Viðbrenndur grjónagrautur

Þegar húsnæðisverð hækkaði og hækkaði voru fáir sem töldu eitthvað óeðlilegt við það. Þetta var talið eðlilegt með hliðsjón af hækkun kaupmáttar og fólksfjölgun í heiminum, svo fátt eitt sé nefnt. Þegar "vel gengur" eru "sérfræðingar" fljótir að gleyma að það sem fer upp kemur líka niður. Og að almennt leitar efnahagur heimsins eftir jafnvægi. En stundum koma hressilegar sveiflur, sem valda því að skynsemin blæs útí veður og vind.

Rice_price_05_08

Nú eru fjölmiðlar fullir af útskýringum á hækkandi matvælaverði. Hrísgrjón eru sögð hækka vegna þess að framboðið sé minna en eftirspurnin. Sum ríki hafa tekið upp á því að takmarka útflutning til að tryggja fæðuframboð heima fyrir. Á örstuttum tíma hefur verðið á hrísgrjónum tvöfaldast. Og sé litið fáeina mánuði lengra aftur í tímann hefur verðið reyndar þrefaldast.

En trúið mér; það er nóg af hrísgrjónum. Þetta er allt saman út af því að fjármagnið missti trúna á hlutabréf og líka á skuldabréf. Og þá var ekki annað að gera en fara í gull, olíu og aðra hrávöru. Það er einfaldlega allt of mikið af peningum á floti í hrávörugrautnum.

Og þess vegna verður grauturinn of heitur. Og brennur við. Ekki furða þó margur sé með áhyggjusvip og óbragð í munni. Þessar svakalegu og skyndilegu verðhækkanir eru engan veginn eðlilegar og því tæplega komnar til að vera. En auðvitað verða einhverjir sem munu halda slíku fram. T.d. "sérfræðingar" hjá einhverjum fjárfestingabönkunum.

Borlaug_1943

En vissulega skapar þetta mikil vandræði hjá mörgum þjóðum. Tímabundið. Það er auðvitað stóralvarlegt mál.

Mig langar að nota tækifærið og minnast á einn mesta vísindamann okkar tíma. Snilling sem alltof fáir muna eftir. Sá er norski Bandaríkjamaðurinn með sérkennilega eftirnafnið; Norman Borlaug. Borlaug olli byltingu í fæðuframboði í heiminum. Honum tókst með aðferðum erfðafræðinnar að stórauka framleiðni á korni; fyrst hveiti og síðar tegundum eins og maís og hrísgrjónum.

Oft er sagt að enginn einn maður hafi bjargað jafn mörgum mannslífum eins og Borlaug. Án hans hefði hugsanlega allt að milljarður manna farist úr hungri á síðari hluta 20. aldar. Borlaug, sem er fæddur 1914, fékk friðarverðlaun Nóbels 1970. Undanfarið hefur Borlaug lýst áhyggjum sínum um að framfarir í fæðuframboði nú séu ónógar. Tvöfalda þurfi fæðuframboðið fyrir árið 2050. Þetta er svolítið ógnvekjandi framtíðarsýn. Er Borlaug á gamals aldri að breytast í Bölmóð spámann?

 


mbl.is Stefnt á aukna hrísgrjónarækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband