Össur og Össur

Eins og áður hefur verið nefnt hér á Orkublogginu, hef ég ætíð haldið upp á hann Sigurjón Þ. Árnason. Sem nú er annar af bankastjórum Landsbankans. Og það er líklega til marks um snilld þeirra Landsbankamanna að geta grætt fullt af pening í svona lufsuárferði, eins og núna ríkir. Ég held ég verði að fara að færa mig yfir í Landsbankann. Áður en Exista & Co. dregur Kaupþingsbankann minn alveg í svaðið.

Fyrst hélt eg reyndar að þeir Landsbankamenn hefðu gert svona vel á 2. ársfjórðungi, af því þeir hefðu hlýtt ráðum Orkubloggsins og farið massíft yfir í olíuna í apríl og maí. Þess vegna varð ég smá spældur að sjá frétt á visir.is um að þetta sé bara gengishagnaður. Eða eins og þar segir orðrétt: "Hagnað Landsbankans á öðrum ársfjórðungi má að stórum hluta rekja til jákvæðrar afkomu af gengisvörnum eiginfjár á tímabilinu."

Skemmtilega að orði komist. "Gengisvarnir eigin fjár". Á mæltu máli þýðir þetta líklega að Landsbankinn veðjaði á gengisfall krónunnar. Sem þýðir að þeir hafa keypt erlendan gjaldeyri i stórum stíl og losað sig við krónuræfla. Gott hjá þeim. Ég vildi óska að ég hefði sjálfur gert miklu meira af slíku - að "gengisverja" mitt eigið fé í stórum stíl. En maður getur ekki alltaf unnið.

ossur_bloggari

Hvað um það. Fyrirsögnin að þessari færslu er reyndar út af allt öðru. Mig nefnilega dreymdi hann Össur s.l. nótt. Að hann væri mér reiður fyrir að tala um það hér á Orkublogginu, að hann eigi að skammast til að móta skynsamlega framtíðarstefnu í orkumálum. Sbr. færslan "Íslenskt orkustefnuleysi";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/597513/

Draumurinn gekk sem sagt út á það, að þetta hafi verið ómakleg aðför hjá mér. Í reynd hafi hann (Össur) tekið eitt stærsta skrefið að slíkri stefnumótun, með breytingunum á orkulöggjöfinni frá því i vor. Hann orðaði það reyndar aðeins öðruvísi í draumnum. En það ætla ég ekki að hafa eftir hér.

Ég hrökk auðvitað upp í svitakófi. Með nagandi samviskubit. Því í reynd fila ég Össur oftast mjög vel. Hver veit nema þetta framtak Össurar og Alþingis verði fyrsta skrefið að hinni heilstæðu og skynsömu orkustefnu, sem ég lýsti eftir.

Samt verð ég að segja að álversumræðan í kringum Helguvík og Húsavík finnst mér enn einkennast af gamla bútasaumshættinum. Og að Össur leiki stórt hlutverk í þeim bútasaumi. Í stað þess að taka næsta skref - og íslenska ríkið og þjóðin taki upp skýra langtímastefnu í orkumálum. Og í stóriðjumálum. En kannski er til of mikils mælst. Hjá þjóð sem fram til þessa hefur sjaldnast getað horft lengra fram en að næsta sauðburði eða næstu vertíð.

Lamb

Ég barrrasta skil það vel. Enda man ég sem það hafi gerst í gær, þegar ég var í sauðburðinum hjá honum Steina í Hörgslandskoti harðindavorið 1979. Og gul lambaskitan rann niður regnkápuna, þar sem maður burðaðist með tvílembinga ofan af heiðarbrúninni. Til að bjarga þeim frá að krókna í slyddunni. Já - þá komst maður líklega næst frelsaranum. Og var lítt að hugsa um langtíma orkustefnu.

Nóg um Össur í bili. Og þess í stað að Össuri. Gott að sjá hlutabréfin þar mjakast upp á við. Í dag sá ég nokkuð, sem snart mig. Þar sem ég var á hjólinu í nágrenni við Strikið hér í Köben, rak ég augun í stúlku í stuttbuxum með afskaplega granna fætur. Fyrst hryllti ég mig við anorexíunni. En svo áttaði ég mig á raunveruleikanum. Þarna stóð hún, þessi stúlka eða öllu heldur unga kona, í stuttbuxum og stuttermabol og hallaði sér upp að vegg í hitasvækjunni. Við hliðina á henni stóð talsvert eldri kona, hugsanlega mamma hennar, og var að taka peninga úr hraðbanka.

Stúlkan var ekki með anorexíuleggi. Hún var einfaldlega með gervifætur. Og svo sá ég að handleggirnir hennar enduðu báðir sem stubbar, rétt fyrir neðan olnboga. Engar hendur. Engir úlnliðir. Mig minnir að svona vansköpun geti verið afleiðing lyfjaneyslu móður á meðgöngu. Eða kannski út af einhverju allt öðru.

Ossur_Oscar_Pistorius

Svo gengu þær mæðgur (eða vinkonur) af stað yfir Nytorv og að Strikinu. Stúlkan líkt og haltraði örlítið. En gekk að öðru leyti eðlilega. Á gervifótunum sínum. Með handleggjastubbana. Það er á svona stundum, sem maður fyllist einhverri hlýju til fyrirtækja eins og Össurar. Fyrirtækja sem eru í þeim bissness að hjálpa fólki. Og skipta í alvöru miklu máli. Á svona stundum finnst mér menn leggjast lágt, sem dreymir um það eitt að Ísland verði "fjármálamiðstöð". Líklega er sá draumur reyndar orðinn martröð. Rétt eins og þegar Össur (hinn Össur, sko) skammaði mig í mínum draumi.

Eflaust eru fyrirtæki eins og t.d. FL Group, Straumur, Baugur, Glitnir og Landsbankinn, líka með mikinn metnað og vel þenkjandi eigendur. Rétt eins og Össur. En ég verð að segja alveg eins og er. Ég ber meiri virðingu fyrir fólkinu að baki Össuri. Miklu meiri.


mbl.is Össur og Landsbanki hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég trúi að Össur sé afburðafyrirtæki á sínu sviði....mikill metnaður

Hólmdís Hjartardóttir, 30.7.2008 kl. 02:33

2 Smámynd: Snorri Bergz

Össur er skemmtilegur fýr, burtséð frá því hvort maður sé sammála honum eða ekki.

En varðandi Grjóna bankastjóra þá er maðurinn auðvitað snillingur. Það segir sig sjálft. Held að Landsbankinn geti varla fengið betri stjóra, bráðgáfaður maður, vinnusamur og duglegur. (Ef þú lest þetta Sigurjón, þá vantar mig lán á góðum kjörum!)

Og þetta er maður sem vann í byggingarvinnu hjá Verkamannabústöðum! Sumir geta unnið sig upp á eigin verðleikum, aðrir þurfa klíkuskap.

Snorri Bergz, 30.7.2008 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband