Norskt þórín

Olían hækkaði í gær. En ég get lofað því að staða mála í Georgíu hefur þar engin áhrif. Þeir atburðir eru löngu komnir inní verðið. Líklega er hin raunverulega ástæða verðhækkunarinnar, grunur um að birgðastaðan í Bandaríkjunum hafi lækkað. Kemur í ljós eftir nokkra klukkutíma.

En í dag ætlar Orkubloggið að loks að ljúka umfjöllun um ráðagerðir í Noregi um að reisa þórín-kjarnorkuver.

Eins og allir vita eiga Norðmenn ógrynni af olíu, gasi og vatnsafi. Sönn orkuþjóð. Það sem kannski færri vita er að Norðmenn standa líka framarlega í kjarnorkurannsóknum. Þeir voru í fararbroddi í framleiðslu á þungavatni, sem síðar varð einn af lykilþáttunum í kjarnorkuvinnslu. Hér gæti Orkubloggið auðveldlega gleymt sér í því að lýsa dásemdum þess hvernig þungavatn er notað. En forðumst það í bili. Þess í stað skulum við beina athyglinni að því, að hugsanlega verða Norðmenn í fararbroddi nýrrar kjarnorkutækni. Sem mun byggja á þóríni í stað úrans. Tækni sem hefur marga jákvæða kosti, eins og t.d. var lýst í færslunni "Þrumuguðinn";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/608681/

norway_halden_nuclear_2

Í nærri 60 ár hefur nú verið rekin alþjóðleg kjarnorku-rannsóknastöð í Noregi. Í nágrenni við Lilleström. Og þar hefur  verið byggður kjarnakljúfur, sem senn kann að verða notaður til að gera tilraunir með nýtt eldsneyti: Þórín.

Einnig var nýlega lokið við yfirgripsmikla athugun, á vegum norskra stjórnvalda, á því hvort Norðmenn eigi að setja enn meiri kraft í kjarnorkurannsóknir sínar. Og hreinlega byggja sérstakt þórín-kjarnorkuver. Niðurstaðan, sem birt var í febrúar s.l. (2008), var að enn væri of mikil óvissa um framtíðarmöguleika þóríns, sem kjarnorkueldsneytis. Þess í stað sé rétt að hefja vinnu við að kortleggja nákvæmlega þórínsvæðin í Noregi. Þórínbirgðir í Noregi eru áætlaðar með hinum mestu í heiminum og fyrsta skrefið sé að afla nákvæmari upplýsinga þar um.

thorium_russia

Þannig að enn er nokkuð langt í að kjarnorkudraumurinn rætist í Noregi. En ekki er unnt að segja bless við norska þórínið, nema fyrst minnast á Norðmanninn Egil Lillestöl. Lærifaðir hans er einmitt ítalski eðlisfræðingurinn Carlo Rubbia. Sem Orkubloggið hefur áður minnst á. Egill þessi er einn harðasti talsmaður þess að Norðmenn eigi að verða frumkvöðlar í nýtingu þórín-tækninnar. Þetta sé eina tæknin sem að einhverju marki geti leyst af hólmi rafmagnsframleiðslu með olíu og kolum - með tiltölulega öruggum hætti. Og ekki sé eftir neinu að bíða!

Lillestöl er eðlisfræðiprófessor við Háskólann í Bergen og sérfræðingur hjá átómrannsóknastöðinni í CERN. Vísindamennirnir í CERN munu einmitt brátt setja af stað nýja hraðalinn sinn. Sbr. þetta alræmda myndband - sem sýnir hvernig hraðallinn kunni að valda heimsenda og gera jörðina að svartholi. Alltaf gaman að frumlegum heimsendaspám:

 

 


mbl.is Hráolían í tæpum 114 dölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband