Af heimabruggi og Nóbelsverðlaunum

rex_tillerson_exxonmobil.jpg

Hvað  eiga Rex, Craig og Kári sameiginlegt?

Rex Tillerson, forstjóri ExxonMobil, var einhverju sinni spurður útí það hvort olíurisinn  hygðist ekki brátt fara að hasla sér völl í etanóliðnaðinum. Rex er sagður hafa  fussað. Og svarað því til að hjá Exxon væru menn með betri smekk en svo að þeir færu að sulla með eitthvert heimabrugg!

Blessað  etanólið var lengi vel ekki hátt skrifað hjá alvöru olíugæjum. Sannir karlmenn dæla auðvitað bara óblönduðu bensíni á jeppann og hananú. En heimur versnandi fer. Nú hefur frést af því, að meira að segja Rex og félagar hans séu dottnir í etanólið. Í sumar sem leið setti ExxonMobil nefnilega litlar 600 milljónir dollara í Synthetic Genomics. Sem ætlar að framleiða etanól með algerlega nýrri tækni.

brutus_caesar_et_tu_brute_2.jpg

Et  tu Brute!  Það að ExxonMobil væri dottið í etanólið þóttu óneitanlega  talsverðar fréttir í bransanum. Það hefur gengið á ýmsu í etanóliðnaðinum  síðustu misserin og árin - og menn dreymt um þegar sjálfir olíurisarnir myndu af alvöru byrja að fjárfesta í etanólinu. Aðkoma slíkra megakvikinda er í reynd nánast lykilatriði til að koma etanólinu úr korninu og yfir í annarrar, þriðju að ég tali nú ekki um fjórðu kynslóðar lífmassaeldsneyti. 

Mikið hefur áunnist í þeirri tækni að búa til etanól úr sellulósa (annarrar kynslóðar etanól) og nú eru menn farnir að sjá það sem raunverulegan möguleika að fara alla leið yfir í þörungasullið (þriðja kynslóðin). Að geta dælt fljótandi þörungum á Boeingþoturnar gæti valdið hreinni byltingu í eldsneytisiðnaðinum.

synthetic_bacteria_purple.jpg

Það virðist hreinlega enginn endir á hugkvæmni manna í að þróa eldsneyti. Og nú eru vísindamenn farnir að hugsa enn lengra en að nota þörunga sem uppistöðu fyrir fljótandi eldsneyti.

Það er sú tækni að nota bakteríur eða aðrar örverur til eldsneytisframleiðslu og er þá talað um fjórðu kynslóðar lífefnaeldsneyti (til að greina þetta frá þeim sem eingöngu horfa til þörunga). Þá væri eldsneytisvandi heimsins líklega leystur í eitt skipti fyrir öll og sá sem kemur því í framkvæmd gæti átt góðan séns á Nóbelsverðlaunum. Jafnvel þreföldum verðlaunum; í efnafræði, læknisfræði og friðarverðlaunin í bónus!

venter_craig.jpg

Þarna gæti verið frábært tækifæri fyrir okkar greindasta vísindamann. Nú þegar Decode er búið að fara eina leiðinda veltu,væri lógískt að Kári Stefánsson  snéri sér frá tærum erfðavísindum og og smellti sér þess í stað yfir í lífmassaeldsneytið. Munum að heilinn á bak við líftæknisullið hjá Synthetic Genomics er sjálfur Kjarnsýrukonungurinn Craig Venter; meistarinn á bak við Celera-verkefnið alræmda. Sem þurfti, eins og kunnugt er, að láta í minni pokann fyrir Human Genome Project (HGP).

Celera fór eins og það fór. En Venter veit að þekking hans á líftækni getur orðið til þess að finna nýjar leiðir til að framleiða ódýrt, hagkvæmt, fljótandi eldsneyti. Nú ætti Kári Stefánsson tvímælalaust að taka Venter sér til fyrirmyndar og láta gott af sér leiða í töfrandi heimi lífefnaeldsneytisins.

Þar er sko ekki um að ræða eitthvert apótekarasmotterí eins og þetta Decode-dæmi. Nei - nú er tækifæri fyrir Kára Stefánsson að fara alla leið og gera Ísland orkusjálfstætt. Og um leið finna nýja lausn fyrir alþjóðlega eldsneytisgeirann eins og hann leggur sig. Hvort það verður íslenskur þörungalífmassi, lífhráolía eða fjórðu kynslóðar lífefnaeldsneyti verður svo barrrasta að koma í ljós.

time_top100-2007_cover.jpg

Nú halda örugglega einhverjir fýlupokar að Orkubloggarinn sé bara að gera gys. Ekki aldeilis. Minnumst þess að frumkvöðlarnir Craig Venter og Kári Stefánsson voru báðir á lista Time 2007. Yfir 100 mikilvægustu eða áhrifamestu einstaklingana í heiminum (most influential people in the world). Svo skemmtilega vill til að þar voru þeir báðir á nítján manna listanum yfir mestu vísindamenn og hugsuði veraldarinnar (scientists & thinkers) og báðir með mikla þekkingu á líftækni.

Það er m.ö.o. ekki langt milli erfðavísindanna, líftækninnar og eldsneytisiðnaðar framtíðarinnar Orkubloggarinn hefur fulla trú á Kára Stefánssyni, þrátt fyrir að Decode hafi reynst þyngra að ná markmiðum sínum en upphaflega var ráðgert. Hugmyndin þar að baki var snjöll. En nú ætti Kári að fara í alvöru bissness; eldsneytisiðnaðinn. Þá gæti verið að við Íslendingar eignuðumst brátt annan Nóbelsverðlaunahafann okkar.

Þar að auk er Kári örugglega einn örfárra Íslendinga sem mögulega gæti fangað athygli manna eins og Rex Tillerson hjá ExxonMobil eða t.d. Tony Hayward hjá BP. Og það dásamlega við lífefnaeldsneytið er að það smellpassar inní strúktúrinn hjá olíurisunum. Miklu betur en að fara útí fjarskylda orkutækni, eins og eitthvert rafmagnsbílarugl eða vindorkuver.

kari_stefansson_decode.jpg

Olíurisarnir vinna ekki með hverjum sem er og eru afar picky á samstarfsaðila. Að mati Orkubloggsins gæti slíkt samstarf milli Kára Stefánssonar og einhvers olíurisa með grænar væntingar, orðið afar farsælt. Að því gefnu auðvitað, að fyrir hendi væri stuðpúði sem þeir gætu hvor um sig barið á þegar upp úr syði. Orkubloggarinn býður sig auðvitað fram í það - þó svo bloggarinn muni líklega seint teljast þykkur eða mjúkur!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. er það réttur skilningur hjá mér að Decode (Íslenskerfðagreining) sé eitt af þekktustu líftæknifyrirtækjum sem hafa verið stofnsett?

Kv. þórarinn

Þórarinn Ásmundsson (IP-tala skráð) 5.1.2010 kl. 21:56

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Nah...tæplega hægt að segja það. En ég er samt hrifinn af Kára!

Ketill Sigurjónsson, 5.1.2010 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband