Vofa Leópolds konungs

icesave_logo"Landsbankinn - banki allra landsmanna"!

Einhvern veginn þannig hljómaði slagorð Landsbankans, ef Orkubloggarinn man rétt. Nú stefnir allt í að Alþingi samþykki Icesave-samninginn og komi þessu slagorði loks í framkvæmd. Geri skuldir Landsbankans að skuldum allra landsmanna.

Orkubloggarinn og einhverjir fleiri hafa verið að væla undan því að Ísland beri enga ábyrgð á Icesave og eigi ekki að láta þvinga sig til slíkrar ábyrgðar. Hér var komið á fót innistæðutryggingakerfi í samræmi við tilskipun ESB og þar með hafði íslenska ríkið uppfyllt skyldur sínar gagnvart Icesave og öðrum innistæðum í íslensku bönkunum.

LeopoldÞað vesæla ESB-kerfi reynist ónóg trygging og þess vegna ákváðu gömlu nýlenduveldin Bretland og Holland að taka upp fyrri siði. Láta aðrar þjóðir borga fyrir heimsku þeirra sjálfra. Með aðferð sem Leópold Belgíukonungur, helsta ímynd nýlendukúgunarinnar, hefði fílað í tætlur.

Þessi atburðarás er sumpart skiljanleg. Þessar gömlu siglingaþjóðir hafa löngu glatað forystuhlutverki sínu í veröldinni og eru nú eins og hvert annað gjaldþrota elliheimili á beinni leið til glötunar. Hefði niðurstaðan ekki orðið sú, að láta Ísland bera ábyrgð á Icesave, hefði það í raun verið viðurkenning á því að allt bankakerfi Evrópusambandsins væri byggt á sandi. Sem hugsanlega hefði valdið áhlaupi á flesta ef ekki alla banka innan ESB og þar með algeru fjármálahruni innan sambandsins.

Já - mikill er máttur Icesave. Stórþjóðirnar urðu að hylja sannleikann, með afarkostum til handa Íslandi. Viðhalda blekkingunni um að bankakerfi Evrópu standi traustum fótum. Fjármálakerfi ESB er nefnilega í lítið skárri stöðu en orkumál sambandsins. Allt kolsvart og græna, fallega ásýndin tóm blekking. Meira að segja Danir, sem álfurinn hann Anders Fogh segir búa í hinum græna orkudal Evrópu eru algerlega háðir kolaorku og vindorkan þeirra mest punt. Eru sannir Surtar rétt eins og aðrar þjóðir innan ESB.

Þar að auki hafa þessi ríki góða æfingu í að láta heimsku ráðmanna og yfirstéttar bitna á almúganum. Besta dæmið eru auðvitað Versalasamningarnir í lok skotgrafastríðsins mikla í Evrópu 1914-18. Þá var þýska þjóðin gerð fjárhagslega ábyrg fyrir skelfingum, sem Þýskalandskeisari og brjálaðir pótintátar hans ollu evrópskum nágrönnum sínum í heimsstyrjöldinni fyrri. Og bundin í skuldafjötra, sem hlóðu undir ofstæki og uppgang Nasismans.

Bjorgolfur_i_myrkri

Nú ætla gömlu Evrópuþjóðirnar við Norðursjó í krafti aðstöðu sinnar að skuldbinda íslensku þjóðina fyrir misgjörðir bankadólga. Þeir landar Orkubloggarans sem eru skilningsríkastir gagnvart aðgerðum Breta og Hollendinga, benda á að með neyðarlögunum alræmdu hafi íslenskir innistæðueigendur verið teknir fram fyrir útlenda. Icesave-eigendurnir í útlöndum voru m.ö.o. skildir eftir útí á ísnum meðan íslenskum fjármagnseigendum var komið í skjól. Það hafi verið óeðlilegt og réttlæti viðbrögð Evrópuríkjanna.

Þetta er kannski sanngjörn ábending. Augljóst má vera að þeir sem áttu innistæður í útibúunum hér á landi voru fyrst og fremst Íslendingar og því má segja að neyðarlögin hafi hyglað Íslendingum á kostnað útlendinganna. En ef Bretar og Hollendingar eru eitthvað ósáttir við neyðarlögin er þeim í lófa lagið að sækja rétt sinn. Fyrir dómstólum. Stjórnvöld þessara ríkja virðast hafa með öllu gleymt því að ekki á að beita þvingunum og hótunum í samskiptum siðaðra ríkja. Ef einhver réttarágreiningur er uppi um neyðarlögin verða Bretland og Holland einfaldlega að leggja það mál fyrir dóm. En ekki beita íslensku þjóðina efnahagslegu ofbeldi.

Íslenskir stjórnmálamenn geta ekki leyft sér að gefast upp gagnvart svona ofríki. Ef það blasir við "að lausn á Icesave sé ein af forsendum þess að lánafyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og norrænna seðlabanka verði afgreidd", eins og haft er eftir Steingrími fjármálaráðherra, verður einfaldlega að koma vitinu fyrir þá hjá AGS og norrænu seðlabönkunum.

Ef íslensk stjórnvöld hefðu í gegnum tíðina valið uppgjafarleiðina, værum við núna í mesta lagi með 3 sjómílna fiskveiðilögsögu. Gleymum því ekki hvernig Bretar hegðuðu sér þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsögu sína árið 1952. Úr 3 í 4 sjómílur. Löndunarbann var sett á íslenskan fisk í breskum höfnum og þannig reynt að kúga Ísland til að afturkalla ákvörðunina. Bretar töldu sig eiga fullan rétt á að ryksuga upp þorskinn við Ísland og að Íslendingum kæmi það ekki við. Nú eins og þá verða íslensk stjórnvöld að sýna staðfestu.

cartoon_Gordon_BrownSorglegt er að breskir stjórnmálamenn skuli ekkert hafa skánað á þeirri rúmlega hálfu öld sem liðin er frá fyrsta þorskastríði íslenska lýðveldisins. Því miður eru Gordon Brown og félagar ekki í hópi siðaðra stjórnmálamanna. Nú eru Íslendingar þvingaðir í skjóli viðskiptahótana til að taka á sig ábyrgð af gjaldþroti banka, sem var í eigu einkaaðila og ekki með neinum hætti á ábyrgð íslensku þjóðarinnar né starfaði bankinn í umboði hennar. Þetta var banki sem tveir feðgar réðu yfir og til að framkvæma vilja þeirra höfðu þeir ráðið tvo bankastjóra til að stýra bankanum. Þeir stýrðu honum í þrot.

Einhverjum kann reyndar að þykja það full dramatískt hjá Orkublogginu - og jafnvel ósæmilegt - að líkja Icesave-niðurstöðunni við Versalasamningana. Og þar með bera stöðu Íslands saman við vonleysi Weimar-lýðveldisins. Og þar að auki voga sér að nefna brjálæðinginn Leópold Belgíukonung í tengslum við þetta lítilfjörlega peningamál. En í alvöru talað; það er varla hægt að trúa því að íslenska þjóðin skuli beitt slíkum þvingunum af hálfu stjórnvalda Vestur-Evrópskra ríkja, eins og gerst hefur í Icesave-málinu.

ESB-löggjöfin um tryggingasjóð innistæðueigenda var einfaldlega gölluð. Ísland hvorki ber né bar lagalega ábyrgð umfram það að koma hér á fót slíkum sjóði. Það að sá sjóður reyndist alltof lítill til að mæta falli Landsbankans í Bretlandi og á meginlandi Evrópu, er aftur á móti ekki á ábyrgð íslenska ríkisins. Hvað þá íslensku þjóðarinnar.

Germany_swallowing_versaillesOg neyðarlögin geta ekki talist andstæð réttarreglum Evrópska efnahagssvæðisins, nema að þar til bærir dómstólar komist fyrst að slíkri niðurstöðu. Allt annað er refsing án dóms og laga. Þvingun í krafti aflsmunar. Þess vegna tekur Orkubloggið undir með Sigurði Líndal, sem kemst þannig að orði í frétt  Morgunblaðsins fyrr í vikunni:

„Mér finnst óskiljanlegt að ekki skuli hægt að leggja málið fyrir dóm... Mér finnst að við hljótum að eiga rétt á því, það hlýtur að vera hægt að koma á fót slíkum dómstóli og menn ættu að geta sæst á það. Ég segi fyrir mig, ef ég á að svara hreinskilnislega; ég vil frekar tapa málinu þannig að réttarstaðan væri skýr en að vera í þessari óvissu og láta gagnaðilana einhliða ákvarða skyldur okkur.“

landsbankinn_logo_allra_landsmannaEn svo eru þeir sem vilja að Landsbankinn verði loks að "banka allra landsmanna"? Eða öllu heldur umbreyta lógóinu: "Landsbankinn - skuldir allra landsmanna".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ketill. Takk fyrir mjög góða skilgreiningu á málinu.Hvet alla til að lesa þetta.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 09:58

2 identicon

Það er ógerlegt að færa lagarök fyrir því að íslenska ríkið beri ábyrgð á innistæðutryggingum umfram það að sjá til þess að slíku kerfi sé komið á fót. Það finnst mér alveg skýrt.

En svo vitum við að rök af lögfræðilegum toga skipta litlu máli gagnvart pólitískum raunveruleika. Hún Ingibjörg Sólrún hefur nú viðurkennt það sem var svosem alltaf augljóst: að evróputilskipunin sé gölluð og að ESB-ríkin sæki málið hart til þess að brestirnir opinberist ekki og kippi fótunum undan öllu fjármálakerfi álfunnar.

Svo draga menn siðferði inn í málið, eins og Þorvaldur Gylfason. Ég er að einhverju leyti sammála þó að ég skilji ekki þá sjálfspíningarhvöt sem felst í því að ætla Íslendingum 100% ábyrgð á klúðrinu þegar augljóst er að ábyrgðin liggur víðar. Það sem íslensk stjórnvöld ættu að gera og hefðu átt að gera strax í haust er að leggja höfuðáherslu á að innistæðueigendur sem urðu fyrir tjóni fái sitt tjón bætt eftir einhverjum leiðum og eiga frumkvæðið að því að stinga upp á leiðum til þess að koma því í kring án þess að íslenskum efnahag sé tortímt í leiðinni. Það verður að ná samningum um að deila ábyrgðinni. Varðandi Icesave sérstaklega þá bera hollensk og bresk yfirvöld  líka að hluta ábyrgð á því að hafa leyft reikningunum að þenjast út. Varðandi gallað EES-regluverk bera öll aðildarríki EES og framkvæmdastjórn ESB ábyrgð. Ef evrópuþjóðum er alvara með því að breiða yfir gallana í regluverkinu þá þurfa þær að taka þátt í kostnaðinum, mér finnst það blasa við.

Semsagt: Icesave-samkomulagið sem á að leggja fyrir þingið er eins slæmt og það getur mögulega orðið og það má ekki samþykkja það í þessari mynd. Það er samt frekar óraunhæft að ætla að leggja málið fyrir einhverskonar dóm. Málið verður aðeins leyst með samningum og þar verður Ísland því miður að fallast á að bera hluta af byrðunum. Íslensk stjórnvöld verða að nálgast slíka samninga frá því sjónarmiði að innistæðueigendur fái tjón sitt bætt en jafnframt leggja áherslu á að Ísland einfaldlega geti ekki borið þessar byrðar eitt auk þess sem það væri ósanngjarnt í ljósi þess að það ber ekki eitt ábyrgð á klúðrinu.

Bjarki (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 11:19

3 Smámynd: Jón Þór Helgason

Sælir

ég er með þá lausn á vandamálinu að fara í mál við ESB vegna gallaða regla sem sköðuðu þessar þrjár þjóðir.

ég skil vel Hollendinga og Breta, en ESB virðist sleppa frá öllu þessu rugli án þess að þura að taka ábygð.

kv.

Jón Þór Helgason

Jón Þór Helgason, 25.6.2009 kl. 14:59

4 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Frábær samantekt hjá þér

Ævar Rafn Kjartansson, 25.6.2009 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband