E15

Fuel_pump_US_e10Alltaf gaman að upplifa eitthvað nýtt og skemmtilegt.

Orkubloggarinn var í fyrsta sinn á bíl vestur í Bandaríkjunum núna um daginn. Og kynntist því þá af eigin reynslu hversu etanól hefur mikla þýðingu þar vestra. Hver einasta bensíndæla bauð upp á ýmsar tegundir af eldsneyti og þ.á m. var venjulega einn kosturinn E10. Bensínblanda þar sem etanól er 10%.

Í Bandaríkjunum eiga allar bílvélar að geta notað E10 og langflestar þeirra kunna reyndar ráða við mun hærra blöndunarhlutfall af etanóli. Þess vegna yrði hugsanlega einfalt mál að hækka blöndunarhlutfallið um a.m.k. helming og bjóða upp á E15  og jafnvel E20. Enda hefur bandaríski etanóliðnaðurinn lobbíað massíft fyrir því í Washington DC að fá a.m.k. E15 samþykkt sem standard. Það myndi augljóslega hafa gríðarlega þýðingu fyrir etanóliðnaðinn.

Lífmassaiðnaðurinn bandaríski hefur gengið í gegnum miklar sveiflur síðustu misserin. Enda er etanólið í raun fyrst og fremst að keppa við heimsmarkaðsverð á olíu, sem hefur sveiflast hreint svakalega. Etanóliðnaðurinn hefur notið áherslunnar á lífmassaeldsneyti, sem finna má í Energy Independence and Security Actfrá 2007. Engu að síður hafa etanólmenn viljað ganga skref lengra. Og bundið vonir við að þingið samþykki E15 sem standardblöndu; að bandarískt etanól-bensín muni innan tíðar innihalda 15% af etanóli í stað 10% eins og nú er.

corn_fuel_pumpMeð kjöri Obama og áherslu hans á endurnýjanlega orku jókst bjartsýni margra um að brátt verði E15 lögbundin blanda. En það hefur enn ekki gengið eftir. Ekki vegna andstöðu Obama, heldur vegna efasemda um að bílvélarnar almennt þoli svo háa blöndu. Til samanburðar þá hafa Brasilíumenn nokkuð lengi notað blöndur eins og E20 og E25, en þar hafa bílarnir sérhannaðar vélar fyrir slíka blöndu. Að mati Orkubloggarans eru góðar líkur á því að bílvélarnar í Bandaríkjunum, sem allar eru hannaðar með E10 í huga, þoli vel a.m.k. E15. En í þessari paradís skaðabótamálann ráðast stjórnvöld þar vestra auðvitað ekki í að lögbinda E15 nema að vera algerlega fullviss um að slíkt eldsneyti henti bílaflotanum.

Ástæða þess að mikill áhugi er á því Bandaríkjunum að auka notkun etanóls er einföld: Þar vestra er mjög öflugur etanóliðnaður og hærra hlutfall etanóls myndi einfaldlega bæði efla þann innlenda iðnað enn frekar OG um leið draga úr þörfinni á innfluttu eldsneyti. Etanólið hefur löngu sannað sig og ekki skrýtið að menn hafi áhuga á að auka notkun þess enn meira.

Margir gagnrýna reyndar að etanólið keppi við matvælaframleiðslu. En á móti kemur að öll fremstu etanólfyrirtækin vinna á fullu í því að þróa annarrar kynslóðar etanóleldsneyti. Þar sem ekki er notast við fæðuhráefni, eins og t.d. maís, til að búa til etanólið. Margt bendir til þess að brátt takist að framleiða slíkt annarrar kynslóðar lífmassaeldsneyti með þokkalega ódýrum hætti. Og því full ástæða til að gefa etanólinu séns.

E10_signÞeir sem eru tilbúnir að veðja á að E15 standard líti brátt dagsins ljós í Bandaríkjunum hljóta að nota tækifærið núna og festa sér hlutabréf í einhverjum af álitlegustu etanólfyrirtækjunum. Það almagnaðasta hlýtur að vera sú staðreynd að af þeim fyrirtækjum sem myndu hagnast hvað allra mest af aukinni áherslu Bandaríkjanna á etanól, eru dönsk fyrirtæki hvað fremst i flokki. Þar má sérstaklega nefna Novozymes og Danisco, sem eru afskaplega áberandi í etanólbransanum víða um heim.

Það eru m.ö.o. horfur á því að stefna Bandaríkjanna í eldsneytismálum verði vatn á myllu dansks hugvits og tækniþekkingar. Danir eru svo sannarlega seigir. En þetta leiðir huga Orkubloggarans að þeirri svolítið broslega stefnu  íslenskra stjórnvalda að ætla að draga stórlega úr losun CO2 hér, með því að koma fiskiskipaflotanum á jurtaolíu. Það væri kannski betra að einhver tengsl væri milli slíkra markmiða og stöðunnar í íslenskum eldsneytisiðnaði. En hver veit; kannski verða Íslendingar e.h.t. jafn öflugir í að framleiða og nota biodiesel eins og Danir eru stórir í etanóliðnaðinum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband