Sólargangurinn

Þó svo Orkubloggið forðist almennt að mæla með hlutabréfum til kaups, eru glöggir lesendur bloggsins eflaust löngu orðnir meðvitaðir um hrifningu Orkubloggarans á bandaríska sólarsellufyrirtækinu First Solar.

First_Solar_Revenue_NetIncome_2006-2008Sú hrifning er enn til staðar. Þess vegna er auðvitað gaman að sjá hversu vel First Solar hefur spjarað sig nú í fjármálakreppunni ægilegu. Meðan Applied Solar virðist stefna hraðbyri í gjaldþrot og fjölmörg önnur sólarsellufyrirtæki hafa lent á heljarþröm síðustu mánuðinu, hefur First Solar haldið áfram að styrkja sig í sessi sem fyrirtæki með réttu hugsunina í sólarsellubransanum.

Í lok júlí var tilkynnt að hagnaður First Solar hefði rúmlega tvöfaldast á öðrum ársfjórðingi 2009 m.v. árið áður (181 milljón dollara 2009 m.v. 70 milljónir dollara 2008). Þetta var miklu meiri hagnaðaraukning en flestir höfðu gert ráð fyrir og er til marks um sterka stöðu First Solar í markaðssetningu á ódýru þunnsellunum sínum (Thin Film PV).

Hagnaðaraukning First Solar endurspeglast vel í vaxandi tekjum fyrirtækisins. Á öðrum ársfjórðungi í fyrra (2008) voru tekjur þessara ljúflinga vestur í Arisóna 267 milljón dollarar en í ár skilaði ársfjórðungurinn 526 milljónum dollara í tekjur. Töluglöggir lesendur taka eflaust líka eftir því að hlutfall hagnaðar af tekjum hefur aukist. Sólin skín sem sagt glatt á First Solar.

Thin_Film_PV_CdTeÞað virðist einkum vera sterk staða First Solar í Þýskalandi sem nú styður við þetta öfluga fyrirtæki Wal Mart-fjölskyldunnar. Kemur kannski ekki á óvart. Í Þýskalandi eru jú hvað sterkastir hvatar fyrir fólk og fyrirtæki til að auka hlutdeild endurnýjanlegrar raforku í orkunotkun sinni. Fyrir vikið eru sérstaklega mikil vaxtartækifæri þar fyrir hendi fyrir endurnýjanlega orkugeirann og PV er löngu orðin vel þekkt fyrirbæri þar í landi.

Það eru þó alls ekki bara niðurgreiðslur á endurnýjanlegri raforku eða aðrir hvatar af því tagi sem skýra góðan árangur First Solar. Til að First Solar geri það gott þurfa þeir að auka markaðshlutdeild sína jafnt og þétt og um leið framleiða sífellt ódýrari sólarsellur. Það er enginn hægðarleikur; samkeppnin í sólarselluiðnaðinum er hreint gríðarleg og ekkert gefið eftir í verðstríðinu.

Rífandi gangur First Solar kemur samt Orkublogginu ekki í opna skjöldu. Hinar örþunnu kadmín tellúríð sólarsellur (CdTe) hafa reynst lygilega ódýrar í framleiðslu miðað við hefðbundnar sílikonflögur, sem ennþá eru algengastar á sólarsellumarekaðnum. Nýju sellurnar hafa sannað gildi sitt og fyrir sílikon-sólarsellu-framleiðendur er svo sannarlega  ástæða til að hafa áhyggjur af uppgangi First Solar.

first_solar_costperwatt_milestonesÁ timum lánsfjárkreppu hafa sjónir manna beinst í enn ríkari mæli að því sem er ódýrast og hagkvæmast. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um sólarsellubransann. Þó svo sílikon-sellurnar bjóði upp á betri nýtingu á sólarorkunni hefur kadmín-tellúríið reynst ódýrari lausn; hlutfallslega er nýting þeirra sólarsella betri miðað við framleiðslukostnaðinn. Eða eins og Orkubloggið hefur áður sagt: Hagkvæmnin skiptir öllu máli!

Svo virðist sem þessi árangur First Solar í Evrópu og bjartsýni vestra vegna orkuáætlunar Obama séu helstu skýringar þess að hlutabréfaverðið er nú um 50% hærra en eftir mikið fall bréfanna síðla árs 2008. En það er ekki fyrir taugaveiklaðar sálir að taka þátt í hlutabréfa-rússíbanareiðinni í sólaorkunni. First Solar var fyrst skráð á markað 2006 og á um einu ári rúmlega tífaldaðist verð hlutabréfanna; fór úr 25 dollurum og í 270 dollara í árslok 2007! Þetta wild-ride hélt áfram með olíuverðhækkununum á fyrri hluta ársins 2008. Þá fór verðið á First Solar hæst í um 310 dollara og allt virtist stefna í að sólarsellurnar væru gulls ígíldi. Svo fór olían að lækka, lánsfjárkreppan dró úr eftirspurn eftir sólarsellum og First Solar tók að renna hratt niður á við.

First_Solar_2007-2009Bréfin fóru vel niður fyrir 100 dollara í október 2008. Og hafa verið að sveiflast milli 150 og 200 dollaranna síðustu mánuðina. Í dag var verðið rúmlega 146 dollarar. Og sé kíkt inn á fjármálanetsíðurnar virðist sem margir „sérfræðingar" telji 130-160 dollara vera „rétt verð" fyrir bréfin. Geisp.

Helsta ógnin fyrir First Solar er eflaust hugsanlegt verðfall á sílíkoni. Slíkt mynda veikja samkeppnisstöðu First Solar all hressilega og fá hefðbundnari sólarsellu framleiðendur til að brosa breitt. Langvarandi kreppa gæti vissulega leitt til talsverðar verðlækkunar á sílíkoni, þó svo það sé kannski ekkert óskaplega líklegt. Svo er líka mögulegt að „kigsið" komi til með að sigra kadmín-tellúríið. Orkubloggið er engu að síður bjartsýnt fyrir hönd First Solar og kadmín-tellúríðs þunnildanna þeirra.

Thin_Film_PV_photoSamt skal fúslega viðurkennt að uppsveiflan á First Solar 2007-08 var yfirgengileg. Líklega má taka undir orð sumra raunsæismanna, að það sýni best geggjunina sem stundum tekur völdin á hlutabréfamörkuðunum, að P/E hlutfallið (V/H) hjá First Solar var á tímabili komið vel á annað hundraðið. Var meira að segja farið að nálgast 200 þegar verðið fór sem hæst árið 2008!

Það kostulegasta er að líklega voru margir verðbréfamiðlarar á háum launum við að mæla með kaupum á bréfunum á þessu ruglverði - og jafnvel þegið fínan bónus fyrir. Því miður virðist sem verðbréfamarkaðir þurfi alltaf að þróast yfir í glæpastarfsemi á 20 ára fresti eða svo.

Þetta hlutfall er aðeins skárra í dag; P/E First Solar er nú „einungis" rétt að slefa yfir 20. Það þykir Orkublogginu samt ennþá svolítið óþægilega hátt hlutfall. Engu að síður er bloggið sem fyrr hrifið af First Solar og Thin-Film stöffinu þeirra. En það eiga örugglega eftir að verða all svakalegar sviptingar í sólarselluiðnaðinum á næstu árum. Niðurstaðan kann að verða fremur fá en risastór sólarsellufyrirtæki. Í dag er fjöldinn hreint svimandi og allir þykjast vera með bestu lausnina. Þarna á hugsanlega eftir að verða svipuð þróun og í vindorkunni, þar sem einungis örfáir framleiðendur eru nú ráðandi á markaðnum.

SolstormurSólarsellumarkaðurinn er samt mun flóknari en gildir í vindorkunni og tæknilausnirnar margbreytilegri og styttra á veg komnar. Þess vegna er ekki víst að þessi iðnaður sé tilbúinn að þróast nákvæmlega eins og gerðist í vindorkunni, þar sem hefur orðið gríðarleg samþjöppun. Þó svo gaman væri að spá um hverjir verði hinir endanlegu sigurvegarar í sólarselluiðnaðinum, er það til lítils. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Hvort First Solar kemur til með að verða Coca Cola eða bara Sól Kóla sólaselluiðnaðarins, mun tíminn leiða í ljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband