"Og sólin rennur upp"

Kaþólskan á Spáni tekur á sig ýmsar myndir. Stuðningsmenn knattspyrnuliðs Barselóna lyfta höndum, hneigja höfuð og kyrja “Messí, Messí. Messí...”.

Messi_angel

Það er auðvitað Argentínumaðurinn Leo Messi, sem er hinn nýji Messías í Barselóna. Enda hafa knattspyrnustjörnurnar suður á Spáni fyrir löngu tekið yfir hetjuhlutverk nautabanans. Ég er nokkuð viss um að í dag hefði Hemingway hrifist af Messi - og gert hann ódauðlegan í ofurmacho skáldverki.

Messi verðskuldar svo sannarlega mörg “olé!”. Ekki hægt að segja annað en það sé bæði líkamleg og andleg snilld hvernig hann fer með boltann. Það sýndi Messí t.d. suður í Sevilla í liðinni viku, hvar hann gladdi Orkubloggið með töfrum sínum framan við mark andstæðinganna. Skoraði tvö mörk þarna framan við Orkubloggið, ásamt nokkrum tugum þúsunda annarra áhorfenda á troðfullum Sevilla-vellinum. Eigum við að giska á að Argentína verði heimsmeistari í Brasilíu 2014? Og Messí verði markahæstur.

Auðvitað er þetta allt óvissunni háð. Rétt eins og þegar Orkubloggið reynir að veðja á framtíðarsigurvegara í orkugeiranum. En komið til Andalúsíu, gat bloggið auðvitað ekki stillt sig um að fara í sína eigin laufléttu pílagrímsferð.

Seville_bridge

Meðan aðrir túristar voru líklega mest að skoða yfirþyrmandi dómkirkjuna í miðborg Sevilla eða Gullturninn, dreif bloggið sig að hörpulaga Alamillo-hengibrúnni hans Santiago Calatrava.

Og brunaði að því búnu út úr borginni til að kíkja á sólarorkumannvirki snillinganna hjá Abengoa. Til að skoða með eigin augum hin mismunandi CSP- sólarorkuver. Consentrated Solar Power.

Fyrst var rennt framhjá PS 10 turnorkuverinu - sem er eiginlega flottara á myndum en í raunveruleikanum. Enda virðast þeir hjá Abengoa nú um stundir vera orðnir hrifnari af íhvolfu speglatækninni fremur en turntækninni.

CSP_schott_parabolic_trough

Kannski ekki síst af því spænska skattakerfið er búið að galopna fyrir sólarorku - og þessir íhvolfu speglar eða parabóluspeglar - parabolic  trough  mirrrors - eru sú tækni sem hefur þegar sannað sig. Og er því áhættuminnsta leiðin til að komast hratt inní þennan iðnað og njóta ávaxtanna sem þar eru nú í boði. Sem m.a. eru billegt lánsfé frá Evrópska fjárfestingabankanum og fast verð frá spænska ríkinu fyrir rafmagnið.

Sem sagt sáralítil áhætta, en gefur Abengoa gríðarlega reynslu sem mun skapa þeim mikið forskot. Nú eru t.d. mörg parabóluverkefni að fara í gang vestur í Bandaríkjunum og þar verður Abengoa eflaust stór player. Ríkin í N-Afríku og á Arabíuskaganum, svo og Kína, eru líka spennt fyrir þessu sólarsulli. Parabólutæknin virðist ætla að verða sigurvegarinn í CSP-iðnaðinum.

Þess vegna var næsta stopp Orkubloggsins parabólu-speglaverið Andasol 1. Sem er ekki langt frá Máraborginni góðu Granada. Þrátt fyrir að byggingasvæðið eigi að heita aflokað, gat Orkubloggið fundið opinn slóða inná þetta ótrúlega speglaland.

CSP-Andasol-1

Og óneitanlega var heillandi að spóla þarna um milli hinna óhemjulöngu raða af risastórum speglum. Allt þar til brúnaþungur Spánverji birtist á ryðguðum pallbíl og rak bloggið af svæðinu, líkt og hvern annan iðnaðarnjósnara. Svo það var ekki um annað að ræða en drífa sig aftur á Seatnum til Sevilla, skreppa á barinn og biðja um einn Vodka-Martini. Að sjálfsögðu shaken – not stirred! Reyndar guggnaði bloggið á því og lét sér nægja glas af Tio Pepe. Þó ekki væri nema til að falla inní fjöldann og þykjast vera lífsreyndur Andalúsíufari.

Það er reyndar ekki Abengoa sem á heiðurinn að Andasól 1. Heldur þýska fyrirtækið Solar Millennium. En nú eru þeir hjá Abengoa líka að opna sitt fyrsta parabóluver; að sjálfsögðu rétt hjá Sevilla. Ætla greinilega ekki að halda sig við turntæknina eina þegar kemur að CSP.

Gore_Abengoa

Orkubloggið er sammála þeim hjá Abengoa og Solar Millennium að skynsamlegt sé að veðja á parabóluspeglana. Frekar en turninn. Um þetta eru þó skiptar skoðanir. Ekki veit ég hvað Al Gore þykir um þetta, en hann heimsótti einmitt sérrísötrarana hjá Abengoa sléttum mánuði á undan Orkublogginu. Til að klappa þeim á bakið fyrir allt fíneríið.

CSP

Takist mönnum að höndla geggjaðan hitann, sem turntæknin á að gera mögulegan, verða viðkomandi vissulega á grænni grein. Þar stefna menn á allt að 6-900 gráður á celsius, sem myndi hreinlega skapa æpandi gufuafl. En svo kólnar dótið all hressilega yfir nóttina og það er ekkert grín að finna efni sem þola þennan ofsalega hita og hitamun.

En Arabarnir hjá fjárfestingasjóðnum gígantíska Masdar Initative eru hvergi bangnir við þá áhættu. Og eru búnir að veðja á turntæknina með spænsku ljúflingunum í Torresol. Sem Orkubloggið hefur áður sagt frá. Það skal viðurkennt að þeir hjá Torresol – Turnsól - voru vissulega mjög sannfærandi þegar bloggið fundaði með þeim í Madrid í 40 stiga hita s.l. sumar. En þó þeim tækist auðveldlega að sannfæra Arabana, var Orkubloggið samt svolítið hugsi yfir þessari turntækni. Kannski af þeirri einföldu ástæðu að seðlaveski Arabanna ku vera eilítið þykkra en hið vesæla gengisfallna íslenska krítarkort bloggsins.

CSP_mirror_parabolic

Satt að segja myndi bloggið seint vilja setja pening í sjálf CSP-sólarorkuverin. Miklu sniðugra að fara annars staðar inní keðjuna! T.d. framleiðslu á vökvarörunum hitaþolnu sem sólargeislunum er speglað að - eða barrrasta hinum mögnuðu speglum sem orkuverin þurfa. Sennilega er speglabransinn sá sem mun græða mest á uppgangi CSP.

Í dag eru það fyrst og fremst þrjú fyrirtæki, sem framleiða þessa gríðarstóru hátæknispegla. Flabeg, Flagsol og Rioglass Solar. Þau sitja nánast ein að geysilega hratt vaxandi markaði. Þó svo aðrir minni spámenn séu til, t.d. finnska Glaston.

Síðastnefnda fyrirtækið af þessum þreumur (Rioglass Solar) er hluti af Rioglass samsteypunni, sem er aðallega í speglaframleiðslu fyrir bílaiðnaðinn. Og er afar skammt á veg komið í smíði spegla fyrir CSP. Flagsol er aftur á móti með þennan bransa á hreinu. Það er í eigu þýska Solar Millennium og nokkuð augljóst að þekkingin þar á bæ er ekki til sölu. Nema kannski stórhuga Mörlandar slái til og kaupi hreinlega Solar Millennium eins og það leggur sig.

solar_millennium_logo

Þar er athyglisvert fyrirtæki á ferð. Auk þess að eiga Flagsol eru þeir í 50/50 samstarfi með iðnaðarrisanum Man Ferrostaal um byggingu sólarorkuvera. Þar með virðast reyndar Arabarnir líka vera farnir að þefa af Solar Millennium. Ekki er lengra síðan en í október að enn einn fjárfestingasjóður frá Abu Dhabi skrifaði undir viljayfirlýsingu um kaup á stórum hlut í Man Ferrostaal. Vilji menn komast til áhrifa í Solar Millennium geta þeir þó slegið Aröbunum ref fyrir rass. Með því t.d. einfaldlega að bjalla í hann Henner Gladen, í stjórn Solar Millennium, og bjóða i dótið.

Solar_millnnium_Henner_Gladen

Já – Solar Millennium er spennandi kostur. Nefna má að þeir ljúflingarnir þýsku unnu einmitt nýverið Energy Globe verðlaunin. Sem sumum þykir voða fínn pappír.

Svo gæti reyndar farið að olíupeningar frá Arabíu verði senn búnir að kaupa upp stóran hluta af evrópska CSP-iðnaðinum. Þeir hafa líka fjárfest mikið í PV; sólarsellutækninni. Enda gnægð af sól í sandinum þeirra heima! Svo er ekki verra fyrir þessa ljúflinga olíuiðnaðarins, að hafa ítök í endurnýjanlegri orku - svona til að hafa einhverja stjórn á þróun orkugeirans.

En þó svo Flagsol og Solar Millennium séu góður kostur, er Orkubloggið á því að hið þýska Flabeg sé áhugaverðasta fyrirtækið í CSP-speglabransanum góða. Flabeg er öflugt og gamalgróið fyrirtæki - er með 130 ára farsæla sögu að baki. Þó svo bissnessinn þeirra sé aðallega ýmis konar önnur hátæknileg glerframleiðsla, er langmesti vaxtarmöguleiki Flabegmanna einmitt speglaframleiðsla fyrir CSP. Og þetta vita fleiri en Orkubloggið.

flabeg_logo

Einungis örfáir mánuðir eru síðan fjárfestingasjóðurinn Industri Kapital tók sig til og keypti Flabeg (af öðrum fjárfestingasjóði). IK er með rætur í Svíþjóð en starfar um alla Evrópu.

Ekki er gott að segja hvað þeir punguðu miklu út fyrir Flabeg. En til að gefa einhverja viðmiðun skal þess getið, að síðasta fjárhagsár var velta Flabeg um 150 milljónir evra. Ef við tökum fyrirtækjakaup í PV-sólarorkuiðnaðinum sem viðmiðun, þá er margföldunarstuðullinn 4 x velta ekki fjarri lagi. Sem hljómar kannski eins og hver önnur geggjun. Ætli verðið fyrir Flabeg hafi verið í kringum 600 milljón evrur? Kannski – kannski ekki. Það hljómar vissulega all svakalega hátt verð m.v. veltuna. Orkubloggið er auðvitað barrrasta að slá þessari tölu fram eins og hver annar falsspámaður. En minnumst þess að þetta er iðnaður í sprengivexti.

Hemingway_sun+also+rises

Ljúflingarnir hjá Industri Kapital voru reyndar svo upprifnir af því að eignast Flabeg, að blekið var varla þornað á samningnum þegar þeir tóku sig til og breyttu nafninu sínu. Nú heitir þessi blessaði fjárfestingasjóður IK Investment Partners. Bara svo menn viti nú hvert hringja skal til að bjóða í Flabeg.

Íhvolfu speglarnir þeirra Flabegmanna eru mikil völundarsmíði. Ná að nýta hátt í 95% af sólargeislunum (auðvitað nýtist þó miklu lægra hlutfall af sólarorkunni til rafmagnsframleiðslunnar). Og pöntunarstaðan er hreint unaðsleg.

Helsta áhyggjuefnið er kannski það, að þeir hjá Solar Millennium standa nú sveittir við að þróa flata CSP-spegla, sem eru svo miklu ódýrari. Og gætu þar skotið Flabeg ref fyrir rass.

Þessi flata CSP-tækni kallast Fresnel. Enn sem komið er, eru það líklega frumkvöðullinn rosalegi, Vinod Khosla og guttarnir hans hjá Ausra í Bandaríkjunum, sem standa fremstir í þeirri tækni.

Khosla_mystic

Og þar sem Orkubloggið hefur miklar mætur á Khosla - sem er óneitanlega nokkuð spámannslega vaxinn - er bloggið eiginlega svolítið ringlað í að ákveða hvaða speglatækni það eigi að trúa á!

Hvaða vitleysa. Hér gildir ekki eingyðistrú. Því segi ég bæði Flabeg og Ausra. En auðvitað fyrst og fremst Leo Messí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband