Björgunarsveit Landsvirkjunar

Steingrimur_profile

Í dag fékk Landsvirkjun nýja stjórn. Hún er valin af eiganda Landsvirkjunar, ríkissjóði, en hinn mannlegi hugur sem þessu réð er Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Stjórnina skipa:

Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst (stjórnarformaður). 
Sigurbjörg Gísladóttir, efnafræðingur við Umhverfisstofnun (varaformaður stjórnar).
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Póstsins.
Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi.
Stefán Arnórsson, prófessor við Háskóla Íslands.
 

Þau Bryndís, Ingimundur og Páll sitja sem sagt áfram í stjórninni, en Sigurbjörg og Stefán eru ný. Einnig sýnist Orkublogginu að alveg hafi verið skipt um varamennina, að undanskilinni Vigdísi Sveinbjörnsdóttur, bónda. Varamenn eru nú:

Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.
Birgir Jónsson, jarðverkfræðingur við Háskóla Íslands.
Huginn Freyr Þorsteinsson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri.
Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur við Háskólann á Akureyri.
Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, bóndi á Egilsstöðum.

Jokulvatn

Óneitanlega finnst Orkublogginu sem þetta lykti örlítið af kjördæmahagsmunum og gagnkvæmum pólitískum skiptimyntaleik, sem enn virðist í hávegum hafður hjá sumum íslenskum ráðherrum.

Þetta er fólkið sem nú tekst á við einhverja mestu skuldahít sem sögur fara af. Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar vegna 2008 voru heildarskuldir Landsvirkjunar um síðustu áramót nettir 3,2 milljarðar USD. Eða sem samsvarar rúmlega 380 miljörðum ISK.

Já - Landsvirkjun skuldar meira en 380 þúsund milljónir króna. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru Íslendingar nú rétt tæplega 320 þúsund. Fjölskyldan hér á heimili Orkubloggarans ber skv. þessu ábyrgð á u.þ.b. 4.750.000 krónum af skuldum Landsvirkjunar. Hjón með tvö börn. Orkubloggarinn er satt að segja ekki alveg sáttur við þessa ábyrgð. En á allt eins von á að þessar skuldir muni brátt bætast við það skuldadíki sem bankarnir, Seðlabankinn, Björgólfsfeðgar, Jón Ásgeir og félagar hafa steypt íslensku þjóðinni útí.

Haspennumastur_ising

Það eina sem getur bjargað þjóðinni frá því að fá þessar ofsalegu skuldir mígandi blautar beint í fangið, er að lánsfjárkreppan leysist í síðasta lagi innan 20 mánaða eða svo. Stjórnendur Landsvirkjunar segjast ráða við allar afborganir og rekstrarkostnað fyrirtækisins út árið 2010, þó svo enginn aðgangur verði að nýju lánsfé á þessum tíma. Jafnframt viðurkenna stjórnendur Landsvirkjunar að erlendir lánadrottnar séu farnir að bjalla upp í Háleiti og spyrja menn þar á bæ, hvernig þeir ætli eiginlega að fara að því að leysa úr þessu.

Hin nýja stjórn og stjórnendur Landsvirkjunar standa frammi fyrir risaverkefni. Skuldir fyrirtækisins eru, sem fyrr segir, um 3,2 milljarðar bandaríkjadala eða um 380 milljarðar íslenskra króna. Og ábyrgðin vegna þessara skulda hvílir á ríkinu - á þjóð með tæplega 320 þúsund íbúa. Þetta er arfleifð Valgerðar á Lómatjörn og Kárahnjúkaævintýrisins ljúfa.

Valgerdur-Sverrisdottir

Já - það var eflaust gaman að vera ráðherra og veðsetja þjóðina. Til allrar hamingju erum við svo heppin að Steingrímur J. Sigfússon leitaði og fann hæfasta fólk landsins til að takast á við þennan vanda. Það hlýtur a.m.k. að hafa verið markmið hans.

Þó svo Orkubloggarinn geti nú líklega gengið rólegur til náða án þess að hafa áhyggjur af Landsvirkjun, er samt einhver óeirð í bloggaranum. Og þykir tilefni til að árétta þá skoðun sína að Landsvirkjun og ríkið eiga strax að hefja viðræður við ábyrg orkufyrirtæki erlendis um aðkomu þeirra að Landsvirkjun. Íslenska ríkið er rúið trausti - farsælasta leiðin til að tryggja að Landsvirkjun lendi ekki í greiðsluþroti er aðkoma nýrra eigenda. Sem njóta meira trausts en íslenska ríkið og eiga greiðari leið að lánsfjármagni. Annars er hætt við að illa fari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Svo er bara að vona að Landsvirkjun/Kárahnjúkavirkjun setji ekki þjóðina  endanlega á hausinn.

Árni Gunnarsson, 3.4.2009 kl. 20:00

2 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

úff.

það er samt einhvernvegin eins og mig minnir að það hafi verið varað við þessu. Hvernig var aftur formúlan?

(skuldir / 40 árum) / (dollar lækkar og lækkar, álverð hækkar og hækkar, ríkisábyrgð.)

= 6% ávöxtun á Kárahnjúka,

<1% áhætta

400 störf með margfeldiáhrifum 3.

Einhvernvegin svona minnir mig.

hvað voru þetta aftur margir peningar?

Baldvin Kristjánsson, 3.4.2009 kl. 21:02

3 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Ég get ekki að því gert að mér líst afleitlega á að erlendir aðilar eignist íslenskar auðlindir. það er nefnilega ákveðin hætta á að þá yrðum við fljótlega Jamaica norðursins...

Haraldur Rafn Ingvason, 4.4.2009 kl. 13:47

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sennilega er þessi möguleiki hvort sem er óraunhæfur, vegna gjaldeyrishaftanna. Enginn erlendur fjárfestir með viti er tilbúinn að læsa fé sitt inni í íslenska krónuhagkerfinu við núverandi aðstæður.

En EF áhugi væri fyrir hendi hjá ábyrgum aðilum, eins og t.d. norska Statkraft, væri eðlilegt að íslenska ríkið ætti áfram a.m.k. 51%.

Loks mætti búa svo um hnútana að auðlindin væri tekin út úr Landsvirkjun og fyrirtækið fengi einungis afnotarétt til afmarkaðs tíma. Það eru til ýmsar leiðir til að tryggja að auðlindin væri áfram í umráðum þjóðarinnar.

Ketill Sigurjónsson, 4.4.2009 kl. 16:02

5 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Vonandi fer ekki illa fyrir auðlindum Filippseyjinga með aðkomu íslendinga.

Pétur Þorleifsson , 4.4.2009 kl. 23:46

6 identicon

Flottur í Silfrinu

Gullvagninn (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 14:48

7 Smámynd: Friðrik Björgvinsson

Ég er einfaldlega á mót því að erlendir aðilar eignist auðlindir íslendinga, punktur.

Þeir eiga nú þegar allan fiskinn í sjónum vegna skuldsetningar útrásarníðinganna. Við gætum innkallað þessar veiðiheimildir með afskriftarleið uppá 5% á ári og allur afgangskvóti eða ónýttur kvóti renni strax inní púlíuna, framsal bannað og það þarf ekki að taka það fram að viðskipti með kvótann kæmu til með að minnka verulega,á eignarkvóta.

Friðrik Björgvinsson, 10.4.2009 kl. 00:44

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Að eiga auðlindina er eitt - að hafa leyfi til að nýta hana er annað.

Og ef erlendir aðilar mega ekki eiga neina auðlind á Íslandi, verður væntanlega að gera eignarnám í slatta af jörðum sem útlendingar hafa keypt hér.

Ketill Sigurjónsson, 10.4.2009 kl. 09:26

9 Smámynd: Friðrik Björgvinsson

Auðlind er að vísu teygjanlegt hugtak og sem dæmi er útsýni auðlind er umhverfið auðlind, ef svo strangt sé tekið til í skilgreiningum þá er eflaut hægt að hrynda öllum kostnaðaráætlunum allra framkvæmda verulega, því ég hef ekki hingað til séð verðmiða á umhverfinu eða útsýninu.

Með einkavæðingu auðlinda gerist tvennt fyrirtækið hefur einokun á að framleiða söluvöru úr auðlindinni, almenningur nýtur ekki lengur þeirra hagsmuna sem felast í auðlindinni nema greiða fyrir það með peningum.

Það er svo allt annað mál hvort almenningur eigi að njóta sérkjara beint í gegnum gjaldskrá fyrirtækisins eða fyrirtækið að greiða það mikla fjármuni til samfélagsins í aðstöðugjöld eða afnotagjald af auðlindinni, að almenningur njóti þeirra gæða sem heild eða sem einstaklingar.

Þegar auðlindinni er skipt á einstaklinga sem hafa þar með afkomu alls samfélagsins í höndum sér verður að grípa inní og leiðrétta þessa lífskjaraskerðingu.

Það er svo allt annar vinkill á þeim forsendum hvort þeir sem augljóslega hafa meiri ávinning af því að nýta auðlindirnar á vissan hátt sem ekki samræmist hagsmunum almennings eigi að hafa ótakmarkaðar heimildir til slíks gjörnings.

Ég er ekki að áfellast núverandi handahafa þessa réttar en tel rétt að skoða alla fleti á þessu með það að markmiði að einleit sjónarmið ráði því hvernig farið er með þessa hluti.

Það gefur augaleið að í einum slíku máli höfum við samþykktir Sameinuðuþjóðana á móti okkar regluverki, því tel ég rétt að skoða allar auðlindir í landinu og tryggja það að þær geti aldrei orðið í eigu erlendraaðila, þá er ég ekki að tala um notkun eða framleiðslu úr þeim, þar þarf að taka gjald, meira að segja verulega hátt gjald.

Ég veit sem dæmi ekki um að Landsvirkjun eða HS hafi greitt auðlindagjald fyrir nýtingarrétt sinn á orkuframleiðslu sinni hvorki á sviði jarðvarma eða vatnsaflsvirkjana. Því tel ég verulega hættu á að erlendir aðilar komist yfir þessa auðlind í gegnum erlenda lánadrottna þeirra, annað fyrirtækið er eins og alþjóð veit jú eiknarekið en hitt stóð til að einkavæða því í þessu hluta framleiðslunar liggur fé án hirðis, eða eins og Hannes sagði um ári liggur fé sem vinnur ekki neitt, það þarf að koma því af stað og fá það til að vinna fyrir meira fé. Þessi hluti verður að vera í eigu almennings ekki einstaka fyrirtækja eða eistaklinga.

Friðrik Björgvinsson, 10.4.2009 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband