Konungur Kaspíahafsins

Eurovision-2012-Baku-SOCAR-logo

Allt orkuáhugafólk sem horfði á Eurovosion-útsendinguna frá Bakú fyrr á þessu ári ætti að muna eftir lógóinu sem þar birtist í lokin. SOCAR!

SOCAR stendur fyrir State Oil Company of Azerbaijan Republic.Þarna er sem sagt á ferðinni ríkisolíufyrirtækið í Azerbaijan. Á frummálinu kallast félagið reyndar Azerbaycan Respublikasi Dövlat Neft Sirkati. En þetta ríkisrekna og hratt vaxandi olíufélag er hvarvetna þekkt undir heitinu og vörumerkinu SOCAR.  

SOCAR er um margt merkilegt félag. Það á dýpri og sögulegri rætur en flest önnur olífélög heimsins. Uppruna SOCAR er nefnilega að finna í olíufélögunum sem unnu olíuna við Bakú í upphafi 20. aldar. Þar voru tvö olíufélög stærst; annars vegar Shell í samkrulli með Rothschild-fjölskyldunni og hins vegar Branobel sem var að mestu í eigu Nóbel-fjölskyldunnar.

Baku-oil-fields-burning

Þegar bolsévíkkarnir náðu völdum í Bakú um og upp úr 1920 var allur olíuiðnaðurinn í Azerbaijan þjóðnýttur í nafni Sovétríkjanna og utan um herlegheitin var stofnað sovéska ríkisfyrirtækið Azerneft. Olíuiðnaðurinn í Azerbaijan hafði verið gríðarlega umsvifamikill og með yfirburðarstöðu á olíumörkuðunum í Evrópu. En í kommúnistabyltingunni var kveikt í flestum olíulindunum og olíuvinnslan við Bakú var áratugi að ná sér aftur á strik. Eftir ríkisvæðinguna lagðist olíuútflutningurinn frá Azerbaijan til Evrópu af og olían þaðan var eingöngu nýtt innan Sovétríkjanna.

Eftir því sem nýjar olíulindir fundust í Rússlandi (einkum í nágrenni Úralfjallanna) upp úr síðari heimsstyrjöldinni minnkaði áherslan á azerska olíuiðnaðinn. Þar að auki fóru olíulindirnar við Bakú nú mjög hnignandi. En það sem menn vissu ekki þá, var að undir botni hins furðulega landlukta Kaspíahafs, utan við Bakú, var að finna gríðarlegar olíu- og gaslindir. Og það eru þær lindir sem hafa gert hið nýlega sjálfstæða Azerbaijan að sannkölluðu olíuveldi. Og nú síðast að gasveldi.

Þegar Sovétríkin liðu undir lok upp úr 1990 hófst hröð einkavæðing rússneskra olíufyrirtækja. Stjórnendur hins nýsjálfstæða Azerbaijans héldu aftur á móti föstu taki um olíufyrirtækið Azerneft og annan ríkisrekstur í azerska olíuiðnaðinum.

Azerbaijan-heydar-aliyev-1

Ástandið í Bakú var reyndar afar ótryggt fyrstu árin eftir nýfengið sjálfstæðið og mikil ólga var í landinu; pólítísk átök og blóðugir bardagar. En á endanum var það gamall leiðtogi azerska kommúnistaflokksins, Heydar Aliyev, sem var kjörinn forseti landsins (1993). Fyrir tilstuðlan hans voru öll helstu orku- og gasfyrirtæki landsins (þ.á m. Azerneft) sameinuð í eitt risastórt ríkisfyrirtæki. Sem fékk nafnið Azerbaycan Respublikasi Dövlat Neft Sirkati og ensku skammstöfunina SOCAR.

Já - þannig varð SOCAR til. Og brátt var maður að nafni Ilham Aliyev orðinn aðstoðarforstjóri þessa mikilvæga ríkisorkufyrirtækis í Azerbaijan. Sá var einmitt - og er - sonur forsetans þáverandi; Heydar's Aliyev.

Azerbaijan-ilham-Mehriban Aliyeva

Ilham Aliyev gegndi stöðu aðstoðarforstjóra SOCAR í nær áratug eða allt þar til faðir hans lést árið 2003. Í forsetakosningunum sem þá fylgdu í kjölfarið var svo umræddur Ilham Aliyev kjörinn forseti landsins. Það eru því augljóslega sterk tengsl milli ríkisfyrirtækisins SOCAR og æðstu ráðamanna í Bakú og sömuleiðis að Aliyev-fjölskyldan hefur þarna afar öfluga stöðu.

Í dag er SOCAR sannkallað risafyrirtæki með meira en 60 þúsund starfsmenn og ársveltu upp á tugi milljarða dollara. Nákvæmar tölur liggja þó ekki fyrir, enda um að ræða ríkisfyrirtæki sem starfar í stórnmála- og viðskiptaumhverfi sem er nokkuð ólíkt því sem við eigum að venjast hér í norðri. Eitt er þó vist; SOCAR er geysilega umsvifamikið í efnahagslífi Azerbaijans og langmikilvægasta útflutningsfyrirtæki landsins.

Socar-Tower-Baku-night

Hátt olíuverð síðustu ár hefur skapað SOCAR miklar tekjur. Hluta af þeim auði er nú verið að nota í nýjar aðalstöðvar fyrirtækisins í Bakú. Þar mun brátt rísa gríðarlegur skrifstofuturn, sem fullkláraður mun teygja sig um 200 m yfir gömlu glæsibyggingarnar í borginni, líkt og risastór gaslogi.

Þetta verður ekki aðeins hæsta byggingin í Bakú, heldur í Kákasusríkjunum öllum. Þetta eru þó hreinir smámunir, því senn stendur til að byrja að reisa hæsta skýjakljúf heims þarna í nágrenninu. Sá er kallaður Azerbaijan Tower og verður eitt helsta táknið í nýrri milljón manna borg sem byggja á rétt suður af Bakú. Turninn sá verður um 190 hæðir, 1.050 m hár og kostnaðurinn er sagður verða um 2 milljarðar USD. Þar á líka að vera ný formúlu-1 braut og ýmislegt fleira, sem stórhuga Azerarnir eru nú að skipuleggja.

Azerbaijan-Oil-Contract-of-the-Century-signed-Azeri-Chirag-Guneshli-Caspian-Fields

Bakú er sem sagt borgin þar sem allt er að gerast. Og þar að baki stendur olíu- og gasgróðinn sem streymir um æðar SOCAR.

Hér í Vestrinu er SOCAR líklega þekktast fyrir að hafa verið lykilaðilinn í frægum samningi við nokkur vestræn olíufyrirtæki árið 1994. Samningurinn sá var um nýja olíuvinnslu djúpt úti á Kaspíahafi og var nefndur því hógværa nafni Samningur aldarinnar. Nafnið kom til af því að samtals hljóðaði fjárfestingin upp á um 13 milljarða USD. Á þeim tíma var þetta einhver allra stærsti olíuvinnslusamningur í heiminum. Erlendu félögin sem átti aðild að þessum risasamningi voru m.a. breska BP og bandaríska ExxonMobil (þá Exxon). Þar með voru vestræn olíufélög á ný komin í olíuna við Bakú - eftir um 75 ára bið!

BTC-pipeline-map

Með Samningi aldarinnar jókst mjög skriðurinn á olíuframleiðslunni í Azerbaijan og brátt tóku peningarnir að flæða um Bakú. En það var ekki bara nóg að framleiða; það þurfti líka að finna ráð til að koma þessari nýju olíu á markað. Lega Azerbaijan olli því að olíuskip geta ekki með góðu móti siglt með herlegheitin á markað og einu umtalsverðu olíuleðslurnar lágu til Rússlands. Því var gripið til þess ráðs að leggja nýja og gríðarlega langa olíuleiðslu allt vestur til Miðjarðarhafsins; Baku-Tibilisi-Ceyhan olíuleiðsluna eða BTC.

BTC-olíuleiðslan teygir sig rétt tæplega 1.800 km leið alla leið frá olíulindunum úti í lögsögu Azerbaijans í Kaspíahafinu, þvert austur yfir Azerbaijan, yfir fjalllendið til nágrannaríkisins Georgíu og loks gegnum Tyrkland og allt austur til tyrknesku hafnarborgarinnar Ceyhan við Miðjarðarhaf. Þaðan sigla svo tankskip í stríðum straumi með olíuna austur Miðjarðarhaf og til markaða á Vesturlöndum.

BTC-pipeline-construction

BTC-olíuleiðslan var sannkölluð tímamótaframkvæmd. Þetta er næstlengsta olíuleiðsla í heimi, hún kostaði heila 3 milljarða USD og getur flutt meira en milljón tunnur af olíu á dag. Síðan BTC-leiðslan opnaði árið 2006 hefur hún ekki aðeins verið afar mikilvæg fyrir tekjustreymi SOCAR, heldur er BTC einnig þokkalegasta tekjulind fyrir Georgíu og Tyrkland (sem fá greiðslur fyrir að leyfa að olíuleiðslan fari um þau lönd).

Fyrstu 15 árin hjá hinu nýsjálfstæða Azerbaijan var olían sem sagt mál málanna. En nú er annað sannkallað risaverkefni framundan í Azerbaijan. Sem er uppbygging á umfangsmikilli gasvinnslu og stóraukning í gasútflutningi.

Umrætt gasverkefni er ekki aðeins mikið áhugamál SOCAR og azerskra stjórnvalda, heldur líka eitt metnaðarfyllsta orkuverkefnið sem yfirstjórn Evrópusambandsins hefur horft til síðustu árin. Vandamálið er bara það að stjórnvöld hjá ESB í Brussel stunda hvorki gasvinnslu né leggja gasleiðslur - og allra síst austur til Mið-Asíu. Til þess þarf orkuiðnaðinn sjálfan. Og þar er ekki einungis um að ræða mögulega aðkomu evrópskra eða annarra vestrænna orkufyrirtækja. Því bæði rússnesk og kínversk ríkisfyrirtæki hafa líka mikinn áhuga á að tryggja sér aðgang að azerska gasinu úr iðrum Kaspíahafsins.

AZERBAIJAN-Shah-Deniz-Alpha-gas-production-platform-1

Gaslindirnar sem þarna er horft til liggja djúpt undir hafsbotninum utan við Kaspíahafsströnd Azerbaijan, um 70 km suðaustur af Bakú. Þarna er hafdýpið allt frá skitnum 50 m, en dýpsti hluti svæðisins er um 600 m. Svæðið hefur verið kallað því áhrifaríka nafni Konungur hafsins eða Shah Deniz á máli innfæddra.

Byrjað var að byggja upp gasvinnslu á svæðinu kennt við Shah Deniz um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar og fyrsta áfanganum þar var lokið árið 2006. Gasframleiðslan þarna nemur nú um 8-9 þúsund milljöðrum rúmmetra á ári. Þetta gas fer að mestu til Tyrklands, eftir gasleiðslu sem byggð var samhliða fyrsta spottanum á BTC-olíuleiðslunni. Gasleiðslan sú nefnist á ensku South Caucasus Pipeline og er rekin af BP, en við landamæri Georgíu og Tyrklands tengist hún tyrkneska gasdreifingarkerfinu.

Azerbaijan-Shah Deniz-development

Eftir meiri rannsóknir kom í ljós að Shah Deniz hefur að geyma miklu meira gas en áður hafði verið talið. Það var breski risinn BP sem sannreyndi ennþá stærri gaslindir á svæðinu og þær hafa einfaldlega verið nefndar Shah Deniz II. Og það er þetta gas sem Evrópusambandinu er umhugað að berist þar inn á borð, fremur en að það fari t.d. til Rússlands eða jafnvel til Kína.

Talið er að gaslindirnar kenndar við Shah Deniz II geri það að verkum að samanlögð framleiðsla á Shah Deniz muni á fáeinum árum þrefaldast; fari úr núverandi 8-9 milljörðum rúmmetra árlega og í ca. 25 milljarða rúmmetra. Og samtals er Shah Deniz talið hafa að geyma um 1.200 milljarðar rúmmetra af vinnanlegu gasi.

Þarna úti á Kaspíhafinu hafi menn sem sagt fundið gaslind sem flokkast sem ein af þeim tíu stærstu í veröldinni! Til samanburðar má nefna að þetta eina vinnslusvæði virðist hafa að geyma vinnanlegt gas sem nemur um helmingi allra gasbirgða í norsku lögsögunni (þ.e. í Norðursjó, Noregshafi OG Barentshafi). Það er talsvert!

EIA-Azerbaijan-Natiral-Gas-Production-and-Consumption-2010

Með öllu öðru gasi í lögsögu Azerbaijan er landið skyndilega komið í hóp þeirra ríkja sem hafa hvað mestar sannreyndar birgðir af gasi í jörðu. Þetta eru talsverðar fréttir og mun væntanlega koma SOCAR afar vel þegar gasið fer að streyma á markað. Kannski ekki síst í því ljósi að útlit er fyrir að olíuframleiðsla í Azerbaijan hafi þegar náð hámarki. Í sama mund og það gerðist, er Azerbaijan að verða meiriháttar gasframleiðandi.

Fjárfestingin í sjálfri vinnslunni á Shah Deniz II er áætluð litlir 15-20 milljarðar USD. Auk SOCAR og BP samanstendur hluthafahópurinn á Shah Deniz af rússneska Lukoil, íranska ríkisorkufyrirtækinu NICO, norska Statoil, franska Total og tyrkneska TPAO. BP og Statoil eru stærstu hluthafarnir með 51% hlutafjár og bera hitann og þungann af því að koma vinnslunni af stað og sjá til þess að gasið berist á áfangastað.

En það hefur dregist að koma framkvæmdum á fullt þarna á Shah Deniz II. Ástæða þess er ekki vandræði gagnvart því hvernig vinna eigi gasið, heldur það hversu illa hefur gengið að ákveða hvernig koma eigi öllu þessu gasi á áfangastað til kaupenda.

 Azerbaijan-Shah-Deniz-pipeline-options-map

Í nokkur ár hafa menn velkst með þá risatstóru spurningu hvert allt þetta gas eigi að streyma? Það hefur gengið hreint afleitlega að ljúka þessum þætti málsins. Þarna blandast hagsmunir olíufyrirtækjanna saman við pólítíska hagsmuni nokkurra helstu risavelda heimsins.

Það eru einkum Evrópusambandið og Rússland sem þarna hafa tekist á. Inn í þá umræðu hefur blandast viðkvæmt pólítískt ástand á Kákasussvæðinu. Loks hefur Kína staðið á hliðarlínunni. Kínversk stjórnvöld og kínversk orkufyrirtæki hafa í æ ríkari mæli sýnt azerska gasinu áhuga og vilja koma að lagningu gasleiðslu þvert eftir botni Kaspíahafsins. Þar með yrði unnt að flytja gas í miklu magna alla leið frá Azerbaijan og austur til Kína, en Kínverjar hafa nú þegar lagt gasleiðslur til gasríkjanna við austanvert Kaspíahaf.

Nabucco-gas-pipeline-route-map

Evrópusambandið hefur í mörg ár stutt dyggilega við það að byggð verði stór og mikil gasleiðsla sem tengi Evrópu við gaslindirnar í Azerbaijan. Gasleiðslan sem Evrópusambandið hefur lagt áherslu á að komi til með að rísa, hefur haft vinnuheitið Nabucco. Hún á að geta tekið við öllu gasinu frá nýju gaslindum Azera á Konungi hafsins og líka gasi frá nágrannasvæðum Azerbaijan. Til framtíðar er þar bæði horft til gass frá Íran og Írak og jafnvel líka frá löndunum austan Kaspíahafsins (einkum Túrkmenistan).

Europe-Russia-Natural-Gas-Dependency

Aðalhugsunin að baki Nabucco er fjölbreyttari birgjahópur, þ.e. að losa um gashramm Rússa á Evrópu. Í dag kemur um þriðjungur af gasinnflutningi ESB-ríkjanna frá Rússlandi og mörg Evrópuríkjanna fá meira en 80% af öllu sínu gasi frá Rússlandi. Innan ESB álíta margir stjornmálamenn það vera lykilatriði í orkustefnu sambandsins og aðildarríkjanna að minnka þetta vægi Rússa og fá aðgang að gasi frá fleiri ríkjum.

Sjálfir hafa Rússarnir í Kreml lagt sig eftir því að gasið frá Shah Deniz fari ekki beinustu leið vestur um Georgíu og Tyrkland og til ESB, heldur verði gasinu fyrst beint til Rússlands. Þá myndi leiðsla milli Azerbaijan og Evrópu ekki fara suður fyrir Svartahaf, heldur þar norður fyrir og inn á rússneskt landsvæði og loks þaðan vestur til Evrópu um gaslagnir rússneska gasfyrirtækisins Gazprom (sem rússnesk stjórnvöld ráða). Strategískt séð myndi þetta gefa Kremlarverjum tækifæri til að hafa áhrif á gasflæðið frá Azerbaijan. Að auki myndi rússneska ríkið taka gjald fyrir gasflutninginn frá Azerbaijan til ESB í gegnum rússneskt landsvæði og þannig fá þægilegar aukatekjur af gasinu.

Gas-Pipelins-Central-Asia-Map

Samkeppnin um aðgang að orkuauðlindum framtíðarinnar er hörð. Sem fyrr segir eru það ekki bara Rússar og ESB sem horfa til azerska gassins. Undanfarin ár hafa Kínverjar lagt stórar leiðslur sem flytja gas til Kína frá gaslindum í Túrkmenistan, Úzbekistan og Kazakhstan. Í dag er því staðan sú að einungis vantar neðansjávarleiðslu þvert eftir botni Kaspíahafsins til að tengja Kína við gasið frá Azerbaijan - og sú leiðsla er alls enginn vísindaskáldskapur heldur raunhæfur möguleiki innan nokkurra ára.

Fyrir um tveimur árum eða svo benti margt til þess að Nabucco myndi rísa. Hún skyldi byggð gegnum Tyrkland og liggja eftir Búlgaríu, Rúmeníu, Ungverjalandi og loks tengjast gasdreifikerfi Mið-Evrópu við Baumgarten í Austurríki. Þar með yrði tryggður aðgangur Evrópu að hinum nýju gaslindum Azera og ýmsum öðrum gaslindum í nágrenni Kaspíahafsins - og þá jafnvel lögð framlenging suður á bóginn til gasvinnslusvæði innan Íran og Írak.

Natural-Gas-Pipeline-photo

Vandamálið var bara að hugmyndin um Nabucco er sennilega full metnaðarfullt fyrir nútímann. Nabucco á að vera geyistór og geysilega dýr. Flutningsgetan sem miðað hefur verið við eru rúmlega 30 milljarðar rúmmetra af gasi árlega. Það er miklu meira magn en Azerbaijan gæti boðið Evrópu. Þess vegna myndi líka þurfa að fá sem fyrst tengingu t.d. til Íran eða Írak. Það er að öllum líkindum algerlega óraunsætt enn um sinn.

Fyrst og fremst hefur þó fjarað undan Nabucco vegna gríðarlegs kostnaðar (leiðslan myndi sennilega kosta um 15 milljarða USD) og minnkandi áhuga hluthafanna í verkefninu. Þýski orkurisinn RWE gegndi þungavigtarhlutverki sem fjárfestir í Nabucco, en fyrirtækið fékk þungt högg þegar þýsk stjórnvöld fyrirskipuðu lokun allra kjarnorkuvera í Þýskalandi. Fyrir vikið virðast líkurnar á að Nabucco rísi hafa minnkað talsvert í kjölfar umræddrar ákvöðrunar þýskra stjórnvalda um lokun kjarnorkuveranna í Þýskalandi.

Nabucco-leiðslan virðist sem sagt vera komin útí kuldann. Það þýðir ekki að áhugi hafa dofnað á azerska gasinu. Þvert á móti. Fjölmörg evrópsk orkufyrirtæki hafa slegist um að ná til azerska gassins með sínum eigin hugmyndum um gasleiðslur. Þar hafa einkum þrjár hugmyndir verið á teikniborðinu:

TANAP-signature

Tyrknesk stjórnvöld hafa reynt að tryggja sína hagsmuni með því að leita eftir samningum við Azerana hjá SOCAR um að leggja sérstaka leiðslu gegnum Tyrkland, sem svo gæti tengst evrópskri gasleiðslu. Þessi tyrkneska leiðsla hefur verið nefnd TANAP, sem stendur fyrir Trans-Anatolian Gas Pipeline. Samningaviðræður þarna á milli hafa gengið vel upp á síðkastið og nú er allt útlit fyrir að þetta verkefni verði að raunveruleika. En það þarf meira til að koma gasi til Evrópu.

TAP er önnur hugmynd, en sú skammstöfun stendur fyrir Trans-Adriatic Pipeline. Hún myndi liggja til Ítalíu og fara gegnum Tyrkland, Búlgaríu, Makedóníu og Albaníu. Helstu hluthafarnir að baki TAP eru þýska EOn, norska Statoil og svissneskt orkufyrirtæki.

BP hefur aftur á móti talið heppilegast að leggja leiðslu til Baumgarten, en álítur að Nabucco sé of stór. Þess vegna hefur BP kynnt hugmynd að minni leiðslu sem kölluð er SEEP. Sú skammstöfun stendur fyrir South East Europe Pipeline.

Nabucco-West-Pipeline-Map

Allra síðasta vendingin er svo hugmynd sem virðist ætla að sameina sjónarmið margra og jafnvel flestra hagsmunaaðila og hefur verið nefnd Nabucco West. Þar er um að ræða e.k. miniútgáfa af hugmyndinni um Nabucco (með endastöð í Baumgarten), sem muni tengjast áðurnefndri TANAP.

Bæði BP og Statoil virðast styðja hugmyndina um Nabucco West, svo og hluthafarnir í Nabucco (nokkur stór þýsk orkufyrirtæki eru m.a. í þeim hópi). Og bæði SOCAR og Tyrkirnir virðast sáttir við framsetninguna (því TANAP er hluti af lausninni). Að auki hefur framkvæmdastjórn ESB fagnað þessari nýjustu hugmynd.

Turkmenistan-China-Gas-Pipeline-Deal

Ennþó er þó margt á huldu um þetta útspil. Hugmyndin virðist gera ráð fyrir því að flutningsgeta Nabucco West verði einungis um þriðjungur af því sem hin upprunalega Nabucco átti að vera (þ.e. um 10 milljarðar rúmmetra á ári í stað rúmlega 30 milljarða rúmmetra). Það er vissulega meira í takt við raunverulega framleiðslu á Shah Deniz II. En það er líka nokkuð  augljóst að hjá ESB telja menn afar mikilvægt að sem fyrst verði einnig ráðist í uppbyggingu á gasleiðslu þvert yfir Kaspíahafið, milli Azerbaijan og Túrkmenistan. Nabucco West er því kannski í reynd bara niðurstaða sem ESB fagnar til þess eins að koma einhverjum leiðsluframkvæmdum af stað í átt til Azerbaijan.

EU-Iran-Natural-Gas

Gasævintýrið í Mið-Asíu er bara rétt að byrja. Þar mun Konungur Kaspíahafsins leika stórt hlutverk. En brátt kemur að því að Evrópa mun einnig huga að tengingum við lönd austan og sunnan Kaspíahafsins og leita eftir gasviðskiptum við einræðisstjórnirnar í Túrkmenistan og Íran. Hvort þetta eru eftirsóknarverðir viðskiptafélagar fyrir Evrópu er svo önnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Skemmtilegt og fróðlegt að vanda Ketill, rétt eins og nýleg grein þín um sæstreng. Takk!

Ólafur Eiríksson, 26.11.2012 kl. 17:11

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Mjög áhugaverð færsla, sérstaklega m.t.t. Hinnar óseðjandi þarfar Evrópu a utanaðkomandi orku.

Ragnhildur Kolka, 27.11.2012 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband