Græningjar fagna

graeningjar-fagna.jpgGræningjar voru að vinna mikinn kosningasigur í þýska sambandsfylkinu Baden-Württemberg. Tvöfölduðu fylgi sitt í þessu mikla hægrivígi; fengu rúmlega 24% og eru nú næststærsti flokkurinn á fylkisþinginu í Stuttgart.

Margir eru á því að þar hafi umræðan um þýsku kjarnorkuverin skipt sköpum. Það hefur reyndar lengi verið mikil andstaða við kjarnorkuver í Þýskalandi og í kjölfar kjarnorkuslyssins í Chernobyl 1986 stefndu þýsk stjórnvöld að því að mjög yrði dregið úr notkun kjarnorku í landinu. Um aldamótin voru meira að segja sett lög sem gerðu ráð fyrir því að því að síðasta kjarnorkuverinu í Þýskalandi yrði lokað árið 2021.

germany-anti-nuclear.jpgEn það var svo á síðasta ári (2010) að ríkisstjórn Angelu Merkel ákvað að slá þeim áformum á frest. Enda er ekkert áhlaupaverk að ráðast í að loka öllum kjarnorkuverum í Þýskalandi. Þýskaland þjáist af miklu orkuósjálfstæði og ekki á það bætandi að þurfa t.a.m. að flytja inn ennþá meira af rússnesku gasi til að fullnægja orkuþörf þjóðarinnar.

Í síðustu færslu Orkubloggsins var einmitt minnt á þá staðreynd að þýsku kjarnorkuverin framleiða á hverju ári um 140 TWst - sem er um átta sinnum meira en öll sú raforka sem framleidd er í öllum virkjunum á Íslandi. Jafnvel stórþjóð eins og Þjóðverjar myndu lenda í margvíslegum vandræðum við að taka þvílíkt afl úr sambandi. Og það er athyglisvert að hvorki meira né minna en 60% raforkunnar sem notuð er í Baden-Württemberg kemur frá kjarnorkuverum! Og þarna er vel að merkja ekki um að ræða neitt smáfylki, heldur búa þar heilar 11 milljónir manna.

nuclear-power-atlas-world-map.jpgHér til hliðar er skemmtileg mynd sem sýnir umfang kjarnorkunnar í heiminum. Þarna má m.a. sjá hversu mjög dró úr byggingu kjarnorkuvera eftir miðjan 9. áratug liðinnar aldar (Chernobyl!). Og hversu gríðarlega mörg kjarnorkuver Kína og Indland hafa áform um að reisa á næstu árum og áratugum.

Það er fremur hæpið að kjarnorkuslysið í Japan muni breyta miklu um þær áætlanir. En skammtímaáhrifin af slysinu gætu orðið veruleg - kansnki ekki síst í vestrænum stjórnmálum. Þessa dagana er a.m.k. gaman hjá Græningjunum í Þýskalandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli þetta þýði ekki fyrst og fremst meiri innflutning á raforku til Þýskalands, t.d. frá kjarnorkuverum Frakka.

Bjarki (IP-tala skráð) 30.3.2011 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband