Drengur góður?

Nú þarf Orkubloggið smá hjálp. Ég kíkti á heimasíðu Actavis til að sjá mynd af nýja forstjóranum. Kannski ekki síst af því nafnið, Sigurður Óli, hringdi lítilli bjöllu í höfði mínu. Ég man nefnilega vel eftir því hér í Den, þegar maður átti nokkrar skemmtilegar vikur í Skákskólanum, sem hann Jón Hjartarson rak austur á Klaustri. Þar var auðvitað aðallega teflt, m.a. við gesti eins og Friðrik Ólafsson og Jóhann Hjartarson. Ég gerði jafntefli við Friðrik - bara svo þið vitið það. Monti, mont. Reyndar var það í fjöltefli. Man ekki alveg hvort það var ég sem var að tefla við 50 aðra. Eða hvort það var Friðrik. He, he.

Þess á milli var spilaður fótbolti útá túni, þar sem íþróttakennarinn okkar á Klaustri, hann Biggi Einars, stjórnaði hlutunum. Þetta var afskaplega skemmtilegt og við strákarnir á Klaustri kynnumst þarna mörgum ágætum piltum úr Reykjavíkursollinum og víðar af landinu.

Sigurdur_Oli-Actavis

Tveir þeirra eru mér sérstaklega minnisstæðir. Annar þeirra er Arnór heitinn Björnsson, sem var ákaflega flinkur en jafnframt nokkuð skapmikill skákmaður. Og skemmtilegur leikfélagi. Arnóri kynntist ég lítillega aftur löngu síðar, á djamminu i Reykjavík.

Hinn var líka nokkuð spes karakter og hét einmitt Sigurður Óli - rétt eins og hinn nýi forstjóri Actavis. Ég man að á tímabili þótti manni Sigurður þessi Óli vera helst til sérvitur. En svo kynnist ég honum betur og þá kom auðvitað í ljós að þetta var mikill öndvegisdrengur. Ég hef ekki hugmynd um hvort Sigurður Óli hjá Actavis er sá hinn sami. En myndin er satt að segja ekki ósvipuð stráknum, sem maður tefldi og lék sér við þessar vikur í sólskininu austur á Klaustri. Fyrir næstum 30 árum. En kannski er þetta allt annar Sigurður Óli. En fréttin um hann vakti a.m.k. skemmtilegar minningar um einstaka sumardaga austur á Klaustri.


mbl.is Róbert hættir hjá Actavis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ekki get ég sagt þér hvort um sama manninn er að ræða, en hitt veit ég að Sigurður Óli Ólafsson hjá Actavis er drengur góður og mikið ljúfmenni. Ég hef þekkt hann frá því hann fæddist, hann er náfrændi minn, þó að ekki hafi ég hitt hann oft undanfarið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 5.8.2008 kl. 16:00

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Jújú, ég tók eftir þessu í dag. Ég er eiginlega handviss um að þetta er sami Sigurður Óli og var á Klaustri 1980.

Um hann var ort fræg vísa í rútunni á leiðinni heim. Ég vil alls ekki hafa hana eftir.

En tek undir, góður drengur og mjög fær, að mér skilst. Actavis verður í góðum höndum.

Sigurður Sigurðsson, 5.8.2008 kl. 21:31

3 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

En þú manst ekki eftir mér? Ég var nú húsvörður þarna á þessum árum og baðvörður með meiru?

Sigurður Sigurðsson, 5.8.2008 kl. 21:33

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Tekið skal fram, að hér að ofan taldi ég að sjálfsögðu ekki upp alla þá sem eru eftiriminnilegir frá Skákskólanum. Sá listi hefði orðið ansið langur. Eflaust er fullt tilefni til að nefna marga fleiri.

T.d. hann Jóhann Sigurjónsson, skákmann og kennara við Skákskólann, sem hafði einstakt lag á að miðla þekkingu sinni. Mér líkaði afar vel við hann.

Og það voru ekki bara strákar. Þarna kynnist maður líka nokkrum prýðilegum stúlkum. Var bara ekki kominn með hvolpavitið svo heitið gæti á þessum árum.

Nefndi í færslunni einungis tvo af þeim sem mér eru af einhverjum ástæðum sérstaklega ofarlega í huga. Þeir Arnór og Sigurður Óli. Sá þriðji og fjórði hefðu auðvitað verið þeir Svabbi og Stefán; gömlu vinir mínir frá Stöðvarfirði. Við Stefán erum reyndar talsvert mikið skyldir. Og Svabbi var einstaklega góður vinur. En af þeim hef ég ekkert frétt í áratugi. Það gengur svona.

En mér næst stóðu auðvitað þeir Hjörtur og Lassi (Ólafur Páll) Jónssynir. Nágrannar mínir og leikfélagar til margra ára. Sérstaklega vorum við Lassi nánir vinir - og við Hjörtur líka góðir félagar þó svo við smullum aldrei fullkomlega saman. Lassi er núna heimspekingur og andlegur lærifaðir heima á Klakanum góða. Hjörtur er eðlisfræðingur og vann áður hjá snillingnum honum Kára hjá Íslenskri erfðagreiningu. Held að Hjörtur sé núna hjá Landsbankanum.

Gæti vissulega nefnt marga fleiri. Frá Klaustri eru mér auðvitað alltaf ofarlega í huga gömlu vinir mínir, þeir Njörður og Arnar. Þá erum við reyndar komin út fyrir Skákskólann. En líklega voru þeir bestu æskuvinir mínir, ásamt þeim Lassa og Hirti. Og líka hann Njáll, þó svo hann væri reyndar aðeins eldri og þvi ekki beint æskuvinur, þó svo við værum ágætir félagar.

Svo á veturna þegar skólinn byrjaði, komu skólafélagarnir úr sveitinni til leiks. Það væri tilefni í sérstaka færslu. Ég minnist margra þeirra sem afskaplega góðra felaga og vina. Kannski ekki síst hans Simons, sem því miður fékk alltof stutta ævi. Bráðgáfaður og einstaklega myndarlegur og vel af Guði gerður. Það er svo skrítið - hann lést fyrir meira en 20 árum en mig dreymir hann ennþá reglulega. Og hrekk þá jafnan upp af svefninum, fullur af söknuði.

Það var etthvað við hann Símon, sem veldur því að að manni finnst veröldin hafa misst mikið við fráfall hans. Hann var svo óvenjulega sterkur og jákvæður karakter. Ég satt að segja tárast við tilhugsunina um að hann sé löngu horfinn - þessi frábæri drengur.

Ég er líklega farinn að láta tilfinningarnar ráða för. Best að harka af sér. En þar sem ég er að minnast lífsins heima á Klaustri, er sérstök ástæða til að minnast aftur á Jón Hjartarson. Sem af gríðarlegri elju kom þessu verkefni af fót; Skákskólanum. Þau Jón og kona hans, hún Áslaug, voru einstök. Held að samfélagið þarna fyrir austan hafi aldrei fylilega áttað sig á hversu miklu þau áorkuðu.

En það er vandasamt þegar maður byrjar að telja upp gott fólk. Því maður mun alltaf gleyma að nefna einhverja.

Ég get alls ekki skilið við þessa athugasemd, nema að nefna og minnast með mikilli hlýju þeirra hjóna Jóns og Imbu (Ingibjargar). Sem voru mér nánast sem annað sett af foreldrum. Þau bjuggu vestan við túnið og þar var ég á tímabili alltaf í saltfiski á laugardögum. Og horfði á Stundina okkar á sunnudögum (áður en við loks fengum sjónvarp heima 1974). Svo hljóp maður í spretti heim yfir túnið í myrkrinu og fannst alltaf sem einhver andaði ofan í hálsmálið. Úff!

Það var ægilega sorglegt þegar Imba dó, nánast á besta aldri. En bæði ég og foreldrar mínir vorum svo gæfusöm að njóta kunningsskaparins við strákana þeirra Imbu og Jóns; þeirra Gunna og Birgis. Og þeirra eiginkvenna; Sveinbjargar og Bryndísar. Betra fólk er vart hægt að hugsa sér sem nágranna og vini.

Reyndar tók ég eftir því nýlegega, að önnur dóttir þeirra Gunna og Sveinbjargar er orðin landsfræg heima á Klakanum góða. Eða kannski öllu heldur í Bretlandi. Því hún Tinna Gunnarsdóttir mun vera spúsa hans Garðars Cortes, söngvara. Svona heldur lífið áfram og nýjar kynslóðir taka við keflinu.

Ketill Sigurjónsson, 6.8.2008 kl. 03:02

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Hver skollinn. Í nótt braut ég í fyrsta sinn hina gullnu reglu bloggarans: Aldrei að blogga þegar maður er eilítið kenndur! Maður verður svolítið sentímental - tilfinningasamur.

En reyndar get ég með góðri samvisku staðið við allt, sem segir hér í athugasemdinni að ofan. En skammast mín þó fyrir að hafa látið hjá líða að nefna mína góðu, gömlu leikfélaga Kristján Björn og Hrafnkel. Og þau Lárus og Ólöfu, sem nú reka tjaldstæðið á Klaustri. Lalli og Ólöf tóku mér alltaf vel í þó ótalskipti sem ég kom að heimsækja Njörð. Þó auðvitað fengjum við ávítur ef ærslin í hlöðunni fóru að losa um of marga heybagga.

En talandi um Klaustur, vil ég loks minna á þessa færslu um Glæði og fiskeldið þar: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/591624/

Ketill Sigurjónsson, 6.8.2008 kl. 12:47

6 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Nafnið Sigurður Óli hringdi líka bjöllum hjá mér. Var með einum rólyndisdreng í grunnskóla sem hét þessu nafni. Er myndin hér á síðunni af Sigurði Óla Actavis eða Sigurði Óla á Klaustri. Því þessi mynd er af mínum Sigurði Óla

Jóna Á. Gísladóttir, 7.8.2008 kl. 20:03

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Myndin er af Sigurði Óla í Actavis. Hvernig hinn Sigurður Óli lítur ut í dag hef ég ekki hugmynd um - sá hann síðast fyrir u.þ.b. 30 árum. Nema þetta sé sá einn og hinn sami! Þar er efinn.

Ketill Sigurjónsson, 7.8.2008 kl. 20:31

8 identicon

Takk kærlega fyrir falleg orð í okkar garð Ketill minn,við eigum líka margar góðar minningar af ykkur peyjunum á Klaustrinu í denn! Skrítið...við sem erum svo ung.

Bryndís á Klaustri (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband