Græðgin á kreiki í Írak

Það er byrjað að úthluta olíuvinnsluleyfum í Írak. Og öfugt við það sem gerist svo víða í Mið-Austurlöndum, eru vestræn olíufyrirtæki nú velkomin til Írak. Enda ætti öllum að vera augljóst að til þess var leikurinn jú gerður; einn helsti drifkrafturinn að baki innrásinni í Írak var að opna Vesturlöndum aðgang að hinum risastóru olíulindum þessa forna menningaríkis.

IRAQ_OIL_Future-ProductionJá - nú eru loks horfur á að afkomendur hins bandaríska Standard Oil ásamt BP og Shell fái aftur yfirráð yfir olíulindunum í Írak sem þau "misstu" smám saman í hendur stjórnvalda eftir að nýlendutímabilinu lauk. Það fór jú svo að leiðtogar Íraka þjóðnýttu olíuiðnaðinn og fleygðu vestrænu olíufélögunum út úr landinu. Þar með misstu þau nokkrar stærstu olíulindir heims. 

Það eru sannarlega ógrynni af olíu í Írak. Þó svo hið nýja lýðveldi Íraka sé í dag „einungis" í fjórða sæti yfir þær þjóðir sem búa yfir mestum olíubirgðum í jörðu, er vel mögulegt að í Írak verði í framtíðinni mesta olíuríki veraldar. Í dag eru það auðvitað Sádarnir sem tróna í efstir með 270 milljarða tunna af sannreyndum olíubirgðum (proven reserves), Kanada er í öðru sæti með 180 milljarða tunna af olíusandgumsinu sínu norður í Alberta og klerkarnir í Íran í þriðja sæti með 140 milljarða tunna. Írak er svo í 4. sæti með 115 milljara tunna af olíu.

iraq-oil-gasoline_pumpsBúist er við gríðarlegri aukningu í olíuframleiðslunni í Írak nú þegar fjármagnið fer að streyma þangað á ný eftir áratuga hlé. Vegna áratugalangrar óstjórnar Saddam Hussein lenti íraski olíuiðnaðurinn í tómu veseni og var langt frá því að tækniþróun þar héldist í takt við það sem gerðist í olíuiðnaði annars staðar í veröldinni. Með auknu fjármagni og nútíma tækni eru góðar líkur á að senn verði unnt að staðreyna miklu meira af olíu í íraksri jörð. Sumir spámenn segja að senn megi fastsetja olíubirgðir í Írak upp á 400 milljarða tunna!

Þessi tala - 400 milljarðar tunna af olíu -er ekki komin frá neinum bjálfa. Heldur einum af æðstu yfirmönnum ítalska risaolíufélagsins ENI. sem eins og önnur vestræn olíufélög hafa lengi slefað við tilhugsunina um að komast til Íraks. Flestir spámenn í bransanum láta þó nægja að spá „einungis"  svona 200-250 milljörðum tunna  af olíu í Írak. Það mydni samt duga til þess að Írak yrði annað af tveimur lang stærstu olíuveldum veraldarinnar. Þess vegna var svo mikilvægt að tryggja aðgang Bandaríkjanna og Vesturlanda að olíulindum Íraks.

iraq_flag_oil_companiesOg jafnvel þó svo olíubirgðir Íraka ættu ekki eftir að vaxa um eina einustu tunnu, er af miklu að taka. Því brostu vestrænu olíufélögin breitt þegar innrásin var gerð. Norðursjávarolían er á hraðri niðurleið svo tímabært var að skaffa vestrænu olíufyrirtækjunum aftur aðgang að risalindunum í Írak. Auk vestrænu einkareknu olíufélaganna voru líka nokkur ríkisolíufélög sem hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Þar á meðal var kínverski risinn CNPC, sem er að verða á stórtækur í olíuvinnslu víða um heiminn.

Það var í janúar s.l. (2009) að tilynnt var um fyrsta útboðið á olíuvinnslusvæðum í Írak. Þá voru liðin meira en þrjátíu ár síðan Saddam Hussen endanlega þjóðnýtti olíulindirnar. Það ásamt klerkabyltingunni í Íran 1979 varð nánast til þess að veita BP og breska olíuiðnaðinum náðarhögg. Þeim til happs leyndist mikið af olíu í Norðursjónum og BP fékk þar fljótlega aðgang að gnægð olíu - í bili.

Iraq_Oil_FieldsÍ fyrsta útboðinu var óskað eftir tilboðum í sex þekkt olíusvæði; Rumaila, Vestur- Qurna, Zubair, Missan, Kirkuk og Bai. Þarna á meðal eru sannkallaðar ofurlindir  og þetta fyrsta útboð á írösku olíulindunum mun reyndar hafa verið stærsta olíútboð sögunnar! Þannig að menn geta ímyndað sér hvar hugur olíufélagana hefur legið síðustu misserin.

Umhugsunarvert af hverju í ósköpunum íslensk stjórnvöld ákváðu að halda útboð sitt á Drekasvæðinu á sama tíma og olíufélög með glýju í augum sáu ekkert nema Írak. Að bjóða út Drekann á þessum tíma var svolítið eins og setja kjallaraíbúð við Hverfisgötu til sölu hjá fasteignasala sem sérhæfir sig í lúxusíbúðum. Enda var áhugi olífélaganna á Drekanum nánast enginn.

Eftir að hafa farið yfir þau fyrirtæki sem lýstu áhuga sínum, ákvað íraska olíumálaráðuneytið að leyfa 35 fyrirtækjum að bjóða í svarta gullið. Á hverju svæðanna sex skyldu fyrirtækin einfaldlega bjóða tiltekna upphæð pr. tunnu auk þess að tilgreina hversu mikið fjármagn þau hygðust setja í vinnsluna. Að sjálfsögðu voru öll stærstu vestrænu olíufélögin með í púkkinu. Tilboðin skyldu liggja fyrir 29. júní og biðu nú margir spenntir bæði í Bagdad, Washington og víðar. Eðlilega var mesta peningalyktin af risalindunum Rumalia, Kirkuk og Vestur-Qurna, sem hafa hver um sig að geyma litla 8-18 milljarða tunna af olíu (proven!). Sá sem fengi þó ekki væri nema eitt þessara geggjuðu olíusvæða yrði barrrasta nokkuð vel settur til langrar framtíðar.

Iraq_Oil_MinistryEn nú er kreppa og jafnvel stór olíufyrirtæki eiga í veseni með fjármögnun. Til að gera langa sögu stutta þá buðu stóru olíufélögin einfaldlega hroðalega lítið í írösku olíulindirnar. Mönnum hjá olíumálaráðuneytinu í Bagdad leist ekkert á þessa vitleysu og höfnuðu nánast öllum boðunum, sem reyndust hvert og eitt einasta vera langt undir viðmiðunarverðinu. Þetta var talsverð spæling.

iraqi_oilfield-PICSamt fór reyndar svo að eitt leyfi var gefið út. Eftir að hafa skoðað sameiginlegt tilboð frá breska BP (2/3) og kínverska CNPC (1/3), sem vildu fá 3,99 dollara fyrir vinnslu á hverri tunnu úr Rumalia-lindunum, var ákveðið að ganga til samninga við þau. Og svo fór að samið var um að þessi tvö nettu kompaní fái að vinna þessa milljarða tunna í Rumalia gegn því að tunnugjaldið til þeirra verði 2 dollarar. Af hverju þau töldu sig upphaflega þurfa 3,99 dollara fyrir tunnuna en sættust svo á 2 dollara er líklega eitthvað sem við dauðlegir menn munum aldrei fá skýringu á. Kannski kallast það græðgi?

Það var reyndar svo að BP og CNPC áttu þarna í keppni við ExxonMobil, en hið síðar nefnda hafði boðið 4,80 USD í tunnugjald. Írakarnir í olíumálaráðuneytinu slógu í borðið og sögðust borga 2 dollara fyrir tunnuna og ekki einu centi meira. "Litla" ExxonMobil treysti sér ekki í slíkt, en BP og CNPC slógu til. Það sem BP og CNPC vissu ekki, var að þarna í sama herberginu hjá olíumálaráðuneytinu þennan örlagaríka dag höfnuðu öll önnur olíufélög gagntilboðum Írakanna. Nú velta menn í bransanum því fyrir sér hvort BP og félagar hafi hlaupið á sig.

Iraq_oil_licensing_round2Það hversu lág tilboð bárust í írösku olíulindirnar í þessu fyrsta útboði olli talsverðum vonbrigðum hjá olíumálaráðherranum Hussain Ibrahim Saleh al-Shahristani  og félögum hans í íraska olíumálaráðuneytinu. En nú horfa menn spenntir til þess þegar næsta útboð  verður haldið eftir fáeina mánuði. Nú vita olíufélögin að þau þurfa líklega að vera aðeins rausnarlegri til að komast yfir þessar gríðarlegu olíuauðlindir og leika sér þar næstu áratugina. Nema þau standi öll saman um að bjóða barrrasta nógu lítið og reyni þannig að þjarma að Írökunum. Ætli Samkeppnisstofnun sé á tánum?

Iraq_oil_minister_Hussein al-Shahristani_3Orkubloggið mun að sjálfsögðu fylgjast spennt með þegar úrslitin í næsta olíuútboði Íraka liggja fyrir. Það á að verða í desember n.k. (2009). En auðvitað skiptir mestu að íraska þjóðin er orðin frjáls á ný - ekki satt? Og hlýtur því í ríkum mæli að fá að njóta arðsins af hinum geggjuðu orkulindum landsins. Rétt eins og gerist hjá íslensku þjóðinni, sem væntanlega á eftir að njóta gríðarlegra skattekna og auðlindagjalds frá starfsemi HS Orku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

flottur og fræðandi :) áfram með flott orð :-) þetta minnir margt á þróunn sem sennilega er að detta í gang á 'islandi, með okkar Auðlindir !

Grétar Eir (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 09:56

2 identicon

Ég hef mikla samúð með Írökum. Auðvitað snérist stríðið alltaf um að ná í auðlyndir þeirra. Stöndum vörð um okkar auðlyndir.

Elín Erna Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 22:03

3 identicon

Alltaf gaman að lesa bloggið þitt.  Mjög fræðandi og skemmtilegt.

Í framhaldi af þessari færslu þinni (sem bendir til þess að olíu muni ekki skorta í bráð), þá bara spyr maður sig; er það blessun Allah að það sé svona mikil olía í arablöndunum (lesist múslímaríkjum)?

Á meðan að í öðrum ríkjum er nánast þurrð olíu í Jörðu, (nánast ekkert í V-Evrópu, lítið í hinum risastórum ríkjum; Bandaríkjunum, Indlandi og Kína). 

 Önnur landfræðilega stór ríki, eins og t.d Brazilía, Ástralía og Kanada eru einungis minni háttar framleiðsluríki samanborið við mörg arabaríki.  Lítil arabaríki (nánast dvergríki) eins og Kuwait og Qatar virðast búa yfir meiri olíu í jörðu heldur en risastór ríki eins og Bandaríkin og Kína samanlagt!

Er nema von að maður spyrji sig hvort að þetta sé blessun Allah.

 Ps.  Oft óskar maður að Ísland ætti gnægð olíu í jörðu.  Þá væri öldin önnur og betri hér á landi.  En því miður er fátt sem bendir til þess.  Og ekki finnst mér Drekasvæðið sérlega lofandi.  En ætli Íslendingar myndu ekki klúðra þessu eins og svo mörgu öðru sem þeir taka sér fyrir hendur.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband