Vanmetinn jarðhiti?

Víða um heim er furðulítil ásókn í jarðhitann. Vindorka og sólarorka hafa náð að fanga athygli bæði pólitíkusa og fjárfesta beggja vegna Atlantshafsins, en jarðhitinn virðist hafa orðið útundan. 

geothermal_egs.jpg

Jafnvel þó svo undanfarin ár hafi komið fram ýmsar nýjar og mjög athyglisverðar leiðir til að nýta jarðhita á lághitasvæðum, er mikil tregða hjá fjármagninu að veðja á jarðhitann. Þeir sem yfir því ráða eru m.ö.o. ófúsir að lána fé til jarðhitaverkefna. Fæstir vilja koma nálægt rannsóknum eða jarðhitaleit fyrr en töfraholan er fundin. Þá i raun ekkert annað eftir en að sækja sannreynda orku og áhættan nánast gufuð upp. Vandamálið er að rannsóknir og jarðhitaleit er gríðarleg stór hluti af heildarkostnaði jarðvarmavirkjana, þ.a. fjármagnstregðan hamlar því að jarðhitanotkun breiðist út sem skyldi.

Þetta er kannski skiljanlegt í ljósi þess að það er áhættuminna að setja pening í sólarsellur eða vindrafstöðvar, sem hvortveggja byggja á tiltölulega þekktum stærðum. Í huga Íslendingsins er þetta samt svolítið ósanngjarnt; jarðhiti sem orkugjafi hefur nefnilega gríðarlega kosti umfram vind og sól. Bæði vind- og sólarorka er afar óstöðug orkuframleiðsla og þarf alltaf á varafli að halda. Þó svo hugsunin með vind- sólarorkuverum sé að draga úr notkun kola og gass, þarf varaaflið að vera til staðar. En sá kostnaður er ekki reiknaður með þegar verið er að bera þessa grænu kosti saman við t.d. jarðvarma. Fyrir vikið getur samanburðurinn orðið nokkuð villandi og jarðhitanum mun óhagstæðari en efni standa til.

Það er auðvitað afleitt fyrir okkur Íslendinga að jarðhitinn skuli ekki njóta meira fylgis. Ef þeir sem stýra laga-, styrkja- og fjárfestingaumhverfinu í orkugeira veraldarinnar myndu átta sig til fulls á kostum jarðhitans myndum við hugsanlega eiga mun auðveldara með að flytja út jarðvarmaþekkingu.

masdar-city_uae_1003524.jpg

Því miður eru litlar líkur á að umhverfið breytist á næstunni. Samt aldrei að vita. Nú er t.d. vaknaður áhugi hjá Aröbum á jarðhitanum. Það hefur ekki farið hátt að Guðmundur Oddsson, fyrrum forstjóri Orkuveitunnar, og félagar hans hjá Reykjavík Geothermal eru að bora eftir jarðhita í Abu Dhabi fyrir tilstilli fjármagns frá olíufurstunum þar.

Til að koma þeim netta díl á, hefur sennilega hjálpað til áhugi framámanna í Abu Dhabi á að landið verði ekki aðeins þekkt sem olíuríki, heldur einnig sem frumkvöðull í endurnýjanlegri orku. Þess vegna bauð Abu Dhabi einmitt best í að hýsa aðalstöðvar IREANA, sem verða staðsettar i furðuborginni Masdar. Og einn helsti fjárfestingasjóður olíufurstanna í Abu Dhabi, Masdar Initative, hefur fjárfest í endurnýjanlega orkuiðnaðinum víða um heim.

googleplex_sign.jpg

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort Reykjavík Geothermal takist að finna vinnanlegan jarðhita þarna suður í eyðimörkinni. Þeir eru komnir með bor á staðinn og þetta er vonandi skref í rétta átt fyrir útflutning á íslenskri jarðvarmaþekkingu. Kannski er jarðhitinn að braggast og umfjöllunin að færast til betra horfs. Jafnvel þó svo jarðhitaverkefni Google vestur í Kaliforníu hafi fengið slæmt umtal síðustu mánuðina, hafa nefnilega nokkrar mjög jákvæðar jarðhitafréttir komið fram á liðnum misserum.

Það var t.d. skemmtilegt þegar Credit Suisse birti skýrslu um jarðvarma, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að orkuframleiðsla með jarðhita sé ódýrasta leiðin til að framleiða raforku. Þessi vinna ljúflinganna í Zurich er reyndar ekki gallalaus; t.d. eru þeir sennilega að vanmeta fjármagnskostnað við jarðhitavirkjanir og sömuleiðis skauta þeir nokkuð frjálslega framhjá rannsókna- og þróunarkostnaði. En niðurstaðan er engu að síður líkleg til að verða vatn á myllu jarðhitans.

Það vekur reyndar nokkra furðu að ekkert virðist hafa verið fjallað um þessa skýrslu frá Credit Suisse í íslenskum fjölmiðlum. En menn hafa kannski lítinn áhuga á jákvæðum fréttum hér á hinu vonlausa verðtryggða skeri.

credit_suisse_orkubloggid_geothermal.jpg

En þó svo fjölmiðlar þegi um þessa frétt, vita samt íslenskir sérfræðingar auðvitað af þessari skýrslu. Sbr. t.d. nýleg grein Odds Björnssonar hjá Verkís, þar sem hann bæði vitnar til Credit Sviss og annarrar nýlegrar skýrslu frá Alþjóðabankanum, sem einnig gefur jarðhitanum ágætiseinkunn. Einnig má benda lesendum Orkubloggsins á grein í Scientific American þar sem fjallað var um umrædda skýrslu Credit Suisse, sem er afar heit fyrir jarðvarmanum.

Til eru fleiri nýlegar erlendar skýrslur í ofurskjalasafni Orkubloggarans sem eru á sömu nótum; telja að jarðvarmi sé einhver álitlegasta og hagkvæmasta leiðin til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Það virðist því sem jarðhitinn sé hreinlega að verða funheitur og framtíð hans kunni að vera mjög björt.

Eftir klúðrið með REI og hrun Geysis Green Energy eru menn hér á Klakanum góða kannski svolítið hikandi að taka ný metnaðarfull skref með jarðhitaverkefni erlendis. Engu að síður er nú aftur að komast hreyfing á þessa hluti.

islandsbanki-geothermal-report-cover-2010.jpgÍslandsbanki er t.d. að endurreisa bankaþjónustu sína við jarðhitann vestur í Bandaríkjunum, en eftir fall Glitnis var ráðgjafaþjónusta bankans í New York á sviði jarðhita og sjávarútvegs seld. Fyrir stuttu gerðu svo nokkur íslensk fyrirtæki á sviði jarðvarmans með sér samstarfssamning vegna verkefna erlendis. Þar voru á ferðinni verkfræðistofurnar Mannvit, Efla og Verkís, Orkuveita Reykjavíkur, Jarðboranir, ÍSOR og arkitektastofurnar T.ark og Landslag.

Loks má nefna að Kínverjarnir sem hér voru staddir um daginn munu hafa skrifað undir viljayfirlýsingu við Enex um frekari verkefni austur í Kína. Hverju þetta allt saman skilar verður auðvitað bara að koma í ljós. En það er a.m.k. svo að íslensk jarðvarmaþekking virðist aftur vera komin á hreyfingu og vonandi á það eftir að vinda upp á sig. Sjálfur er Orkubloggarinn á því, að íslensku jarðhitafyrirtækin eigi fyrst og fremst að fókusera á hitaveitur. Samkeppnin í raforkuframleiðslunni er alveg svakalega mikil, en í hitaveituþekkingunni hafa Íslendingar tvímælalaust forskot.

Eitt það athyglisverðasta í sambandi við mögulega vitundarvakningu gagnvart jarðhitanum er kannski ráðstefna sem til stendur að halda hér á Íslandi síðar á árinu. Þar verður fjallað um íslenska jarðhitaþekkingu og hvernig Íslendingar geta skapað ný tækifæri í jarðhitageiranum ef rétt verður haldið á spöðunum.

porter-michael.jpgAð ráðstefnunni koma ekki minni spekingar en Christian Ketels 
frá Harvard og sjálfur Michael Porter, sem er flestum kunnur. Þeir koma báðir fjá Institute for Strategy and Competitiveness við Harvard Business School, sem er hluti af Harvard-háskólanum, og er væntanlega mikill fengur af því að þeir skuli sýna þessu verkefni áhuga.

Það er íslenska ráðgjafafyrirtækið Gekon sem á veg og vanda að skipulagningu þessarar ráðstefnu, sem mun eiga að fara fram í Reykjavík um það leyti sem vetur gengur í garð. Orkubloggarinn er vongóður um að þetta verði mikilvægt skref í átt að því að jarðhitaþekking Íslendinga skili okkur í framtíðinni mun meiri tækifærum en fram til þessa.

Það er Orkubloggaranum þó hulin ráðgáta af hverju Íslendingar hafa ekki löngu kynnt sig fyrir stærsta jarðhitafjárfesti heimsins. Sem er hið netta orkufyrirtæki Chevron. Chevron er með talsverða reynslu af jarðhita í Bandaríkjunum, en stærstur hluti af jarðvarmastarfsemi Chevron er í Asíu. T.a.m. eru jarðhitaverkefni á vegum fyrirtækis í eigu Chevron í Indónesíu upp á heil 630 MW. Og á Filippseyjum hefur annað fyrirtæki Chevron verið í álíka umsvifamiklum jarðhitaverkefnum (tæp 700 MW). Filippseyjar eru vel að merkja í öðru sæti yfir ríki heims með mest uppsett afl í jarðvarma, með tæp 2.000 MW og framleiða hátt í 20% allrar raforku sinnar með jarðhita (Bandaríkin tróna efst með um 3.000 MW - þessar tölur má sjá í glænýrri skýrslu samtaka jarðvarmafyrirtækja í Bandaríkjunum, útg. í maí s.l.).

chevron_logo.jpg

Ráðgert er að á næstunni undirriti Chevron nýjan langtímasamning við filippseysk stjórnvöld um fleiri jarðhitaverkefni í landinu. Sem sagt fullt af spennandi jarðhitasulli framundan hjá Chevron. Hvort Chevron hefur einhvern áhuga á íslenskri jarðhitaþekkingu er önnur saga. En væntanlega hafa menn tengdir Geysi Green Energy og Íslandsbanka kynnt fyrirhugaða sölu á hlutabréfum GGE í HS Orku fyrir Chevron? Áður en hlaupið var til og samið við Magma.

---------------------------------------

PS: Vegna nokkurra anna hjá Orkubloggaranum nú um hábjargræðistímann verður þetta síðasta færslan hér að sinni. Þannig að lesendur bloggsins geta nú tekið sér sumarfrí frá Orkublogginu... eða þá barrrasta dúllað sér við það næstu vikurnar að glugga í eldri færslur. Er ekki af nógu að taka?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst leiðinlegt hvað djúpborunarverkefnið virðist ganga hægt hér á landi. Það virðist allt hafa stöðvast eftir að menn boruðu niður á kviku við Kröflu árið 2008 að mig minnir. Ætli það sé ekki skortur á fjármagni.

Maður bindur miklar vonir við þetta verkefni. Ég veit þó ekki hvort maður er of bjartsýnn. Ef þetta myndi ganga vel þá væru komnar forsendur fyrir að flytja út mikla orku um sæstreng.

Páll F (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 20:13

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Illar tungur segja að það hafi verið pólítík sem réð því hvar var byrjað að bora. Þingmönnum NA-lands hafi tekist að fá verkefnið til Kröflu. En jarðfræðingar hafi margir álitið þetta vitlausasta staðinn. Af ástæðum sem nú eru orðnar öllum augljósar. Sel þetta ekki dýrar en...

Ketill Sigurjónsson, 28.6.2010 kl. 21:00

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Pólitík og aftur pólitík hvenær ætla menn að læra að við lifum ekki á pólitík!

Sigurður Haraldsson, 2.7.2010 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband