Nú er það svart...

Ástralía er líklega eina landið utan Íslands, sem Orkubloggarinn gæti hugsað sér að búa í.

UNDPÞar er náttúran gríðarlega fjölbreytt og falleg og mannlífið þægilegt. Orkubloggarinn kann einnig afar vel við sig í Kanada. Og Noregur er líka notalegt land með mikla náttúrufegurð. Orkubloggarinn kann sem sagt nokkuð vel við sig bæði í Noregi og Kanada, en þó sérstaklega í Ástralíu. En auðvitað er Ísland bezt í heimi!

Þetta er reyndar ekki mjög frumlegt val hjá bloggaranum. Því skv. skrifstofu Sameinuðu þjóðanna er nefnilega einmitt langbest að búa á Íslandi, í Noregi, Ástralíu og í Kanada (sjá skýrsluna Human Development Report).

Ísland og Ástralía; þessi tvö ólíku lönd og íbúar þeirra eiga ótrúlega margt sameiginlegt. Það einkennir t.d. báðar þjóðirnar að vera svolítið afskekktar frá umheiminum. Það er líka skemmtileg veila í báðum þessum þjóðum. Við Íslendingar virðumst gegnsýrðir af vertíðarhugsun og þess vegna hvarflar almennt ekki að nokkrum manni hér að hugsa lengra en svona þrjá daga fram í tímann. Bankaruglið er líklega svakalegasta dæmið um þetta. Ástralir eru aftur á móti varkárari - og þykjast þar að auki vera ofurgrænir og elska höfrunga, meðan þeir fá nánast allt sitt rafmagn frá kolabruna. Skemmtilegar andstæður.

Australia_populationÞá þykir Orkublogginu athyglisvert að Ástralir og Íslendingar munu vera einhver þéttbýlustu samfélög heims! Einhverjum kann að þykja undarlegt að heyra Ísland og Ástralíu nefnd í tengslum við þéttbýli. En þegar litið er til þess hversu hátt hlutfall þjóða býr í þéttbýli, skora bæði Ástralía og Ísland mjög hátt. Hér sogar Reykjavíkursvæðið fólkið til sín - og í Ástralíu er mjög stór hluti þjóðarinnar á suðausturhorni landsins; einkum í borgunum Sydney og Melbourne. Fá dæmi munu vera um að heilar þjóðir þjappist svo hressliega saman í þéttbýli.

Í dag ætlar Orkubloggið að beina sjónum sínum að orkubúskap Ástrala. Sem er óneitanlega allt öðruvísi en orkunýting á íslandi. Bloggið ætlar að þessu sinni ekki að horfa til jarðhitavirkjana í Ástralíu, sem hugsanlega eiga mikla vaxtarmöguleika. Nei - hér verður þvert á móti litið til þess svartasta af öllu svörtu! Sjálfs risabrúnkolaorkuversins Hazelwood, á kolasvæðinu svakalega í Latrobe dalnum, skammt austan við Melbourne.

melbourne-1[1]Melbourne er næst stærsta borg Ástralíu. Íbúarnir eru um 4 milljónir - sem sagt litlu færri en í Sydney (íbúar Sydney eru ca. 4,5 milljónir). Milli þessara tveggja stærstu borga landsins er auðvitað mikill rígur. En almennt má segja að Sydney hafi vinninginn sem fallegri borg og með fjölbreyttara mannlíf. Það er a.m.k. mat Orkubloggarans, sem eitt sinn naut nokkurra mánaða í Sydney. Íbúar Melbourne yrðu þó líklega seint sammála bloggaranum um þessa niðurstöðu! Í þeirra augum er Melbourne málið og íbúar Sydney tómir letingjar og sukkarar.

En skellum okkur í kolin. Ein sérkennilegasta sjón sem Orkubloggarinn hefur upplifað eru risastórir kolahaugarnir utan við hafnarborgina Newcastle, á austurströnd Ástralíu, ekki langt norðan við Sydney. Það væri kannski nær að tala um kolafjöll -  þarna liggja kolin í gríðarmiklum haugum og bíða þess að verða mokað um borð í ryðdalla í Newcastle-höfn. Þaðan sigla dallarnir í röðum alla daga ársins, fullhlaðnir kolum til Japans, S-Kóreu og ýmissa annarra landa. Sem nota kolin til rafmagnsframleiðslu.

Australia_ElectricityÁstralía er langstærsti útflytjandi kola í heiminum, með hátt í 30% allra útfluttra kola. Það eru sem sagt gríðarlegar kolanámur í Ástralíu. Ástralir eru fjórði mesti kolaframleiðandi heimsins (á eftir Kína, Bandaríkjunum og Indlandi). Þess vegna kemur það sjálfsagt fáum á óvart að næstum 80% af rafmagnsframleiðslu Ástrala koma frá kolaorkuverum. Framleiðslugeta áströlsku kolaveranna í dag er líklega vel yfir 50 þúsund MW (50 GW). Það er næstum 25 sinnum meira en allar íslensku virkjanirnar geta annað. Menn geta ímyndað sér hvers konar geggjuð kolefnislosun stafar frá 50 þúsund MW kolaorkuverum. Og áströlsku verin eru þar að auki ekki beint þau tæknivæddustu í heiminum; þetta eru sannkölluð skítaver.

En það eru ekki bara Ástralir sem nota mikið af kolum. Sem fyrr segir eru þeir einnig stærsti kolaútflytjandi heims. Það eru sem sagt ýmsir aðrir sem eru gefnir fyrir að framleiða raforku með kolum. Í reynd eru kol einfaldlega mikilvægasti raforkugjafi heimsins. Það er bara ekkert voðalega mikið talað um það. Miklu skemmtilegra að velta t.d. fyrir sér hvort íslenskur jarðhiti sé ósjálfbær - nú þykir allt í einu voða smart að halda slíku fram. Kannski væri ráð að loka þessum ósjálfbæru og subbulegu jarðgufuvirkjunum og barrrasta frekar nota kol - eins og allir hinir!

Coal_Morwell_mine_1Um 40% alls rafmagns jarðarbúa er framleitt með orku frá kolum. Ástralir eru sú þjóð sem er einna háðust kolunum, með 80% hlutfall kolaorku í rafmagnsframleiðslu landsins. Til eru ennþá sótsvartari þjóðir; t.d. eru Pólverjar og Suður-Afríkumenn með yfir 90% rafmagnsins frá kolabruna. Líklega er Kína nú í 4. sæti með rétt tæplega 80% rafmagnsins frá kolum og í Bandaríkjunum er hlutfall kola í rafmagnsframleiðslunni um 50%.

Kol eru sem sagt einfaldlega mikilvægasti orkugjafi mannkyns, ásamt olíu. Og svo mun verða um langa framtíð - hvað sem líður fögrum fyrirheitum og vonum um græn og sjálfbær samfélög Vesturlandabúa. Af einhverjum ástæðum er meira talað um markmið ESB um 20% rafmagnsins frá endurnýjanlegri orku, en það að á næstu 5 árum eru horfur á að um 50 ný kolaorkuver rísi í Evrópu.

Vegna efnahagsuppbyggingarinnar í hinum fjölmennu löndum Asíu er augljóst að kolabruni á ekki eftir að minnka á næstu áratugum. Þvert á móti. Í Kína og á Indlandi opnar nú eitt nýtt kolaorkuver í viku hverri. Alþjóða orkustofnunin (IEA) telur að kolanotkun muni að jafnaði aukast um 2% á ári fram til ársins 2030, sem þýðir að þá verða brennd um 50% meira af kolum en gert er í dag (árið 1980 var vinnslan um 2.500 milljón tonn, 2006 var hún 4.400 milljón tonn og 2030 er hún áætluð 7.000 milljón tonn). Ef kenningin um gróðurhúsaáhrif reynist rétt, verður um 2030 væntanlega aðeins farið að volgna vatnið í Vestur-Hópi. Og víðar.

Vissulega er búist við að endurnýjanalegi orkugeirinn muni vaxa hlutfallslega miklu hraðar, þ.a. hlutdeild kola í heildarrafmagnsframleiðslunni mun fara eitthvað minnkandi. Þó það nú væri. Kannski verður hlutfall kola komið niður í 30% árið 2030? En kolanotkunin mun sem sagt fara vaxandi - og þar að auki er mögulegt að syngas-framleiðsla verði stóraukin, þ.e. að framleiða olíu úr kolum. Kannski er rafmagnsbíladraumurinn einmitt bara draumur og syngas hin raunverulega framtíð. Eigi kol ekki að verða "bjartasta" framtíðin í orkugeiranum þarf a.m.k. eitthvað  mikið að koma til. En það er önnur saga.

coal_handsVert er að geta þess að kol er að finna mjög víða um veröldina. Þess vegna eru talsverðar líkur á að hvorki Kína, Bandaríkin, Rússland né Evrópusambandið geti litið fram hjá kolaauðlindum sínum. Kolin eru þarna alls staðar - og þess vegna er framtíðin kolsvört. Allt hjal um annað er bara sjálfsblekking - þó svo framleiðsla grænnar orku eigi eftir að margfaldast á meðan kolanotkun eykst "einungis" um helming. Kol munu lengi enn verða ein helsta undirstaðan í rafmagnsframleiðslu heimsins og birgðirnar kunna að endast í allt að 2 aldir.

Kolaiðnaður Ástrala er sem fagurt blóm - séð út frá mælikvörðum fjármagnsins. Þessi iðnaður hefur vaxið að meðaltali um ca. 4% árlega síðasta áratuginn. Námurnar eru víða en þó aðallega í austurhluta landsins. Það eru fjögur risafyrirtæki sem ráða mestu á þeim markaði. Þar er svissneski iðnaðarisinn Xstrata framarlega í flokki. Sem kunnugt er, er Xstrata að stærstum hluta í eigu hrávörufyrirtækisins alræmda Glencore International.

marc_rich_GlencoreSaga Glencore er auðvitað miklu skemmtilegri en nokkur reyfari; Glencore er jú einkafyrirtækið hans Marc Rich, sem m.a. stundaði ólögleg olíuviðskipti við Íran og var svo snyrtilega náðaður af Bill Clinton á síðasta embættisdegi hans vestur í Washington hér um árið. Rich býr nú að sjálfsögðu í Sviss - gott ef hann er ekki kominn með íslenska bankadólga sem nágranna?

Hinir þrír risarnir á ástralska kolamarkaðnum eru allt saman gamlir kunningjar lesenda Orkubloggsins. BHP Billliton, Straumsvíkurmærin Rio Tinto (sem er eigandi Alcan) og loks Anglo American. Samtals grafa þessi nettu fjögur fyrirtæki nú um 400 milljón tonn af kolum úr ástralskri jörðu árlega, en þarna eru líka nokkrir smærri leikendur. Minna má á, að síðastnefnda samsteypan (Anglo American) er afkvæmi demantakaupmannsins Ernest's Oppenheimer, sem Orkubloggið hefur áður minnst á. Oppenheimerarnir eru ennþá umsvifamestu demantaframleiðendur heims undir merkjum De Beers og eiga líka enn dágóðan hlut í Anglo American. Helst betur á fénu en nýríkum íslenskum bankaþursum.

Hazelwood Power StationEn stöldrum ekki við námafyrirtækin, heldur lítum til þeirra sem kaupa af þeim kolin til að brenna. Sjálft "krúnudjásnið" þegar kemur að kolaorkuverum í Ástralíu hlýtur að vera ljúflingurinn Hazelwood við Melbourne. Það er að vísu ekki stærsta kolaverið í landinu, en framleiðir þó um 8% af öllu rafmagni Ástrala og Viktoríufylki fær um 25% af öllu sínu rafmagni frá Hazelwood (framleiðslugetan er 1.600 MW eða eins og rúmlega tvær Kárahnjúkavirkjanir). Verið er sagt eitt af þeim mest mengandi í veröldinni, enda notar það aðallega brúnkol úr Morwell-námunni, sem er ein af þessum fjölmörgu hroðalegu opnu kolanámum í Ástralíu.

Á tímabili stóð til að loka Hazelwood-verinu nú á þessu ári (2009), en árið 2005 framlengdu áströlsk stjórnvöld starfsleyfið til 2031. Bæði verið og Morwell kolanáman eru að mestu í eigu breska orkufyrirtækisins International Power, en það keypti verið þegar það var einkavætt fyrir hálfum öðrum áratug. International Power á þar með heiðurinn að því sem World Wide Fund for Nature (WWF) kallar skítugusta orkuverið í hinum vestræna heimi. Eða eins og sagði í fréttatilkynningu WWF:

Hazelwood Power Station_4"The 40-year-old power station in Victoria's Latrobe Valley spews out an astonishing 1.58 million tonnes of carbon dioxide every month. Hazelwood produces more carbon dioxide per unit of electricity delivered than the dirtiest coal-fired power stations in other leading industrialised nations."

Losunin var sem sagt sögð vera 1,58 milljón tonn af koltvísýringi pr. Twh, sem er fáránlega hátt hlutfall í samanburði við öll önnur kolaorkuver heimsins. Almennt virðast þó blessaðir Ástralarnir hafa meiri áhyggjur af hrefnuveiðum Vestfirðinga, heldur en Hazelwood.

Nýlega varð þó sú mikla breyting í Ástralíu að kjósendur losuðu sig loks við fábjánann John Howard og kusu ljúflinginn Kevin Rudd í stól forsætisráðherra. Hann hefur gjörbreytt stefnu Ástralíu til hins betra - að mati Orkubloggarans - í bæði utanríkismálum og umhverfismálum. En vegna kreppunnar ákvað Rudd reyndar að fresta áætlunum sínum um aðgerðir til að takmarka kolefnislosun fram til ársins 2011. Þar er af nógu að taka; Hazelwood-verið eitt er sagt losa um 17 milljón tonn af koltvísýringi á ári sem er um 5% af allri kolefnislosuninni í Ástralíu og hátt í 10% af allri losun frá rafmagnsframleiðslu í landinu. Það myndi því muna um minna ef verinu yrði lokað - spurningin er bara hvort íbúar Melbourne ætla að hætta að nota rafmagn?

Hazelwood Power Station_5Einnig má hafa í huga að það kemur iðulega fyrir að eldar kvikni í kolahaugunum við Hazelwood. Sem ekki er beint talið fýsilegt að gerist. Gríðarlegu magni af vatni er sprautað yfir kolin til að varna að þetta gerist, auk þess sem að sjálfsögðu þarf mikið kælivatn fyrir raforkuverið sjálft. Þarna í landi vatnsþurrðarinnar er heldur súrt til þess að vita hversu gríðarmikið vatn fer í þessa raforkuvinnslu.

En hvað sem því líður, þá er Ástralíu hreint frábært land. Þeir sem vilja lesa meira um reynslu Orkubloggarans af Down Under, geta nálgast tvær tíu ára gamlar ferðasögur frá Ástralíu hér á Moggavefnum; um vor í Sydney hér og aðra grein um ástralska sveitasælu hér. Þetta eru vel að merkja orðnar ansið gamlar greinar og lesist með það í huga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

var i skola i Astraliu i nokkur ar, topp land.

ekkert mal ad spjara sig tar fyrir ta sem vilja vinna. en nordurslodirnar toga til sin, mikill munur a lifinu sudur fra og her nordur fra - helst sa ad madur nytur lifsins a hverjum degi tar, en fær tad svona i skorpum her nordur fra.

Min nidurstada var ad best yrdi fyrir mig ad bua i Tasmaniu, oll gædin og svalara loftslag med, en einhvernveginn endadi eg svo a Grænlandi...

Baldvin Kristjánsson, 28.5.2009 kl. 12:21

2 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Góður pistill Ketill og ljómandi skemmtilegur eins og þín er von og vísa. Tjörusandur og Kol, það er græna framtíðin ef maður les smáa letrið. Verða ekki gróðurhúsamenn að fara að slökkva ljósin bráðum?

Ólafur Eiríksson, 28.5.2009 kl. 19:21

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir skemmtilegan pistil Ketill.  Er talið að kolanámurnar endist lengur en olíuauðlindirnar?

Sigurður Þórðarson, 1.6.2009 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband