Forsetar láta sig dreyma

Í dag birtist fyrsta færsla gjörbreytts Orkubloggs! Í stað þess að birtast reglulega á sunnudögum verður Orkubloggið héðan í frá með óreglulegar færslur - sem þó munu væntanlega almennt birtast á mánudögum. Önnur breyting er sú að færslurnar verða mun styttri en verið hefur og meira í líkingu við það sem var í upphafi Orkubloggsins árið 2008. En að færslu dagsins:

------------------------------ 

Obama forseti var nýverið að árétta metnaðarfull markmið sín í orkumálum. Þess efnis að stórauka nýtingu á endurnýjanlegum orkuauðlindum OG stórminnka þörf Bandaríkjanna fyrir innflutta olíu. Það skemmtilegasta er auðvitað að þessi ofurgræna orkustefna felst einkum í tveimur grundvallaratriðum. Annars vegar að byggja fjölda nýrra kjarnorkuvera. Kjarnorkuver losa jú engar gróðurhúsalofttegundir og eru þess vegna allt í einu orðin alveg skærgræn! Hins vegar ætla Bandaríkjamenn að þróa hrein kolaorkuver; Clean Coal. Sem felst í því að taka útblásturinn frá kolaorkuverunum og dæla honum niður í jörðina.

jon-stewart_oil-independence.pngÞað á sem sagt að grafa skítinn í jörðu. Og væntanlega setja kjarnorkuúrganginn í einhverja fjallahella. Dúndrandi grænt! Sannleikurinn er sá að Bandaríkin sjá enga von um að geta snúið frá olíuknúnum hagvexti. Þrátt fyrir mikinn uppgang í bæði vind- og sólarorku blasir ekkert annað við en að jarðefnaeldsneyti verði áfram grundvöllurinn að efnahagskerfi Bandaríkjanna. 

Þar á bæ hafa forsetarnir í áratugi tuggið sömu klisjuna um að gera landið orkusjálfstætt. Og umhverfisvænna. Það magnaða er að líklega var það hrappurinn Nixon sem tók mörg grænustu skrefin. Eins og háðfuglinn Jon Stewart bendir á í þessu bráðskemmtilega myndbandi. Hvet alla til að horfa á og njóta!

 ------

PS: Linkurinn á Jon Stewart virðist hættur að virka. En nú er myndbandið komið á YouTube (að vísu speglað!:

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hvar værum við stödd er húmor væri ekki einn af eiginleikum mannskepnunnar?

Ragnhildur Kolka, 7.2.2011 kl. 11:40

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

snilldar húmor :)

Óskar Þorkelsson, 7.2.2011 kl. 19:51

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég held ég hafi hlegið samfleytt í sjö daga, þegar þetta birtist.

Það sorglega við orkustefnu Obama er að enginn virðist treysta sér til að fjármagna kjarnorkuver í US - vegna þess að þau geta ekki keppt við gasorkuverin. Og Clean Coal eru draumórar.

Ketill Sigurjónsson, 7.2.2011 kl. 21:44

4 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Svo er spurning hvort blessaðir forsetarnir hafa nokkuð með þetta að gera. Olíuiðnaðurinn er blómlegur og græðir á tá og fingri, fjármálaheimurinn græðir líka á olíunni. Svo ekki sé nú talað um heriðnaðinn. Hvers vegna að farga mjólkurkúnni á meðan hún mjólkar vel.

Þegar olían er búin þá geta þessir karlar snúið sér að einhverju öðru. Og ekki fara þeir að láta einhverja karla sem eru kosnir til 4urra ára, og þurfa að eyða tveim af þeim til að ná endurkjöri, segja sér fyrir verkum.

Sigurjón Jónsson, 8.2.2011 kl. 14:17

5 identicon

Orkubloggið lifir...Húrra x 4

.

Annars...hvers megum við vænta?

http://www.guardian.co.uk/business/2011/feb/08/saudi-oil-reserves-overstated-wikileaks

einsi (IP-tala skráð) 9.2.2011 kl. 12:18

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Orkubloggið lifir í mýflugumynd.

Þessi frétt hjá Guardian er halfgerð ekki-frétt. Þ.e.a.s. ekki mjög frumlegt að vitna í einhver skjöl um samtöl við Sadad Al-Hussein, sem hefur verið iðinn við að boða þetta "fagnaðarerindi" í mörg ár, bæði í viðtölum og á ráðstefnum. Enn hefur ekkert borið á skertu framboði frá Sádunum, en vissulega fer þeim vaxandi sem segja þá nálægt hámarksframboði. En allt eru þetta ágiskanir. Þar að auki munu Vesturlönd fara létt með að þola talsvert hærra olíuverð. Meira áhyggjuefni fyrir t.d. SA-Asíu, Indland og önnur þróunarlönd.

Ketill Sigurjónsson, 9.2.2011 kl. 13:10

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

En vel að merkja EF olíuframboð nær ekki að haldi í við eftirspurnina er gott að hafa undirbúið sig. Þess vegna ætti Ísland að leggja mikla áherslu á að minnka olíuþörf sína. Ísland er stærsti raforkuframleiðandi heims (per capita) og öll kemur sú raforku frá endurnýjanlegum orkulindum. Þessa orku getum við notað til að framleiða innlent eldsneyti.

Ketill Sigurjónsson, 9.2.2011 kl. 13:24

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vissulega húmor hjá Stewart, en óttalegur "Besservisser" (smart ass)

"Græningjar" hafa barist harðast gegn kjarnorkuverum og e.t.v. tafið þróun í öryggi og hagkvæmni. EF kjarnorkan er örugg, þá er hún auðvitað frábær kostur.

Þetta með "hrein kol" er einnig áhugaverð hugmynd og ef ég man rétt, eru íslenskir vísindamenn framarlega á heimsvísu í þeim bollaleggingum. Ef það er hægt að farga kjarnorkuúrgangi á öruggan hátt, því ekki CO2?

Mér líst vel á að þú styttir pistlana þína, Ketill.  Margt áhugavert sem þú hefur fram að færa.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2011 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband