Seltuvirkjanir

Þar sem ferskvatn og sjór mætast koma saman miklir kraftar vegna mismunandi efnasamsetningar (seltu). Með því að nota s.k. osmósuhimnur myndast þrýstingur (sogkraftur) sem unnt er að virkja til rafmagnsframleiðslu. Þarna er á ferðinni athyglisverð tækni sem gerir það hugsanlega mögulegt að framleiða um eða yfir 1 MW á hvern rúmmetra á sekúndu af streymi ferskvatns.

Þeir staðir sem henta fyrir þessar virkjanir eru helst við árósa. Einnig má hugsa sér að virkjanir af þessu tagi gætu verið settar upp þar sem mikill ís bráðnar við ströndina, eins og við strendur Grænlands.

Osmotic_Statkraft_norway

Nú er unnið að byggingu osmósuvirkjunar í Noregi og einnig er verið að þróa aðra seltuvirkjanatækni í Hollandi. Virkjunin sem verið er að undirbúa í Noregi er á vegum norska orkufyrirtækisins Statkraft.

Fyrirtækið bindur miklar vonir við þessa virkjun og álítur að osmósuvirkjanir eigi sér bjarta framtíð víða um heim. Þetta sé mun jafnari og áreiðanlegri raforkuframleiðsla en t.d. vindorka og hafi lítil umhverfisáhrif. Þrýstingurinn sem myndast (sogkrafturinn) er mjög sterkur og gætu svona osmósuvirkjanir hugsanlega haft framleiðslugetu (uppsett hámarksafl) upp á tugi eða hundruð MW.

Statkraft_logo

Þó svo að osmósutæknin sé ný þegar kemur að raforkuframleiðslu, er þetta þekkt tækni við að framleiða ferskvatn úr sjó. Tæknin byggir því á nokkuð sterkum grunni, þó svo þessi aðferð við ferskvatnsframleiðslu sé enn í mikilli þróun. Við mat á hagkvæmni raforkuframleiðslunnar er venjulega miðað við hversu mikið afl fæst á hvern fermetra af himnunni sem er sett á milli sjávarins og ferskvatnsins. Hjá Statkraft segjast menn vera komnir í 4W á fermetrann og að bæta þurfi nýtinguna um 25% til að þetta borgi sig.

Osmosis_rivers

Hollenska fyrirtækið Redstack, sem er einnig að vinna að þróun seltuvirkjunar, notar aðra tækni en Statkraft og ekki liggja fyrir aðgengilegar upplýsingar um árangurinn hjá Hollendingunum.

Hugsanlega gætu virkjanir af þessu tagi risið við nokkra árósa hér á landi. Upp hefur komið sú hugmynd að seltuvirkjanir gætu hentað sérstaklega vel á Vestfjörðum, með hliðsjón af því hversu óáreiðanlegt raforkuframboðið er víða á því svæði. Hugsanleg virkjun Hvalár í Ófeigsfirði kann að vera dýr kostur og hæpið er að vindorkuver rísi á Vestfjörðum, m.a. vegna lítils undirlendis. Því eru sjávarvirkjanir e.t.v. sérstaklega áhugaverðar fyrir Vestfirðinga og kannski ekki síst osmósuvirkjun.

Isafjordur

Undanfarið hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands skoðað slíka möguleika í samstarfi við Vestfirðinga. Nýsköpunarmiðstöðin vinnur nú að osmósu-tilraunaverkefni, sem afar athyglisvert verður að fylgjast með. Ýmsir þættir koma til sérstakrar skoðunar vegna mögulegra seltuvirkjana á Íslandi, svo sem hvort grugg eða aurburður í jökulvatni myndi hafa slæm áhrif á virkjun af þessu tagi.

Sama óvissan á við um seltuvirkjanir og flestar aðrar sjávarvirkjanir; þetta er á tilraunastigi og óvíst hvernig til tekst. En í fljótu bragði virðist sem osmósutæknin gæti verið áhugaverð fyrir Ísland, með sitt mikla vatn sem rennur til sjávar.

------------

Varmamismunarvirkjanir.

Enn er ónefnd ein tegund sjávarvirkjana, en það eru virkjanir sem byggja á varmamismun í hafinu (Ocean Thermal Energy Conversion; OTEC). Til að sú sjávarvirkjunartækni sé hagkvæm þarf að vera til staðar hitamunur í sjónum sem er a.m.k. 20 gráður á Celsius og jafnvel meira. Slíkur hitamunur þekkist ekki við Ísland og því kemur þessi tækni ekki til álita hér á landi. Af þeim sökum verður ekki fjallað nánar um þessa tækni hér. En kannski mun Orkubloggið fjalla um OTEC'ið síðar, svona til gamans.

----------------------------------------

Í næstu færslu verður fjallað um það hvað kostar að framleiða rafmagn frá mismunandi tegundum virkjana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

sæll, alltaf áhugavert hjá þér.

Ísbráðnun við strendur Grænlands (sem eru lengri en miðbaugur jarðar) er hlutfallslega lítil. Mest af henni fer fram úti í hafi þar sem mest af lagnaðarísnum fýkur fyrst út áður en hann fer að bráðna. Auk þess eru stórir hlutar strandarinnar íslausir eða íslitlir hálft árið (júlí-des) svo helminginn af árinu væri væntanlega engin virkjun.

Stórir ísafirðir ("Sermilik") eru þar undanskildir, djúpir, stórir firðir með jöklum í sjó fram, þeir haldast fullir af ís allt árið og væru því raunhæfasti kosturinn. Þeir eru þó flestir langt utan mannabyggða.

Grænland - með sína löngu og bröttu strandlengju, á líka mikið ónýtt fallvatn, sem oft er nær byggð, svo þessi kostur er tæplega raunhæfur.

Næsti staður með stöðugt framboð af bráðnun er því Antarctica...

með kveðju frá suður Grænlandi

Baldvin Kristjánsson, 29.4.2009 kl. 08:56

2 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Takk Ketill, einstaklega áhugavert og fróðlegt að lesa þetta blogg.

Bestu kveðjur úr sveitinni.

Ingimundur Bergmann, 29.4.2009 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband