Bifreiðaeldsneyti framtíðarinnar

Hvað mun knýja bifreiðar á Íslandi eftir 30 ár? Bensín og díselolía, íslenskt rafmagn, DME unnið úr koldíoxíðútblæstri, vetni eða jafnvel íslenskt lífrænt fljótandi eldsneyti? Kannski blanda af þessu öllu saman?

Algae_biofuel

Eins og lesendur Orkubloggsins vita hefur stjórn Obama ýtt til hliðar hugmyndum um vetnisvæðingu. Þar sigraði raunsæið draumórana. Og nú er sagt að Ólafur Ragnar hafi fylgt fordæmi Obama og veðji á rafbílavæðingu. Í reynd eiga Íslendingar mun raunhæfari og hagkvæmari kost; að framleiða eigið lífrænt eldsneyti.

Hafa ber í huga að Ísland hefur mikla sérstöðu í orkumálum vegna hinnar gríðarlegu endurnýjanlegu orku, sem hér er að finna. Þessi sérstaða gerir það að verkum að hagsmunir Íslands í orkumálum fara ekki endilega saman við orkuhagsmuni annarra ríkja. Hér eru tækifærin einfaldlega miklu meiri en víðast hvar annars staðar til að þjóðin geti orðið orkusjálfstæð - og byggt það sjálfstæði alfarið á endurnýjanlegri orku. Þess vegna er fyllsta ástæða fyrir Íslendinga að vera bjartsýnir á framtíðina. Að því gefnu að rétt verði á málum haldið og hér verði komið á orkustefnu sem byggir á skynsemi og langtímasýn.

Nýlokið er 3ju ráðstefnu Framtíðarorku um framtíðarsýn í eldsneytismálum - þar sem áherslan er á sjálfbærar orkulausnir í samgöngum. Þau hjá Framtíðarorku eða FTO Solutions eiga heiður skilið fyrir að hafa komið þessum viðburði á fót - og náð að halda dampinum.

Eflaust hefur hver sína skoðun á því hvað athyglisverðast var við ráðstefnu Framtíðarorku að þessu sinni. Í raunsæishuga Orkubloggarans hljóta þau Hans Kattström og Ann Marie Sasty að hafa vakið mesta athygli fundargesta. Þó svo kínverska BYD og norsk/íslenski rafbíladraumurinn hjá Rune Haaland  hafi kannski verið það sem virkaði mest spennó. Þetta síðastnefnda er reyndar æpandi útópía.

Sakti3_logoHin jarðbundna Ann Marie Sasty er forstjóri sprotafyrirtækisins Sakti3, sem er að vinna að þróun endurhlaðanlegra rafgeyma. Enn sem komið er, er langt í land með að slíkir rafgeymar verði nógu öflugir og ódýrir til að rafbílar verði af alvöru samkeppnishæfir við hefðbundna bíla. Vissulega eru gríðarleg tækifæri í rafbílum, en alltof snemmt að spá hvort eða hvenær þeir munu ná mikilli útbreiðslu. Og það mun ekki gerast nema upp spretti fjölmörg fyrirtæki í líkingu við Sakti3 - þá mun kannski koma að því að eitthvert eða einhver þeirra finni réttu leiðina í rafgeymatækninni. Sakti3 er eitt af þeim fyrirtækjum sem Orkubloggið mun fylgjast spennt með í þessu sambandi.

ScandinavianGts_logoMaðurinn með skemmtilega nafnið,  Hans Kattström, er í forsvari fyrir sænska gasframleiðandann Scandinavian GtS, en Svíar eru einmitt í fararbroddi ríkja sem nýta lífrænt eldsneyti á bifreiðar. Með lífrænu gasi er átt við gas unnið úr lífrænum efnum, t.d. úr sorpi eða plöntum. Á ensku er þetta gjarnan kallað biogas; þetta er í reynd metan og er náskylt hefðbundnu náttúrugasi.

Metan er að mörgu leyti snilldarorkugjafi. Íslendingar ættu tvímælalaust að horfa til þess hvernig Svíarnir hafa farið að því að gera metan að alvöru orkugjafa í sænska samgöngugeiranum. Menn skulu þó hafa í huga, að til að fjárhagslegt vit sé í slíkri framleiðslu þarf hún bæði að verða umfangsmikil og afurðin vera á viðráðanlegu verði. Til að lífefnaeldsneyti eigi sér raunverulega framtíð og höggvi ekki stór skörð í kaupmátt almennings og/eða í tekjur ríkissjóðs m.t.t. skattlagningar ríkisins á ódýru, innfluttu eldsneyti, þarf iðnaðurinn sem sagt alfarið að miðast við fjárhagslega hagkvæmni!

Það er hæpið að sérhæfð metanframleiðsla geti keppt við jarðefnaeldsneyti. Nema með verulegum niðurgreiðslum eða styrkjum. Sennilega er mun álitlegra að fara með lífmassann alla leið, ef svo má að orði komast. Vinna úr honum lífræna hráolíu fyrir tilstilli endurnýjanlegrar orku.

Theistareykir_1Slíkur iðnaður myndi líklega henta mjög vel á Íslandi vegna þess hversu mikla endurnýjanlega orku við eigum. Þetta er einfaldlega raunhæfasti og nærtækasti kosturinn fyrir Ísland í orkumálum. Og þetta yrði ný og mikilvæg stoð í íslensku atvinnulífi og myndi að auki spara mikinn gjaldeyri. Myndi sem sagt bæði þýða meiri fjölbreytni í stóriðju, ný tækifæri í landbúnaði, arðmeiri nýtingu á orkuauðlindum Íslands og um leið draga stórlega úr þörfinni á innfluttu eldsneyti með tilheyrandi gjaldeyrissparnaði.

Sennilega væri skynsamlegt að nýta t.d. orkuna á Þeistareykjum til slíkrar framleiðslu, fremur en að nota hana í áliðnað. Orkubloggið hefur reyndar nokkrar áhyggjur af því að stjórnvöld hér átti sig ekki á þessum möguleikum og séu stundum helst til fljót að eyrnamerkja orkuna nýjum álverum. Það er mjög óskynsamlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og ber vott um ótrúlega skammsýni. Nú reynir á hvaða stefnu iðnaðarráðherra, ríkisstjórnin og Alþingi taka. Ný, raunhæf og betri tækifæri blasa við ef fólk bara nennir að staldra við og íhuga valkostina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög athyglisverðar upplýsingar og þarfar fyrir okkur sem teljast til óupplýsts almennings. Sennilega er vetnisframleiðsla til notkunar fyrir farartæki því miður óhagkvæm. Það varð manni ljóst eftir athyglisverðar blaðagreinar dr. Sigþórs Péturssonar, prófessors í efnafræði fyrr á árinu. Það er hinsvegar miklu athyglisverðari kostur að vinna metangas og/eða methanol úr lífrænum efnum eins og sorpi, og einnig að umbreyta koldíoxíði í útblæstri t.d. stóriðjunnar. Það er ástæða til að taka undir með orkubloggaranum að það þarf að gæta sín mjög á því að fórna ekki öllum hagkvæmustu orkulindum landsins til þess að framleiða ál. Við þurfum að eiga einhverja möguleika ónýtta í framtíðinni og óbundna til þess að við sitjum ekki uppi með óhagkvæma orkukosti fyrir okkur sjálf, hvort sem litið er til heimilisnotkunar, fiskveiða, samgangna eða verklegra framkvæmda.  

Jeppe paa Bjerget (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 06:58

2 identicon

Ágætis grein ... en  : "stjórn Obama ýtt til hliðar hugmyndum um vetnisvæðingu"  Þetta er ekki rétt, hann tók þessa ákvörðun til að byrja með og það komst í blöðin, það sem komst hinsvegar ekki í blöðin var það að hann hætti við að hætta við,

http://www.hydrogencarsnow.com/blog2/index.php/political-issues/u-s-doe-put-hydrogen-cars-back-in-the-dough/

Annað:

athugasemnd : "Sennilega er vetnisframleiðsla til notkunar fyrir farartæki því miður óhagkvæm"  Að byggja þessa skoðun á einni grein eitthvers efnafræðings er nú frekar furðulegt, og ef þú kynnir þér málið aðeins betur þá kemur fljótt í ljós að nánast ALLIR bílaframleiðendur eru að þróa og prufa vetnisbíla um allann heim og stefna á fjöldaframleiðslu á næstu árum og fjöldi landa að byggja upp síðan "Hydrogen-Highways"..... og að einni eldfaldri ástæðu... DRÆGNI, eitthvað sem rafmagnsbíla framleiðendur hafa ekki getað uppfyllt nægilega (nema þú viljir kaupa þér $100.000 sportbíl, tesla).

Ég held að málið sé bara að opna aðeins hugann og átta sig á þvi að framtíðarlausnir í samgöngumálum verða engin ein lausn, þetta verður samblanda af metan,biodísel, rafmagni,vetni og guð má vita hverju örðu. Og að afskrifa eitthvað af þessu vegna eitthverjar greinar er bara fáfræði. Think outside the box.

Sæþór (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 10:19

3 identicon

Jeppi á Fjalli kemur með athyglisvert innleg "og einnig að umbreyta koldíoxíði í útblæstri t.d. stóriðjunnar." en gerir sér ekki grein fyrir því að til þess þarf að framleiða vetni fyrst! væri þá ekki skynsamlegra að nota vetnið millilðalaust?

Gunnar Þór Jónsson (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 10:50

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Kannski er Orkubloggarinn bæði fáfróður og fastur inní boxi.

Stóra spurningin er: Munu fjárfestar setja peninginn sinn í vetnistækni, rafmagnstækni eða þróun á lífefnaeldsneyti? Það ræðst að mestu af orkupólítíkinni  vestur í Bandaríkjunum.

Steven Chu, orkumálaráðherra Obama, lýsti í vor miklum efasemdum um að vetnisvæðing væri raunhæfur kostur fyrr en eftir marga áratugi. Og að stjórnin myndi því leggja aukna áherslu á þróun rafbílatækni.

Vetnisiðnaðurinn rak auðvitað upp ramakvein og í kjölfarið dró Chu aðeins úr yfirlýsingagleðinni. Sagði nú síðsumars að áfram þurfi að þróa vetnistæknina en að hún sé þó langt utan seilingar. Hann er sem sagt enn á því að vetni verði ekki raunhæfur kostur fyrr en eftir marga áratugi. En er búinn að læra smávegis í pólítík og að tala verði varlega.

Það er vissulega orðum aukið hjá Orkubloggaranum að vetnisvæðing hafi verið lögð á hilluna í Bandaríkjunum. Og tekið skal fram að vetnið gæti verið mjög góður kostur fyrir Ísland. En nú njóta aðrir orkugjafar fylgis í DC og það mun einfaldlega hafa þau áhrif að fjárfestar leita í annað en vetnið.

Ketill Sigurjónsson, 18.9.2009 kl. 11:01

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég er 100% samála þér varðandi lífeldsneytið.  Það er raunhæfasta, ódýrasta, fljótlegasta og hagkvæmasta leiðin fyrir okkur til að verða minna háð eldsneytisinnflutningi.

Í framtíðinni má svo sjá fyrir sér hægfara skiptingu yfir í rafbíla eða jafnvel vetni.

Axel Þór Kolbeinsson, 18.9.2009 kl. 11:03

6 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Mér finnst þessi umræða mjög spennandi. Eins og þú segir réttilega ríkir mikil óvissa hvað verður ofan á. Stundum sigrar hagkvæmasta lausnin ekki. Sumir spá þvi að framtíðin verði flóknari, fleiri kostir sem hver hefur sitt til síns ágætis. Sumir kjósi hagkvæm farartæki til stuttra ferða og aðrir leggi í kostnað við að komast lengra á "tankinum". Ég las í Lifandi Vísindum að þörungar gætu framleitt 10 sinnum meiri olíu en repja. Ræktun á repju tekur mikla orku þannig að framleiðslan borgar sig vart. Ef hægt er að fá þörunga til að framleiða olíu með slíkum afköstum gæti það borgað sig. Eigum við að rannsaka slíkt eða er þetta bara vitleysa?

Jón Sigurgeirsson , 18.9.2009 kl. 14:06

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Já - það er allt að verða vitlaust í þessari þörungatækni. Því er oft lýst sem 3ju kynslóðar lífefnaeldsneyti. Græna myndin hér efst í færslunni er einmitt af svoleiðis algae-sulli.

En að geta notað þörunga til að framleiða orkuríkt og ódýrt eldnseyti er ennþá bara framtíðarmúsík. Menn eru ekki einu sinni búnir að ná nauðsynlegri hagkvæmni í 2. kynslóðar biofuel! Líklega þarf að ná 30-40% meiri hagkvæmni til að eldsneyti úr sellúlósa geti keppt við 70 dollara olíutunnu. Ennþá einhver ár í það.

Allur þessi lífræni etanól-iðnaður kann að lenda í massívu gjaldþroti. Ef olían lækkar örlitið. Þannig fór fyrir synfuel-iðnaðinum vestra upp úr 1980.

Líklega er eina vitið að fara alla leið; nota ókjör af endurnýjanlegri orku til að framleiða hráolíu úr lífmassa. Og sjá sjálf um hreinsunina á þessari lífolíu. Þegar meiri hagkvæmni næst t.d. í sólarorkuiðnaðinum verður þess háttar framleiðsla að veruleika beggja vegna Atlantshafsins. Hér á Íslandi gætum við byrjað strax! T.d. með orkunni frá Þeistareykjum.

Ketill Sigurjónsson, 18.9.2009 kl. 23:18

8 Smámynd: Fannar frá Rifi

eru ekki mestu og ódýrustu framleiðslu möguleikarnir við framleiðslu á lífrænu eldsneyti fólgnir í genabreyttum þörungum? það er vel hægt að ímynda sér "akranna" af þörungum sem síðan er umbreytt í líf olíu. kannski að stærsti kosturinn við þetta er að það þarf ekki að breyta vélum í þeim farartækjum sem fyrir eru nema að litlu leiti ásamt því að þetta myndi ganga í skipaflota landsins. rafmagn yrði t.d. aldrei álitlegur kostur fyrir útgerðir og vetnið ekki heldur nema hægt yrði að halda því undir margfalt meiri þrýstingu heldur en nú er gert. sé ekki fyrir mér vetnisloftbelgi hangandi á eftir frystitogurum, sem innihalda allt eldsnetið. eða hleðslustöðvar í kringum kolbeinsey svo dæmi séu tekinn.

Fannar frá Rifi, 21.9.2009 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband