Tækifæri i jarðhita

rock-energy-header.png

Norðmenn eru búnir að uppgötva jarðvarmann. Já - æpandi vatnsaflið sem fellur af norska hálendinu og flæðandi olíu- og gaslindir landgrunnsins eru Norsurunum ekki nóg! Nú er norska fyrirtækið Rock Energy að undirbúa að bora litla 5 km undir yfirborðið til að komast þar í varma sem getur nýst til að hita vatn í um 90-95°C. Sjóðandi heitt vatnið á svo að fara inn á lagnir orkufyrirtækisins Hafslund, sem rekur veitukerfið í Osló.

Þetta ætla þau hjá Rock Energy að gera í samstarfi við Tækniháskólann í Noregi (NTNU). Menn frá norsku rannsóknarstofnuninni SINTEF og norsku jarðhitastofnuninni CGER fylgjast líka spenntir með þessu verkefni, enda alltaf gaman þegar ný tækni bætist í orkuflóruna.

wind_turbine_floating_1_1036762.jpg

Hér má líka minna á að í Noregi eru menn framsýnir í að þróa nýja möguleika í orkugeiranum. Þar við hina vogskornu strönd er nú risin seltuvirkjun, sem er rannsóknarverkefni hjá Statkraft (Statkraft er e.k. Landsvirkjun þeirra Norðmanna). Og olíufélagið Statoil er með á prjónunum risastórar fljótandi vindrafstöðvar djúpt útí Norðursjó. Þar hyggst Statoil nýta sér reynslu sína af flotpöllum, sem fyrirtækið hefur lengi notað í olíuvinnslunni.

Orkubloggaranum þykir svolítið ergilegt að horfa upp á öll þessi spennandi verkefni þarna hjá vinum okkar austan Síldarsmugunnar. Það er líka athyglisvert að á sama tíma og Norðmenn ætla að fara að bora þúsundir metra niður í bergið til þess eins að ná í smá yl, talar hávær hópur fólks hér heima á Íslandi gegn því að eitthvert mesta háhitasvæði heims sé nýtt til að framleiða einhverja ódýrustu endurnýjanlegu raforku í heimi. Það er líka slæmt að hér á landi er umræðan öll í einum graut. Það hvar eigi að virkja, fyrir hvaða starfsemi eigi að virkja og hverjir eigi að virkja er öllu blandað saman og ómögulegt að átta sig á hvað fólk eiginlega vill.

Umrætt jarðvarmaverkefni Rock Energy er hugsanlega bara fyrsta skrefið í ennþá metnaðarfyllri áætlunum Norsaranna. Um allan heim er nú horft til möguleika á að nýta s.k. hot rock til að sjóðhita kalt vatn og nota gufuþrýstinginn til að framleiða raforku - eða að nota vatnið til hitaveitu í anda þess sem gerist á Íslandi.

Norðmenn eru með mikla reynslu af því að bora djúpt undir yfirborð jarðar í leit að olíu og gasi. Þessa þekkingu vilja þeir gjarnan nýta til að framleiða endurnýjanlega orku. Og þess vegna finnst þeim borðleggjandi að skoða möguleika á að nýta hitann djúpt í jörðu. Norsararnir tala um að í framtíðinni muni þeir bora 10 km niður og verða leiðandi í nýtingu á ofsahitanum í iðrum jarðar.

geothermal_egs_1036764.jpg

Þess hot-rock tækni er ennþá á tilraunastigi, en nýtur víða mikils stuðnings í baráttunni fyrir kolefnisminni heimi. Orkubloggarinn hefur áður minnst á það sem Bandaríkjamenn og Ástralir eru að gera á þessu sviði.

Sjálfur reyndi bloggarinn fyrir um ári síðan að vekja áhuga eins reyndasta verfræðifyrirtækisins á Íslandi á Ástralíu. Bloggarinn hélt því fram að þar væri tækifæri til að fara í jarðvarmaverkefni, sem væru að miklu leyti kostuð af áströlskum stjórnvöldum og sáralítil fjárhagsleg áhætta fyrir hendi. En því miður var ekki áhugi á því - sem var svolítið súrt því nú fyrir fáeinum dögum bárust fréttir af fyrstu styrkjunum til slíkra verkefna í Ástralíu. Þau lukkulegu fyrirtæki sem þar voru valin úr fengu hvert um sig sem samsvarar um 750 milljónum ISK til borunarverkefna þar í Suðrinu. Kannski engin svakaleg upphæð, en samt hefði verið gaman að sjá íslenskt verkfræðifyrirtæki í þeim ljúfa hópi.

Þar með er ekki sagt að íslenskir verk-og jarðfræðingar séu ekki tilbúnir að spá í nýjungar. Orkubloggarinn fær ekki betur séð en að hjá HS Orku séu menn byrjaðir að nota nýjar aðferðir til að "frakka". Ekki til að ná í gas eins og gert er vestur í Bandaríkjunum, heldur til að losa um bergið í Reykjanesskaganum til að auka vatnsrennslið og fá meiri gufuþrýsting. Spennandi, en sjálfsagt líka umdeilt rétt eins og fracking í New York!

michael-porter_iceland-geothermal.png

Það er við hæfi hér í lokin að vekja sérstaka athygli á athyglisverðum atburði, sem verður hér á Íslandi þann 1. nóvember n.k. Þegar Michael Porter ásamt fleirum koma á ráðstefnuna Iceland Geothermal, sem íslenska fyrirtækið Gekon hefur unnið hörðum höndum að undanfarin misseri.

Vonandi verður þessi viðburður lóð á vogarskál þess að Íslendingar nái í enn ríkari mæli að nýta sérþekkingu sína og mikla reynslu af nýtingu jarðvarma. Bæði til að skapa landi og þjóð ný störf og meiri gjaldeyristekjur, en ekki síður vekja áhuga nýrra erlendra fyrirtækja til að fjárfesta á Íslandi. Frábært framtak.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru komnar fréttir af þörungarsullinu þetta er víst að koma! sjá hér

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 28.10.2010 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband