Markaðstorg orkunnar

Alltaf gaman að eignast skoðanabræður. Sá nýjasti virðist vera Ólafur Jóhann Ólafsson. Sem segir í Viðskiptablaðinu í dag: "Ég er ósammála því að umherfisvæn orka sé bóla.". Þetta er auðvitað hárrétt - það hefur enn ekki myndast bóla í renewables. En mig grunar þó, að hlutabréf í þessum geira muni hækka mikið á allra næstu árum. Þá kann að myndast bóla í þessum bransa - og þá verður gott að hafa komið tiltölulega snemma inn í geirann! Og nú er Ólafur Jóhann kominn i hluthafahóp Geysi Green Energy.

Að vísu er varla lengur neitt sérstaklega frumlegt að fjárfesta i endurnýjanlegri orku. Í fyrradag sagði Orkubloggið frá ómældum framtíðarmöguleikum vindorku á hafi úti (sbr. færslan "Dularfullu markaðslögmálin"). Svo virðist sem þeir hjá ofurfjárfestingasjóðnum Blackstone hafi rekið haukfrá augu sín í þetta blogg. Því í dag birtist orðrómur um að Blackstone hyggist setja einn milljarð evra í vindtúrbínuver utan við strönd Þýskalands. Þessu verður að sjálfsögðu gerð nánari skil fljótlega hér á Orkublogginu.

Olafur_Johann

Reyndar virðist fjárfesting Ólafs Jóhanns í Geysi Green Energy hafa verið nokkuð erfið fæðing. Man vel eftir fréttum frá því i fyrrahaust um að viðræður Ólafs Jóhanns og Goldman Sachs um að kaupa 8,5% í GGE væru "á lokastigi". Nú 10 mánuðum síðar er Goldman Sacks dottin úr skaftinu. Og nýju fjárfestarnir með samtals 6,5%.

En þetta hljóta að teljast góðar fréttir fyrir hluthafa GGE. Ólafur Jóhann er tvímælalaust langfremsti og reyndasti íslenski stjórnandinn og með gríðarleg sambönd í bandarísku viðskiptalífi.

Í sjálfu sér virðist GGE vera lítið annað en hlutabréfasjóður, sem fjárfestir i fyrirtækjum á sviði endurnýjanlegrar orku. Það er af nógum slíkum sjóðum að taka, ekki síst vestur í Bandaríkjunum. En af einhverjum ástæðum sér Ólafur Jóhann góð tækifæri í hlutabréfasafni GGE.

GGE-logo

Kannski hefur liðkað fyrir samningunum að þessi penny-stocks, sem GGE á i Western Geopower, eiga hugsanlega framtíð fyrir sér. Í maí s.l. komu nefnilega loks jákvæðar fréttir frá Western Geopower. Þess efnis að Northern California Power Agency hafi samið við Western Geopower um orkukaup næstu 20 árin. Samningurinn ku hljóða upp á 520 milljónir USD. GGE er sagður eiga 25% hlut í Western Geopower.

Reyndar er Western Geopower skráð á hlutabréfamarkaðnum í Toronto i Kanada. Þannig að Ólafi Jóhanni hefði verið í lófa lagið að eignast í því félagi með hlutbréfakaupum þar á markaðnum. Maður hlýtur því að álykta, að hann sé fyrst og fremst að horfa til eignarhluta GGE í íslensku félögunum. Sem mun vera allt hlutafé í Jarðborunum, 2/3 í Exorku, 73% í Enex og 1/3 í Enex China. Svo er jú GGE einn af eigendum Hitaveitu Suðurnesja, með 32%. Þarna liggja ýmis tækifæri.

Held ég muni fyrst eftir Ólafi Jóhanni þegar Guðni rektor í MR útvegaði honum frægan skólastyrk við Brandeis University. Og þar nam Ólafur eðlisfræði. Auðvitað voru það hæfileikar hans sjálfs sem útveguðu honum styrkinn. En Guðni hafði ákveðin sambönd inní Brandeis.

Ólafi var lýst sem "absolutely brilliant" af einum fremsta prófessor Brandeis; Stephan Berko. Sem hljómar bara nokkuð vel. Og það hlýtur að hafa verið mjög áhugavert að kynnast Berko - hann lenti sem bráðungur maður í fangabúðum nasista og varð síðar þekktur eðlisfræðingur í Bandaríkjunum.

Svo var Ólafur fljótlega kominn til Sony og stjarna hans reis hratt. Ástæða þess að hann fór til Sony, mun hafa verið sú að Berko reyndi allt hvað hann gat að fá Ólaf í doktorsnám við eðlisfræðideildina. Þegar það gekk ekki benti Berko gömlum nemanda sínum, Michael Schulhof, á þennan bráðefnilega dreng. Schulhof var þá forstjóri Sony í Bandaríkjunum og réð Ólaf med det samme.

Maður hafði auðvitað lesið helstu bækur pabba hans, Ólafs Jóhanns Sigurðssonar. Og las líka fyrstu bók Ólafs Jóhanns jr. af áfergju. Sú nefndist "Markaðstorg guðanna" og var hálfgerð glæpasaga. Ágætlega heppnuð fannst mér. En ég náði aldrei almennilega sambandi við þær skáldsögur hans sem á eftir komu.

time_warner_logo

Ólafur Jóhann varð síðar einn af þýðingarmestu stjórnendum Time-Warner samsteypunnar. Þar mun hann til að mynda vera yfir stefnumótun þessa risa fyrirtækis og ábyrgur fyrir yfirtökum og kaupum Time-Warner á öðrum fyrirtækjum. Áhrif hans og völd í bandaríska fjölmiðlaheiminum eru því bersýnilega mikil og er þá vægt til orða tekið.

Einhvern veginn var sem Íslendingar og íslenskir fjölmiðlar föttuðu ekki hversu miklum frama Ólafur Jóhann náði í bandarísku viðskiptalífi. T.d. miðað við endalausan eltingaleik fjölmiðla við ævintýri Jóns Ásgeirs í Bretlandi. Þarna hefur sennilega miklu skipt hógværð Ólafs Jóhanns og hversu ógjarn hann var á að trana sér fram. Enda fór stór hluti þjóðarinnar fljótlega að líta á hann sem rithöfund fremur en kaupsýslumann. En mér þykir sérstaklega gaman að sjá Ólaf Jóhann fara út úr Árvakri og setja stefnuna á græna orkugeirann. Því þar er aðal-bisness framtíðarinnar. 


mbl.is Verkefni GGE munu verða færri og stærri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband