Bill Reinert

Bill_Reinert_Toyota_portraitOrkubloggið hefur ávallt hlustað af athygli á stórvesírinn Bill Reinert hjá Toyota. Og notað hann sem eins konar leiðsagnarvita um hvaða tækni komi til með að sigra í bílaiðnaðinum.

Það er vart ofmælt að sá ljúflingur sé einhver áhrifamesti náunginn í þróun bílaiðnaðarins. Hann er sá sem mestu ræður um það í hvaða átt Toyota hyggst stefna - og stefnan sem Toyota tekur er líklegt til að draga mest allan bílaiðnað heimsins í sömu átt.

Reinert hefur lengi varað við bjartsýni um vetnisbíla og jafnvel gert hálfgert grín að tilburðum Honda  í að þróa slíka bíla. Eins og fólk í bílabransanum veit, trúir Honda á vetnið sem orkugjafa og hefur þegar hafði tilraunaframleiðslu á vetnisbíl.

Honda_FCX-ClaritySá kallast FCX Clarity  og Honda hyggst hefja fjöldaframleiðslu á honum innan áratugar. Þar á bæ eru menn líklega með böggum Hildar þessa dagana, vegna nýrra áherslna Bandaríkjastjórnar. Sem hafa ákveðið að taka rafbílinn fram fyrir vetnisbílinn.

Bill Reinert hefur reyndar ekki látið sér nægja að gefa skít í vetnisbíla. Hann er einnig afar tortrygginn á framtíð rafbíla og álítur að það verði í reynd einungis tvinnbílarnir sem nái einhverri útbreiðslu. Hreinir rafmagnsbílar séu m.ö.o. vonlaust dæmi.

Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Vert er að hafa í huga að til er önnur útgáfa af vetnistækninni en sú að nota efnarafal. Og vetnisvæðingin er langt frá því að vera úr sögunni, þó svo hún sé kannski ekki alveg að bresta á og verði etv. frekar viðfangsefni komandi kynslóða en okkar sem nú mergsjúgum auðlindir jarðar.

toyota-priusÞað er reyndar svo mikið að gerast í bílaiðnaðinum þessa dagana, að nánast ómögulegt er að spá fyrir um hvernig hann muni þróast. En óneitanlega eru líkur á að Toyota standi uppi sem sigurvegari. eins og svo oft áður. Í þetta sinn með tvinn-bílana sína. Verður Prius‘inn  kannski brátt einn mest seldi bíll í Bandaríkjunum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Það er slatti af Priusum á götum Reykjavíkur.  Sá einn svartan leigubíl af þeirri gerð.

Pétur Þorleifsson , 30.6.2009 kl. 09:08

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Priusinn er snjöll blekking og svokallaðir "tvinnorkubílar". Eina hindrunin í rafbílum er rafhlaðan. Leysist það vandamál er lausnin hreinir rafbílar.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 3.7.2009 kl. 12:31

3 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Einnig er galli við Príusinn og aðra sambærilega tvinbíla að þeirra eyðsla er ekki minni en t.d. léttra dísilbíla.

Prius er að eyða á bilinu 7-9 lítra á hundraðið á meðan dísil Skodi, er að eyða 6-8 lítrum og ´Skódin er rúmbetri bíll.

Þessar tölur byggjast á raunverulegum mælingum ekki uppgefnum eyðslutölum..

Eiður Ragnarsson, 3.7.2009 kl. 16:38

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Svo vill til að síðustu dagana hef ég ekið um á Prius. Og eftir fáein hundruð km. borgarakstur er meðaleyðslan... 5,9 á hundraðið. Er ég þó enginn sparaksturskall. Þetta virðist sem sagt vera miklu sparneytnari bíll en hefðbundnir bensínbílar.

Ketill Sigurjónsson, 3.7.2009 kl. 17:15

5 identicon

Veistu eitthvað um þróun vetnisvéla fyrir skip? Er það ekki einna raunhæfasti notkunarmöguleikinn fyrir vetnið og ætti að henta okkur mjög vel?

Ásmundur Einarsson (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 20:00

6 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Mér skilst að tvinnbílarnir nýti hemlunarorkuna til að hlaða rafgeymana.  Það er eiginlega soldið skrítið að sú tækni hafi ekki komið til fyrr.
 Svo ku slokkna á bensínvélinni þegar stoppað er og rafmagnið alltaf notað þegar ekið er af stað.  Ekki amalegt fyrir loftið á gatnamótum og væntanlega er hávaðinn minni.
 Er Toyota eini framleiðandinn hér á landi með tvinnbíla til sölu ?

Pétur Þorleifsson , 3.7.2009 kl. 20:44

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Held að það hjóti einhverjir fleiri að vera að selja slíka bíla hér.

En varð eitthvað úr þessu?

http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2008/06/12/tvinnbill_i_formulu_1_a_naesta_ari/

Ketill Sigurjónsson, 3.7.2009 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband