"From Russia with love..."

Þá kemur loks framhald um orkuvandræði Evrópu. Fyrst verð ég þó að nefna þessa frétt, um að Norsarar séu eitthvað spældir yfir því að olíusjóðurinn þeirra tútnar ekki endalaust út. Þrátt fyrir hækkandi olíuverð undanfarið ár. Ég held nú barrrrasta að blaðamennirnir hjá Aftenposten stígi ekki í vitið. Olíusjóðurinn norski fjárfestir i flestu öðru en olíu. Miðað við ástandið á mörkuðunum er ekki að undra þó eitthvað skreppi þar saman nú um stundir. Aftenposten og aðrir Norsarar geta kannski huggað sig við það, að gróðinn hjá StatOilHydro hefur líklega aldrei verið meiri en einmitt nú.

EU_NAT_GAS_2

En þá að orkumálum EB. Til að kæfa ekki lesendur Orkubloggsins, er rétt að taka eitt í einu. Í dag ætla ég að einblína á gasið.

Myndir segja meira en þúsund orð. Þessi mynd hér til hliðar er byggð á upplýsingum frá BP, sem er með einhvern albesta gagnabankann um orkumál. Græna svæðið sýnir gasnotkun EB. Gasnotkunin hefur aukist jafn og þétt, en þó verið nokkuð stöðug allra síðustu árin og jafnvel minnkað. Sá samdráttur er ekki talinn endurspegla þróunina; búist er við verulega aukinni notkun á gasi í Evrópu. Rauða svæðið sýnir hversu mikið af gasinu er innflutt. Innflutningurinn hefur vaxið hratt. Ástæðan er einfaldlega sú að gasframleiðsla innan EB hefur nánast staðið í stað mjög lengi (gul-doppótta línan sýnir gasframleiðslu EB og rauð-doppótta línan sýnir gasframleiðslu EB þegar framleiðsla Noregs er meðtalinn). Gasframleiðsla Evrópusambandsins stendur sem sagt nokkurn veginn í stað.

En þá kemur að alvörunni. Sem eru gula línan og svarta línan. Svarta línan sýnir gasbirgðir EB og Noregs samtals. Þ.e. gas sem líkur eru taldar á að vinna megi innan lögsögu EB og Noregs. Gula línan sýnir gasbigðir EB (þ.e. án Noregs). Þessar birgðir minnka nokkuð hratt. Ástæðan er sú að ekki eru að finnast nýjar gaslindir innan lögsögu EB, svo neinu nemur. Þetta mun væntanlega þýða sífellt meiiri þörf fyrir að kaupa gas utan EB og flytja það inn. Og eins og staðan er i dag er gasið aðallega keypt frá Rússlandi.

Ein áætlunin gerir ráð fyrir að EB þurfi um 40%% meira af gasi árið 2030, en í dag. Líklega þarf öll þessi aukning að koma sem innflutt gas. Og meira til, því gasframleiðslan innan EB minnkar hratt. Sjálft miðar bandalagið t.d. við að innflutningur á gasi þurfi að aukast um 85% innan 2030.

EU_Gas_Pipelines

Og hvaðan á allt þetta gas að koma? Þar er einkum horft til Rússlands og ríkja í Mið-Asíu. Og þar sem ekki er hagkvæmt að flytja gas með t.d. tankskipum, hafa verið gerðar miklar áætlanir um byggingu á nýjum gasleiðslum, sem flytji gasið að austan og til EB-landanna (málið er að til að flytja náttúrulegt gas með skipum þarf að kæla það fyrst í mínus 160-170 gráður á celsius svo það verði fljótandi - fljótandi gasið tekur 600falt minna rúmmal en loftkennt náttúrulegt gas).

Nú er horft til þriggja stórra, nýrra gasleiðsla. Í fyrsta lagi Norðurleiðslan (Nord Stream), sem á að liggja frá Rússlandi og eftir botni Eystrasalts til Þýskalands. Í annan stað (eins og Jón Baldvin sagði svo oft!) Suðurleiðslan eða South Stream. Hún á að liggja frá Svartahafsströnd Rússlands og eftir botni Svartahafs og þaðan til Búlgaríu og svo áfram til Ítalíu. Þriðja leiðslan nefnist Nabucco og á að liggja frá austustu héruðum Tyrklands og alla leið vestur til Austurríkis.

GAS_MAP_SouthStream_Nabucco

Nabucco línan hefur mikla stategíska þýðingu. Gasið sem mun fara eftir bæði Norður- og Suðurleiðslunni verður rússneskt gas. Eftir Nabucco-leiðslunni mun aftur á móti Evrópa fá gas frá löndum eins og Azerbaijan, Kazakstan og Turkmenistan. Síðar gæti leiðslan einnig flutt gas frá Írak og Íran.

M.ö.o. gerir Nabucco það að verkum að Evrópa verður ekki jafn háð Rússum um gas, eins og ella væri. Hugsanlega mun Nabucco-leiðslan reyndar einnig flytja rússneskt gas til Evrópu. Vegna þess að það er komin leiðsla sem flytur gas frá Rússlandi til Tyrklands (s.k. Bluestream leiðsla). En Nabucco gerir EB kleyft að kaupa gas af öðrum líka. Við sem lifum í fákeppninni á Íslandi ættum að skilja mikilvægi þess. Þess vegna held ég að EB muni setja Nabucco í forgang, fremur en South Stream. Samt er vel mögulegt að báðar leiðslurnar verði lagðar. En Orkubloggið veðjar aurunum frekar á fyrirtækin sem standa að Nabucco, fremur en ítölsku sulturnar sem taka þátt í Suðurleiðslunni. 

Gas_nordstream

Þarna eru hreint geggjaðir hagsmunir á ferð. Enda bauð Gazprom Gerhard Schöder, fyrrum kanslara Þýskalands, stjórnarformennsku í Nord Stream. Og meðan Romano Prodi var forsætisráðherra Ítalíu buðu þeir ljúflingarnir i Gazprom honum stjórnarformennskuna í South Stream.

Rússar eru ekki beint spenntir fyrir því að sjá Nabucco rísa. Og vilja gjarnan tryggja stuðning við gasleiðslur, sem eingöngu treysta á rússneskt gas. Gazprom er, sem kunnugt er, stærsta gasvinnslufyrirtæki í heimi. Sjálfur John Rockefeller og Standard Oil hefðu mátt vera stolt af annarri eins einokun, eins og Gazprom hefur. En bandarísk samkeppnislög gilda ekki í Rússlandi. Heldur rússnesk lög. Og hananú.

Einu sinni kom ég til Moskvu. Það er einfaldlega stórbrotnasta borg í heimi. Held ég hljóti að vera. Þar lenti ég m.a. auðvitað i útistöðum við mútuþægna lögregluna; tvo valdmannslega gaura sem hótuðu mér dýflissu vegna "ólöglegs vegabréfs". Ef ég borgaði ekki sektina. Íslenska þrjóskan sigraði rússnesku peningagræðgina í það sinn.

bogi_russia

Leitaði líka uppi tjörnina i sögu Búlgakov's um Meistarann og Margarítu, stóð aleinn á miðju Rauða torginu í ískulda nóvembernæturinnar kl. 3 um nótt og lenti á stórum útimarkaði einhversstaðar í úthverfunum. Og keypti þar bæði Lenin-styttu og húfu, sem stráksa mínum finnst gaman að leika sér með. Loks bjargaði rússnesk skvísa mér úr glæsilegu, en illskiljanlegu neðanjarðarlestakerfinu djúpt undir borginni. Svo sannarlega einstök borg. Washington DC var eins og hvert annað syfjulegt krummaskuð eftir þessa heimsókn.

James-Bond-From-Russia-With-Love

Og æ síðan hef ég verið á bömmer yfir því að kunna ekki rússnesku. Með rússnesku að vopni er nokkuð víst að maður gæti enn betur notið peninga-ilmsins þarna fyrir austan. Spælandi. Held ég skreppi útí búð í fyrramálið og kaupi mér bók með rússneska stafrófinu. It could be the start of a beautiful friendship.


mbl.is Norskir olíupeningar gufa upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Sæll Ketill

Einhverstaðar las ég að Norðmenn ætluðu að selja ESB 135 milljarða rúmmetra af gasi 2011 og ætla að auka söluna á gasi um 50% á næstu 15 árum.

Þá sá ég að gasnotkun ESB kemur 25% frá Noregi en 44% frá Rússlandi.

Svo eru rússnesk gasvinnslufyrirtæki með sterk íttök í gasvinnslu í Mið Asíulöndunum. Sérstaklega er Gazprom vel sett.

Svo má sjá hér hvernig sala á rússnesku gasi er skipt. 

Júlíus Sigurþórsson, 28.7.2008 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband