K-19

Sem 9 ára gamall gutti kunni Orkubloggarinn sögu heimsstyrjaldarinnar síðari aftur og bak og áfram. Án gríns. Og gat lýst öllum helstu orrustum stríðsins, hvort sem var um Cassino-fjall, við El Alamein, Stalíngrad eða Iwo Jima.

k19_crew_2.jpg

Og ekki var bloggarinn síður spenntur fyrir sögu Kalda stríðsins. Þessi sérkennilegi áhugi barns á stríðsátökum og vopnakapphlaupi kann að þykja einkennilegur... og jafnvel sjúklegur! Enn þann dag í dag þykir bloggaranum þetta tímabil afskaplega áhugavert. Og fylgdist því auðvitað af athygli með sjónvarpsmyndunum nú um jólin, um þann skelfilega atburð þegar þýskur kafbátur sökkti Goðafossi.

Fyrri þátturinn var nokkuð vel gerður. En sá síðari leystist upp í eitthvert spíritistarugl. Það var frekar dapurlegt og nálgaðist að vera óvirðing við minningu fórnarlamba þessa sorglega atburðar. Einnig voru viðtölin við hina gömlu spariklæddu þýsku kafbátasjómenn slöpp og gáfu litla sýn inní hrikalegt kafbátalífið hjá úlfum hafsins.

k19_arctic_film.jpg

Hafið umverfis Ísland hefur oft verið vettvangur dramatískra atburða og mikilla mannrauna. Stutt er síðan það kom í ljós, að í Kalda stríðinu varð atburður skammt frá Íslandsströndum, sem hefði getað leyst úr læðingi kjarnorkustyrjöld milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Það var þegar við lá að sprenging yrði í kjarnakljúf sovéska kjarnorkukafbátsins K19 í júlí 1961, þar sem hann var staddur í nágrenni Íslands. Með þrjár eldflaugar með kjarnaoddum um borð. Hver eldflauganna var með sprengjuodd, sem jafngilti 1,4 megatonnum (af TNT). Til samanburðar, þá var Hiroshima-sprengjan um 15 kílótonn, þ.a. að kjarnavopnin um borð í K19 voru næstum þrjúhundruð sinnum öflugri en Litli strákurinn (Little Boy) sem varpað var á Hiroshima!

Þessi glænýi kjarnorkuknúni kafbátur, sem var eitthvert mesta og nýjasta stolt kafbátaflota Sovétríkjanna, hafði tveimur vikum fyrr siglt frá skipasmíðastöðinni í Severodvinsk í nágrenni Kólaskagans. Þaðan mun kafbáturinn hafa siglt að hafísröndinni norðan við Svalbarða, en eftir stutta viðdvöl þar var stefnan sett suður á bóginn og loks siglt skammt suður af strönd Ísland.

k19_captain_zateyev.jpg

Stjórn kafbátsins var í höndum kafbátaforingjans Nikolai Vladimirovich Zateyev, sem þá var aðeins 35 ára gamall. Í áhöfninni voru alls 139 manns og þrjár kjarnaflaugar, eins og fyrr segir, sem unnt var að skjóta á borgir óvinarins ef til átaka kæmi. Drægi hverrar flaugar var um 400 km.

Þann 30. júní er kafbáturinn sagður hafa verið staddur í hafinu milli Íslands og Grænlands og fær þá skilaboð frá herstjórninni í Moskvu um að snúa heim á leið. K19 er samstundis siglt norður Grænlandssund og norður fyrir Ísland. En þá dynur ógæfan yfir.

Um kl. 4 aðfararnótt 4. júlí 1961 verður bilun í kælibúnaði kjarnaofnsins og við það fer ofninn samstundis að hitna hratt. Það eina sem getur komið í veg fyrir að kjarnakljúfurinn ofhitni og kafbáturinn sökkvi eða jafnvel springi, er að unnt sé að gera við bilunina án tafar.

k19_map_1.gif

Þar að auki berst nú geislavirkni frá lekanum útí í andrúmsloftið í kafbátnum og dreifist víða um bátinn. Áhöfnin er í mikilli lífshættu og ef ekki tekst að lagfæra bilunina getur orðið ægilegt kjarnorkuslys. Þar með hefði ekki aðeins borist mikil geislavirkni í hafið frá kjarnaofninum, heldur hefðu þá hugsanlega einnig einhverjar eða jafnvel allar kjarnaflaugarnar, sem voru um borð, sprungið. Það hefðu orðið hroðalegar hamfarir og í augum Bandaríkjamanna hefði hugsanlega samstundis litið út fyrir að kjarnorkuárás hefði verið gerð af hálfu Sovétríkjanna.

Þeir sem hafa séð kvikmyndina K19: The Widowmaker með jaxlinum Harrisson Ford í hlutverki Zateyev's, þekkja atburðarásina í grófum dráttum (Harrison Ford virðist reyndar nauðalíkur Zateyev í útliti). Þar kunna atburðirnir vissulega að vera dramatíseraðir og ekki er Orkubloggaranum ljóst hvar kafbáturinn var nákvæmlega staddur þegar kælibúnaðurinn gaf sig. Kannski má sjá það af skjölum í Moskvu. En svo virðist sem hann hafi þá verið nokkuð djúpt norðaustur af Langanesi.

k19_radiation.jpg

Af umfjöllun ýmissa fjölmiðla um þetta atvik, sem reyndar varð ekki umheiminum ljóst fyrr en þrjátíu árum síðar (þ.e. eftir fall Sovétríkjanna), virðist sem undirforingjar skipstjórans hafi viljað bjarga áhöfninni með því að sigla kafbátnum til Jan Mayen. Zateyev hafnaði því, enda hefði K19 - eitt helsta flaggskip rússneska sjóhersins - þá komist í hendur óvinarins. Um þetta virðist hafa orðið nokkur togstreita um borð í kafbátnum og kann jafnvel að hafa legið við uppreisn.

Ekkert slíkt kom þó til og skipaði Zateyev sveit átta manna til að fara inní rýmið þar sem kjarnorkukljúfurinn var - og reyna að gera við bilunina. Þar var hitinn brennandi og loftið mettað geislavirkri móðu. Zateyev vissi að geislavirknin við kjarnakljúfinn myndi væntanlega reynast viðgerðarmönnunum banvæn, en þetta var eina leiðin til að bjarga kafbátnum.

Eftir nokkurra klukkustunda baráttu við að koma kælikerfinu aftur í lag er kjarnaofninn hættur að hitna og virðist sem kjarnorkusprenging sé ekki lengur yfirvofandi. Engu að síður er ástandið mög tvísýnt. Sökum þess að um 1.500 sjómílna sigling er til Múrmansk, er sá kostur að reyna að sigla K19 þangað hjálparlaust útúr myndinni.

k19_soviet_hotel_class.jpg

Zateyev veit að dísilknúinn sovéskur kafbátur á að vera á hafsvæðinu út af Austfjörðum og ákveður að stefna þangað - til suðurs. Hann er einnig í sambandi við herstjórnina í Moskvu og eftir nokkurra klukkustunda hringsól djúpt úti af Austfjörðum sést dísilkafbáturinn S270 í fjarska. Þá brýst eðlilega út mikill fögnuður um borð í K19. En þeir sem hafa unnið að viðgerð á kælibúnaðinum eru illa farnir og líklega hefur öll áhöfnin orðið fyrir talsverðri geislun.

Það gengur brösuglega að koma línu yfir í S270, en um klukkan fimm síðdegis (það er ennþá 4. júlí) kemur annar sovéskur dísilkafbátur á svæðið; S159. Þetta er vel að merkja í upphafi þess tímabils þegar Norður-Atlantshafið var nánast krökkt af þungvopnuðum kafbátum stórveldanna og báðir aðilar á nálum um að verða og seinir að svara árás. Þess vegna vakti þetta undarlega stefnumót rússnesku kafbátanna auðvitað athygli Bandaríkjaflotans og var öllum ljóst að K19 ætti í miklum vandræðum. Bandaríkjamenn munu hafa boðið fram aðstoð, en henni var hafnað.

k19_widowmaker_film.jpg

Um tíu tímum síðar er öll áhöfn K19 kominn um borð í díselkafbátana tvo. Þá er liðinn u.þ.b. sólarhringur síðan ógæfan dundi yfir. Kafbáturinn er lika hólpinn, en geislavirknin veruleg. Díselkafbátarnir halda þegar í stað með áhöfnina í átt til Múrmansk og nú er enn einn rússneskur kafbátur kominn á staðinn til að vera hjá K19 þar til dráttarskip kemur. Sem sagt sannkallað kafbátamót um sumarnótt norður í Dumbshafi. 

Fimm sólarhringum síðar, þann 10. júlí, er öll áhöfnin komin í land við Múrmansk. Einnig er sovéskt skip að koma með K19 í togi. Að aflokinni mikilli viðgerð á hann eftir að þjóna rússneska sjóhernum allt til ársins 1990.

Innan fárra daga eftir komuna heim til Sovétríkjanna voru allir átta sjóliðarnir, sem börðust við að laga kælikerfið, látnir. Og á næstu tveimur árum önduðust a.m.k. fjórtán til viðbótar úr áhöfn K19. Fjöldi annarra úr áhöfninni þurftu að kljást við margvíslega kvilla og heilsutjón næstu áratugina, sem rekja má til geislunarinnar sem þeir urðu fyrir þessa örlagaríku klukkustundir þann 4. júlí 1961.

k19_captain_zateyev_2.jpg

Sjálfur stjórnaði Zateyev aldrei kafbát né öðru sæfari rússneska sjóhersins eftir þetta. Hann og eftirlifandi áhöfn var bundinn algerri þagnarskyldu um þessa atburði allt fram á tíunda áratuginn. Loksins þegar Sovétríkin liðu undir lok, þrjátíu árum eftir þessa miklu lífsreynslu, gaf Zateyev út endurminningar sínar. Hann var þá kominn á eftirlaun, en hann lést árið 1998; 72ja ára gamall.

Í æviminningum Zateyev's kemur fram hörð gagnrýni á það hversu illa sovésk stjórnvöld stóðu að byggingu kjarnorkukafbátanna. Þar réð mestu mikið kapphlaup við Bandaríkjamenn um áhrif á höfunum og kappið var svo mikið að ekki var allt athugað eða prófað nægjanlega vel og öryggismál í miklum ólestri. Fyrir vikið var nokkuð algengt að kafbátar Sovétmanna lentu í vandræðum og reyndar eru líklega ennþá illa búnir og stórhættulegir rússneskir kjarnorkukafbátar á ferð um höfin.

Nokkrum árum eftir lát Zateyev's lagði Mikhail Gorbachev það til við norsku Nóbelsnefndina að Zateyev og áhöfn K19 yrðu sæmdir Friðarverðlaunum Nóbels, þar sem þeir hefðu með dugnaði sínum og mannfórnum komið í veg fyrir kjarnorkustyrjöld stórveldanna. Þau rök byggjast á því að ef allt í einu hefði orðið kjarnorkusprenging í nágrenni Íslands á þessum eldfima tíma, árið 1961, sé mjög líklegt að gjöreyðingarstríð hefði brotist út milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

k19_crew_1.jpg

Það er mögulegt, en samt ekki víst, að ofsalegur hitinn í kjarnaofni K19 hefði valdið sprengingu og þá hefðu kjarnoddarnir jafnvel sprungið líka. Hvort þetta hefði gerst verður að eilífu vangaveltur einar. En ef ekki hefði tekist að stöðva lekann í kælikerfinu, hefði í besta falli orðið gríðarleg geislamengun í hafinu norðaustur af Íslandi. Margfalt meiri geislavirkni en sú sem varð vegna bilunarinnar í kjarnorkuverinu í Chernobyl hér um árið.

Þannig að kannski eru það einfaldlega Íslendingar sem standa í mestri þakkarskuld við Nikolai Vladimirovich Zateyev og áhöfn hans á K19. Fyrir að bjarga okkur frá hroðalegu umhverfisslysi og efnahagstjóni. Við ættum kannski að minnast þessa 4. júlí ár hvert, meðan Bandaríkjamenn halda upp á þjóðhátíð sína. Þennan dag árið 1961 stóðu Íslendingar hugsanlega óafvitandi frammi fyrir einhverri mestu ógn sem að þjóðinni hefur staðið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill hjá þér, takk fyrir mig.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 15:55

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þúsund þakkir fyrir frábæran og uplýsandi pistil.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.1.2010 kl. 18:25

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Takk fyrir fróðlegheitin.

Steingrímur Helgason, 20.1.2010 kl. 20:10

4 identicon

Takk fyrir frábæran pistil.

Sigurður Markússon (IP-tala skráð) 21.1.2010 kl. 11:32

5 identicon

Áhugavert - höldum upp á 4. júlí!  Takk fyrir þessa frábæru samantekt.

Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 21.1.2010 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband