálf Kiev er hrein veisla fyrir sagnfræðiþyrsta. Hvort sem þeir hafa fyrst og fremst áhuga á hörmungum heimsstyrjaldarinnar síðari eða sögu víkinga. 

Sjálfum hlýnar Orkubloggaranum jafnan um hjartarætur þegar hann stendur framan við minnismerkið af væringjabræðrunum þremur á Sjálfstæðistorginu (Maidan Nezalezhnosti) í miðborg Kænugarðs. Þeir minna óneitanlega hressilega mikið á norræna víkinga og gætu vel verið náskyldir bæði Ingólfi Arnarsyni og Þorfinni karlsefni. Nema hvað flétturnar og yfirvaraskeggin minna kannski reyndar meira á Ástrík og félaga! En minnismerkið er flott engu að síður. 

Kiev_St-michael-monastery

Ekki síður skemmtilegt er að heimsækja hið gamla heimili rithöfundarins frábæra; Mikhail's Bulgakov (sbr. endurminningablogg Orkubloggarans). Fallegastar eru þó líklega gömlu grísk-kaþólsku kirkjurnar með gullin þök sín og klausturbyggingar allt í kring í sama stíl. Þær eru þarna út um allt og varpa dulúðugum glampa yfir borgina. Jafnvel á köldum og drungalegum vetrardegi getur Kiev verið sjarmerandi borg. Þegar æpandi fullt tungl speglast í kyrru en þungu Dnepr-fljótinu, sem rennur gegnum borgina í ótal sveigjum og bugðum.

Yfir þessu öllu vakir svo tíguleg verndargyðjan; sjálf Móðir Úkraínu (Berehynia). Hún stendur með brugðið sverð sitt á gríðarlega hárri súlu á Sjálfstæðistorginu miðju og gnæfir þar yfir miðborginni. Vonandi stendur hún sína plikt sem verndari Úkraínumanna allra á þessum erfiðu tímum efnahagssamdráttar þar í landi.

Kiev-old-woman-beggar-2

Það er reyndar hálf nöturlegt að sjá allar gömlu konurnar, sem liggja á hnjánum á flotta verslunarbreiðstrætinu Khreschatyk (Крещатик eða Хрещатик), hver og ein með litla skörðótta betlaraundirskál eða bolla fyrir framan sig. Þær drjúpa höfði og án þess að líta upp tauta þær ofurlágt nokkur blessunarorð ofan í gangstéttina, þegar smápeningur hafnar klingjandi í skálinni.

Þarna krjúpa þær endilanga kalda vetrardaga fyrir framan flottar tískubúðirnar og framhjá streyma jafnt Hummer'ar sem gamlar kolryðgaðar Lödur. Sagan hefur ekki farið vel með eldri kynslóðina í Úkraínu. Vonandi á unga fólkið bjartari framtíð fyrir höndum. Gallinn er bara hrikaleg spillingin sem þarna gegnsýrir stjórnkerfið og pólítíkina. Og þá ekki síst þann hluta sem snýr að orkumálum!

Kiev_Maidan-Nezalezhnosti

En það er sem sagt vel þess virði að sækja Kænugarð heim. Og hvað svo sem fátækt og gasdraumum líður, þá verður a.m.k. hægt að skemmta sér yfir fótboltanum. Á tímabili leit að vísu út fyrir að ekki tækist að ljúka framkvæmdum í tæka tíð. Platini, knattspyrnustjóri Evrópu, var meira að segja farinn að svipast um eftir nýju keppnislandi. En nú lítur út fyrir að allt verði tilbúið í tíma. Sjálfur úrslitaleikurinn á að fara fram í Kiev að kvöldi til þann 1. júlí n.k. (2012). Hver veit nema þá muni Andrés Shevchenko enda á toppnum?!


Norðlingaölduveitu í nýtingarflokk

Samkvæmt þingsályktunartillögu um Rammaáætlun er stefnt að þvi að Norðlingaölduveitu verði skipað í verndarflokk.

Nordlingaolduveita-LV-kort-2

Kortið hér til hliðar sýnir núverandi virkjanir og veitur á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu - auk þeirra framkvæmda sem Landsvirkjun hefur áhuga á að ráðast þarna í. Þar á meðal er Norðlingaölduveita. Norðingaölduveita felst í því að stífla Þjórsá nokkra km sunnan Hofsjökuls og mynda þannig lón, sem kallað hefur verið Norðlingaöldulón. Þaðan myndi vatninu verða veitt um jarðgöng til austurs, uns það sameinast vatni frá  Kvíslaveitu og fellur til Þórisvatns. Og þaðan í virkjanir Landsvirkjunar, hverja á fætur annarri. Þar með yrði unnt að auka raforkuframleiðslu virkjananna mjög mikið eða vel yfir 600 GWst árlega.

Nordlingaolduveita-samanburdur-litil

Áður en lengra er haldið er vert að taka fram að þarna er ekki um að ræða stóra lónið, sem sumir höfðu áhuga á að mynda fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Vatnshæð þess átti að ná 575 m yfir sjávarmál og lónið, sem hefði orðið allt að 29 ferkm, hefði teygt sig inn í Þjórsárver; hið einstaka friðland og votlendissvæði. Til allrar hamingju höfnuðu stjórnvöld þeirri framkvæmd og féllust þess í stað á miklu minna lón. Það er Norðlingaöldulónið sem hér er til umfjöllunar (sjá má muninn á þessum tveimur lónum á kortunum tveimur hér að ofan). Lónið í þessari nýju útfærslu mun í hæstu stöðu ná 567,5 m yfir sjávarmál og í mesta lagi verða um 5 ferkm. Út frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum er sem sagt himin og haf milli upphaflegra hugmynda um Norðlingaölduveitu og þess sem nú er á dagskrá.

Nordlingaolduveita-LV-1

Sem fyrr segir, þá hefur þessi framkvæmd þann tilgang að auka orkugetu virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu vel yfir 600 GWst á ári. Til samanburðar má nefna, að vinnslugeta Kröfluvirkjunar er 480 GWst á ári og Blönduvirkjun framleiðir um 720 GWst árlega.

Norðlingaölduveita ein og sér - án þess að byggja þurfi nýja virkjun - myndi því auka framleiðslu Landsvirkjunar langt umfram það sem t.d. Kröfluvirkjun framleiðir og slaga hátt í framleiðslu Blönduvirkjunar. Og þessar rúmlega 600 GWst sem Norðlingaölduveita myndi skila er t.d. talsvert mikið meira en fyrirhuguð Hólmsárvirkjun á að framleiða.

Rammaaaetlun-forsida-2

Það ætti því ekki að koma neinum á óvart, að Norðlingaölduveita er sögð vera einhver allra hagvæmasti möguleikinn til að auka raforkuframleiðslu á Íslandi. Enda skoraði veitan mjög vel í hagkvæmnisflokkun Rammaáætlunar. Engu að síður er nú lögð fram sú tillaga af hálfu iðnaðarráðherra (sem byggir á tillögu þeirra sem unnu Rammaáætlunina) að fallið skuli frá hugmyndum um Norðlingaölduveitu.

Nordlingaolduveita-LV-4

Rökin fyrir því að nýta ekki þennan geysilega hagkvæma raforkuframleiðslukost eru í hnotskurn svohljóðandi [leturbreyting er Orkubloggarans]: "Felur í sér röskun vestan Þjórsár á lítt snortnu landi í jaðri Þjórsárvera, auk áhrifa á sérstæða fossa í Þjórsá. Kvíslaveitur hafa nú þegar virkjað þverár sem falla í Þjórsá að austan, en kvíslum vestan ár hefur verið hlíft. Virkjunarkostur sem liggur á jaðri svæðis með hátt verndargildi sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar. Mannvirki rétt við friðland yrðu til lýta. Því þykir rétt að vernd á svæðinu verði látin hafa forgang."

Norðlingaölduveita er sem sagt felld á tveimur meginatriðum: Annað er nálægðin við Þjórsárver. Hitt er að þessi framkvæmd myndi skerða rennslið um Þjórsá og þannig hafa áhrif á "sérstæða" fossana þar fyrir neðan.

Kvislaveita- Hofsjokull-1

Þessi rök væru skiljanleg ef þarna væri um að ræða stórt og óraskað víðerni (eins og á við um svæðin við Hólmsá, sem fjallað var um í síðustu færslu Orkubloggsins). En svo er alls ekki. Það er löngu búið að raska fossunum þarna í Þjórsá fyrir neðan fyrirhugað Norðlingaöldulón. Það var gert fyrir mörgum árum með Kvíslaveitu (sem sjá má á kortinu hér efst í færslunni, sbr. einnig myndin hér til hliðar). Með þeim framkvæmdum var vatnsrennslið um Þjórsá þarna uppi á hálendinu skert stórlega - og þar með hið villta vatnsrennsli um fossana sem eru neðan fyrirhugaðs Norðlingaöldulóns. Þess vegna er verndun svæðisins við Norðlingaöldu eiginlega marklaus - nema kannski ef á sama tíma yrði beinlínis ákveðið að leggja Kvíslaveitu niður og færa landið og vatnsrennslið þarna austan Hofsjökuls í fyrra horf.

Dynkur-05

Já - fossunum neðan Norðlingaöldu var fórnað á sínum tíma með Kvíslaveitu og eru nú varla svipur hjá sjón. Í huga Orkubloggarans er ekki mikið náttúruverndargildi í slíkum fölnuðum fossum. Og þar sem Norðlingaöldulónið yrði þar að auki talsvert langt utan Þjórsárvera, eru öll helstu rök gegn Norðlingaölduveitu fallin.

Þar að auki er Norðlingaölduveita, sem fyrr segir, einhver allra ódýrasti kosturinn á Íslandi öllu til raforkuframleiðslu. Þegar allt er saman tekið þykir Orkubloggaranum rökin að baki því að stöðva Norðlingaölduveitu vera ansið veik og horfa framhjá skynsamlegri forgangsröðun virkjunarkosta á Íslandi. Eðlilegast væri að fallast á framkvæmdina og skipa Norðlingaölduveitu í nýtingarflokk. Eða a.m.k. í biðflokk meðan nánari athugun fer fram á forgangsröðun á þeim fjölmörgu virkjunarkostum sem Alþingi mun að öllum líkindum setja í biðflokkinn. 

[Kortin hér í færslunni eru úr kynningum Landsvirkjunar og eru fengin af vef fyrirtækisins].


Setjum Hólmsá í verndarflokk

Holmsa-Atley-2

Senn kemur að því að Alþingi taki þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða til meðferðar.

Þarna er á ferðinni stefnumótun sú sem jafnan er kölluð Rammaáætlunin. Þar verður ákveðið hvaða virkjunarkostir fara í nýtingarflokk og hverjir fara í verndarflokk. Þar að auki er svo þriðji flokkurinn; biðflokkur, en þar kunna flestir virkjunarkostirnir að lenda og þar með verða skildir eftir galopnir.

Nú vill svo til að Orkubloggarinn er almennt meðmæltur því að nýta fallvötn landsins til orkuframleiðslu. En að um leið beri að vernda fegurstu og sérstæðustu svæðin og árnar, eins og t.d. Jökulsá á Fjöllum. Drög að Rammaáætlun er leiðsögn sem virðist hafa heppnast nokkuð vel - þó svo þar séu fáein atriði sem bloggaranum þykir að betur þurfi að huga að. Bæði er að Orkubloggaranum þykir verndunarsjónarmið í nokkrum tilvikum hafa gengið of langt. Og sömuleiðis hefði í nokkrum öðrum tilfellum mátt láta umhverfisvernd hafa meiri vigt. Í þessari færslu Orkubloggsins verður sjónum beint að einu dæmi um hið síðar nefnda; virkjunarkost sem margvísleg rök mæla með að verði sleginn út af borðinu og svæðið friðað.

Holmsarvirkjun-kort-2

Þar er um að ræða Hólmsárvirkjun við Atley. Þetta er virkjunarkostur sem í þingsályktunartillögunni um Rammaáætlun er settur í biðflokk. Sitt sýnist hverjum um þá tillögu. Orkusalan hefur í umsögn sinni andmælt þessari flokkun og telur einsýnt að virkjun Hólmsár við Atley eigi að fara í nýtingarflokk. Orkusalan er vel að merkja fyrirtæki sem er í samstarfi við Landsvirkjun um að reisa umrædda virkjun, en Landsvirkjun er stór hluthafi í Orkusölunni. Í öðrum umsögnum eru aftur á móti sett fram öndverð sjónarmið um þessa virkjun. Á þá leið að þarna sé um að ræða svæði sem beri að varðveita og eðlilegast sé að umræddur kostur fari í verndarflokk.

Holmsa-Atley-5

Orkubloggarinn hefur áður fjallað um Hólmsána og lýsti þar upplifun sinni af þessu afar sérstæða og ægifagra svæði. Svæði sem furðufáir Íslendingar virðast hafa skoðað og hefur af einhverjum ástæðum lítið verið í umræðu um umhverfisvernd. Þegar umrædd færsla um Hólmsá var skrifuð hafði bloggarinn einungis farið að ánni vestan megin - um þá leið sem nefnd er Öldufellsleið. Sú upplifun var þó nóg til að sannfæra bloggarann um að þarna eigi alls ekki að virkja. Og núna eftir að hafa kynnt sér svæðið nánar og þá líka svæði austan árinnar, er ekki ofmælt að virkjun þarna yrði mikið umhverfisslys.

Svæðin vestan megin Hólmsár eru þau sem flestir sjá. Einfaldlega vegna þess að Öldufellsleið liggur vestan árinnar. Þar er mikil náttúrufegurð, en vissulega er þar Mýrdalsjökull og svartur sandurinn mjög áberandi. Mun erfiðara er að komast að Hólmsánni austanmegin, en þar er einungis unnt að aka að ánni eftir smalaslóðum sem fæstir þekkja. Því er hætt við að margir þeirra sem komið hafa á þessar slóðir, hafi í reynd ekki séð nema brot af svæðinu. Og geri sér alls ekki grein fyrir þeim náttúruverðmætum sem þarna stendur til að fórna.

Holmsa-Atley-3

Í áætlunum um virkjunina er gert ráð fyrir að reisa um 38 m háa stíflu á fallegum stað fremur neðarlega í farvegi Hólmsár, við Atley. Myndin hér til hliðar er einmitt tekin á þeim slóðum, sem stíflan myndi rísa (og er ljósmyndarinn austan megin árinnar).

Stíflan hefur þann tilgang að mynda miðlunarlón sem á að verða um 10 ferkm að flatarmáli. Þarna færi því talsvert mikið land undir vatn. Hlutfallslega yrði þarna reyndar sökkt miklu meira landi en gert var með Hálslóni - þ.e. þegar litið er til afls virkjananna. Eðli málsins samkvæmt verður vatnshæð lónsins æði breytileg og þarna myndast því breiður vatnsbakki sem verður margir tugir km að lengd. Þar mun vafalítið setjast talsverður leir, sem svo fýkur yfir gróðurlendið í nágrenninu.

LV-Holmsa-mat-1

Frá lóninu yrði vatninu veitt um 6,5 km. löng aðrennslisgöng að stöðvarhúsi, sem reisa á neðanjarðar. Frá stöðvarhúsinu yrðu svo rúmlega 1 km. frárennslisgöng, sem kæmu út úr brekkunni skammt frá bænum Flögu í Skaftártungu. Þaðan á vatnið svo að renna eftir um 900 m skurði út í Flögulón og þaðan niður Kúðafljót.

Ofangreind lýsing á virkjuninni er tekin af vef Landsvirkjunar. Þar er líka að finna grófa lýsingu á svæðinu og í stuttu máli rakið hvaða rannsóknir og athuganir ráðast þarf í. Þar sker nokkuð í augu að í þessari matsáætlun er minnst á birkikjarr á Snæbýlisheiði. En sérhver sá sem skoðar svæðið austan Hólmsár sér að þarna væri miklu nær að tala um að lónið myndi skerða umtalsverðan, gróskumikinn og uppvaxandi villtan íslenskan birkiskóg. Og þarna er vel að merkja hugsanlega um að ræða síðustu leifar hinna fornu Dynskóga. Skóganna sem sögur segja að hafi áður náð yfir stór svæði milli fjalls og fjöru þar sem nú liggur Mýrdalssandur.

Í hnotskurn má segja að þessi birkiskógur (sem mönnum virðist tamt að kalla kjarr) og svæðið allt með sjálfan Mýrdalsjökul í bakgrunni, hafi alla burði til að geta talist eitthvert sérstæðasta og fallegast ósnortna víðerni landsins. Í þessu sambandi er athyglisvert hversu misvísandi upplýsingar hafa verið lagðar fram um gróðurþekju þessa svæðis, sem þarna er undir.

Holmsa-Atley-4

Í drögum að matsáætlun Landsvirkjunar og Orkusölunnar segir að samtals séu rúmlega 60% af lónsstæðinu ógróið eða lítt gróið land, en í nýlegri skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að hlutfall þessa lands sé 31%. Umrædd skýrsla Náttúrufræðistofnunar var vel að merkja beinlínis unnin fyrir Landsvirkjun og Orkusöluna, sem gerir það að verkum að misræmið þarna er þeim mun undarlegra.

Þetta er sláandi munur og virðist sem annar aðilinn hafi hreinlega snúið hlutunum á hvolf. Skv. umræddri skýrslu Náttúrufræðistofnunar er hlutfall gróins lands 69%, en skv. gögnum Landsvirkjunar og Orkusölunnar er hlutfall gróins lands tæplega 40%. Tekið skal fram að umrædd skýrsla Náttúrufræðistofnunar ber titilinn Hólmsárvirkjun - Atleyjarlón. Náttúrufarsyfirlit um gróður og vistgerðir og þrátt fyrir að vera gefin út á tímum Internetsins, virðist þessa skýrslu alls ekki vera að finna á Netinu!

Holmsa-Atley-1

Nú veit Orkubloggarinn svo sem ekki hvaða tölur þarna eru réttari. Mikilvægt er að þeir sem standa að ákvörðunartöku um röðun virkjunarinnar í Rammaáætlun hafi þarna réttar upplýsingar. Í huga Orkubloggarans skipta tölurnar þarna þó ekki höfuðmáli. Því jafnvel þó svo gróðurþekja svæðisins sé heldur minni en meiri, þá ætti sérhverjum manni sem þarna fer um að vera ljóst að virkjunin hefði vægast mikil, neikvæð og óafturkræf umhverfisáhrif á þessu einstaklega fallega og ósnortna svæði.

Miðlunarlónið myndi m.a. teygja sig inn eftir og sökkva fallegum og gróðursælum smádölum þar sem nú falla bergvatnsár og -lækir um skógivaxið landið. Þarna má nefna svæði sem kunnugir þekkja undir örnefninu Skógar, þar sem Skógá fellur í snotrum fossi innst í dalnum. Þessu öllu myndi miðlunarlónið sökkva (vatnsborð lónsins yrði nálægt staðnum þar sem fossinn á myndinni hér að ofan fellur fram af klettabrúninni). Á bökkum lónsins myndi svo að auki myndast breitt leirlag, sem sjálfsagt myndi fjúka úr og yfir gróðurlendið í kring.

Fyrst og fremst eru það þó heildaráhrif virkjunarinnar sem eru áhyggjuefni. Virkjunin myndi valda gríðarlegri röskun á ægifögru og stórbrotnu landsvæði, sem í dag er nánast alveg ósnortið af manna höndum. Auk þess sem mikið land fer undir vatn þarf að reisa varnargarða, leggja vegi og slóða og grafa skurði. Þar sem útfallið er fyrirhugað (í Flögulón) er landið flatt og ekki útséð hvaða áhrif t.d. vatnið og framburðurinn hefði á Flögulón og fisk í Tungufljóti.

Haspennulinur-Landmannaleid-2

Þá eru ótalin þau miklu neikvæði sjónrænu áhrif sem háspennulínan hefði.  Háspennulínan myndi skera í sundur heiðarnar ofan Skaftártungu og næsta nágrenni Friðlandsins að Fjallabaki. Hún myndi verða lögð frá stöðvarhúsinu og 25-30 km norður eftir heiðarlöndunum upp af Skaftártungu. Þar myndi hún tengjast suðurlínu Landsvirkjunar (Sigöldulínu) - sem á sínum tíma var lögð skammt frá Fjallabaksleið nyrðri (þetta var snemma á 9. áratug liðinnar aldar, en svona lína yrði vart lögð um þessar sömu slóðir í dag).

Umræddar tillögur um Hólmsárvirkjun ættu að fá okkur öll til að staldra við og hugleiða málið vel og vandlega. Við Íslendingar erum enn svo gæfusamir að eiga nokkur lítt eða ósnortin og einstök víðerni, sem við höfum ennþá kost á að vernda til framtíðar. Við ættum að fara sérstaklega varlega þegar slík svæði koma til skoðunar sem virkjanasvæði.

Tungufljot-1

Í þessu sambandi er líka vert að hafa í huga að þarna er ekki um að ræða landsvæði lengst uppi í óbyggðum, heldur í næsta nágrenni við byggð og alfaraleið. Þegar horft er til framtíðar er líklegt að verndun þessa svæðis muni hafa miklu meiri þýðingu fyrir atvinnuuppbyggingu í Skaftárhreppi heldur en virkjun. [Myndin hér til hliðar er frá Tungufljóti, sem er rómuð sjóbirtingsá]

Það blasir við að svæðin í nágrenni Fjallabaks og allt suður að Torfajökli, Mýrdalsjökli og þar með talin Hólmsá verðskulda friðun. Í huga Orkubloggarans myndi virkjun Hólmsár við Atley vera táknræn um algert áhugaleysi stjórnvalda á skynsamlegri og alvöru náttúruvernd. Vonandi taka Alþingismenn af skarið og skipa virkjunarhugmyndum við Hólmsá í verndarflokk.


Tíu árum síðar

Enron_jeff-skilling_ken-lay-3

"Í desemberbyrjun 2001 er Enron lýst gjaldþrota. Fyrirtæki með yfir 20 þúsund starfsmenn, sem fáeinum mánuðum fyrr hafði tilkynnt um 50 milljarða dollara tekjur og hafði enn einu sinni sprengt allar væntingar. En nú var ballið búið. Þetta reyndist stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna."

Já - í dag 2. desember 2011 eru nákvæmlega 10 ár síðan hið risastóra orku- og hrávörufyrirtæki Enron varð gjaldþrota. Í tilefni þess leyfir Orkubloggið sér nú að rifja upp eldri færslu sína um Enron.

Kannski er þó ennþá meiri ástæða til að hugleiða sumt af því sem segir í grein á fréttavef CBS í dag:

"Enron didn't go wrong because the late Ken Lay and currently imprisoned Jeff Skilling were bad guys... The failure of this corporation required the active participation and collusion of hundreds, if not thousands, of employees. Enron's corporate culture encouraged rampant, ruthless internal competition, driving otherwise decent human beings to take risks of a kind they knew were dangerous and wrong."

enron-logo-lighnings"Enron was the dress rehearsal for the banking crisis which propelled the economic crisis we now find ourselves mired in. We could have, should have learned from it. We didn't. Legislators were intimidated. Government was weak and probably corrupt. Employees in their hundreds colluded in what they knew to be wrong. This was willful blindness on an epic scale. And once the market bounced back, it was easy to fall back on the fatal argument that Enron had been the exception, not the rule."

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband