Nýtt landnám á Nýfundnalandi

Í ímyndaðri Íslandssögu mætti leika sér með þá hugmynd að íslenska landnámið á Vínlandi hinu góða hafi tekist vel. Og að þetta gjöfula landsvæði væri hluti af íslenska ríkinu. En sem kunnugt er voru Íslendingar því miður fljótir að týna bæði Vínlandi og MarklandiNýfundnalandi og Labrador. Löngu seinna urðu þessi landsvæði svo hluti af sambandsríkinu Kanada. Í dag ætlar Orkubloggið að líta til þessara merku svæða austast í Kanada:

I.  Fiskveiðisamfélag lendir í hremmingum. 

Framan af 20. öldinni upplifðu íbúar Nýfundnalands erfiða tíma. Þetta landsvæði var þá eins konar sjálfstjórnarsvæði undir bresku krúnunni og átti m.a. í landamæradeilum við Kanada um hvar landamærin í Labrador skyldu liggja. Í fyrri heimsstyrjöldinni börðust ungir menn frá Nýfundnalandi fyrir breska heimsveldið á blóðvöllum Evrópu og þar var hersveit þeirra þurrkuð út í slátruninni skelfilegu á fyrsta degi orrustunnar við Somme. Svo þegar Kreppan mikla skall á fór hún afar illa með efnahaginn á Nýfundnalandi. Og það bætti ekki ur skák að stjórnmálamennirnir og yfirvöldin í þessu hart leikna sjálfstjórnarsvæði, hugsuðu margir um það eitt að skara eld að eigin köku.

goose_bay_aerial

Þegar kom fram undir 1940 hafði sem sagt lengi árað heldur illa fyrir óbreyttan almúgann þarna austast í því landi, sem við í dag þekkjum sem Kanada. En þá kom blessaður Kaninn með tyggjóið sitt og herflugvélar. Herinn kom sér fyrir við flugvöllinn í Gander á Nýfundnalandi og tók til við að byggja annan stóran herflugvöll við Gæsaflóa; Goose Bay. Það er einmitt við Gæsaflóa sem hið gríðarlanga Churchill-fljót endar ferð sina ofan af hálendi og hásléttum Labrador, en Churchill-fljótið er eiginlega kjarninn í þessari færslu Orkubloggsins.

Rétt eins og koma hersins til Íslands og framkvæmdir á hans vegum á Miðnesheiði og víðar um land höfðu mikil áhrif á efnahag Íslendinga, olli stríðið straumhvörfum í efnahagslífi Nýfundnalands. Um þetta leyti voru Nýfundnalendingar álíka margir eins og Íslendingar eru í dag (rúmlega 300 þúsund sálir). Samskipti þeirra við Bandaríkin á þessum tíma urðu mikil og margir íbúar Nýfundnalands tóku að aðhyllast náið samband við Washington DC.

Þegar stríðinu lauk kom að því að Nýfundnalendingar skyldu ákveða stjórnskipulega framtíð sína. Stofnun lýðveldis eða algerlega sjálfstæðs ríkis virðist samt ekki hafa komið til álita. Ýmsir stjórnmála- og athafnamenn á eyjunni sáu sér gott til glóðarinnar vegna samstarfsins við bandaríska herinn og töluðu fyrir ennþá nánari tengslum við Bandaríkin. Svo fór þó að naumur meirihluti samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1948 að Nýfundnaland skyldi verða hluti af Kanada.

Newfoundland_St-Johns_Dark

Næstu áratugina fjölgaði íbúum hins kanadíska Nýfundnalands verulega. Fiskveiðar urðu afar mikilvægar fyrir efnahagslífið og lengi vel voru fiskimiðin út af Nýfundnalandi einhver þau gjöfulustu í heimi. En svo stækkuðu togararnir, verksmiðjuskip komu til sögunnar og ásókn útlendinga á fiskimiðin góðu á Miklabanka óx hratt. Afleiðingin varð langvarandi ofveiði sem leiddi til algers hruns hjá þorskinum við Nýfundnaland og fleiri fiskistofnum. Hvarf þorsksins þarna í lok 20. aldar mun vera eitt versta dæmi heims um hrun í sjávarútvegi. Afleiðingin var djúp kreppa í fylkinu með tilheyrandi bölmóði og brottflutningi.

Þegar líða tók á tíunda áratuginn var brottflutningurinn orðinn það mikill að fólki á Nýfundnalandi og Labrador (eins og fylkið nefnist fullu nafni) tók að fækka. Íbúafjöldinn hafði hæst náð um 580 þúsundum árið 1992, en aldamótaárið 2000 var fjöldinn kominn undir 530 þúsund. Og árið 2008 voru íbúar Nýfundnlands einungis um 506 þúsund. Hafði þeim þá sem sagt fækkað um næstum því 15% á 15 árum.

II.  Jákvæður viðsnúningur þrátt fyrir heimskreppu.

Newfoundland-Oil-Hibernia-flaring

Það blés sem sagt ekki byrlega í efnahagslífi Nýfundnalands í upphafi 21. aldarinnar. En núna á þessum undarlegu alheimskrepputímum hefur efnahagslífið á Nýfundnalandi þvert á móti verið í blóma. Og það þrátt fyrir að þorskurinn sé ennþá fjarri góðu gamni. Síðustu tvö árin hefur íbúum Nýfundnalands sem sagt fjölgað á ný og eru nú orðnir um 510 þúsund. Þar af búa um 100 þúsund í stærstu borginni, sem heitir St. Johns. Þessar tölur minna óneitanlega svolítið á íbúafjölda Íslands og Reykjavíkur. En munurinn er sá að hér ríkir kreppa en á Nýfundnalandi er í gangi mikil uppsveifla.

Efnahagsbatinn á Nýfundnalandi er meira að segja svo mikill og hraður nú um stundir, að þar er farið að tala um ofhitnun. Húsnæðisverð æðir upp og verktakarnir ráðast í sífellt stærri byggngaframkvæmdir í höfuðborginni St. Johns og víðar um fylkið.

Canada_NFL_Minerals-1998-2011

Helsta skýringin á jakvæðum viðsnúningnum á efnahag Nýfundnalands er hreint æpandi fjárfesting, sem þar hefur átt sér stað í hrávöruiðnaði síðustu 2-3 árin. Í fyrra námu nýjar fjárfestingar í fylkinu rúmum 3 milljörðum USD og höfðu þá aukist um næstum helming frá árinu áður. Og í ár (2011) er gert ráð fyrir að nýfjárfestingar á Nýfundnalandi verði rúmir 6 milljarðar USD! Íbúar fylkisins eru vel að merkja einungis um hálf milljón, þ.a. þetta hefur skapað mikinn hagvöxt og gríðarlega eftirspurn eftir vinnuafli. 

Skýringin að baki þessum fjárfestingum á Nýfundnalandi liggur einkum í hækkandi hrávöruverði í heiminum. Fylkið er stór framleiðandi á járni og nikkel og útflutningur á málmum stendur í blóma. Að auki er landgrunn Nýfundnalands nú vettvangur mikilla framkvæmda og fjárfestinga í olíuvinnslu.

husky-energy-logo

Það er ekki langt síðan olívinnsla hófst á landgrunni Nýfundnalands - eftir nokkuð langt tímabil olíuleitar. Og nú er svo komið að í höfuðborginni St. John's er fjöldi olíufyrirtækja með starfstöðvar. Sem dæmi má nefna kanadísku olíufyrirtækin Husky Energy og Suncor. Og líka þekktari félög eins og Statoil og Chevron - og ExxonMobil hefur meira að segja staðsett aðalstöðvar sínar í Kanada þarna í borginni.

Eimskip-Amerikuleid

Þetta er gott dæmi um hvað líklegt er að gerist hér á Klakanum góða, ef menn verða varir á Drekasvæðinu. Það virðist reyndar sem glöggir Íslendingar í stjórnendateymi Eimskips hafi ekki látið uppsveifluna á Nýfundnalandi framhjá sér fara. Ef litið er yfir upplýsingar á heimasíðu þessa fyrrum óskabarns þjóðarinnar, verður ekki betur séð en að Eimskip hafi upp á síðkastið snarfjölgað ferðum um hafnir á Nýfundnalandi. Enda er væntanlega hressilega mikil eftirspurn eftir skipaflutningum bæði frá og til Nýfundnalands þessa dagana.

III.  Risaframkvæmdir í vatnsafli framundan. 

Það sem Orkublogginu þykir ekki síður athyglisvert er að á Nýfundnalandi eru nú í farvatninu nýjar stórframkvæmdir í virkjun vatnsafls. Á sínum tíma var vatnsaflið í Kanada grundvöllur þess að áliðnaður þróaðist einna fyrst og hraðast þar í landi. Það mætti því ætla að það væri löngu búið að virkja alla helstu vatnsaflskostina á þessu svæði. En þrátt fyrir langa sögu orkufreks iðnaðar í suðausturhluta Kanada er þar ennþá að finna stóra og hagkvæma virkjunarkosti.

Fyrirhugaðar stórvirkjanir á Nýfundnalandi gera jafnvel Kárahnjúkavirkjun dvergvaxna. Því afl umræddrar virkjunar, sem brátt mun rísa langt útí óbyggðum Labrador, verður samtals næstum 3.100 MW og mun virkjunin framleiða um 17 TWst á ári. Raforkuframleiðsla þessarar einu virkjunar jafngildir því vel rúmlega þrisvar sinnum meiru en Kárahnjúkavirkjun skilar (4,6 TWst). Og er nánast jafn mikil eins og öll samanlögð raforkuframleiðsla á Íslandi (sem er u.þ.b. 17-17,5 TWst árlega). Þarna er sem sagt um að ræða miklar framkvæmdir.

Muskrat_Falls-1

Fólk getur ímyndað sér hvernig efnahagslífið á Nýfundnalandi mun hreinlega ganga af göflunum þegar þessar miklu virkjanaframkvæmdir bætast við uppganginn í málma- og olíuiðnaðinum. Og með CAD'inn sinn, þurfa Nýfundnalendingar litlar áhyggjur að hafa af snöggum gjaldmiðilssveiflum af völdum þenslunnar. Og enn síður að vextir eða verðtrygging æði upp. Enda brosa menn út að eyrum þessa dagana í St. Johns og annars staðar á Nýfundalandi - þó vissulega sé líklegt að eitthvað hægi þarna á ef enn frekari efnahagssamdráttur verður t.a.m. í Bandaríkjunum.

Umrædd virkjun er kennd við Muskrat-fossa í Labrador (Muskrat Falls), sbr. myndin hér að ofan. Virkjunin verður einmitt í áðurnefndu í Churchill-fljóti, sem er ein af lengstu ám í Kanada og rennur þvert gegnum Labrador.

churchill_falls-old

Þetta virkjunarverkefni er líka stundum kallað The Lower Churchill Project, sem kemur til af því að þarna ofar í ánni (Upper Churchill) er nú þegar önnur mjög stór virkjun. Hún er hvorki meira né minna en 5.400 MW og er næststræsta vatnsaflsvirkjun í Kanada og sú þriðja stærsta í N-Ameríku allri. 

Churchill-fljótið er gríðarlega langt eða um 850 km og vatnasvæði þess um 80 þúsund ferkm! Virkjunin sem var reist þarna á árunum í kringum 1970 (Upper Churchill) nýtir fallhæðina við s.k. Churchill-fossa. Fyrir tíma virkjunarinnar voru þessir fossar afar tilkomumikil sjón, en þarna steyptist fljótið eftir þröngum flúðum og fossum. Vegna virkjunarinnar þornuðu fossarnir nánast alveg upp. Ljósmyndin hér til hliðar sýnir einmitt aðalfossinn fyrir daga virkjunarinnar. Aftur á móti sýnir myndin hér fyrir neðan nánast uppþornaða Churchill-fossana eins og þeir eru í dag.

Gamla virkjunin í Upper-Churchill fær vatn frá gríðarstóru uppistöðulóni, sem var myndað á endalausu blautlendinu á hálendi Labrador. Lónið kallast Smallwood Reservoir og liggur u.þ.b. miðja vegu milli Hudsonflóa og gömlu víkingabyggðarinnar við L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi. Það er hvorki meira né minna en rúmir 6.500 ferkílómetrar - sem er t.a.m. eins og rúmlega 80% af flatarmáli Vatnajökuls. Vegna þess hversu lónið er stórt sést það vel á gervihnattamyndum, en sjá má ljósmynd frá risavöxnu lóninu hér neðarlega í færslunni.

Churchill-Falls-gone-3

Hér til vinstri eru nánast uppþornaðir Churchill-fossarnir. Og nú stendur sem sagt til að bæta 3.100 MW við þær 5.400 MW túrbínur sem Churchill-fljótið hefur knúið síðustu fjóra aratugina. Gaman er að minnast þess, að bæði Smallwood-lónið, gamla virkjunin í Churchill-fljóti og fyrirhugað framkvæmdasvæði vegna neðri virkjunarinnar, eru á hálendi hins forna Marklands. Já - Marklands þeirra Bjarna Herjólfssonar, Leifs heppna og Þorfinns karlsefnis. Þarna er sem sagt smávegis íslensk tenging!

Muskrat-fossarnir þar sem neðri virkjunin í fljótinu er nú áformuð, eru ekkert í líkingu við það sem Churchill-fossar voru. En þetta er vissulega engu að síður umdeild framkvæmd, sem hafa mun veruleg umhverfisáhrif.

NFL-Labrador-Canada-map

Framkvæmdir við nýju virkjunina við Muskrat-fossa hafa lengi verið í undirbúningi. Eftir áratugapælingar komst verkefnið loks á bullandi skrið upp úr aldamótunum síðustu, þegar orku- og olíuverð tók að hækka hratt. Þar að auki nýtur þessi nýja virkjun mikils pólitísks stuðnings bæði á Nýfundnalandi og í Nova Scotia.

Í nóvember á liðnu ári (2010) var gengið frá formlegu samkomulagi um verkefnið við tvö öflug orkufyrirtæki. Þau eru annars vegar Nalcor Energy og hins vegar Emera. Nalcor er fylkis-orkufyrirtækið á Nýfundnalandi og er bæði í vatnsafli og olíuvinnslu (í Kanada eru flest stóru orkufyrirtækin í eigu fylkjanna). Nalcor er einmitt meirihlutaeigandi að stóru "gömlu" virkjuninni við Churchill-fossa. Til samanburðar má nefna, að Nalcor er u.þ.b. helmingi stærra fyrirtæki en Landsvirkjun þegar miðað er við veltu. Í dag eru vatnsaflsvirkjanir Nalcor samtals um 1.600 MW, sem er örlítið minna en allar vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar. Nalcor er einnig nokkuð umsvifamikið í olíuiðnaðinum á landgrunni Nýfundnalands. Hitt fyrirtækið sem kemur að virkjuninni við Muskrat-fossa, Emera, er stærsta orkufyrirtækið í Nova Scotia. Velta Emera er um helmingi meiri en hjá Nalcor, en fyrirtækið er bæði raforkuframleiðandi og rekur raforkudreifikerfi. Það er skráð í kauphöllinni í Toronto.

vinland_map-1

Samkomulag stjórnvalda á Nýfundnalandi við þessi tvö orkufyrirtæki miðast við að nýja virkjunin kennd við Muskrat-fossa verði reist í tveimur áföngum. Byrjað verður á rúmlega 800 MW virkjun og framkvæmdum henni tengdri, en sú virkjun á að framleiða um 5 TWst árlega (sem er um 10% meira en Kárahnjúkavirkjun). Hún verður alfarið í eigu Nalcor. Uppistöðulónið sem myndað verður vegna þessa fyrri áfanga, verður nokkuð stórt en þó eilítið minna en Hálslón. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við síðari áfanga virkjunarinnar hefjist svo þegar þessum fyrri áfanga verður lokið, sem vænst er að verði árið 2016 eða 2017.

Þarna er um að ræða framkvæmdir lengst útí óbyggðum, þar sem óravegur er frá virkjun til notenda. Til að flytja rafmagnið til byggða verður reist 1.100 km ofurháspennulínu frá virkjuninni og að austurströndinni. Þar verður um að ræða jafnstraums-háspennulínu (HVDC) í anda þeirra kapla sem lagðir hafa verið þvers og kruss um Kína síðustu árin. Þegar komið er að ströndinni mun rafmagnið fara um neðansjávarkapal yfir til sjálfrar Nýfundnalandseyjarinnar, þar sem flestir íbúar fylkisins eru búsettir. Frá þeirri stóru eyju við austurströnd Kanada verður svo lagður annar neðansjávarkapall yfir til Nova Scotia, sem einnig mun njóta góðs af þessari miklu endurnýjanlegu raforku.

Canada-Churchill-Falls-1

Háspennulínurnar frá virkjuninni og neðansjávarkapallinn yfir til Nýfundnalands verða í eigu bæði Nalcor (71%) og Emera  (29%). Emera mun aftur á móti alfarið eiga neðansjávarkapalinn frá Nýfundnalandi yfir til Nova Scotia. Með sama hætti má hugsa sér að Landsvirkjun yrði mögulega hluthafi í neðansjávarkapli milli Íslands og Evrópu, en að stærsti hluthafinn yrði t.d. þýskt raforkudreifingarfyrirtæki.

Ein mikilvægasta ástæðan fyrir þessum framkvæmdum er ósk stjórnvalda á Nýfundnalandi um að þróast í átt til orkusjálfstæðis. Til þessa hefur fylkið verið háð nágrannanum í vestri um raforku; þ.e. Québec - vegna þess að orkan frá "gömlu" virkjuninni í Churchill-fljóti fer ekki til íbúa Nýfundnalands, heldur til Québec! Sá orkusölusamningur gildir til 2041, þ.a. það er ennþá langt þangað til Nýfundnalendingar geta sjálfir notað þá raforku (um svipað leyti rennur einmitt út samningur Alcoa við Landsvirkjun). 

Þar að auki mun virkjunin við Muskrat-fossa leiða til þess að unnt verður að loka 500 MW olíuvirkjun í smábænum Holyrood austast á Nýfundnalandi - og þar með draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Framkvæmdin byggir því bæði á atvinnusjónarmiðum, "þjóðernislegum" sjónarmiðum, arðsemissjónarmiðum og umhverfissjónarmiðum. Á móti kemur auðvitað að framkvæmdirnar munu hafa veruleg neikvæð umhverfisáhrif, en líklega þykir það dropi í hafið í óravíðáttum Labrador.

Churchill_Smallwood-Resevoir-3

Þegar framkvæmdum við þennan fyrri áfanga lýkur er þess vænst, sem fyrr segir, að ráðist verði í aðra ennþá stærri virkjun (rúmlega 2.200 MW) í nágrenni Muskrat-fossa. Ráðgert er að verulegur eða jafnvel mestur hluti raforkunnar frá síðari áfanganum verði fluttur áfram suður a bóginn. Þannig að hún fari áfram frá Nova Scotia og þaðan til fylkisins New Brunswick og loks jafnvel yfir til Nýja Englands í Bandaríkjunum. Þetta er þó ekki endanlega ákveðið, enda er líka verulegur áhugi fyrir því hjá orkufyrirtækjunum að selja raforkuna vestur á bóginn (jafnvel alla leið til Ontario) .

Þarna er sem sagt verið að tala um raforkuflutninga eftir leið sem yrði jafnvel mörg þúsund km. Á leiðinni verða a.m.k. tveir neðansjávarkaplar og ljóst að þetta veður talsvert dýr framkvæmd. Þessi þróun í orkuiðnaðinum er í reynd prýðileg vísbending um að senn hljóta menn af mikilli alvöru fara að skoða möguleika á raforkukapli milli Íslands og Evrópu.

Kostnaðaráætlunin vegna fyrri áfangans við virkjunina við Muskrat-fossa hljóðar uppá rúma 6 milljarða CAD. Þar af er helmingurinn (3 milljarðar CAD) vegna 824 MW virkjunar og HVDC-háspennulínu yfir Labrador og að ströndinni. Það kostar svo aðra 3 milljarða CAD að tengja þetta við sjálfa Nýfundnalandseyjuna, byggja þar nýjar háspennulínur til að dreifa raforkunni og loks leggja neðansjávakapal yfir til Nova Scotia.

muskrat-1

Til gamans má nefna að Muskrat, sem áðurnefndir fossar eru kenndir við, er kafloðið spendýr með afar þykkan og fínan feld. Þetta ljúfa dýr á einmitt heimaslóðir sínar í Kanada og víðar í N-Ameríku, á svæðum þar sem mikið er um votlendi. Núorðið má reyndar finna kvikyndið víða annars staðar í veröldinni. Og gott ef hin heimspekilega þenkjandi finnska Bísamrotta í Múmínálfunum, var ekki einmitt af þessari ágætu tegund spendýra! Skemmtilegt.

Áður fyrr var þessi merka rotta (sem er alls engin rotta heldur skyldari t.d. bjórum eða minkum) ein helsta ástæða þess að ævintýramenn settu stefnu á Labrador. Þetta afskekkta landsvæði var nefnilega lengi vel fyrst og fremst vettvangur einmana skinnaveiðimanna. Og feldurinn af Muskrottunum lék þar stórt hlutverk. En í dag er það vatnsaflið sem menn veiða í Labrador.

Það er kannski orðið tímabært að við Íslendingar fórum að huga betur að góðum og meiri tengslum við hinar kanadísku bísamrottur og vini þeirra. Þó svo að Nýfundaland kunni að þykja útnári í augum margra, þá er þetta svo sannarlega land tækifæranna nú um stundir. Og það á ekki bara við um Nýfundnaland, heldur ekki síður um æðisgengin uppgangssvæðin vestur í Alberta og víðar í Kanada.

Karlsefni-2

Kanada er yndislegt land og Kanadamenn miklir ljúflingar heim að sækja. Svo eru þessi landsvæði á Nýfundnalandi að auki hálfgerðar heimaslóðir okkar Íslendinga - sem erum jú flest afkomendur Vínlandsfaranna og heiðurshjónanna Guðríðar Þorbjarnardóttur og Þorfinns Karlsefnis. Ekki lýgur Íslendingabók! Og vert að minnast þess líka, að nú munu afkomendur íslensku Vesturfaranna í Manitoba og annars staðar i Kanada vera orðnir rúmlega 200 þúsund. 

Kannski er það ekki algalin hugmynd að Ísland leiti eftir nánara viðskiptasambandi við Kanada. Þó svo Orkubloggarinn sé eindreginn stuðningsmaður þess að ljúka aðildarviðræðum við ESB og sjá hverskonar samningur kemur út úr því ferli, væri afar vanhugsað að kasta öðrum möguleikum frá okkur. Vegna óhemju náttúruauðlinda og tiltölulega öflugs velferðarþjóðfélags, er Kanada sennilega einhver besti kostur sem hægt er að hugsa sér sem náinn samstarfsaðila. Er ekki ráð að spá aðeins betur í þennan möguleika - og jafnvel stefna að upptöku Kanadadollars?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gott til þess að vita að hrein, óbeisluð orka er til reiðu þarna í magni sem yfirskyggir Kárahnjúkavirkjun.

Nú ríður á að hafa hratt á hæli og virkja allt sem rennur á Íslandi áður en þessir Kanadamenn stela af okkur viðskiptunum.

Það er alveg áreiðanlegt að það eru síðustu forvöð að koma hreinni orku í verð.

Eða hvað?

Árni Gunnarsson, 7.8.2011 kl. 11:00

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Endurnýjanleg orka mun bara verða sífellt eftirsóttari, þ.a. í sjálfu sér liggur okkur ekkert á. En óvirkjað vatnsafl sem streymir til sjávar skapar auðvitað ekki seldar kWst og ekki þann hagnað sem annars gæti verið. Fyrir Ísland skiptir þó mestu að orkuverðið til stóriðju hækki, en fram til þessa hefur það verið nálægt kostnaðarverði og arðsemi orkuframleiðslunnar hérna því sáralítil.

Ketill Sigurjónsson, 7.8.2011 kl. 12:15

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sökum þess að einhverjir lesendur eru kannski ekki alvanir því að meta stærðir í Kanadadollurum, skal tekið fram að einn CAD jafngildir þessa dagana nánast nákvæmlega einum USD. Kanadadollarinn er þó örlítið meira virði en Bandaríkjadalur - sem er magnað þegar horft er til þess að fyrir fáeinum árum var 1 USD = 1,5 CAD. Í fyrsta sinn sem Orkubloggarinn fór til Kanada var 2003. Þá kostaði CAD líklega um 45 ISK og Mörlanda leið eins og milljónamæringi í Ottawa. Það er af sem áður var.

Ketill Sigurjónsson, 7.8.2011 kl. 18:15

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Rétt er það að óbeisluð fallvötn skapa ekki reikningslegan hagnað þótt enginn kunni að meta vægi þeirra í hagnaði af ferðamannaiðnaði. En við sem höfum aldur til að bera saman tækifæri þessarar þjóðar nokkra áratugi aftur sjáum kannski betur en hinir hversu vel þarf að gæta sín til að ganga ekki á þessa auðlind af skammtíma græðgi. Orkan mun aukast að verðmæti með hverju ári.

Árni Gunnarsson, 7.8.2011 kl. 21:44

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

A.m.k. engin ástæða til að flýta sér um of. Og Jökulsá á Fjöllum, Skjálfandafljót, Hólmsá og eflaust fleiri ættu áfram að vera ósnert.

Ketill Sigurjónsson, 7.8.2011 kl. 22:13

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Er ekki innsláttarvilla hjá þér, Ketill?  Þú segir að Churchill-falls virkjunin sé 5.400 MW og Nalcor sé meirihlutaeigandi í henni, en samt segir þú að uppsett afl í virkjunum Nalcor sé 1.600 MW.  Mér finnst þetta ekki alveg fara saman.

Annars er þetta áhugaverð grein og forvitnilegt verður að fylgjast með framgangi verksins.

Mér lýst vel á nánari samskipti við Kanada, hef tyllta þar niður fæti, en get ekki sagt að ég hafi kynnst landinu.

Marinó G. Njálsson, 8.8.2011 kl. 00:11

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Talan 1.600 MW eru uppl. af heimasíðu Nalcor. En þetta er hárrétt athugað, Marinó. Þetta gengur ekki upp, þar sem Nalcor á um 65% í Upper-Churchill-virkjuninni. Við nánari athugun þá er sá eignarhlutur í sérstöku dótturfélagi og af einhverjum ástæðum er það afl ekki talið með þegar Nalcor skilgreinir uppsett afl sitt. Hugsanlega er ástæðan sú að litið sé á Churchill-virkjunina sem e.k. ríki í ríkinu. Enda gilda um hana mjög sérstakir samningar, þar sem Hydro Québec fékk mjög langan raforkukaupasamning á afar hagstæðum kjörum. Takk fyrir ábendinguna.

Ketill Sigurjónsson, 8.8.2011 kl. 09:36

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Eftir nánari eftirgrennslan kom í ljós að tilgáta Orkubloggarans var rétt - um að Churchill-virkjunin er ekki talin með í uppsettu afli Nalcor. Alls er fyrirtækið sem sagt með u.þ.b. 1.600 MW virkjanir; þar af 939 MW í vatnsafli en afgangurinn eru olíu- og gasdrifnar virkjanir. Að auki kemur svo hlutur Nalcor í Churchill-virkjuninni, en raforkan þaðan er svo til öll seld ti Hydro Quebec, skv. sérstökum samningi frá árinu 1969.

Það er rétt sem segir í færslunni að allar tekjur Nalcor eru nú um tvöfalt hærri en hjá Landsvirkjun. Ástæða þess að velta Nalcor er ekki meiri þrátt fyrir miklu meiri umsvif heldur en Landsvirkjun og þ.m.t. hina gríðarstóru Churchill-virkjun, er einkum hrikalegur raforkusölusamningurinn við Hydro Quebec. Verðið á raforkunni skv. þeim samningi er nefnilega einungis 0,25 cent pr. kWst (þ.e. 2,5 CAD pr. MWst). Skv. samningnum á verðið að breytast árið 2016 og þá verða 0,2 cent pr. kWst (2 CAD pr. MWst) og haldast þannnig til 2041! Það jafngildir innan við 5% af eðlilegu heildsöluverði á raforku m.v. markaðsverð í Kanada. Það er því ekki að undra að Nýfundnalendingar séu heldur ósattir við nágranna sína í Quebec.

Ketill Sigurjónsson, 10.8.2011 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband