Verður Ísrael næsti "Noregur"?

Norðmenn eru þakklátir skaparanum - eða náttúrunni. Nú í vikunni sem leið datt nýjasta útgáfa af Norwegian Continental Shelf inn um bréfalúgu Orkubloggarans og þar segir orðrétt:

norwegian-shelf-2-2010.png

Nature has been generous with Norway. That laid the basis for an adventure which began over 40 years ago and has led to the drilling of more than 3000 wells on the NCS. This in turn has made it possible to establish welfare provisions for the population which would otherwise have been impossible.

Já - norska olíuævintýrið hefur gert Norðmenn að einhverri allra ríkustu þjóð veraldar. En hvað með hina "einu sönnu Guðs útvöldu þjóð"; Ísraelsmenn?

Eins og fólk veit er allt löðrandi í olíu í næsta nágrenni Ísraels. Auðvitað mest við Persaflóann, en einnig í ýmsum löndum í næsta nágrenni flóans. Víða í löndum Norður-Afríku er að finna mikla olíu í jörðu - eins og t.d. í Egyptalandi og hjá Gaddafi í Líbýu - og meira að segja í Sýrlandi hefur fundist dágóður slatti af svarta gullinu. En ekki einn einasti dropi innan lögsögu Ísraels. Hvorki innan hins "upprunalega" Ísrael né innan hernumdu svæðanna - ekkert á Vesturbakka Jórdanár og ekkert á Gaza. Það vottar ekki einu sinni fyrir smá gasþunnildum undir sjálfri Jerúsalem.

golda_meir-time.jpg

Olían er sem sagt aðallega í einræðisríkjum "villutrúarmannanna"! Sumir Ísraelar gantast með að það sé líkt og Drottinn hafi ákveðið að láta alla við botn Miðjarðarhafsins njóta olíu nema Ísraela sjálfa. Golda Meir, fyrrum forsætisráðherra Ísraels mun hafa orðað þetta svo, að í fjörutíu ár hafi Móses leitt gyðinga um eyðimörkina til eina svæðisins í öllum Mið-Austurlöndum þar sem enga olíu er að hafa! Nema auðvitað ólífuolíu, sem þykir þó ekki alveg eins mikil náttúruauðlind í dag eins og var fyrir þúsundum ára.

Ekki hefur vantað viljann til að finna olíu í Ísrael. Í meira en hálfa lönd hafa menn staðið sveittir og leitað svarta gullsins um landið allt. Í leit sinni hafa sumir fyrst og fremst haft trúna að vopni. Eins og síonistinn og Texasbúinn John Brown, sem telur sig geta lesið vísbendingar í texta Gamla testamentisins um hvar finna megi olíu í landinu helga. En þrátt fyrir trúarhita Brown's hefur umfangsmikil leit fyrirtækis hans, Zion Oil, verið árangurslaus. Ekki minnsti dropi af nýtanlegum kolvetnisauðlindum hefur fundist í ísraelskri jörð. Né á öðrum svæðum sem Ísrael hefur hernumið. Og það þrátt fyrir að Zion Oil byggi leit sína á kýrskýrum vísbendingum úr Gamla testamentinu... sem reyndar ku heita Tóra  í gyðingdómnum ef Orkubloggaranum skjátlast ekki - en reyndar er trúarbragðafræði ekki hans sterkasta hlið.

israel-gas-map.gif

Fyrir fáeinum árum fannst reyndar vottur af gasi undir landgrunninu útaf Ísrael. En það var smotterí - og allt þar til fyrir rétt rúmu ári síðan leit út fyrir að Ísrael yrði um aldur og ævi háð fjárframlögum frá Bandaríkjunum til að geta keypt eldsneyti til að knýja þjóðfélagið.

Þetta var satt að segja farið að líta illa út; auknar efasemdarraddir voru farnar að heyrast frá Washingon DC um skilyrðislausan stuðning Bandaríkjanna við Ísrael og Palestínumenn voru farnir að eygja von um meiri sjálfstjórn. En viti menn. Einmitt þegar verulega var farið að þrengja að Ísraelsstjórn gerðist "kraftaverkið". Risastór gaslind fannst í lögsögu Ísraels um 50 sjómílur vestur af hafnarborginni Haifa. Gaslind sem hvorki meira né minna virðist hafa að geyma jafngildi 1,5 miljarða tunna af olíu.

Þetta var stærsta gaslindin sem fannst í heiminum árið 2009! Svæðið hefur verið nefnt Tamar, sem sérfróðir Biblíulesendur segja Orkubloggaranum að sé til heiðurs merkri konu sem sagt er frá í Gamla testamentinu. En varla höfðu fréttirnar af Tamar-gaslindinni borist til gyðingalandsins sérkennilega, þegar menn hittu enn á ný í mark á ísraelska landgrunninu. Og nú þótti ástæða til að kenna lindina við sjálft sæskrímslið ógurlega; Levíaþan. Sem mun vera einhvers konar Miðgarðsormur þeirra gyðinganna.

leviathan-destruction.png

Þessi nýjasta gaslind sem fannst um mitt þetta ár (2010) er sögð vera helmingi stærri en Tamar; þ.e. að hún jafngildi 3 milljörðum tunna af olíu. Sem er ansið hreint mikið og myndi gera Ísrael að jafn mikilvægu kolvetnisríki eins og Noregur er í dag. Nú blasir við að Ísrael verði ekki aðeins sjálfu sér nægt um orku, heldur verður landið stórútflytjandi á gasi. Enda er nú unnið hörðum höndum í ísraelsku stjórnsýslunni við að móta reglur um auðlindagjald og "olíusjóð" að norski fyrirmynd.

Enn eru allmörg ár í að gas fari að streyma frá fyrstu gasvinnslusvæðunum útaf strönd Ísraels. Ekki er orðið ljóst hvert gasið mun fara, en margt bendir til þess að auk innanlandsmarkaðar verði gasleiðsla lögð til Grikklands og gasið selt þangað og svo áfram innan ESB.

Þetta er þó enn ekki afráðið og það er kannski ennþá fullsnemmt að ætla að Ísraelar verði örugglega ofurrík kolvetnisþjóð. En vissulega er margt sem bendir nú til þess að Ísraelsþjóð eigi í vændum tugmilljarðadollara tekjur á næstu árum og áratugum.

burning-man-2007-crude_awakening_-art-installation.jpgHvort það mun styrkja friðarhorfur í Mið-Austurlöndum er allt önnur saga. Gasfundurinn er strax farinn að hafa slæm áhrif á sambandið milli Ísraela og Líbana, sem munu takast á um gaslindir á lögsögumörkunum. Sömuleiðis eru stjórnvöld í Egyptalandi á nálum. Egyptar hafa nefnilega gert samninga við Ísraela um stórfellda gas-sölu til Ísrael en sjá nú fram á óvissu um að þeir samningar verði efndir af hálfu Ísraelsmanna. Úps!

Nú eru jólin. Það er nokkuð ljóst að boðskapur kristninnar um frið og fyrirgefningu er ennþá víðs fjarri því að sætta þjóðir heimsins. Við sem búum hér svo fjarri stríðsátökum hljótum að freistast til að hugsa einmitt þau orð sem Bono söng hér um árið: Well, tonight, thank God it's them, instead of you! Jafnvel þó svo hér muni kannski aldrei finnast dropi af olíu, þá er Ísland alls ekki svo slæmur staður að fæðast á! Í reynd snýst lífið jú um allt annað heldur en olíu... eða orkublogg.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

"Lengi tekur hafið við" er sem sagt að lengjast í "Lengi tekur hafið við og gefur tilbaka".

Fróðlegt væri að vita hversu góðar mengunarvarnir eru til fyrir borholur í sjávargrunninum. Ekki viljum við margar endurtekningar á Mexíkóflóa, allra síst í grennt við okkar land...."Well, tonight, thank God it's them, instead of you"

Haraldur Baldursson, 27.12.2010 kl. 11:26

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Í sem allra skemmstu máli má svara þessu svo að á norska landgrunninu gilda mun strangari reglur um olíuvinnslu heldur en í Mexíkóflóa. M.a. um tvöfaldan sjálfvirkan lokunarbúnað, sem á að koma í veg fyrir leka af því tagi sem varð í Flóanum á liðnu ári. Til stóð að bandarísk stjórnvöld settu svipaðar reglur fyrir fáeinum árum, en bandaríski olíuiðnaðurinn lobbýaði gegn því og náði að stöðva það. Enda smá kostnaður því fylgjandi.

Ketill Sigurjónsson, 27.12.2010 kl. 11:40

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Það má ætla, vænti ég, að verulegar olíubirgðir sé að finna út fyrir ströndum ansi víða. Sérstaklega kannski fyrir utan USA strendur....olían er etv. ekki jafn takmörkuð og af er látið.

Haraldur Baldursson, 27.12.2010 kl. 11:58

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

WSJ var með þetta innlegg í gær, 29. des:

http://online.wsj.com/video/lebanon-needs-more-power/8173C689-CB5C-463B-846D-3AC835685B05.html

Ketill Sigurjónsson, 30.12.2010 kl. 18:45

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

... og WSJ var með þessa frétt í dag (lesa greinilega Orkubloggið):

Big Gas Find Sparks a Frenzy in Israel

http://online.wsj.com/article/SB10001424052970204204004576049842786766586.html?mod=WSJ_hp_us_mostpop_read

Ketill Sigurjónsson, 30.12.2010 kl. 18:59

6 Smámynd: Haraldur Baldursson

Góðar umfjallanir hjá WSJ. Greinin (seinni tilvísuninn) vekur upp hið einkennilega samband sem ríkir á milli Ísrael og USA...og svo þessar erjur og mögulegu markaðsmisnotkanir... þetta er vitanlega svo yfirgengilega mikið fé í húfi þarna.
Einhver verður ofan á og eitthvað gerist á bak við tjöldin.
Mikið væri það nú gaman að fá að sitja fund við stóra Matador-borðið og fá nánari innsýn í þá leiki sem verið er að leika.
Er Ísraelsstjórn þess megnug að kljást við alþjóðlegt fjármagn, eða liggur þetta enn dýpra ?

Haraldur Baldursson, 31.12.2010 kl. 10:29

7 identicon

Sæll Ketill

Hér eru áhugaverðar greinar um gas utan við Írland sem Ísland gerir tilkall til að hluta:

http://www.guardian.co.uk/world/us-embassy-cables-documents/151826

(http://www.geoexpro.com/sfiles/5/50/6/file/Ireland.pdf)

björn (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 19:37

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

björn (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 19:37; takk fyrir þessa ábendingu. Ég er greinilega ekki sá eini sem hefur gaman af að lesa Geoexpro.

Ketill Sigurjónsson, 1.1.2011 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband