Kjarnorkuolía

Fyrir stuttu sagði Orkubloggið frá því hvernig nú er farið að vinna olíu úr gasi. Það allra nýjasta í olíubransanum er þó sú hugmynd að vinna olíu með kjarnorku. Þessi kjarnorkuolía er efni dagsins á blogginu.

deepwater_horizon_burning-2.jpg

Bandaríkin hafa á síðustu árum orðið sífellt háðari olíunni úr Mexíkóflóanum. Þess vegna er mengunarslysið þar núna, þeim talsvert mikið áfall. Mexíkóflóinn og reyndar landgrunnið allt er nefnilega það svæði sem mestar vonir hafa verið bundnar við, til að Bandaríkin þurfi ekki að auka enn frekar á olíuinnflutning sinn.

Það er kaldhæðni örlaganna að einungis örfáum vikum áður en Deepwater Horizon brann og sökk, voru Obama og demókratarnir á Bandaríkjaþingi búnir að lýsa stuðningi við óskir olíufélaganna um olíuleit á landgrunninu út af austurströndinni. Þetta var tímamótaákvörðun, en þau áform eru nú í nokkru uppnámi vegna slyssins á Mexíkóflóa.

Bandaríkjamönnum er mikilvægt að losna undan ægivaldi olíunnar frá OPEC. Þess vegna er slæmt fyrir þá, ef fara þarf hægar í landgrunnsvinnsluna en ráðgert hefur verið. Ekki er síður vont fyrir Bandaríkin að flest bendir til þess að hnignandi olíuvinnsla Mexíkana verði til þess að brátt muni framboðið þaðan hrapa. Mexíkó-olían hefur verið afar þýðingamikil fyrir olíusvolgrarana þarna vestra og þessi þróun er því afleit fyrir Bandaríkjamenn.

oil_sands_desert_2.jpg

En þó svo bæði Mexíkó og Flóinn kunni að skila Bandaríkjunum minni olíu en vonast hefur verið til, er staðan samt ekki alveg vonlaus. Til allrar hamingju fyrir Bandaríkjamenn eru gífurlegar olíulindir rétt norðan við þá. Í hinu stórkostlega landi Kanada

Olíuuppsprettan þar hjá grannanum góða í norðri er að vísu mikið til bundin í s.k. olíusandi. Ofsahita þarf til að "bræða" olíuna úr sandklístrinu þarna norður á skógivöxnum sléttum Alberta-fylkis, en sá hiti er fenginn frá gasorkuverum.

Til að þurfa ekki að eyða dýrmætu gasinu í þessa óþverraiðju hafa menn gælt við þá hugmynd að reisa kjarnorkuver útí óbyggðum Alberta, sem framleiða muni hitann fyrir olíusandiðnaðinn sótsvarta. Hugsunin er fyrst og fremst sú að með þessu megi minnka verulega losun gróðurhúsalofttegunda.

Sumum kann að þykja það absúrd hugmynd að ætla sér að byggja kjarnorkuver lengst norður í óbyggðum Kanada. En nú lítur samt út fyrir að þessar hugmyndir geti orðið að veruleika. Og þarna er vel að merkja ekki verið að tala um eitt eða tvö nett kjarnorkuver. Heldur jafnvel tugi nýrra kjarnorkuvera - á svæði þar sem er nákvæmlega engin reynsla af slíkum orkuiðnaði.

oil_sands_trucks.jpg

Olíusandvinnslan er umdeild, enda veldur þessi tegund af olíuvinnslu hrikalegum náttúruskemmdum. En í heimi sem er háður olíu, er nánast óumflýjanlegt að þessi vinnsla er komin til að vera. Og hún mun að öllum líkindum vaxa hratt, sama hvað hver segir um umhverfisáhrifin.

Olíuvinnsla úr olíusandi er að vísu hressilega dýr. En hún borgar sig engu að síður almennt, svo lengi sem olíuverðið hangir yfir 70 USD tunnan. Olíuverð hefur einmitt verið í þeim hæðum undanfarið og þess vegna er nú horft með glampa í augum til þess að auka olíuvinnslu úr þessum undarlega jarðvegi, sem er gegnsósa af olíuklístri.

Það sýnir vel ásóknina í kanadíska olíusandinn að nú eru Kínverjar byrjaðir að kaupa sig inn í vinnsluna þar. Og setja í það milljarða dollara! Bandaríkjamenn sitja því svo sannarlega ekki einir að þessari drullupollaolíu og þeir munu þurfa að há harðan slag um kanadísku olíuna við aðra olíuþyrsta kaupendur.

oil_sands_boreal_forest.jpg

Þróunin þarna hefur verið makalaust hröð. Það er ekki langt um liðið síðan barrskógarnir norður í Alberta voru að mestu ósnertir og utan seilingar manna. Helst að þar mætti rekast á fáeina síðskeggjaða og sérvitra veiðimenn í leit að pelsklæddum dýrum. En svo hækkaði olíuverðið - og á undraskömmum tíma voru stærstu skurðgrófur heimsins mættar í greniskóginn langt í norðri og byrjaðar að skófla upp olíusandinum, þar sem áður réðu ríkjum skógabirnir og elgir.

Til að kreista olíudrulluna úr jarðveginum spruttu upp eldspúandi gasorkuver inni í auðnunum þar sem bjórarnir höfðu svo lengi velt sér í ró skógarins og fljótunum sem þar renna í gegn. Á örskömmum tíma hefur þessi óþverravinnsla breiðst út um allan norðurhluta Alberta-fylkis. Fyrir vikið hafa íbúar fylkisins upplifað ævintýralegan vöxt í efnahagslífinu með óþrjótandi atvinnu og tilheyrandi sprengingu í húsnæðisverði. Blessaður hagvöxturinn!

Kannski mætti einfaldlega kalla olíu sem kreist er úr olíusandi með ægihita frá kjarnorkuveri, kjarnorkuolíu! Upphaf þessara hugmynda um kjarnorkuolíu má rekja til þess að fyrir fáeinum árum var stofnað sérstakt fyrirtæki, Energy Alberta Corporation, með þann tilgang að byggja kjarnorkuver í olíusandauðnum Alberta. Markmiðið er að orkuverið verði lítil 2.200 MW og rísi í nágrenni við lítið krummaskuð við Friðarána (Peace River) í Alberta. Jafnvel risaálver á Húsavík eru algerir smámunir miðað við slíka fjárfestingu, sem yrði um 10 milljarðar USD!

oil-sands-alberta_yann-arthus-betrand.jpg

Þessi hugmynd varð til þess að byrjað var að fjalla um málið í kanadísku stjórnsýslunni. Stjórnvöld hrifust af því að með þessu gæti Kanada hugsanlega uppfyllt markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þrátt fyrir hratt vaxandi olíusandvinnslu. Gasorkuverin í olíusandvinnslunni losa mikið af slíkum lofttegundum, en kjarnorkuverin eru aftur á móti "hrein" að þessu leyti. Umræðan um loftslagsbreytingar hefur m.ö.o. gert geislavirkan kjarnorkuúrganginn "grænan", þrátt fyrir að frá honum stafi gríðarleg umhverfishætta í aldir og jafnvel árþúsundir. Þetta er skrítinn heimur.

Árið 2007 ákvað þingið í Alberta að unnin yrði sérstök skýrsla um málið. Hún hefur nú litið dagsins ljós og til að gera langa sögu stutta, þá er megin niðurstaðan sú að kostirnir við að nýta kjarnorku í þessum tilgangi séu miklu meiri en ókostirnir.

nuclear-power-station_994755.jpg

Þar með er björninn þó ekki unnin fyrir Energy Alberta Corp. Kjarnorkuandstæðingar eru æfir og þar að auki myndi uppbygging kjarnorkuvera í Alberta væntanlega kosta kanadíska skattborgara stórfé. Frá upphafi hefur verið augljóst að verkefnið þarf opinberan stuðning; að framleiða rafmagn með kjarnorku kostar um 70 mills á kílóvattstundina meðan gasorkuver geta skilað sama magni fyrir einungis þriðjunginn af þeirri upphæð. Að sjálfsögðu hafa hvorki orkufyrirtækin né olíusandvinnslan áhuga á að borga þann mismun. Þykir nærtækara að senda reikninginn til almennings.

Þar að auki er kostnaðurinn við að reisa þetta eina kjarnorkuver Energy Alberta áætlaður nettir 10 milljarðar USD - og það er ekki hlaupið að slíkri fjármögnun í kjarnorkuiðnaðinum nema með ríkisábyrgð af einhverju tagi. Draumurinn um kjarnorkuolíu verður m.ö.o. varla að veruleika nema Albertafylki eða kanadíska ríkið komi að málinu og taki fjárhagslegu áhættuna að verulegu leyti á sínar herðar.

oil_sands_map.gif

Hafa má í huga að ef kjarnorka á að leysa gasorkuverin af hólmi á olíusandsvæðum Alberta er eitt "skitið" 2.200 MW kjarnorkuver til lítils; dugar rétt til að framleiða vesælar 500.000 olíutunnur á dag. Í dag skilar kanadíski olíusandurinn í Alberta um 1,3 milljón tunnum af olíu á dag, þ.a. byggja þyrfti þrjú slík risaver til að geta leyst gasið af hólmi miðað við núverandi framleiðslu.

Búist er við að einungis fáein ár séu í það að olíuframleiðslan þarna verði komin í um 3 milljón tunnur og svo fljótlega i 4 milljónir tunna. Ef þessar framleiðsluáætlanir ganga eftir mun þurfa ný kjarnorkuver upp á ca. 15.400 MW strax árið 2020! Þ.e.a.s. sjö kjarnorkuver, ef hvert upp á 2.200 MW. Og það þyrfti að byrja strax á öllu saman (það tekur einmitt um áratug að reisa kjarnorkuver með öllu tilheyrandi stjórnsýslustússi). Þetta yrði fjárfesting í kringum 70 milljarða USD - á tíu ára tímabili. Það væri svona álíka eins og byggðar yrðu þrjár Kárahnjúkavirkjanir OG þrjú Fjarðarál á Íslandi á einum áratug (m.v. per capita, en Alberta-fylki er um ellefu sinnum fjölmennara en Ísland). Sannkallaður blautur draumur verktakanna!

oil_sands_production_growth.jpg

Það er reyndar svo að kannski verður orkuþörfin í olíusandiðnaðinum ennþá meiri. Til eru ennþá "bjartsýnni" spár sem segja að 2020-2025 muni koma allt að 6 milljón olíutunnur frá kanadíska olíusandinum á hverjum degi. Sú framleiðsla myndi þurfa gríðarlega orku. Enn aðrir láta sig dreyma ennþá villtari drauma og segja að Alberta muni senn verða ný Saudi Arabía, með framleiðslu upp á 8-9 milljónir tunna á dag! Þá værum við að tala um orkuþörf uppá 40 GW til að kreista olíuna úr sanddrullunni og erum nánast komin út fyrir mannlegan skilning. En þetta er fúlasta alvara; sumir Kanadamenn tala um að reisa verði tuttugu kjarnorkuver fyrir olíusandiðnaðinn í Alberta og það helst fyrir 2020.

oil-sand-pic.jpg

Það er auðvitað langt í land með að þessi allsherjar kjarnorkuvæðing kanadíska olíusandiðnaðarins verði að veruleika. Og satt að segja er Orkubloggarinn afar vantrúaður á að það verði. Mun líklegra er að menn noti ódýrt gas og gefi skít í takmörk á losun gróðurhúsalofttegunda.

En það gæti samt verið stutt í að fyrsta kjarnorkuverið byrji að rísa þarna - og þá líklega við Peace River. Það verður aldeilis fjör þegar við sjáum einhver dýrustu orkuver heims rísa í óbyggðum Kanada til þess eins að kreista einhverja dýrustu olíudropa heims úr jarðvegi barrskóganna. Og skilja eftir sig þúsundir og aftur þúsundir ferkílómetra af gjöreyddu og olíumenguðu landi.

canadian_oil_sands-desert.jpg

En við skulum ekkert vera að svekkja okkur á svona fallegu kosninga- og Júróvisjónkvöldi með því að vera eitthvað að velta vöngum yfir ömurlegum umhverfisáhrifum olíusandiðnaðarins. Það er reyndar svo að þeir sem tala fyrir þessum kjarnorkuverum benda á, að þau muni verða umhverfinu miklu betri heldur en að byggja þarna sífellt fleiri eldspúandi gasorkuver. Þetta er sem sagt ekki bara í nafni framfara og hagvaxtar - heldur er kjarnorkuolían líka beinhörð umhverfisvernd. Segja sumir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugavert. Það er mjög líklegt að um leið og fer að bera á olíuskorti og erfiðleikum þá munum við henda umhverfishugsjónunum út um gluggann og auka svona skítuga framleiðslu. Það er ekkert sem kemur í stað olíunnar varðandi gæðaorku og geymslu á orku.

Sýnir bara að mannkynið verður að fara að hugsa sinn gang og reyna að minnka orkunotkun ef það á ekki að fara illa fyrir næstu kynslóðum. Líklegast verður þó lítið gert nema þegar við neyðumst til þess og þá verður það kannski of seint. Það kæmi manni ekki á óvart að í framtíðinni munu menn hneykslast á því að nánast hver maður á vesturlöndum hafi keyrt á 1-2 tonna stálflykki í vinnuna á hverjum degi og oft bara einn maður í bíl. Ótrúleg orkusóun. 

Páll F (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 14:30

2 identicon

And I think to myself

what a wonderful world!

;-)

Ekki síður vegna hins nýja olíuævintýris í Texas. Þar sem menn geta hreinlega baðað sig upp úr olíu, niðri á ströndinni.

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 3.6.2010 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband