Wanda!

wanda_jablonski_6.jpg

Það er löngu tímabært að kynna hana Wöndu stuttlega fyrir olíuþyrstum lesendum Orkubloggsins. Ekki bara af því hér er allt of sjaldan minnst á konur - heldur líka af þeirri einföldu ástæðu að Wanda var í áratugi einhver áhrifamesti fjölmiðlamaður heims á sviði olíunnar.

Já - Wanda Jablonski (f. 1920) var heimsþekkt í olíuiðnaðinum í áratugi og þá alltaf bara kölluð Wanda. Hún naut virðingar bæði bandarískra olíuforstjóra og arabískra einræðisherra og og hefur meira að segja verið kölluð guðmóðir OPEC

wanda-with-dad_2.jpg

Wanda ólst upp með ljúfa olíuangan í nösum og átti ekki langt að sækja áhuga sinn á olíunni. Pabbi hennar vann hjá olíufélögum hingað og þangað um heiminn og fjölskyldan var ávallt höfð með í för. Þannig má segja að Wanda hafi fengið olíuna beint í æð strax í barnæsku.

Hið raunverulega olíuævintýri Wöndu byrjaði þó fyrst af alvöru árið 1945, þegar hún - 25 ára gömul stelpan - vann ýmis íhlaupastörf hjá viðskiptatímariti í New York; New York Journal of Commerce. Einn blaðamaðurinn veiktist, Wanda hljóp í skarðið og flýtti sér á blaðamannafund, þar sem stjórnarerindreki frá Venesúela var að kynna olíustefnu stjórnvalda.

iran-1924_oil_well_drilling.jpg

Olíuvinnsla hafði þá verið stunduð í Venesúela í um aldarfjórðung og Venesúela var þá hvorki meira né minna en næst stærsti olíuframleiðandinn. Bara Bandaríkin voru stærri. Allt frá upphafi olíuvinnslunnar í Venesúela höfðu bandarísk olíufyrirtæki ráðið þar lögum og lofum, skv. ljúfu einkaleyfis-samkomulagi við einræðisherrann Juan Vicente Gómez. Sá háttur tíðkaðist raunar á nánast öllum olíuvinnslusvæðum veraldar, hvort sem var í Suður-Ameríku, Íran, Írak eða Arabíu.

Vegna þrýstings frá nýjum en lýðræðissinnaðri einvaldi; Isaías Medina Angarita sem varð forseti Venesúela árið 1941, féllust bandarísku olíufélögin á að taka samningana upp og 1943 var samið á þann veg að Venesúela myndi njóta 50% af hagnaðinum af olíuvinnslunni. Í reynd rann þó lítið af fénu til þjóðarinnar - spillt stjórnvöld sátu á peningunum og það var eflaust ein helsta ástæða þess að sósíalísk bylting varð í landinu árið 1945.

Þetta var vel að merkja á þeim tímum þegar bandarísk og bresk olíufyrirtæki stjórnuðu nánast öllum olíuiðnaði heimsins.  Með dyggri aðstoð breskra og bandarískra stjórnvalda réðu olíurisarnir BP, Shell og afkomendur Standard Oil einfaldlega einu og öllu, bæði í vinnslunni og á olíumörkuðunum. En það voru engu að síður blikur á lofti, vegna þess að stjórnvöld í sumum olíuríkjanna voru í fyrsta sinn farin að velta því fyrir sér í fullri alvöru hvort ekki væri tímabært að eitthvað af olíugróðanum kæmi í þeirra hlut 

Og við erum einmitt stödd á þeim tíma að bandaríski olíuiðnaðurinn stendur skyndilega í fyrsta sinn frammi fyrir lítt vinsamlegum stjórnvöldum í Venesúela, undir forystu nýs forseta að nafni Rómulo Ernesto Betancourt Bello. Við skulum taka sérstaklega eftir einum ráðherranum í stjórn nýja forsetans, en ráðherrann sá heitir Juan Pablo Perez Alfonso. Sá var kallaður þróunarmálaráðherra ríkisstjórnarinnar - og nokkrum árum síðar átti hann eftir að verða orkumálaráðherra Venesúela og lykilmaður í stofnun nýrra samtaka; OPEC!

nyc_1945_the-kiss.jpg

Munum að á þessum tíma er Venesúela mikilvægasta olíuríkið utan Bandaríkjanna. En fáir gera sér grein fyrir því að þróunin þar sé líkleg til að hafa afgerandi áhrif á olíumarkað veraldarinnar. Hugur almennings er auðvitað meira bundinn við það að síðari heimsstyrjöldinni er nýlokið og bjart framundan í Bandaríkjunum. Sennilega hafa bandarísk stjórnvöld enn ekki miklar áhyggjur af því að Vesturlönd þurfi í framtíðinni hugsanlega að vera uppá aðra komin með olíu. Roosevelt forseti hafði t.a.m. notað tækifærið í ferðinni á Teheran-fundinn 1943, að tryggja samning við stjórnvöld í Persíu um einkarétt bandarísku og bresku olíufélaganna að olíulindunum í Íran. Ekkert virtist geta ógnað einokunarstöðu olíufélaga Vesturlanda. 

En gleymum okkur ekki í útúrdúrum. Árið er 1945 og við erum stödd á blaðamannafundi stjórnarerindreka Venesúela í New York, þar sem mætt er ung kona frá New York Journal of Commerce í forföllum eins blaðamannsins. Hinn nýlegi 50/50-samningurinn milli Venesúela og bandarísku olíufélaganna frá 1943 er í uppnámi og menn velta fyrir sér hvaða stefnu nýja sósíalista-stjórnin í Venesúela muni taka gagnvart olíuiðnaði landsins.

Á umræddum blaðamannafundi kom fátt nýtt fram. En eftir fundinn króaði Wanda hinn grunlausa Venesúelamann af og spurði hann spjörunum úr. Líklega var sá hinn sami óvanur að fá jafn skeleggar spurningar frá ungri konu. A.m.k. missti hann það út úr sér, að stjórnvöld í Venesúela væru að undirbúa þjóðnýtingu á öllum olíuiðnaðinum í landinu. Og lýsti því einnig yfir að eina vitið væri að ríkin með mestu olíubirgðir í jörðu myndu vinna saman og ná þannig betri stjórn á framboði og olíuverði.

Þó svo pólitískur vilji væri að myndast fyrir því að Vesturlönd myndu brátt hætta nýlendustefnu sinni, var enginn áhugi fyrir því að láta af hendi yfirráðin yfir olíuauðlindum. Þar af leiðandi var yfirlýsing stjórnarerindrekans stórfrétt fyrir olíuiðnaðinn.

Wanda hljóp á skrifstofuna og skrifaði frétt út frá viðtalinu og framreiddi þetta þannig að öllum varð ljóst að olíuiðnaður heimsins stæði að öllum líkindum frammi fyrir miklum breytingum. Þar með var ný fjölmiðlastjarna fædd - stjarna sem næstu áratugina átti eftir að vera einhver áhrifamesti fjölmiðlamaður veraldar á sviði orkumála. Wanda Jablonski!

venezuela_juan_pablo_perez_alfonzo_1979_956090.jpg

Örfáum árum síðar vakti viðtal Wöndu við olíumálaráðherra Venesúela, áður nefndan Juan Pablo Perez Alfonso, ekki minni athygli. Á þessum tímum var afar óvenjulegt að menn byðu vestrænu olíufélögunum byrginn, eins og ráðamenn í Venesúela nú gerðu. Og enn síður að um það væri fjallað í bandarískum eða evrópskum fjölmiðlum.

Sumir segja að mikilvægustu áhrifin af skrifum Wöndu Jablonski hafi verið að með þeim hafi hún rofið einangrun olíuríkjanna utan Vesturlanda og opnað augu gamalla nýlenduþjóða fyrir því að þær stæðu ekki einar í baráttu sinni gagnvart erlendum vestrænum olíufélögum. Menn fóru að hringja í hvern annan, ræða saman, hittast og ráða ráðum sínum. Því allir lásu þeir það sem viðskiptatímaritin skrifuðu um olíuna. Og þar kvað nú skyndilega við nýjan tón í greinum Wöndu Jablonski.

wanda_jablonski_11.jpg

Wanda var fljótlega gerð að ritstjóra á New York Journal of Commerce og 1954 flutti hún sig yfir á Petroleum Week. Innsæi hennar, skarpskyggni og ríkir hæfileikar til að eiga samskipti við fólk gerðu hana víðfræga í olíugeiranum. Það var einmitt hún sem kynnti áðurnefndan Perez Alfonso fyrir Abdúlla nokkrum Tariki, sem síðar átti eftir að verða olíumálaráðherra Saudi Arabíu. Þessir tveir menn áttu mestan þátt í stofnun OPEC árið 1960. Þó svo þeir hefðu eflaust hist án tilverknaðar Wöndu Jablonski, álíta margir að lykilatriðið í því að OPEC var stofnað svo snemma, sé að Wanda flutti ítarlegar fréttir af hugmyndum þeirra Tariki og Alfonso um samráð stóru olíuþjóðanna utan Vesturlanda. Og það hafi einmitt verið sú umfjöllun, sem hafi tryggt þeim fylgi annarra stjórnmálaleiðtoga í Mið-Austurlöndum. Án umfjöllunar Wöndu hefðu menn ekki tekið mark á þessum lítt þekkti mönnum og OPEC ekki orðið til fyrr en löngu seinna. Fyrir vikið var farið að nefna Wöndu Jablonski ljósmóður OPEC.

Aðrir stofnendur OPEC árið 1960 (þ.e. auk Venesúela og Saudi Arabíu) voru risaolíuríkin Íran, Írak og Kuwait, en öll þessi ríki höfðu lengi verið undir járnhæl Breta - og BP haft þar tögl og haldir. Stofnun OPEC sagði Vesturlöndum að erfitt gæti orðið fyrir bresku og bandarísku olíufélögin að halda yfirburðarstöðu sinni í olíuiðnaðinum. Það olli eðlilega nokkrum óróa á stjórnarfundum, enda réðu örfá olíufélög nánast algerlega framleiðslu og framboði - og þar með olíuverðinu! Það var sem sagt ekki frjáls verðmyndun á olíu og BP og afkvæmi Standard Oil höfðu enn óheftan aðgang að mestu olíulindum heims í ríkjum eins og Kuwait og Saudi Arabíu og í N-Afríku.

wanda_iran_1960_2.png

Fljótlega komu fleiri mikilvæg olíuríki inní OPEC, eins og t.d. Katar, Sameinuðu Arabísku furstadæmin (UAE), Indónesía, Líbýa og Alsír. Áhrif OPEC fóru vaxandi og þrýstingur jókst á að OPEC-ríkin nyti hærra hlutfalls af olíuhagnaðinum. En sökum þess að vestrænu olíufélögin réðu yfir öllum helstu olíulindunum innan OPEC-ríkjanna gátu ríkin lítil áhrif haft á olíuframboðið og enn höfðu Vesturlönd og vestrænu olíufélögin kverkatak á olíuiðnaði heimsins. En snemma á 8. áratugnum urðu mikil straumhvörf. Þá ákvað nýr  olíumálaráðherra Sádanna, Ahmed Zaki Yamani, að OPEC skyldi beita sér fyrir því að takmarka framboð til að hækka olíuverð umtalsvert.

Samhliða var olíuframleiðsla innan Bandaríkjanna að komast í hámark og þegar Yom Kippur stríðið skall á 1973 ofbauð Arabaríkjunum það sem þau kölluðu yfirgang Ísraela og stuðning Vesturlanda við Ísrael. Þar sem þau réðu ekki sjálf yfir olíulindum innan landamæra sinna, ákváðu þau að takmarka olíuframboð með hafnbanni. Skyndilega rann upp fyrir Vesturlöndum að olían væri talmörkuð auðlind og ekki hægt að treysta því að fá alltaf nóg af olíu til að knýja efnahagskerfið. Yamani og öðrum ráðamönnum OPEC-ríkjanna hafði æi einu vetfangi tekist að breyta olíumarkaðnum til allrar framtíðar.

piw_logo_956753.gif

En höldum aftur til upphafs sjöunda áratugarins. Árið 1961 stofnaði Wanda Jablonski sitt eigið tímarit um olíumál; Petroleum Intelligence Weekly (PIW). Næsta aldarfjórðunginn var það af flestum álitið besta tímaritið um olíuiðnaðinn og varla til sá maður í bransanum sem ekki saug í sig hvert einasta tölublað af Petroleum Weekly, sem kom á vikufresti á hverjum einasta mánudegi. Ástæðan fyrir vinsældum PIW var ekki síst að menn töldu Wöndu bæði ritstýra tímaritinu af hreinskilni  og hafa betri aðgang að áhrifamestu mönnum olíuiðnaðarins um veröld víða en nokkur annar fjölmiðlamaður. Fyrir vikið var spásögn PIW um þróunina á olíumörkuðunum talin afar nákvæm. Wanda seldi fyrirtækið árið 1988, þá komin nálægt sjötugu. Og þó svo fjölmiðla-umhverfið hafi vissulega gjörbreyst - ekki síst með tilkomu internetsins - er þetta ennþá eitt af áhrifamestu upplýsingaveitunum á sviði olíugeirans. Enda kostar ársáskriftin einhverjar þúsundir USD.

wanda_jablonski_12.jpg

Áhrif Wöndu eru kannski ennþá merkilegri í ljósi þess að á þeim tíma sem hún var að byrja ferilinn voru það nánast eingöngu karlmenn sem komu að olíugeiranum. Sama hvort það var olíuvinnsla, olíupólitík eða olíuumfjöllun og -fréttir. En Wanda vingaðist við alla; bæði olíubarónana í Texas og kuflklædda Arabahöfðingja í eyðimörkinni. Frægt varð þegar hún dvaldi hálft ár djúpt inní eyðimörk Saudi Arabíu og bjó þar í kvennatjaldi Sádakonungs - sem á þeim tíma var ennþá gjarnan kallað hinu gamla nafni harem eða kvennabúr. Vera hennar þar hafði þó ekkert með samlífi Arabanna að gera og Wanda naut djúprar virðingar flestra þeirra sem hún átti samskipti við. Sjálf giftist hún þrisvar, en skildi jafnoft og eignaðist engin börn.

Blaðamennskan og olían voru hennar líf og yndi. Og það var sossum ekki eins og Wanda hefði sjálf fundið upp á olíuáhuga sínum. Eins og sagði hér í upphafi, mótaðist barnæska hennar mjög af olíunni. Faðir hennar var pólskur jarðfræðingur sem starfaði fyrir bandarísk olíufélög og var á sífelldu flakki með fjölskylduna milli helstu olíusvæða heimsins. Fyrir vikið vandist Wanda fljótt bæði ferðalögum og búsetu á fjarlægum slóðum, svo og fékk hún innsýn í olíuiðnaðinn og ólíka menningarheima. Sagt er að hún hafi varla verið nema átta ára gömul þegar hún kunni t.d. skil á mismunandi sýrustigi olíu á öllum helstu olíusvæðum veraldar.

yamani_1973.jpg

Skömmu eftir tvítugt tók Wanda meistarapróf í blaðamennsku við Columbia-háskólann í New York. Áður hafði hún lokið BA-gráðu við annan þekktan háskóla í sömu borg; Cornell. Eftir að hún stofnaði sitt eigið olíutímarit varð hún persónulegur vinur fyrrnefnds Ahmed Zaki Yamani, sem í fjöldamörg ár var tvímælalaust áhrifamesti olíupólitíkus heimsins, en Yamani var olíumálaráðherra Sádanna í aldarfjórðung (1962-1986) eins og áður hefur verið nefnt hér á Orkublogginu.

Yamani vann sleitulaust að því að Sádarnir næðu olíuauðlindum landsins úr höndum vestrænu olíufélaganna. Rétt eins og Wanda, þá þótti hann einstakalega sjarmerandi karakter og flinkur að takast á við andstæðinga sína og leysa úr erfiðum deilumálum. Honum tókst ætlunarverk sitt þegar Saudi Aramco komst smám saman í eigu stjórnvalda; fyrst fjórðungshluti árið 1973 og félagið allt árið 1980. Þar kom þó að, að Yamani féll í ónáð Sádakonungs í kjölfar olíuverðlækkananna í upphafi níunda áratugarins og var settur af. Sagt er að Wanda Jablonski hafi átt stóran þátt í því að hann var leystur úr stofufangelsi og slapp við frekari eftirmála vegna deilna sinna við Khalid, þáverandi Sádakonung, sem seint verður vændur um mikla stjórnvisku á sviði efnahagsmála. Síðasta aldarfjórðunginn hefur Yamani stundað viðskipti á Vesturlöndum (aðallega í Bretlandi), en hann verður áttræður síðar á þessu ári (2010).

yamani_1960_2.jpg

Vináttubönd Yamani's og Wöndu munu ávallt hafa verið mikil. En þrátt fyrir náin tengsl sín við Yamani og marga aðra olíufursta í Mið-Austurlöndum naut Wanda líka trausts vestrænu olíufyrirtækjanna. Í þau fáu skipti þegar hlutlægni hennar var dregin í efa, kom jafnan í ljós að slíkt hafði við lítil rök að styðjast og gagnrýnin jafnan byggð á fölskum forsendum og runnið undan rótum öfundarmanna hennar. Sjálfstæði og heiðarleiki virðast m.ö.o. ávallt hafa verið helsta prýði Wöndu Jablonski. Hún lést 28. janúar 1992; rétt rúmlega sjötug. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Einstakleg áhugaverð grein til lestrar.

Þökk þér.

Kveja, Björn bóndi   

Sigurbjörn Friðriksson, 7.2.2010 kl. 20:09

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Skemmtileg og fróðleg lesning.

Takk fyrir að halda nafni þessarar skeleggu konu á lofti.

Hólmfríður Pétursdóttir, 9.2.2010 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband