Tíu dropar

Out-of-Africa_cd

Fyrir margt löngu hélt hin danska Karen Blixen til Afríku og stofnaði þar til kaffiræktar ásamt þáverandi eiginmanni sínum. Eins og lesendur Mit Afrika þekkja svo vel - og þó líklega enn fleiri af hinni upprunalegu ensku útgáfu; Out of Africa, að ég tali nú ekki um allan þann fjölda sem séð hefur samnefnda kvikmynd með þeim Meryl Streep og yfirsjarmörnum Robert Redford.

En nú er öldin önnur. Og líklega fáir danskir eða aðrir evrópskir ævintýramenn sem halda til þriðja heimsins í því skyni að hefja kaffirækt. Eða hvað? Eru kannski dúndrandi tækifæri í kaffinu? Er ekki sí og æ verið að minna okkur á það, að kaffi sé sú hrávara heimsins sem mest viðskipti eru með! Fyrir utan olíuna.

Já - sagt er að kaffi sé einhver heitasta hrávaran í veröldinni. Í frétt á viðskiptavefnum cnbc.com var nýlega viðtal við einn af þeim fjölmörgu sérfræðingum sem þar eru ósparir á að gefa okkur einföldum almúganum ljúf fjárfestingaráð. Í þetta sinn var það maður að nafni Kevin Ferry, stofnandi og einn eigandi fjárfestingafyrirtækis sem kallast Cronus Futures Management.

Ferry-kevin-CFMÍ fyrirsögninni þarna á cnbc.com fékk hann Kevin óneitanlega töff titil: Commodities Pro! Það verður ekki mikið svalara.

Snillingurinn sá sagði að flótti væri u.þ.b. að bresta á úr bæði olíu og gulli. Það kæmi Orkubloggaranum svo sem ekkert voðalega á óvart. Að sögn Ferry's þýðir þetta samt alls ekki neitt allsherjar verðfall á hrávörumörkuðunum. Miklu fremur að menn muni leita og finna ný tækifæri í hrávörunni. Og sjálfur taldi þessi ljúflingur að þar ættu fjárfestar að horfa til kaffisins.

Orkubloggarinn er alveg sammála því að stundum getur verið áhugavert að veðja á kaffið. Og hefur ekkert á móti því að menn taki stöðu með þeirri indælis hrávöru sem kaffibaunir eru. Öllu verra er þó þegar "sérfræðingar" telja það einhver sterkustu rökin með kaffinu, að kaffi sé sú hrávara sem mest viðskipti séu með á eftir olíu. En umræddur Kevin Ferry fell einmitt í þá gildru í umræddri ráðgjöf sinni á CNBC.

coffee_handsÁ ensku hljóðar þetta furðu algenga en alranga ævintýri um kaffið svo: "Coffee is the second largest commodity traded in the world".

Vandamálið er bara að þetta er hreint rugl. Að vísu eitthvert algengasta og lífseigasta bullið í hrávörugeiranum, en engu að síður tómt rugl. Jafnvel þrautreyndir miðlarar með hrávörusamninga halda þessu fram í virðulegum fjölmiðlum og fá ekki bágt fyrir. Það má jafnvel finna þessa fullyrðingu í vel metnum bókum eftir sprenglærða prófessora - og fyrir vikið er bullið orðið "almennur sannleikur".

Staðreyndin er aftur á móti sú að það liggja engar upplýsingar fyrir sem sýna fram á að kaffi hafi þessa merku stöðu á hrávörumörkuðunum. Þetta er m.ö.o. bara mýta. Að vísu svo svakalega algeng að Orkubloggarinn er eiginlega farinn að trúa þessu. En nenni menn að kynna sér málið, komast þeir fljótt að því að kaffi er ekki alveg jafn mikill megabissness og margir vilja láta. Viðskipti með kol eru t.d. langtum meiri en með kaffi og sama má segja um álið og fleiri málma. Og sé litið til manneldisafurða virðist sem veltan með bæði hveiti og maís sé líka umtalsvert meiri en með kaffi.

Vissulega er kaffi afar mikilvæg verslunarvara. Og auðvitað oft líka dásamlega gott. Kaffi er líka einhver mikilvægasta útflutningsvara fjölda þróunarríkja og alls ekki nein ástæða að gera lítið úr kaffisviðskiptum.

Ferry_KevinEn þegar jafnvel sérfræðingar í hrávöruviðskiptum halda því fram að kaffi sé með næst mestu veltuna af öllum hrávörum heimsins, er rétt að minnast þeirra sanninda sem eru hvað mikilvægastar í öllum bissness: Aldrei að trúa "sérfræðingum", alltaf að efast og muna að gagnrýnin hugsun er mikilvægari en allt heimsins gull.

Engin þjóð ætti að vera betur meðvituð um þessi sannindi en einmitt Íslendingar. Sem svo lengi trúðu á meinta velgengni íslenskra fjárfesta - velgengni sem átti að byggjast á einhverri séríslenskri viðskiptasnilld.

Ein af skemmtilegum - eða kannski öllu heldur kátbroslegum eða jafnvel sorglegum - heimildum um þessa ofurtrú á íslenskt viðskiptavit er áramótablað viðskiptakálfs Fréttablaðsins (Markaðurinn) í árslok 2006. Þar má lesa hvernig leiðtogar í íslensku viðskiptalífi og samfélagi átu klisjurnar og frasana hver upp eftir öðrum og nánast enginn virtist efast hið minnsta um styrkar stoðir íslensks efnahagslífs. Eina undantekningin var Hörður Arnarson, þáverandi forstjóri Marel sem virtist greina einhver hættumerki. Blað þetta má nálgast á Netinu og er dapurleg minning um sauðsháttinn sem hér var svo útbreiddur.

Kaupthing_forstjorarÞó svo til væru þeir sem ekki trúðu á séríslenska bankasnilli þurfti allsherjar gjaldþrot íslenska bankakerfisins (og Seðlabankans líka) til að stjórnmálamennirnir, Samtök atvinnulífsins, launþegasamtökin, Háskólasamfélagið og almenningur léti sannfærast. Um að sannleikurinn var sá að "snillin" fólst einfaldlega í óeðlilega greiðum aðgangi að lánsfé, handstýrðri einkavæðingu, uppblásinni viðskiptavild, gölluðu eftirlitskerfi, fákeppni, siðleysi og jafnvel ólögmætri misnotkun á ungum og óþroskuðum hlutabréfamarkaði.

Kannski var stjórnmálamönnunum, eftirlitsstofnunum, lífeyrissjóðunum og hagsmunaöflunum hingað og þangað um þjóðfélagið vorkunn. Það er jú einfaldlega rosa gaman að dansa í kringum gullkálfinn. Og dást að fínu fötum keisarans í von um að nokkrir gullpeningar falli úr ímynduðum troðfullum vösum hans.

coffee-cup_laptopRugl virðist auðveldlega geta orðið að "sannleika". Bara ef nógu margir éta ruglið hver upp eftir öðrum. Til að vinna á mýtu þarf oft eitthvað mjög dramatískt að gerast. Eitthvað afgerandi sem sýnir svo ekki verður um villst að trúin (mýtan) var byggð á sandi, bulli, afneitun eða vanþekkingu. Vonandi höfum við öll lært, að við eigum aldrei að trúa sérfræðingum í blindni. Annars verður stutt í það að aftur þurfi að biðja Guð að blessa Ísland. Reynum a.m.k. að slaka á yfir jólin - með rjúkandi heitum kaffibolla. Gleðileg jól.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Halldórsson

Gleðileg jól og þakka þér fyrir góða pistla.

Hörður Halldórsson, 24.12.2009 kl. 03:56

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Orð í tíma töluð. Það er margur ,, sannleikurinn" sem hefur orðið til með því að hver hefur haft hann eftir öðrum og þar með hefur þessi ,,sannleikur" fengið fætur og sjálfstætt líf. Mér verður hugsað til þeirra breytinga sem hafa orðið á þekkingu fólks í næringarfræðum. Þar áttu nýjar niðurstöður rannsókna oft erfitt uppdráttar.

Gleðileg Jól. 

Hólmfríður Pétursdóttir, 24.12.2009 kl. 13:36

3 identicon

Á meðan expressó maskínan mín er að hitna, ætla ég að óska þér gleðilegra jóla og takk fyrir alla pistlana þína.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband