Hverjum... bjöllurnar glymja

Það er mikil kúnst að stjórna stóru fyrirtæki. Að bera ábyrgð á því að hámarka arð eigendanna, uppfylla margvíslegar þarfir viðskiptavina og starfsfólks og um leið lágmarka áhættu fyrirtækisins. Þeir sem eru flinkir að ná öllum þessum markmiðum, þiggja gjarnan há laun fyrir. Eðlilega. Í dag ætlar Orkubloggið að velta aðeins fyrir sér hvernig Orkuveitu Reykjavíkur hefur tekist til í þessu sambandi - og líta þar sérstaklega til áhættunnar.

ernest-hemmingway_for-whom-the-bell-tolls.jpg

Fyrst örstutt um sögu Orkuveitunnar, sem er orðin meira en aldarlöng. Fyrirtækið á rætur sínar að rekja til þess þegar Vatnsveita Reykjavíkur var stofnuð árið 1909 og vatni var beitt um bæinn frá Gvendarbrunnum. Svo kom Rafmagnsveita Reykjavíkur árið 1921, þegar Elliðaárstöð var reist, og árið 1930 tók Hitaveita Reykjavíkur að veita vatni í hús frá Laugardalnum.

Þá voru ennþá nokkur ár í að Hemingway héldi til Spánar og skrifaði upp úr því snilldarverkið Hverjum klukkan glymur. En svo lauk heimsstyrjöldinni síðari, Nýsköpunartogararnir færðu aflann að landi, Viðreisnin byggði álver, fjöldi sauðfjár náði hámarki (um 900 þúsund í lok 8. áratugarins), fiskveiðikvótakerfið var fest í sessi, íslenskir skuttogarar héldu í Smuguna, Viðeyjarviðreisnin var mynduð og bankarnir einka(vina)væddir. Orku- og veitufyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu vildu líka taka þátt í dýrðinni og byrjuðu að sameinast undir merkjum Orkuveitu Reykjavíkur. Loks var lagt af stað í draumaferðina í átt að Reykjavík Energy Invest. En svo... fór eins og fór.

Það var árið 1999 að OR varð til við sameiningu Rafmagnsveitunnar og Hitaveitu Reykjavíkur. Ári síðar (2000) rann Vatnsveita Reykjavíkur líka inn í OR. Síðan hafa ýmis önnur veitufyrirtæki í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur sameinast Orkuveitunni, svo sem hitaveiturnar í Þorlákshöfn, Hveragerði, Borgarfirði og á Bifröst. Loks gerist það árið 2004 að fráveiturnar á Reykjavíkursvæðinu, Akranesi og Borgarnesi urðu líka hluti af Orkuveitu Reykjavíkur. Og ekki er nema rétt rúmur mánuður síðan Orkuveitan eignaðist tvær síðastnefndu hitaveiturnar að fullu, þegar OR keypti 20% hlut ríkisins - og þar með réttinn til að nýta sjálfan Deildartunguhver næstu hálfa öldina.

or_stjorn_forstjori_2009.jpg

Þarna skapaði sveitarstjórnarfólkið sannkallað risafyrirtæki á fáeinum árum. Fyrirtæki sem getur með góðu móti sagst hafa meira en hundrað ára sögu að baki. En hversu mikinn æpandi auð hafa allar virkjanirnar og öll þessi starfsemi skapað íbúum Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna?

Síðasta uppgjör OR er frá septemberlokum á liðnu ári (2009). Samkvæmt því var eigið fé OR þá metið 36,5 milljarðar króna. Hafði rýrnað um u.þ.b. 25% á síðustu 9 mánuðunum; minnkað úr rúmum 48 milljörðum króna í árslok 2008. Sé litið til ársloka 2007 - þ.e. meðan allt lék í lyndi - þá var eigið fé OR í árslok heilir 89 milljarðar króna. Í dag er eigið fé Orkuveitunnar sem sagt einungis rétt rúmlega 1/3 af því sem var fyrir tveimur árum síðan. Meira en 50 milljarðar króna fuku útum gluggana á Bæjarhálsinum á fáeinum mánuðum; 2/3 af öllu eigin fé fyrirtækisins er horfið.

Það segir manni þó kannski enn meira um stöðu OR að skoða hlutfall eigin fjár. Hlutfall eigin fjár skv. síðasta uppgjöri var 13,6%. Til samanburðar má nefna að eiginfjárhlutfall danska Dong Energi er  yfir 30% og hjá norska Statkraft er þetta hlutfall um 50%. Þessi samanburður er Orkuveitunni óneitanlega óhagstæður, svo ekki sé fastar að orði kveðið. En þannig er auðvitað víða þegar ísland er borið saman við nágrannalöndin þessa dagana.

orkuveituhusid_964173.jpg

Það sorglega er að þessi rosalega virðisrýrnun Orkuveitu Reykjavíkur hefði ekki þurft að eiga sér stað. Bara ef skynsamleg áhættustjórnun hefði verið höfð í heiðri af hálfu fyrirtækisins. 

Um 90% skulda OR er í erlendum gjaldmiðlum - meðan einungis um 20% teknanna er í erlendri mynt. Þar af leiðandi hafði mikil gengislækkun krónunnar í kjölfar bankahrunsins mjög slæm áhrif á afkomu fyrirtækisins. Ástæða þess að svo hátt hlutfall skuldanna var í erlendum gjaldmiðlum, mun hafa verið sú að stjórninni þótti íslensku lánin dýr. Vextirnir á íslenskum þóttu alltof háir og þess vegna voru umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir fjármagnaðar með lánum í erlendum myntum.

Stjórnarmenn hafa væntanlega talið að þrátt fyrir áhættuna af skammtímasveiflum í gengi íslensku krónunnar, myndi OR ráða vel við slíkar sveiflur. Og að til lengri tíma litið væri mun hagstæðara að taka lán í erlendri mynt, heldur en í íslenskum krónum. M.ö.o. að gengisáhættan væri ekki meiri en svo, en að það væri um að gera að veðja á "ódýru" erlendu lánin. Hvort sú spásögn OR gengur eftir verður bara að koma í ljós, í fyllingu tímans.

Orkuveita Reykjavikur hefur í um hundrað ár nánast verið í einokunaraðstöðu á orku- og hitaveitumarkaði höfuðborgarinnar. Staða fyrirtækisins í dag getur varla talist vera i í takti við það sem búast mætti við. Skv. þessari frétt Morgunblaðsins, þá gæti tiltölulega lítil gengislækkun í viðbót riðið fyrirtækinu að fullu. Þar með myndi aldarsaga Orkuveitunnar enda í hroðalegri skuldasúpu með uppbrunnu eigin fé. Vonandi kemur ekki til þess.

isk_gvt_12-2-2009_12-2-2010.png

Umrædda frétt Morgunblaðsins má reyndar túlka svo að ef gengisvísitalan rjúfi 240 stiga múrinn verði saga núverandi OR öll. Nú er gengisvístalan í um 231 stigum. Krónan þyrfti sem sagt einungis að lækka um u.þ.b. 4% til að gengisvísitalan fari yfir 240 stig og felli Orkuveituna. Svitni, svitn.

Við getum líka rifjað upp aðra nýlega frétt um Orkuveitu Reykjavíkur: "Búist er við að slæm staða Orkuveitunnar birtist í orkuverði". Þannig hljóðaði fyrirsögn í Morgunblaðinu 7.desember s.l. (2009) og er þar vitnað til greiningardeildar Arion-banka um erfiða fjárhagsstöðu Orkuveitunnar. Sambærilega frétt mátti sjá á vefnum Visir.is þennan sama dag og þar sagði m.a.: "Þessi staða hlýtur að sníða OR mjög þröngan stakk á næstu misserum nema nýtt eigið fé verði sett inn í fyrirtækið eða krónan styrkist verulega. Hvorugt virðist mjög líklegt til skamms og meðallangs tíma. Að því gefnu þarfnast það skýringa við hvernig félagið geti eitt og óstutt komið metnaðarfullum áætlunum um nýfjárfestingar og áframhaldandi vöxt í framkvæmd með aukinni skuldsetningu."

En hvað veldur því að eftir margra áratuga rekstur, nánast við einokunaraðstöðu á raforku- og hitaveitumarkaði Reykvíkinga, skuli OR vera svona illa stödd?

gudlaugur_sverrisson.jpgAugljósasta skýringin á þessari erfiðu stöðu OR er snögg gengislækkun krónunnar. Í því sambandi má hafa í huga að Orkuveitan mun lítið hafa sinnt gengisvörnum - og heldur ekki hafa gripið til varna gegn mögulegum lækkunum á álverði (umtalsverður hluti tekna OR er tengdur álverði, vegna raforkusölunnar til Norðuráls - en sjálf telur Orkuveitan að innbyggð gengisvörn sé í álverðinu vegna þess að lækkandi álverð leiði almennt til lækkandi vaxta). Stóra spurningin er kannski sú, af hverju Orkuveitan sýndi ekki meira aðgætni (minni áhættu) í fjárfestinga- og fjármögnunarstefnu sinni? Sérstaklega gagnvart erlendu lánunum.

 "Það voru auðvitað viðvörunarbjöllur klingjandi alls staðar, ef þannig má að orði komast. Þetta var hins vegar bjölluhljómur sem enginn fór eftir." Þetta athyglisverða sjónarmið - að hlusta ekki á viðvörunarbjöllur - er haft eftir núverandi stjórnarformanni OR í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið. Þarna er stjórnarformaðurinn m.a. að vísa til þess þegar stjórn Orkuveitunnar ákvað sumarið 2008 að panta nýjar túrbínur fyrir litla 15 milljarða ISK.

risk_definition.jpg

Þetta gerðist vel að merkja hið æsilega sumar 2008. Sumarið þegar Orkubloggarinn var að dunda sér með "græna fingur" útí garði á fallegum júnídegi - og fékk þá að heyra það frá einum kunningja sínum sem sótti Orkubloggarann heim í garðinn - að um alla borg væru menn kófsveittir á fundum við að reyna að koma í veg fyrir að Glitnir yrði gjaldþrota. Og að líkurnar á gjaldþroti bankans væru satt að segja meiri en minni. Staðan væri mjög alvarleg.

Skömmu síðar fékk Orkubloggarinn líka að heyra að þá þegar hefðu þeir Húsasmiðjufélagarnir Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson rölt niður í Glitni og tekið þaðan allt sitt fé. Og bent stjórnendunum á að þeir væru með gjaldþrota banka í höndunum. Hvort þetta er sönn frásögn, veit bloggarinn ekki. En þeir Hallbjörn og Árni eru bráðgreindir strákar og því eins víst að þetta sé dagsatt.

Já - þetta var mikið stuðsumar. Á sama tíma og óróinn í kringum Glitni varð sífellt meira áberandi skrifuðu forráðamenn Orkuveitu Reykjavíkur bæði undir stærsta borunarsamning í sögu fyrirtækisins OG líka stærsta fjárfestingasamning sem OR hafði nokkru sinni gert. Þessi fjárfestingasamningur átti reyndar eftir að reynast all nokkuð dýrari en menn upphaflega ráðgerðu, sbr. þessi frétt RÚV frá því snemma í október á liðnu ári (2009) um háa bótagreiðslu af hálfu Orkuveitunnar, sem þurfti að biðja um seinkun á afhendingu túrbínanna.

Af einhverjum ástæðum virðist stjórn Orkuveitunnar ekki hafa talið neina ástæðu til að doka við, þetta sérkennilega sólríka svikasumar 2008. Stjórnin var bersýnilega ekki jafn meðvituð um kolsvarta stöðu í íslenska fjármálaheiminum, eins og garðgestir Orkubloggarans. Það gengur svona. Eða var stjórn OR kannski einfaldlega barrasta gjörsamlega búin að tapa sansinum fyrir áhættu?

tarantula_pair.jpg

Sumum kann að þykja sem Orkubloggarinn sé hér að setja sig á háan hest. Auðvitað sá hvorki Orkubloggarinn né aðrir það fyrir, að algert banka- og efnahagshrun væri yfirvofandi. En bæði bloggarinn og ýmsir fleiri töldu engu að síður að íslenska bankakerfið væri á hálum ís í ofboðslegri áhættufíkn sinni og gagnkvæmum eigna- og skuldatengslum. Tengsl sem helst minntu áhjónaband Tarantúlunnar þar sem hver kóngulóin étur aðra eftir örstutt unaðskynni.

Þess vegna var t.d. Orkubloggarinn löngu búinn að losa sig við öll sín íslensku hlutabréf. Og hefði betur ráðlagt öllum vinum og kunningjum að gera hið sama. Bloggarinn gat þó auðvitað ekki verið viss í sinni sök - hafði ekki kristallskúlu fremur en aðrir - og þurfti að láta sér nægja að meta sjálfur áhættuna og taka afleiðingunum af gjörðum sínum. Rétt eins og stjórnendur OR hljóta að taka ábyrgð á sínum ákvörðunum.

eric-clapton.jpgÁstæður þess að OR sá hvorki ástæðu til að verja sig gegn gjaldeyrissveiflum né sveiflum í álverði eru ekki augljósar. En að sögn stjórnarformanns Orkuveitunnar, þá kom þetta til vegna þess að stjórnendur OR ákváðu að fara að ráðgjöf fjármálafyrirtækisins Askar Capital - ráðgjöf þess efnis að gengisvarnir væru óþarfar. Þetta kom fram í samtali Orkubloggarans við stjórnarformann OR, þegar sá síðar nefndi hringdi nýverið í bloggarann og skammaði hann fyrir að halda því fram að stjórnarformaðurinn hefði farið á hljómleika með Eric Clapton!

Rétt skal vera rétt. Því vill bloggarinn hér með biðja stjórnarformanninn innilega afsökunar á því að hafa gefið í skyn í eldri færslu á Orkublogginu, að stjórnarformaðurinn hafi farið á Clapton-tónleika í boði OR. Núverandi stjórnarformaður OR hefur sem sagt aldrei farið á tónleika með Eric Clapton - og ennþá síður í boði OR. Og það má líka minna á að viðkomandi stjórnarformaður - Guðlaugur Sverrisson - tók ekki sæti í stjórn OR fyrr en seint í ágúst örlagaárið 2008. Hann átti því nákvæmlega engan þátt í ákvörðun OR um kaup á nýjum túrbínum í fyrirhugaða Hverahlíðarvirkjun. Aftur á móti var áðurnefndur risasamningur við Jarðboranir gerður í september 2008, þ.a. Guðlaugur kom að honum. Enda óttaðist hann ekki viðvörunarbjöllurnar í þjóðfélaginu, eins og nefnt var hér fyrr í færslunni.

Reyndar þykir Orkubloggaranum að stjórnendur hjá opinberum fyrirtækjum í almannaeigu, eins og OR, verði að hafa svolítið þykkan skráp og eiga að geta þolað gagnrýna umfjöllun. Umfjöllun sem jafnvel kann á stundum að vera ósanngjörn. Í alvöru talað. En það er önnur saga.

askar_tryggvi.jpg

Sem fyrr segir kom gengislækkun krónunnar afar illa við Orkuveituna, en fyrirtækið hafði ekki gripið til neinna gengisvarna vegna ráðgjafar Askar Capital. Það fullyrti a.m.k. stjórnarformaður OR í áðurnefndu samtali við Orkubloggarann og við hljótum að treysta að þar segi hann satt og rétt frá.

Þetta er kannski ekki eina ástæðan fyrir erfiðri stöðu OR. Aðrir hafa bent á mikla uppbyggingu í veitukerfi OR vegna ofurbjartsýnna áætlana Reykjavíkurborgar um ný íbúðahverfi upp um fjöll og firnindi. Og svolítið sérkennilegra fjárfestinga OR í rækjueldi og sumarbústaðabyggðum. En stóra vandamálið núna er augljóslega fyrst og fremst tilkomið sökum þess að með lántökustefnu Orkuveitunnar var veðjað villt og galið á styrkingu íslensku krónunnar. Valið að 90% skulda OR yrði í erlendum gjaldmiðlum, meðan einungis um 20% af tekjum fyrirtækisins eru í erlendri mynt. Þetta kallar Orkuveitan sjálf reyndar "góða áhættudreifingu", sbr. þetta ágæta skjal. Jamm.

or_hofudstodvar_myrkur.jpg

Það er barrrasta eins og Orkuveitan átti sig ekki á því að þessi fjármögnunarstefna fyrirtækisins skapar gríðarlega gengisáhættu. Áhættan af miklum og djúpum skammtímasveiflum íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum - sveiflum sem mjög erfitt getur verið að yfirstíga - ætti að blasa við öllum þeim sem horfast í augu við raunveruleikann og taka eðlilegt tillit til áhættu. Það er kannski skiljanlegt að almenningur sem tók slík lán hafi ekki áttað sig á þessari áhættu. En það hlýtur að vera eðlilegt að gera ríkari kröfur um víðtækan fjármálaskilning, til þeirra sem taka að sér stjórnunarhlutverk í svo stóru og umsvifamiklu fyrirtæki.

Hvað um það. Það fór sem sagt svo að sumarið 2008 ákvað stjórn Orkuveitunnar að ráðast í einhverjar mestu framkvæmdir í sinni sögu. Stuttu síðar rættist því miður það sem Orkubloggaranum var sagt yfir garðverkunum síðla í júní 2008: Glitnir fór á hausinn og allt heila klabbið með. Krónan hrundi, skuldir Orkuveitunnar ruku upp og eigið fé fyrirtækisins þurrkaðist að verulegu leyti út. Þar að auki þurfti svo Orkuveitan að borga glás fyrir að fá afhendingu á túrbínunum seinkað; gott ef það var ekki nálægt heilum milljarði króna sem þar fóru fyrir lítið.

or_ebitda.jpg

Orkuveitan ber sig þó vel, sbr. þessi yfirlýsing fyrirtækisins um "Nokkrar staðreyndir um fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur". Þar segir m.a. að Orkuveitan eigi mun meiri eignir en kemur fram í efnahagsreikningi fyrirtækisins, sökum þess t.d. að umtalsverður hluti allra hitaveituborholanna hafi þegar verið afskrifaður í reikningum Orkuveitunnar. Þá sé m.a. verðmæti vörumerkis OR ekki tekið inn í efnahagsreikninginn (sic) og að auki ýmsar lóðir og lendur. Skv. þessu sé sem sagt eigið fé fyrirtækisins umtalsvert meira en tölurnar segja til um.

Í umræddri yfirlýsingu segir einnig að tekjur fyrirtækisins standi undir greiðslu vaxta og afborgana allra langtímaskulda, jafnvel "þó gengi íslensku krónunnar falli niður í 260 stig", þ.e.a.s. þó svo gengisvísitalan fari í 260. Sem fyrr segir, þá stendur hún núna í rúmlega 230 stigum. Samkvæmt þessu er OR með u.þ.b. 11,3 prósenta-borð-fyrir-báru nú um stundir, ef svo má að orði komast. En hvað gerist ef krónan lækkar um þessi rúmu 11%? Þá myndi Orkuveitan væntanlega lenda í greiðslufalli.

Orkuveitan stendur frammi fyrir því að hafa tapað gríðarlega miklum fjármunum á stuttum tíma, vegna fjárfestinga- og fjármögnunarstefnu fyrirtækisins. Þetta er einfaldlega staðreynd - þó svo fyrirtækið kunni að ráða við afborganir af lánum sínum meðan aðstæðurnar versna ekki enn frekar. En jafnvel þó svo gengisvísitalan færi í 240, 250, 260 eða þaðan af verra, mun OR auðvitað ekki fara í þrot. Áður en til þess kæmi myndi Reykjavíkurborg væntanlega geta bjargað málunum. Með fjármagnsinnspýtingu - á kostnað skattgreiðenda. Eða að Orkuveitan reddi sér sjálf, með hækkunum á orkuverði til almennings og innlendra fyrirtækja.

Orkuveitan hefur ýmsar leiðir til að rétta úr kútunum - en það verða væntanlega skattgreiðendur sem munu borga brúsann. Svo munu pólitíkusarnir rífast eitthvað um þetta í næstu borgarstjórnarkosningum og meira eða minna sama fólkið verða kosið þar til valda á ný. Dásamlegt. Í reynd er Orkuveitan þannig séð í fínum málum! Enda hafa borgaryfirvöld ekki séð neina ástæðu til að hræra í stjórn fyrirtækisins.

or-husid.jpg

En þetta þarf vissulega ekki að fara svona illa. Kannski fer Orkuveitan brátt að hjarna við og smám saman á ný að byggja upp hina glötuðu eiginfjárstöðu og vinna upp tapað fé borgarbúa. Um skeið hefur það hangið yfir fyrirtækinu að hafa sumarið 2008 pantað nýjar túrbínur í Hverahlíðarvirkjun - án þess að hafa haft kaupanda að orkunni. Eftir bankahrunið haustið 2008 ákvað OR að fá afhendingu á þessum túrbínum frestað og mátti punga talsvert hressilega út fyrir það. Ennþá meiri refsigjöld myndu fylgja því að afpanta túrbínurnar. Þess vegna hefur Orkuveitan væntanlega eytt síðustu misserunum í það að leita logandi ljósi að kaupenda a orkunni. Og líklega ekki beint verið í neinni súper-samningsstöðu um að fá sérstaklega gott verð fyrir raforkuna frá Hverahlíðinni.

Kannski er kaupandinn nú fundinn. Kannski - kannski ekki. Fyrir stuttu birtist a.m.k. frétt um að orkan frá Hverahlíðarvirkjun eigi að fara til sólarselluverksmiðju, sem muni rísa í nágrenni Þorlákshafnar. Þarna er að vísu ekki um bindandi samning að ræða. Ennþá er allsendis óvíst að þessi versmiðja Eyþórs Arnalds og félaga muni verða að veruleika. En þetta eru engu að síður góðar fréttir - í þeirri mjög svo þröngu stöðu sem Orkuveitan er. Auðvitað að því gefnu að orkuverðið sé nógu hátt til að skila viðunandi arðsemi af þessum fjárfestingum Orkuveitunnar.

hordur-arnarson-1.jpgEkki vitum við hvað OR hefur hugsað sér að fá fyrir raforkuna frá Hverahlíðarvirkjun. Þetta síðast nefnda leiðir hugann að fréttum um nýja stefnu Landsvirkjunar. Þar virðast heldur betur blása ferskir vindar þessa dagana. Nýr forstjóri LV mun nú hafa tilkynnt að Landsvirkjun birti senn upplýsingar um það hvaða verð einstakar atvinnugreinar á Íslandi borga fyrirtækinu fyrir raforkuna. Það var löngu tímabært. Auðvitað eiga íslensku orkufyrirtækin að hætta þessum feluleik með orkuverðið til stóriðjunnar.

Það verður fróðlegt að bera langþráðar tölurnar frá Landsvirkjun saman við hvað t.d. stór iðnfyrirtæki borga fyrir raforkuna í öðrum vestrænum löndum. Því miður er hætt við því að þá bregði þjóðinni nokkuð í brún. Og muni þá sjá svart á hvítu að raforkusalan til stóriðjunnar á Íslandi hefur lítið sem ekkert með alvöru bissniss að gera. Nema auðvitað fyrir stóriðjuna, sem hér greiðir kannski svona 1/3 af því verði sem sambærileg fyrrtæki greiða í nágrannalöndum okkar sitt hvoru megin Atlantshafsins.

Vandamál íslensku orkufyrirtækjanna er skortur á samkeppni um orkuna. Meðan slík samkeppni er ekki fyrir hendi, þ.e.a.s. lítil eftirspurn, er ekki raunhæft að almennilegt verð fáist raforkuframleiðslu sem er langt umfram raforkuþörf þjóðarinnar sjálfrar í sínum daglegu störfum. Hvert einasta stóriðjufyrirtæki hefur að sjálfsögðu notfært sér þennan veikleika íslensku orkufyrirtækjanna; veikleikann sem felst í því hversu fáir kaupendur eru að orku frá nýjum virkjunum. Þess vegna hafa stóriðjufyrirtækin verið að fá orkuna á verði, sem annars staðar á Vesturlöndum myndi annað hvort kallast spottprís eða gjafverð.

Orkubloggaranum þykir líklegt að með nýjum forstjóra Landsvirkjunar muni stefna þess ágæta fyrirtækis breytast talsvert. Að þar verði sett í forgang vinna með það að markmiði að auka eftirspurn eftir íslenskri raforku - stöðugri og endurnýjanlegri orku sem byggir á þekktri og löngu fullreyndri tækni.

hvdc_converter_siemens.jpg

Þar kemur ýmislegt til skoðunar. T.d. markvisst kynningarstarf sem ekki byggist á gömlu subbutuggunni um "lowest energy prices", heldur t.d. "green baseload electricity produced with known tecnology, focusing on ambitious environmental responsibility". Og svo auðvitað að dusta rykið af hugmyndum um rafstreng til Evrópu. Þar hafa orðið ofboðslegar framfarir í jafnstraumstækninni á allra síðustu árum. S.k. Ultra High Voltage Direct Current strengir eru einhver hljóðlátasta en um leið heitasta tæknibyltingin í orkugeiranum það sem af er þessari öld. Og skapar frábæra möguleika fyrir Evrópu til að minnka þörf sína fyrir rússnesk gas og þess í stað bæði stórauka eigin framleiðslu á grænni raforku - og kaupa orku frá svæðum sem til þess hafa þótt of fjarlæg. T.d. orku frá Íslandi!

UHVDC er svo sannarlega einhver mesta ógnin sem nú steðjar að "íslensku" álverunum. Nema þau taki upp á því að vilja borga alvöru verð fyrir íslensku raforkuna. Til að ná slíku fram er kannski ekki nóg að Landsvirkjun ein breyti um stefnu. Orkuveita Reykjavíkur þarf einnig að vera með í því að gera íslenska raforku að almennilega arðsamri framleiðsluvöru.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Manni grunar að arðsemismat á verkefnum hljóti að vera annsi léleg fyrst menn taki lán í annari mynt en þénað er í. Vegna mögulegs gengishagnaðar. Orkuveita Reykjavíkur er er reyndar sér kapituli eins og þú bendir svo réttilega á í þessari fínu yfirferð.

Landsvirkjun sem er með 75% af tekjum í dollurum tók samt svipaða áhættu þegar Kárahnjúkavirkjun var fjármögnuð. Maður spyr sig afhverju að taka sjensinn. Þeir tóku lán í Svissneskum frönkum og japönskum yenum. Ég veit ekki hver taldi að Dollarinn myndi styrkjast gagnvart þessum gjaldmiðlum. Svo ekki sé minst á örrygispúðan sem fylgir gengissveiflum Dollarans, álverð hækkar og lækkar í öfugu hlutfalli við Dollarann. Það þarf ekki að taka það fram að dollarinn veiktist um 20-40% gagnvart þessum tveimur gjaldmiðlum.Maður hristir bara höfuðið.

Andrés Kristjánsson, 1.3.2010 kl. 04:56

2 identicon

Magnað að sjá þig geta tekið út og greint á  2-3 síðum það sem heilu hæðirnar af sérfræðingum í þessu musteri OR uppá hálsi eru ekki færir um.

En kannski eru útreikningar opinberra fyrirtækja yfirleitt með einni óþekktri stærð ( pólitík) því geta menn ekki fengið raunverulegar niðurstöður eins og þú ;) og því ófærir um reikning.

Frábær síða hjá þér :)

Magnus Jonsson (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 07:34

3 identicon

Fín samantekt.

Væri gott að hafa svona samantektir um fleiri fyrirtæki og stofnanir hins opinbera.  Maður hefur óneitanlega á tilfinningunni að þetta sé hálfgerður sandkassaleikur bitlingakónga sem viti lítið sem ekkert hvað þeir eru að gera.

Góð síða hjá þér

Kristján Þór Finnsson (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 09:20

4 Smámynd: Ari Matthíasson

Þú lýsir eftir ábyrgð á slæmri stöðu OR. Við erum þá væntanlega að tala um stjórn, forstjóra og  framkvæmdastjóra fjármála? Ef litið er á þann hóp þá er auðvitað ljóst að þar er enginn sem hefur sérþekkingu á fjármálum og áhættustýringu: Forstjórinn er lögfræðingur, formaður stjórnar er vélstjóri sem hefur tekið námskeið í rekstri hjá Endurmenntun og framkvæmdastjóri fjármála er meinatæknir og viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði. There you have it! Það kann svo auðvitað ekki góðri lukku að stýra þegar leita þarf sérfæðiráðgjafar að fara til Aska Capital!

Ég er sammála niðurstöðu þinni um að enginn muni axla ábyrgð í þessu. Menn munu skjóta sér á bak við að enginn hafi getað séð fyrir hið mikla fall krónunnar og fall bankanna og bla, bla. Málið er auðvitað, eins og þú bendir í rauninni á, að starf þeirra sem reka fyrirtæki er að verja þau fyrir áhættunni. Fyrir það fá menn laun og ef þeir klikka eiga þeir að fara frá.

Ari Matthíasson, 1.3.2010 kl. 09:56

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég ætla ekki að benda með fingri á tiltekna einstaklinga. Bæði stjórnarformaðurinn og forstjórinn tóku tiltöluega nýlega við sínum stöðum og sennilega hæpið að kenna þeim um ófarirnar. Held að þetta sé fremur sögulegur stofnanavandi hjá fyrirtækinu. En stjórnin var bersýnlega slegin algerri góðærisblindu - þessar ákvarðanir 2008 voru í fullkomnu ósamræmi við óveðursskýin sem þá hrönnuðust upp. Og afar sérkennilegt ef t.d. stjórn og stjórnendur OR höfðu ekkert veður af t.d. vandræðunum í bankakerfinu.

Ketill Sigurjónsson, 1.3.2010 kl. 10:03

6 Smámynd: Ari Matthíasson

Sögulegur stofnanavandi!

Ari Matthíasson, 1.3.2010 kl. 11:04

7 identicon

Það má þó ekki alveg gleyma því að stór hluti skuldanna er vegna nýrra fjárfestinga sem munu skila hlutfallslega meiri erlendum tekjum heldur en allar tekjur OR, enda er gamla hitaveitan, rafveitan og vatnsveitan sem sinnir eldri hverfum höfuðborgarsvæðisins búin að greiða upp mestar sínar skuldir en mala gull í ISK (sérstaklega hitaveitan). Það er ekki endilega óskynsamlegt að skuldsetja sig í erlendri mynt gagnvart verkefni sem mun skila tekjum í erlendri mynt þó svo að þær séu eingöngu lítill hluti í tekjusafni fyrirtækisins alls.

Haukur (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 10:42

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Haukur segir m.a.: "Það er ekki endilega óskynsamlegt að skuldsetja sig í erlendri mynt gagnvart verkefni sem mun skila tekjum í erlendri mynt".

Þessu er ég út af fyrir sig sammála. Og ef gott jafnvægi er á milli afborgana af erlendum lánum og erlendra tekna, ætti Orkuveitan ekki að vera í vandræðum með að þola álagið. Og ætti líka að geta þolað meiri gengislækkun.

En það hefur ítrekað komið fram að OR muni að öllum líkindum lenda í greiðslufalli ef gjaldeyrisvísitalan fer í ca. 240-260 stig. Þetta segir okkur að það er ekki jafnvægi þarna á milli; augljóst að OR hefur fjármagnað fleira en bara orkuframkvæmdir til handa stóriðjunni með erlendum lánum.

Þar að auki hefur OR verið að fjármagna virkjanaframkvæmdir án þess að hafa kaupanda af orkunni. Ég bara átta mig alls ekki á því af hverju OR er að taka slíka áhættu. Kannski lítur OR svo á að þetta sé mikilvægur þáttur í atvinnusköpun. Ég sé ekki rökin fyrir því að OR þurfi að vera taka svona mikla áhættu til að skapa einhver örfá störf. Þar að auki er hætt við að þessi strategía veiki samningsstöðu OR þegar kemur að því að semja um verð á orkunni.

Ketill Sigurjónsson, 2.3.2010 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband