Hróðgeir Hauer og Cantarell

blade-runner_time-to-die.jpg

"I've seen things you people wouldn't believe. Attack ships on fire off the shoulder of Orion. I've watched c-beams glitter in the dark near the Tannhauser Gate. All those moments will be lost in time... like tears in rain. Time to die".

Þarna var vel mælt! Hjá honum Rutger Hauer alias Roy Batty. En nú virðist komið að leiðarlokum hjá öðrum höfðingja. Risinn Cantarell gæti nefnilega líka verið búinn að vera!

Öðruvísi mér áður brá. Í áratugi hefur Cantarell verið ein rosalegasta olíulind veraldar og malað Mexíkönum gull (við sem erum fædd um miðjan 7. áratuginn tölum um Mexíkana en ekki Mexíkóa!). Í huga Orkubloggarans er það skemmtilegasta við Cantarell þó hvernig þar sameinast heimur olíunnar, jarðsögunnar, geimvísindanna...og regindjúp tímans. Allt er hverfult og ekkert er eilíft!

chicxulub-impact.jpg

Segja má að olíuævintýrið þarna við ljúfar strendur Karíbahafsins, skammt út af Júkatan-skaganum, eigi sér upphaf í einhverjum mestu hamförum sem jörðin hefur orðið fyrir. Þegar risaloftsteinn kenndur við Chicxulub skall á jörðinni fyrir um 65 milljónum ára og útrýmdi risaeðlunum.

Það er reyndar umdeilt hvort þessar ofboðslegu náttúruhamfarir voru nákvæmlega það sem leiddi til þess að riseðlurnar dóu út. En það var a.m.k. kominn tími á risaeðlurnar tiltölulega fljótlega eftir þennan ofsalega árekstur. Og eftir Chicxulub myndaðist þarna innhaf, þar sem gríðarlegt magn af lífrænum leifum safnaðist á botninn og varð undirstaðan að miklum olíulindum. Sú æpandi fríkaða jarðfræðiþróun sem þarna varð, olli því líka að eftir 65 milljón ár voru þessar lindir jafn aðgengilegar eins og skreppa í Ríkið eftir bjórkassa. 

saga-af-saehaki_relato_de_un_naufrago.jpg

Árekstur Chicxulub og jarðarinnar varð undir lok tímaskeiðs sem kallað er Krítartímabilið en jarðlög frá þeim tíma eru víða mikilvæg uppspretta olíu nútímans. Það sem við vitum enn betur, er að fyrir tæpum fjörutíu árum var sextugur mexíkanskur sjómaður að nafni Rudesindo Cantarell að veiðum nokkuð langt utan við ströndina, á grynningum sem voru prýðileg fiskislóð. Og eins of stundum vill verða hjá einmana sæhákum, sem freista gæfunnar á miðum Mexíkóflóans, lenti hann Rudesindo í smá veseni. Ekki þó hákörlum - heldur urðu netin hjá honum af einhverjum ástæðum gegnsósa af einhverju fjárans olíuklístri.

Rudesindo þótti nóg um þennan óhroða og kvartaði undan þessu við kollega sína. Sagan barst frá fiskimönnunum og inn á skrifstofur Pemex - mexíkanska ríkisolíufélagsins sem fullu nafni kallast Petróleos Mexicanos. Þar á bæ ætluðu menn að leiða þetta rugl hjá sér, en svo ákváðu skrifstofublækurnar að senda jarðfræðing á svæðið til að kíkja á aðstæður.

Þetta um að menn hjá Pemex hafi ætlað að virða ábendinguna að vettugi er reyndar skáldaleyfi Orkubloggarans! En til að gera langa sögu stutta, þá reru sem sagt jarðfræðingar frá Pemex útá Flóann og þá kom brátt í ljós að hann Rudesindo Cantarell hafði hvorki meira né minna en rambað á eina allra stærstu olíulind heimsins! Og þá stærstu utan Persaflóans. Bara si sona.

cantarell_gas_flares_at_nohoch-a_oil_platform.jpg

Já - Mexíkó hafði dottið í lukkupottinn. Þarna spýttist upp olía af miklum krafti á sáralitlu dýpi og brátt kom í ljós að þar var á ferðinni ekkert minna en sannkölluð risamegalind. Olíulind sem reyndist hafa að geyma um 35 milljarða tunna á mjög afmörkuðu svæði (um 180 ferkm).

Þar að auki var allt þetta ofurgums undir svo miklum þrýstingi að snillingarnir hjá Permex náðu varla að stinga fyrsta rörinu niður þegar 300 þúsund tunnur sprautuðust upp fyrsta daginn - sem er þúsund sinnum meira en venjulega næst upp úr fyrstu borholunum á álitlegu olíusvæði! Eftir lauflétt stöðumat var talið fullvíst að sáraeinfalt yrði að ná þarna upp a.m.k. 18 milljörðum tunna af olíu - og jafnvel ennþá meiru eftir því sem tækninni fleygði fram og nýting olíulinda batnaði. Þarna undir sjávarbotninum var sem sagt allt löðrandi í olíu og um að ræða eina stærstu olíulind sem nokkru sinni hafði fundist í veröldinni. Enda fór svo að fljótlega gusaðist þarna upp margfalt meiri olía en nokkur Mexíkani hafði látið sig dreyma um - jafnvel í villtustu draumum hinna Rómönsku kappa.

cantarell_field_mexico.jpg

Eftir á að hyggja má kannski segja að æsingurinn hafi tekið völdin af skynseminni hjá Mexíkönunum. Líkt og við Íslendingar könnumst svo vel við, frá t.d. síldarárunum og nýliðnu fjármála-góðæri. Eftir á að hyggja er margt sem bendir til þess að Mexíkanarnir hefðu átt að fara sér hægar í að dæla olíunni upp úr Cantarell. Njóta hennar betur og leitast við að fullnýta lindina, fremur en að setja þar allt á fullt.

Flumbrugangurinn olli því m.ö.o. að Cantarell - þessi risastóra olíulind -missti fljótlega dampinn. Þó svo líklega sé nú búið að ná þarna upp heilum 13 milljörðum tunna, er orðið augljóst að menn fóru of geyst. Það er að vísu fullt af olíu eftir, en hún liggur mjög dreifð og það verður því sennilega rándýrt að elta pollana uppi.

En hvað um það. Cantarell hefur skilað um 13 milljörðum tunna og olli algerum straumhvörfum í efnahagslífi Mexíkó. Upp úr 1980 voru brunnarnir á svæðinu orðnir tvö hundruð talsins og upp spýttust meira en 1 milljón tunnur af olíu á dag. Framleiðslan jókst jafnt og þétt. Til að auka tekjur landsins voru sífellt fleiri brunnar boraðir og alltaf var nægur þrýstingur til að olían frussaðist upp af sjálfu sér, rétt eins og í góðum draumi.

cantarell_map.jpg

Fljótlega fór nú samt að bera á minnkandi þrýstingi og þegar líða fór á tíunda áratuginn byrjuðu sumir brunnarnir að hiksta. Þrýstingurinn í elstu brunnunum lækkaði hratt; skuggalega hratt að sumum fannst. Cantarell var ekki lengur hin eilífa sæla og nú voru góð ráð dýr.

Mexíkanarnir litu í kringum sig og uppgötvuðu að ýmsar olíuþjóðir með hnignandi olíulindir voru búnar að þróa nýja tækni til að örva lindirnar. Ein leiðin var að dæla köfnunarefni ofaní brunnana og með því móti lifnaði heldur betur yfir Cantarell. Það var um aldamótin að byrjað var á þessari dælingu - um sama leiti og blessaður kallinn hann Rudesindo Cantarell lést í hárri elli og framleiðslan tók á ný kipp upp á við.

Þetta var þó meira en bara að segja það; til að hressa Cantarell við þurftu Mexíkanarnir að byggja einhverja stærstu köfnunarefnisverksmiðju í heimi og slíkt apparat er ekki aldeilis ókeypis. En með aðstoð þessarar tækni jókst framleiðslan frá Cantarell hratt og sló nú hvert metið á fætur öðru. Á örfáum árum tvöfaldaðist framleiðslan og slefið lak úr vitum stjóranna hjá Pemex, sem með gróðaglampa í augum töldu sig óstöðvandi. Árið 2004 skilaði lindin 2,3 milljónum tunna á dag! Þar með var þessi magnaða olíulind orðinn næst öflugasta olíulind heims; hálfdrættingur á við arabísku ofurbombuna Ghawar, sem framleiðir um 5 milljón tunnur á dag.

Þetta var sem sagt sannkallað Öskubuskuævintýri þarna utan við strönd Karíbahafsins. Munurinn er bara sá að Ghawar hefur gubbað upp umræddu magni á hverjum einasta sólarhring í marga áratugi. Það breytir því þó ekki, að Cantarell hefur verið metin sem áttanda stærsta olíulind heims!

cantarell_1995_june-20093.jpg

En því miður sprakk Cantarell á limminu eftir aðeins fáeina mánuði. Þetta æpandi magn árið 2004 reyndist vera hið endanlega hámark hjá Cantarell og árið 2005 dróst framleiðslan umtalsvert saman. Öllu verra var að samdrátturinn hjá Cantarell hélt áfram þrátt fyrir örvæntingafullar leiðir Pemexmanna til að þröngva olíunni upp - og hnignunin varð hraðari en flesta hafði órað fyrir. Nú rættust svartsýnustu spádómar Húbbert-kúrfunnar. Ein stærsta olíulind veraldar var byrjuð í dauðateygjunum og því ekkert minna en alheims Peak Oil yfirvofandi á hverri stundu.

Árið 2006 varð enn meira hrun hjá Cantarell og það hélt áfram næstu árin. Á liðnu ári (2009) var framleiðslan vel innan við 800 þúsund tunnur á dag eða einungis um fjórðungur af því sem var fimm árum áður! Nú fullyrða sumir að í lok 2010 muni Cantarell varla ná 500 þúsund tunnum pr. dag. Og að  Mexíkanarnir megi jafnvel þakka fyrir ef þeim tekst að kreista eina einustu tunna þarna upp í árslok 2011!

cantarell_production_pemex.jpg

Þetta eru auðvitað afleitar fréttir fyrir Mexíkanana. Það er ekki nóg með að stjórnvöld hafa farið illa með ágóðann af Cantarell. Heldur hafa sæmilega bjartsýnar spásagnir Pemex barrrasta alls ekki gengið eftir. Þegar mörgum þótti útlitið framundan farið að vera nokkuð svart árið 2008, fullyrtu stjórnendur Pemex að fyrirtækið væri komið yfir verstu hnignunina og þó svo búast mætti við minnkandi framleiðslu hjá Cantarell myndi jafnvægi nást árið 2012 með um 500 þúsund tunna framleiðslu pr. dag. Svo kom 2009 og í september það ár fór dagsframleiðsla Cantarell einmitt undir 500 þúsund tunnur - þó svo 2012 væri ennþá langt undan. 

Nú segja stjórnvöld í Mexíkó að Cantarell sé u.þ.b. að ná jafnvægi og muni skila um hálfri miljón tunna á dag í fjölda ára. Á meðan muni finnast nýjar, flottar lindir úti á Mexíkóflóanum, þ.a. Mexíkó verð áfram risi í olíuframleiðslu. Það má svo sem vel vera að það finnist prýðilegar olíulindir innan lögsögu Mexíkó úti á djúpi Flóans - en dýpið þar er margfalt meira og vinnslan yrði langtum dýrari en hjá Cantarell. Og þó svo þarna finnist fljótlega stórar olíulindir myndi olían þaðan ekki fara að skila sér á markað fyrr en eftir a.m.k. áratug eða meira. Þar að auki er mexíkanska ríkið búið að mergsjúga Pemex gegnum tíðina, þ.a. fyrirtækið hefur ekki átt neitt afgangs til að ráðast í dýrar rannsóknir á djúpi Flóans og hefur nákvæmlega enga þekkingu á slíku. Í reynd eru Mexíkanar komnir í algera sjálfheldu og munu sennilega þurfa að galopna olíuiðnaðinn hjá sér fyrir útlensku olíufélögin, til að geta aukið framleiðsluna svo einhverju nemi.

pemex-oil-rig-fire.jpg

Já - Mexíkanarnir voru full æstir í að dæla þessu svakalega olíugumsi upp og brenndu brýrnar að baki sér. Nú er svo komið að framleiðslan frá Cantarell er að hrapa og er hnignunin miklu hraðari en nokkur hafði búist við. Jafnvel þeir alsvölustu í bransanum eru agndofa yfir þessari dramatík. Það er einfaldlega svo að Cantarell virðist vera á síðustu dropunum - með skuggalegum afleiðingum fyrir efnahag Mexíko. 

Þó svo olíuútflutningur nemi nú einungis um 10% af öllum útflutningstekjum Mexíkó, þá stendur olían undir næstum helmingi allra ríkisútgjaldanna! Pemex skilar m.ö.o. hátt í helmingi allra tekna ríkissjóðs og þar af kemur helmingurinn frá einungis tveimur olíulindum; Cantarell og nágranna hennar í Flóanum sem kallast Ku-Maloob-Zaap. 

us_oil_origins_map.gif

Þróunin hjá Cantarell fær ekki aðeins Mexíkanana til að tárast. Í Bandaríkjunum eru menn líka með böggum Hildar, því þetta mun þýða að Bandaríkin verða ennþá háðari Persaflóaolíunni.  Pemex er nefnilega einhver stærsti innflytjandi á olíu til Bandaríkjanna. Til að setja þetta í eitthvert samhengi, má nefna að Pemex var til skamms tíma stærri olíuframleiðandi en ExxonMobil!

Sem fyrr segir, þá tala Pemexar um að jafnvægi komist brátt á Cantarell í um 400 þúsund tunnum. Þeir sem eru orðnir þreyttir á ruglinu í Pemex-stjórunum, benda á að ef menn horfi á línuritið sé einfaldlega langlíklegast að síðasta tunnan úr Cantarell muni skila sér upp á yfirborðið skömmu eftir næstu áramót. Cantarell-lindin sé búin að vera. Og til eru þeir sem telja að hrunið í Cantarell muni valda alvarlegri olíukreppu á allra næstu árum - og ekki síðar en 2012. Ekkert sé á borðinu sem geti mætt þeim rúmlegu milljón olíutunnum sem Bandaríkjamenn höfðu vanist að flytja inn frá Cantarell á degi hverjum og afleiðingin verði risastökk í olíuverði

us_oil_imports_2008.gif

Bölmóðarnir alltaf samir við sig. Kannski er samt vissara fyrir bæði Orkubloggarann og aðra síbrosandi sakleysingja að hlusta á slík aðvörunarorð. Cantarell er ekki neinn venjulegur pollur, heldur langmikilvægasta olíulind í Mexíkó og þar með í Ameríku allri. Við skulum minnast þess að á síðustu árum hefur Mexíkó verið næst stærsti olíuframleiðandinn á Vesturlöndum með um 3,5 milljón tunnur á dag; einungis Bandaríkin hafa framleitt meira (Bandaríkin framleiða rúmlega 9 milljón tunnur á dag og Kanada er með um 3,4 milljónir tunna). Þessi olíuframleiðsla Mexíkananna hefur skipað þeim í sjötta sætið yfir mestu olíuframleiðsluríki veraldarinnar, en nú eru horfur á að þeir detti hratt niður stigatöfluna.

Pemex ræður yfir allri olíuframleiðslu í Mexíkó og þeir sem hafa ferðast þar um vita að nánast allar bensínstöðvar eru reknar af Pemex. Engin leiðinda samkeppni þar á ferð. En Pemex hefur ekki fengið að halda gróðanum til að leita að nýjum olíulindum. Gosbrunnurinn í Cantarell blindaði stjórnmálamönnunum í Mexíkó sýn og Pemex hefur verið notað sem mjólkurkú fyrir arfaslaka efnahagsstjórnun.

pemex-logo_966501.jpg

Olíuauðurinn olli því að lengi vel var Pemex stærsta fyrirtækið í allri Rómönsku-Ameríku - og reyndar eitt af allra stærstu fyrirtækjum heims. Síðustu árin hefur hallað undan fæti og í dag hafa Brassarnir hjá Petrobras siglt framúr Pemex. Þar með er Pemex þó ekki orðinn að neinum dverg; er líklega tíunda stærsta olíufélag heims nú um stundir og enn inni á topp-50 hjá Fortune. En leiðin virðist því miður liggja niður á við.

Rétt eins og Pemex, er Cantarell líka fallin í annað sætið; skilar nú einungis næstmestu olíuframleiðslunni í Mexíkó. Í janúar á liðnu ári (2009) datt Cantarell úr efsta sætinu og þar trónir nú olíulindin með skemmtilega nafnið; Ku-Maloob-Zaap. Allra nýjustu tölurnar - tölur sem birtar voru nú í vikunni um janúarframleiðsluna - segja að Cantarell hafi skilað af sér 463 þúsund tunnum daglega. Það er 31% minna en janúar í fyrra (2009)! Til samanburðar þá var nýi methafinn, Ku-Maloob-Zaap, nú í janúar með um 850 þúsund tunnur. Svona illa er komið fyrir Cantarell. En ljúflingarnir sem starfa á olíupöllum Ku-Maloob-Zaap hafa verið í góðu stuði undanfarið, enda glottu þeir barrrasta í kampinn og veifuðu til nágranna sinna: "Adiós, Cantarell". Ouch!

felipe-calderon-cph.jpg

Það er samt hreinlega afleitt fyrir mexíkönsku þjóðina að sjá svo hratt eftir olíutekjum sínum. Og eflaust veldur þetta forsetanum Felipe Calderon nokkru hugarangri. Sennilega er eina leiðin til að örva olíuframleiðsluna innan lögsögu Mexíkó að galopna landið fyrir fjárfestingu erlendra olíufyrirtækja, en það væri alger stefnubreyting í næstum sjótíu ára olíusögu Mexíkó. Orkubloggarinn man ekki betur en einkaréttur ríkisins sé þar tryggður í sjálfri stjórnarskránni. Þetta er sem sagt stórpólitískt mál og engan veginn víst að sátt náist um breytingar þar á meðal hinna stríðandi stjórnmálaafla í Mexíkó.

Og jafnvel þó svo að nýjar lindir kunni að leynast undir botni Mexíkóflóans innan lögsögu Mexíkó, yrði a.m.k. áratugur í að olía fari að skila sér þaðan. Cantarell er ekki nein venjuleg olíulind og áframhaldandi hnignun hennar mun því óhjákvæmilega hafa talsvert neikvæð áhrif á efnahagslífið í Mexíkó. Fram að því munu Meíkanarnir berjast af örvæntingu við að kreista upp þungaolíuna í Chicontepec norðaustur af hinni geggjuðu Mexíkóborg. Það er hægara sagt en gert - jafnvel þó svo erlent lánsfé streymi nú í þessar framkvæmdir frá Japönum, sem eru stærsta hagkerfi heimsins sem ræður yfir sama sem engum olíulindum. Fátt virðist geta bjargað efnahagshruni í Mexíkó nema að ný sannkölluð risalind finnist. En því miður var Cantarell einmitt síðasta sannreynda risalindin sem fannst í heiminum!

Vissulega er ennþá of snemmt að fullyrða að Cantarell sé síðasta risaolíulindin sem við munum finna hér á jörðu. En það er a.m.k. svo að á þeim fjórum áratugum síðan mexíkanski sjómaðurinn rambaði á þessa ofsalegu uppsprettu, hefur ekkert fundist sem jafnast á við hana. Þeir dagar eru því miður löngu liðnir að einmana fiskimenn eða fjárhirðar útí haga, sem gæta um nætur hjarðar sinnar, rambi á olíulindir eða annan fögnuð. Að vísu hafa Brassarnir þóst hafa fundið nýjar svaðalindur utan við Ríó, en það er á megadýpi og getur vart talist jafnast á við billegt megastöffið kennt við Cantarell. Heimurinn stendur frammi fyrir æ dýrari olíuvinnslu - sem er reyndar barrrasta hið besta mál. Af því það mun skapa sterkari hvata til að finna nýja og jafnvel ennþá betri orkugjafa. 

Jamm - öðlingurinn Cantarell virðist vera á leið á líknardeildina. Þrátt fyrir að þessi risalind hafi ekki fundist fyrr en seint á olíuöldinni, er saga hennar líklega brátt öll. En rétt eins og framfarir í læknavísindum ná að viðhalda lífinu æ lengur í öldruðu fólki, mun tæknin eflaust ná að láta Cantarell skila slatta af olíu enn um senn. Það breytir því samt ekki að þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur, þá virðist olíulindin kennd við Cantarell södd lífdaga. Hún hefur upplifað glæstar vonir Mexíkós, ægifögur stjörnuhröp Karíbahafsins og óteljandi hitabeltisstorma. Kannski getur Cantarell sagt rétt eins og Roy Batty - og af sömu rósemi; "Time to die":

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

"...blindaði stjórnmálamönnunum í Mexíkó sýn"! Sic.

Ketill Sigurjónsson, 7.3.2010 kl. 22:16

2 identicon

Góður pistill.

Það verður áhugavert að fylgjast með Mexíkó næstu árin. Sumir spá því að þeir verði orðnir innflytjendur á olíu eftir ekki svo mörg ár. Þá gæti nú ástandið orðið slæmt. Kannski að Kanar geri alvöru úr því að reisa girðingu milli landanna.

Svo er spurning hvort eins gæti farið fyrir Gawar í Saudi-Arabíu á næstu árum eða áratugum. Lindin er orðin svo gömul. Það yrði gífurlegt áfall fyrir Sádanna þar sem svo stór hluti framleiðslu þeirra kemur þaðan. Í raun ótrúlegt hvað þeir fá mikla olíu úr fáum risalindum en Bandaríkjamenn fá sína olíu úr gífurlega mörgum lindum.

Páll F (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband