Misvindasamt á orkumörkuðunum

Nýjustu fréttir af gömlum vini Orkubloggsins, Boone Pickens, eru þær að nú spáir hann aða olíuverðið kunni að fara niður í 110 USD tunnan. En fullyrðir að verðið muni ekki fara undir 100 dollara. Kortið hér að neðan sýnir verðþróunina síðustu 30 dagana.

OilChart160808

Auðvitað getur allt gerst. Þrátt fyrir að olían hafi stundum tekið stökk upp á við síðustu dagana, virðist trendið nú liggja niður. En Pickens yrði spældur ef olían færi niður fyrir 100 USD tunnan.

Öfugt við Orkubloggið, sem fór út af markaðnum við 120 dollara markið, veðjaði Pickens áfram á 150 dollara. Honum er líka af öðrum ástæðum mikilvægt að olíuverðið verði sem allra hæst. Því hann er búinn að setja mikinn pening í vindorku. Þeir hjá General Electric eru á fullu að smíða vindtúrbínur, sem fara í stærsta vindorkuver í heimi. Vindorkuverið sem Pickens er að reisa á sléttum Texas. Og fyrir samkeppnishæfni vindorku er best að olíuverð sé sem hæst.

Sökum þess að nú fer að líða að lokum veru minnar hér í Danaveldi, ætla ég að kveðja Danmörku með umfjöllun um danska vindorku. Danir eru afskaplega stoltir af vindorkufyrirtækinu sínu; Vestas. Sem er í fararbroddi þessa iðnaðar í heiminum og hefur gengið mjög vel síðustu árin. En samkeppnin er mikil og hörð. Það er t.d. ekkert grín að keppa við GE á Bandaríkjamarkaðnum eða í Kína. Markaðshlutdeild Vestas í Bandaríkjunum hefur á stuttum tíma fallið um næstum helming; úr 25% í rúm 13%.

Þó svo Vestas hafi barrrrasta gengið þokkalega að ná fjárhagslegum markmiðum sínum, má t.d. nefna að spænska vindorkufyrirtækið Gamesa skilaði yfir 40% meiri hagnaði fyrstu sex mánuði þessa árs en á sama tíma 2007. Og ekki eru liðnir 2 mánuðir síðan Gamesa fékk risapöntun, einhverja þá alstærstu í sögu þessa golubransa. Pöntun upp á vindtúrbínur með samals 4.500 MW framleiðslugetu! Það er spænska orkusölufyrirtækið Iberdrola Renovables, sem ætlar að setja þær túrbínur upp í Evrópu, Mexíkó og Bandaríkjunum. Afhendingartíminn er 2010-2012. Þetta er fjárfesting upp á u.þ.b. 10 milljarða dollara og mun dekka um 70% af framleiðslugetu Gamesa næstu árin.

wind_horns_rev_4

Það er einfaldlega allt að gerast í vindorkunni þessa dagana. Í Danmörku er nú verið að leggja drög að byggingu vindorkuvers á hafi úti, sem verður líklega hið stærsta sinnar tegundar. Til stendur að reisa a.m.k. 100 vindtúrbínur útí hafinu milli Djursland á Jótlandi (er rétt norðan Árósa) og eyjarinnar Anholt, sem liggur þar austan við útí Kattegat. Þetta hafsvæði er talið henta mjög vel fyrir vindtúrbínur. Orkuverið á að vera tilbúið 2012.

Enn er óljóst hversu stórt það kemur til með að vera, en hingað til hefur verið talað um 100-200 MW. Stjórnarandstaðan hér i Danmörku fussar yfir því og vill að orkuverið verði með 400 MW framleiðslugetu. Ef það gengur eftir verður þetta nær örugglega stærsta offshore vindorkuver í heimi. Það stærsta, sem nú er í byggingu, er orkuver um 30 km utan við strendur Belgíu. Sem til stendur að verði með 300 MW framleiðslugetu.

Wind_Nysted_1

Tvö stærstu vindorkuverin á hafi úti í dag eru hvort um sig um 160 MW. Þau eru bæði í Danmörku. Annað stendur utan við Horns Rev, um 14 km vestur af Jótlandsströnd og hitt er um 10 km utan við strönd Nysted á Lálandi.

Verið við Horns Rev samanstendur af 80 túrbínum frá Vestas og eigendur þess eru sænska orkufyrirtækið Vattenfall (60%) og danska Dong Energi (40%).

Vattenfall er i eigu sænska ríkisins og er eitt af stóru raforkufyrirtækjunum í Evrópu. Það rekur orkuver um alla Skandinavíu og einnig í Þýskalandi og Póllandi. Og er líka með smávægilega starfsemi í Hollandi og á Bretlandi.

Nær öll rafmagnsframleiðsla Vattenfall kemur frá kola-, gas- og kjarnorkuverum, en reyndar er nær fjórðungur framleiðslunnar frá vatnsorku. Vindorka er sáralitill hluti fyrirtækisins, en auk Horns Rev rekur Vattenfall eitt vindorkuver á Bretlandi (90 MW ver tæplega 10 km utan við árósa Thames) og eitt nýtt orkuver í Svíþjóð (110 MW ver rétt sunnan við Eyrarsundsbrúna).

wind_samsoe

Hinn eigandi Horns Rev, hið danska Dong Energi, er líka gríðarstórt orkufyrirtæki. Og er m.a. mikið í olíuvinnslu í Norðursjó. Auk þess að eiga í Horns Rev og Nysted, rekur Dong offshore vindorkuverið Vindeby, sem er um 1,5 km norður af Lálandi. Framleiðslugeta þess er um 5 MW, en þetta var fyrsta vindorkuverið sem byggt var útí sjó. Það hóf framleiðslu 1991 og hefur reynst mjög vel.

Verið við Nysted eru 72 túrbínur frá Siemens. Það er í eigu tveggja orkufyrirtækja; hins fyrrnefnda danska Dong Energi sem á 80% hlut og sænska orkufyrirtækið E.ON á 20%. Hið síðar nefnda er eitt af fyrirtækjunum í E.ON samsteypunni. Sem er stærsta orkudreifingarfyrirtæki heims sem alfarið er í eigu einkaaðila. E.On hyggst setja 6 milljarða evra í endurnýjanlega orkuframleiðslu á næstu tveimur árum. Myndin hér að neðan er af ljúflingnum Wulf Beroat, forstjóra E.ON. Þetta netta firma er með um 70 milljarða evra í ársveltu og 90 þúsund starfsmenn.

E.ON_CEO

Þess má loks geta að nýlega var tilkynnt um aðkomu E.ON að uppbyggingu 1.000 MW vindorkuvers við strendur Bretlands. Áður hafði Shell bakkað út úr þessu verkefni. En nú er E.ON sem sagt búið að taka við því kefli. Og hver er samstarfsaðilinn? Jú - hið danska Dong Energi. Sem senn verður væntanlega einkavætt að hluta.

Hvernig væri að Orkuveita Reykjavíkur / REI skoðaði að kaupa Dong? Er ekki einmitt verðið að ráða nýjan forstjóra Orkuveitunnar á næstu dögum? Og ég einmitt að útskrifast hér í dag. Alveg upplagt!


mbl.is Verð á hráolíu niður fyrir 114 dali tunnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Einhvernvegin hafði ég ímyndað mér að vindorkuver og vatnsorkuver færu alveg ljómandi vel saman.

Þá væri hægt að skrúfa niður keyrsluna á vatnsorkuverunum og taka út vélar þegar mikill vindur væri og næg framleiðsla þar. En svo þegar kæmi logn, þá væri hægt að keyra vatnið á fullu.

En miðlunarlónin gætu þá ekki bara nýst sem söfnun sumarvatns fyrir vetrarnotkun, heldur einnig orkugeymsla í roki sem mætti svo gusa út í logni.

Júlíus Sigurþórsson, 16.8.2008 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband