Tígris!

Babýlon, Mesopótemía, Anatolía, Thule... Hvar liggja bestu kostirnir í endurnýjanlegri raforku til framtíðar?

Á heimsvísu horfir Orkubloggið hvað mest til sólarorku. Sem ennþá er dýr raforkuframleiðsla, en gæti orðið lausnin í framtíðinni. En ef horft er hæfilega stutt fram í tímann er það einfaldlega gamla góða vatnsaflið sem er líklegast til að gefa ódýrustu viðbótina í orkugeiranum.

Hverfisfljot_LambhagafossÞar er fyrir hendi meira óbeislað afl en margan grunar. Margir virðast halda að allt hagkvæma vatnsaflið hafi nú þegar löngu verið virkjað. Því fer fjarri.

Vatnsaflsvirkjanir hafa að vísu undanfarið margar fengið á sig heldur neikvæða ímynd vegna umhverfisáhrifanna. Sem vissulega geta stundum verið mikil og óæskileg. Svo er þetta líka gamall og gróinn iðnaður og þykir þess vegna kannski pínulítið púkó í samanburði við glampandi hátæknilegar sólarsellur eða háreista hvítmálaða turna vindrafstöðvanna. Já - stundum erfitt að eiga við tískustraumana.

Vert er að minna á að engar tvær vatnsaflsvirkjanir eru eins. Því er vafasamt að alhæfa eitthvað um þessa tegund virkjana. Þar verður að meta hvert tilvik fyrir sig; sumar vatnsaflsvirkjanir eru snilld meðan aðrar rústa umhverfinu og eru afar hæpnar. Auðvitað eigum við að nýta vatnsfallsauðlindina, en um leið sýna skynsemi og aðgát. Í reynd eru slíkar virkjanir oft besti kosturinn.

Tigris_Efrat_GameFyrir útflutning á íslenska orkuþekkingu væri nærtækt að halda til Balkanskagans. Þar eru miklir virkjanamöguleikar fyrir hendi í vatnsföllum landa eins og Albaníu, Makedóníu og fleiri af Balkanlöndunum.

Annar mjög athyglisverður virkjanakostur er nokkru austar, en þó vel innan seilingar Mörlandans. Við skulum nú halda á slóðir sem á máli heimamanna kallast Anadolu.

Við getum líka sagst vera að fara til Anatólíu. Eða kannski er svalast að erindið sé að spá í virkjanamöguleika í Efri-Mesópótamíu? Þær risavirkjanir sem Orkubloggið ætlar að beina athyglinni að í dag, eru nefnilega í fljótunum með Biblíulegu nöfnin; í ánum Efrat og Tígris. Í suðausturhluta Tyrklands.

Þar eru svo sannarlega á ferðinni stórar virkjanir í fljótum með stór nöfn. Sem kunnugt er eiga þessi miklu fljót einmitt upptök sin í fjalllendinu í austanverðu Tyrklandi. Þó eru þessi fornfrægu vatnsföll líklega þekktust fyrir fornmenninguna nokkru sunnar - í Mesópótamíu þar sem nú heitir Írak. Reyndar segja sumir að sjálfur Edensgarður hafi einmitt legið á þeim slóðum, en það er önnur saga.

GAP_Turkey_logoÍ dag telst Írak varla lengur neitt Eden. Nema kannski í augum þeirra sem leita olíu. En Orkubloggið ætlar ekki að leggjast í Biblíuhugleiðingar né olíupælingar, heldur halda sig á slóðum Efrat og Tígris í Tyrkjaveldi. Þar er á ferðinni risastórt verkefni sem kallast GAP; Güneydoğu Anadolu Projesi. Sem einfaldlega þýðir Suðaustur Anadolu verkefnið. Sem fyrr segir merkir Anadolu sama og Anatolía, sem einnig kallast Litla-Asía og hluti af þessu kallast Efri_Mesópótamía. Anadolu er m.ö.o. annað heiti yfir landsvæðið þar sem Tyrkland liggur. Sem sagt SA-Tyrklands verkefnið!

ataturkÁ þessu fjalllenda svæði í suðausturhorni Tyrkjaveldis búa hátt í 10 milljón manns og þar hefur efnahagsástandið lengi verið heldur bágborið. Í því skyni að bæta lífskjör fólksins voru skipulagðar miklar áveitur til að auka mætti landbúnaðarframleiðslu. Einnig skyldi byggja virkjanir í Efrat og Tígris; bæði til að dæla vatninu fyrir landbúnaðinn og stuðla að iðnaðaruppbyggingu þarna á mörkum Evrópu og Asíu.

Þessar áætlanir má reyndar rekja allt til föður Tyrklands, þ.e. hugmynda sem sjálfur Atatürk setti fram fyrir um áttatíu árum síðan. Og eru nú loksins smám saman að verða að veruleika undir styrkri stjórn Landsvirkjunar þeirra Tyrkja; Devlet Su İsleri (skammstafað DSI). Í huga Orkubloggsins er Atatürk reyndar alltaf eins konar sambland af Hannesi Hafstein og Einari Ben. Sem kannski er barrrasta tómur misskilningur, en samt pínu rómantískt.

Ataturk-DamAlls gerir GAP-verkefnið ráð fyrir að byggðar verði hátt á þriðja tug virkjana í Efrat og Tígris. Nokkrar þeirra hafa þegar risið og flestar í Efrat. Þar er líklega hvað frægust sjálf Atatürk-virkjunin sem lokið var við árið 1992. Framleiðslugeta hennar einnar (uppsett afl) er um 2.400 MW og árleg raforkuframleiðsla hátt í 9 þúsund GWh. Þessi eina virkjun er sem sagt meira en þrisvar sinnum aflmeiri en Kárahnjúkavirkjun og framleiðir um 3/4 af þeirri raforku sem allar virkjanir á Íslandi gera samanlagt. Alls eru nú líklega 14 eða 15 virkjanir í Efrat og sú næst stærsta þar, Karamis-virkjunin, er með um 1.800 MW framleiðslugetu. Sem sagt stórar og miklar virkjanir.

Ilisu_Dam_MapÞrátt fyrir þessar mörgu vatnsaflsvirkjanir sem risið hafa í Tyrklandi á allra síðustu árum og áratugum, er GAP-verkefninu langt í frá lokið. Nú er einkum horft til þess að byggja virkjanir í Tígris. Þar eru líklega a.m.k. fimm stórar virkjanir á teikniborðinu eða í byggingu. Stærst þeirra er Ilisu-virkjunin, sem er 1.200 MW virkjun og gerir ráð fyrir meira en 300 ferkm miðlunarlóni (Hálslón er nettir 57 ferkm). Alls á virkjunin að framleiða 3.800 GWh árlega (líklega talsvert minni fallhæð þarna á ferðinni en Fljótsdalsstöð nýtur).

Nái GAP-áætlunin öll fram að ganga munu meira en tuttugu virkjanir rísa í Efrat og Tígris með afl upp á 7.500 MW og þær eru sagðar munu framleiða meira en 27 þúsund GWh árlega. Til samanburðar framleiða allar virkjanir á Íslandi samanlagt nú rétt rúmlega 12 þúsund GWh.

Ilisu_Dam_locationFramkvæmdir við Ilisu byrjuðu fyrir nærri þremur árum eða í ágúst 2006. Sjálf stíflan mun rísa einungis 65 km norður af landamærum nágrannaríkja Tyrklands; Sýrlands og Írak. Við erum sem sagt á slóðum Kúrdanna og fyrir vikið munu öll mannvirkin á svæðinu vera hönnuð til að standast flugskeytaárásir!

Ólík er túninu gatan, hugsar Íslendingurinn og horfir yfir friðsældina við Hálslón og í átt til Snæfells. Mesta ógnin sem Orkubloggarinn hefur orðið var við í nágrenni Kárahnjúka, er þegar brakandi bílútvarpið flutti honum slitróttar fréttir af  skelfilegum atburðum í New York. Þar var bloggarinn sem sagt á ferð síðdegis þann 11. september 2001 og upplifði fagran, einstakan haustdag við Snæfell, meðan öllu meira gekk á útí hinum stóra heimi.

Hasankeyf_1Ekki er GAP-verkefnið við Tígrisfljót alveg laust við að hafa áhrif á umhverfið; bæði náttúruna og menningarminjar. Þetta umfangsmikla verkefni myndi varla fá grænt ljós samkvæmt íslenskri löggjöf um umhverfismat; þarna undir er talsvert meira en hreindýramosi og fáeinar flúðir. Miklar fornminjar og meira en 80 þorp munu hverfa undir vatn miðlunarlónanna. Flytja þarf til meira en 50 þúsund manns og meðal byggðanna sem liggja munu á botni Ilisu-lónsins er ferðamannbærinn Hasankeyf, sem einhverjir íslenskir ferðalangar kannast kannski við. Þar má nú m.a. sjá mosku sem byggð var í upphafi 15 aldar, brú frá 12. öld og fjölda annarra fornminja sem rekja má þúsundir ára aftur í tímann. Enda munu íbúar Hasankeyf geta rakið sögu sína heil 10 þúsund ár aftur í tímann! Allt á þetta að fara í kaf í nafni framfaranna í Tyrklandi.

Turkey_SE_GAP_mapÁ síðustu misserum hafa Tyrkirnir lent í einhverju veseni með að fjármagna þessa miklu framkvæmd. Aðallega vegna þess að Evrópusambandið hefur sýnt mikla tortryggni gagnvart Ilisu-stíflunni - einmitt vegna umhverfisáhrifanna. Líklega vilja yfirvöld innan ESB frekar að Tyrkir útvegi sér raforku með nýjum kolaorkuverum, eins og góðum evrópskum meðaljónum sæmir. Eða að ESB vilji einfaldlega að Tyrkir éti það sem úti frýs og að blessað fólkið haldi sig við sitt frumstæða líf þarna í austurhluta landsins. Þetta eru hvort sem er að verulegu leyti Kúrdar, sem lengst af hafa ekki þótt verðir mannréttinda. Þar að auki þykir jakkalökkunum í Brussel að Tyrkirnir séu varla jafn glæsileg menningarþjóð eins og engilsaxar eða germanir. Sem eru auðvitað alvöru menningarþjóðir, sem bæði kunna að taka á hvalveiðivillimönnum frá smáþjóð í norðri og vatnsaflsvirkjana-barbörum í austri.

hasankeyf_2Tyrkneska þingið, sem er reyndar afar mislit hjörð, stendur aftur á móti þétt að baki verkefninu og segja það gott bæði fyrir efnahagslífið, menninguna... og umhverfið! Sínum augum lítur hver silfrið. Meðan ESB einblínir á menningarminjarnar sem fara undir vatn, benda Tyrkir á þá staðreynd að Ilisu-virkjunin ein muni þýða 3 milljónum tonnum minni kolefnislosun árlega, en ef ekki yrði af þessari virkjun. Þannig er umhverfisvernd margslungin og háð mismunandi túlkun. Það fer þó ekkert á milli mála að umhverfisáhrif virkjunarinnar verða all svakaleg.

Það er gamall virkjanakunningi Íslendinga, svissneska fyrirtækið Sulzer Hydro, sem fer fremst í flokki þeirra sem sjá um byggingu Ilisu-virkjunarinnar. Þetta er framkvæmd upp á einhverja 2 milljarða USD, en enn eru nokkur ljón í veginum til að áætlanir standist.

Hasankeyf_3Það fór nefnilega svo að evrópskir bankar kipptu margir að sér höndum þegar þeir gerðu sér grein fyrir umhverfisáhrifum Ilisu-virkjunarinnar. Þetta hefur valdið Tyrkjunum talsverðum vandræðum því áætlanir  um virkjanir annars staðar í fljótinu miðast við að Ilisu-verkefnið nái fram að ganga fyrst.

Enn er þó stefnt að því að þessi mikla virkjun verði risin innan 4ra ára eða árið 2013. Orkubloggið mun að sjálfsögðu fylgjast spennt með. Og ætti kannski að efna til hópferðar áhugasamra Íslendinga á virkjanasvæðin við Tígris. Að sjálfsögðu með viðkomu á mögulegum virkjanastöðum á Balkanskaganum.

Svo má líka heimsækja eins og eitt speglasólarorkuver á Suður-Spáni í leiðinni og kannski líka fara á nautaat undir steikjandi Andalúsíu-sólinni. Orkubloggarinn er strax farinn að hlakka til!

1_Million_Turkey_LireÞá yrði auðvitað mikilvægt að hafa glás af tyrkneskum lírum með í för. Milljón líru seðillinn, sem nú er reyndar fallin úr gildi, var einmitt skreyttur mynd af Atatürk-virkjuninni. Sjálfur minnist bloggarinn með hlýju gamla fimm þúsund króna seðilsins. Með Einari Ben. Those were the days! "Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist"!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Ætli Írökum sé sama um þessar virkjanir í Tyrklandi ?  Tígris rennur í gegnum Mosul og Bagdad. 
 Ekki er mikið talað um minnkaðan aurframburð vegna stíflna þótt neikvæð áhrif á frjósemi lands og sjávar sé þekkt  t.d. neðan Aswan-stíflu og spila kannski minnkaðar rennslissveiflur þar inn í líka.
 Hér er líst yfir sigri.

Pétur Þorleifsson , 3.7.2009 kl. 23:00

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Það hefur verið einhver togstreita milli Tyrkja og nágrannaríkja þeirra út af þessu. En líklega hafa menn þarna almennt um annað að hugsa, en umhverfisáhrif vatnsaflsvirkjana.

Ketill Sigurjónsson, 8.7.2009 kl. 15:27

3 identicon

Sæll Karl

Mig langar bara að benda þér á að fyrir tveim árum var birt rannsókn unnin af unnin af Mörtu man ekki hvers dóttir  Rannsókn Mörtu fjallaði um vindmagn og vindmælingar á Íslandi með tilliti til uppsetningar vindmilla.

Það er skemmst frá að segja að niðurstöður Mörtu lofuðu mjög góðu. Sigurður hjá Orkusetrinu setti upp ímyndaðan vindmillugarð á Þórshöfn a Langanesi og framleiddi ódýrt rafmang mun ódýrara en framleitt er í Kárahnjúkum.

En þó að Orkustofnun hafi styrkt verkefni Mörtu eru þar inni öfl sem einblína á vatnsorku og mengandi nýtingu varmaorku en finna allt vindorku og sólarorku til foráttu.  Líkast til er um minnimáttarkennd innbyggða í íslenskt eðli því það væri verkfræðingum Íslands erfitt að fullyrða við okkur almúgan að Íslendingar væru í fararbroddi i nýtingu vind og sólarorku.

En bendi þér líka á að það eru til spár sem sýna að órdýrasta orka framtíðarinnar er kjarnorka og næst á eftir vindorka

Athyglisvert og auðvitað ættum við að setja upp vindmyllur hér og létta á skuldum Landsvirkjunar með því að virkja hagkvæmustu orkuna í staðin fyrir að byggja dýrar vatnsaflsvirkjaninr.

kveðja

Sigurður Haraldsson 

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband