...og dvergarnir sjö!

Um miðja 20. öld skapaði ítalski stjórnmálamaðurinn og einhver áhrifamesti maðurinn í iðnaðaruppbyggingu Ítalíu, Enrico Mattei, hugtakið "systurnar sjö".

Enrico_Mattei

Flest íslenskt áhugafólk um olíu og iðnað þekkir væntanlega hann Enrico Mattei. En samt þykir Orkublogginu rétt að fara hér örfáum orðum um kappann.

Mattei var einn af andspyrnuhetjum Ítalíu í stríðinu. Fasistastjórn Mussolini's hafði komið á fót olíufélaginu Agip - og nú var Mattei falið það hlutverk að leysa félagið upp og losa Ítali við þennan viðbjóð fasistanna. En í stað þess að tvístra Agip - þessu sköpunarverki fasistanna - upp í frumeindir sínar, ákvað Mattei þvert á móti að halda bæri félaginu og nýta það til stórfelldrar iðnaðaruppbyggingar Ítalíu.

Þessa ákvörðun tók hann þvert á vilja pólitíkusana. En svo fór að vinstrimenn á Stígvélinu góða studdu áætlun Mattei's. Og fljótlega réð Agip - og Mattei - yfir hundruðum fyrirtækja í landinu. Árið 1953 samþykkti ítalska þingið svo lög, sem settu á fót orkufyrirtækið Eni, sem voru nýjar umbúðir utan um Agip.

En það var ekki létt verk að byggja upp metnaðarfullt ítalskt olíufélag, sem þurfti að keppa við stóru bandarísku félögin. Mattei fór ófögrum orðum um það sem hann kallaði "systurnar sjö" - risaolíufélögin sjö sem þá réðu nánast einu og öllu í olíuiðnaði veraldarinnar.

Seven_Sisters_Old

Flest þessi félög voru afsprengi Standard Oil – félagsins hans John D. Rockefeller's sem hafði verið leyst upp með dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Nánar tiltekið voru systurnar sjö Standard Oil of New Jersey (sem síðar varð Esso – og svo Exxon og er nú hluti af ExxonMobil), Standard Oil of New York (sem síðar varð Mobil og er nú líka hluti af ExxonMobil), Standard Oil of California (sem nú er Chevron), Gulf Oil (sem síðar rann inní Chevron), Texaco (sem nú er líka hluti af Chevron) og loks tvö evrópsk félög. Sem voru breska félagið Anglo Persian Oil Company (sem síðar varð að British Petroleum eða BP) og bresk-hollenska olíufélagið Shell.

Enrico Mattei_plane

Þegar Mattei talaði um ofurvald systranna sjö upp úr heimsstyrjöldinni síðari, grunaði hann ekki hvernig olíuheimurinn myndi gjörbreytast á næstu hálfri öld. Sjálfur var hann grjótharður nagli í viðskiptum og náði mörgum samningum fyrir olíuvinnslu Eni með því að undirbjóða systurnar sjö. Hann var dáður af ítölskum almenningi - svo vinsæll að enginn þorði að hreyfa við honum. Hvorki óvildarmenn á vinstri vængnum, né kristilegir demókratar. En sumir telja reyndar að flugvél Mattei's hafi verið skotin niður, þegar hún fórst skammt sunnan Mílanó í október 1962. Um borð í þessari nettu einkaþotu voru flugmaðurinn, Mattei og bandarískur blaðamaður og fórust þeir allir þrír. Mattei var þá 56ára.

Eftir fráfall Mattei fór að bera á ýmsum erfiðleikum hjá Eni. Og svo fór að ítalskt efnahagslíf lenti í miklum öldudal. En systurnar sjö lifðu áfram góðu lífi - enn um sinn. Eftir hinar geggjuðu sameiningar í lok 20. aldar, var reyndar byrjað að lýsa stærstu einkareknu olíufélögum heimsins sem risunum sex - "the six supermajors". Þau eru auðvitað áðurnefnd félög ExxonMobil, Shell, BP og Chevron, auk bandaríska ConocoPhillips og franska Total. Þetta eru sem sagt stærstu, hefðbundnu einkareknu olíufélögin í heiminum í dag. Arftakar systranna sjö. En eru þetta ennþá risarnir á olíu- og gasmarkaði heimsins?

Seven_sisters_oil_production

Nýr hugsanaháttur alþjóðasamfélagsins eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari leiddi til hruns nýlendustefnunnar. Upp spratt ný tegund olíufélaga - ríkisolíufélög á gömlu nýlendusvæðunum sem réðu yfir gríðarlegum olíulindum. Þetta byrjaði með ríkisvæðingu olíuiðnaðar Arabaríkjanna. Þar fór auðvitað Saudi Aramco þeirra Sádanna í fararbroddi. Einnig reis upp ríkisrekinn olíuiðnaður víðar í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og Venesúela. Völd bandarísku olíufélaganna og Shell og ekki síst BP fóru ört minnkandi á heimsmarkaðnum.

Það sem bjargaði gömlu systrunum sjö var tækniþekkingin og aðgangur að fjármagni vestrænna banka. Nýju ríkisolíufélögin voru fyrst og fremst umráðamenn olíulinda, en þurftu samstarf við systurnar til að ná gumsinu upp. Þess vegna eru félög eins og ExxonMobil, Shell og BP enn risastór og öflug félög - jafnvel þótt þau hafi mjög takmarkaða möguleika á að finna nýjar olíulindir heima fyrir. Eins og grafið hér að ofan sýnir vel.

opec-logo

Stofnun OPEC (Organization of the Petroleum Exporting Countries) í upphafi 7. áratugarins var líklega mikilvægasta skrefið í að færa áhrifasvæði olíuiðnaðarins frá Bandaríkjunum og Evrópu, til Mið-Austurlanda. En hugmyndin að OPEC mun reyndar hafa komið frá Venesúela.

Undir regnhlíf OPEC gátu nýju ríkisolíufélögin haft mikil áhrif á olíuframboð og þar með stýrt verðinu. Það var þó ekki fyrr en á 8. áratugnum að völd OPEC urðu almennilega áþreifanleg. Þegar Bandaríkin náðu ekki lengur að fullnægja eftirspurn innanlands með framleiðslu heima fyrir. Og urðu þar með háð innfluttri olíu.

Moshe_Dayan_Time_cover

Kaldur raunveruleikinn birtist Bandaríkjunum og öðrum Vesturlöndum á dramatískan hátt þegar Yom Kippur stríðið skall á í október 1973. Til að setja þetta í samhengi, læt ég hér fljóta með eina gamla forsíðu Time. Allt sæmilega þroskað fólk man eftir honum Moshe Dayan - hershöfðingjanum með leppinn. Sem m.a. stýrði ísraelska hernum einmitt til sigurs í Yom Kippur stríðinu gegn Egyptalandi og Sýrlandi. Þá var hann reyndar varnarmálaráðherra og mistókst hrapalega að sjá fyrir innrásina frá Arabaríkjunum. En Ísraelar líta engu að síður á hann sem þjóðhetju.

Arabaríkin voru ekki sátt við stuðning Vesturlanda við Ísrael og Sádarnir ákváðu að minnka olíuframboð til vestursins um heil 25%! Olíukreppan fræga skall á.

Samkomulag um lausn náðist fljótlega eða snemma árs 1974. En óróleikinn hafði þá þegar leitt til hlutabréfahruns - ekki síst í Bretlandi. Þessu öllu tengdust svo þeir atburðir að Bandaríkin hættu að tengja dollarann við verð á gulli og lögðu Bretton-Woods peningakerfið til hliðar. Dollarinn féll og það leiddi til ennþá ýktari hækkunar á olíuverði, því það reiknaðist í dollurum.

Oil_Crisis_Prices

Efnahagslegur raunveruleiki hundruða milljóna Bandaríkjamanna og Evrópubúa var gjörbreyttur til allrar framtíðar. Og hið hækkandi olíuverð færði sífellt meiri völd til ríkisreknu olíufélaganna og OPEC.

Næstu árin eftir 1974 einkenndust af háu olíuverði og mikilli verðbólgu víða um heim. Kannski var helsta rót þessa erfiða efnahagsástands óhófleg eyðsla Bandaríkjanna vegna Víetnamstríðsins. En Orkubloggið hættir sér ekki útí slíkar hagfræðipælingar. 

Nokkuð dró úr ofurvaldi OPEC þegar líða tók á 9. áratuginn. Um það leyti sem friður komst á milli Íran og Írak. Olíverð hélst hóflegt mestan part síðustu 15 ár liðinnar aldar. Að frátöldum hikstanum vegna Persaflóastríðsins 1991. En svo rauk það upp á ný - þegar saman fór efnahagsuppgangur og stríð í Írak. Og sló öll fyrri met um mitt þetta ár (2008).

Núna þegar eftirspurnin minnkar vegna efnahagssamdráttar, verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif OPEC hefur. Ekki er ólíklegt að OPEC-ríkin geti skotið verðinu upp á ný, með því að draga örlítið úr olíuframleiðslu sinni. Kannski erum við að upplifa svipaðar sviptingar nú, eins og á 8. áratugnum. Afleiðingar af óheyrilega dýru Íraksstríðinu og jafnvel hugsanlegu hámarki í olíuframleiðslugetu heimsins.

Seven_Sisters_New

Auk Saudi Aramco eru nýju olíurisarnir sjö - ríkisolíufélögin - hið rússneska  Gazprom, China National Petroleum Corporation eða CNPC í Kína, National Iranian Oil Company eða NIOC í Íran, Petróleos de Venezuela eða PDVSA í Venesúela, brasilíska Petrobras og Petronas í Malsíu. Í dag stefna Gazprom og CNPC í að verða stærstu olíufélög heims á hlutabréfamarkaði. Jafnvel stærri en ExxonMobil. Kannski má bráðum einfaldlega kalla gömlu systurnar sjö, dvergana sjö? Og gaman að því að nýju ríkisrisarnir eru líka sjö - rétt eins og gömlu systurnar voru!

Dvergarnir sjö. Það er ekki alveg útí hött. Bæði BP og Shell hafa nú þegar orðið að víkja fyrir Gazprom og PetroChina sem verðmætasta orkufyrirtækið á hlutabréfamarkaði (CNPC á mest allt hlutafé í PetroChina). ExxonMobil streitist enn við á topp-3 listanum.

Önnur viðmiðun og mun dramatískari er að líta til framleiðslu og aðgangs að auðlindunum. Miklu stærri hluti allrar olíu- og gasframleiðslu er nú í höndum ríkisolíufélaganna, en afkomenda gömlu systranna. Þetta misvægi verður ennþá meira þegar litið er til olíubirgða. Ríkisolíufélögin eru með rúmlega þriðjung allra olíu- og gasbirgða heimsins - en gömlu systurnar aðeins með 3%. Þess vegna má vel segja að þær séu nú dvergar í samanburði við ríkisolíufélögin.

Já - allt að 90% allra nýrra olíulinda verður senn að finna í  löndum þróunarríkjanna - og fyrst og fremst í löndum nýju ríkisrisanna. Reyndar eru afkvæmi Standard Oil og systur þeirra samt vongóðar um að ná aftur fyrri frægð. Lykillinn að upprisu þeirra heitir Írak. Eða réttara sagt olíu- og gaslindirnar svakalegu, sem þar er að finna. En það er önnur saga - og bíður betri tíma hér á blogginu.

En Orkubloggið sefur ágætlega þrátt fyrir þessi umskipti og umbrot. Það er fullt af smærri olíufélögum, sem eru að gera það gott. Og virðast jafnvel ætla að hagnast enn meira af núverandi ástandi. Þetta eru "lítil" félög sem stóru ríkisfélögin eru æst í að fá til samstarfs. Þarna mætti t.d. nefna norska StatoilHydro og bandaríska félagið Marathon. Og auðvitað áðurnefnda ítalska Eni!

Eni_Logo.svg

Ég held barrrasta að hann Enrico Mattei myndi glotta hressilega, ef hann sæi hvernig Eni stendur í dag. Nýbúnir að leggja Blue Stream gasleiðsluna eftir botni Svartahafsins. Og búnir að semja við Rússana um að leggja líka South Stream. Eni nútímans virðist ósigrandi. Kannski meira um þann sæta, sexfætta og eldspúandi svarta hvutta í næstu færslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ketill, mig langar alveg rosalega til að gefa þér bókina "A Century of War", eftir F. William Engdahl. Ef þú hefur áhuga sendu mér þá tölvupóstfang á galdur@myway.com.

Mattei gerði olíumafíu vesturlanda ýmsa skráveifu með olíusamningum við Egypta og fleiri sem veittu viðkomandi miklu stærri hagnaðarhluta en þekkst hafði áður í samningum við Ensk-ameríska olíuveldið. Einnig var hann brautryðjandi í rekstri bensínstöðva og var þegar á sjötta áratugnum með verslanir og sjoppur í þeim, í líkingu við Select í dag. En þegar hann samdi við Sovéska ríkisolíufélagið undirritaði hann endanlega sinn eigin dauðadóm. 

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 19:15

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Jamm - einhverjar vísbendingar voru um að flugslysið hefði alls ekki verið slys. Og sumir kenndu CIA um.

Ketill Sigurjónsson, 5.11.2008 kl. 21:31

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ef ég man rétt stóð til að Mattei færi til BNA að ræða við John Kennedy en ekkert varð úr því þar sem blessaður maðurinn safnaðist til feðra sinna. Þetta er að gerast hvað 1961-62, gífurlega heitur tími. Eisenhower var nýfarinn úr embætti og í kveðjuræðu sinni varaði hann við áhrifum "military-industrial-complex" sem síðar stútaði Kennedy og sendi þar með komandi strengjabrúðum sínum sterk skilaboð. And the rest has been History.

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 21:48

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Mannkynssagan síðustu öldina snýst að mestu um olíu og hagsmuni henni tengda og ódýr olía hefur öðru fremur stuðlað að ótrúlegri fólksfjölgunarsprengju síðustu 200 árin. Ef við hlaupum yfir fólksfjölgunarþróun síðustu 2000 ára þá er talið að mannskepnur hafi verið um 300 millj. talsins árið núll um það leyti sem þjóðsagnapersónan Jesús reið húsum og þúsund árum síðar hafi fjöldinn hugsanlega náð 350 milljónum. Síðan tók við tímabil til 1650 þar sem trúarbragðastríð réðu ríkjum gegn heilbrigðri skynsemi sem sífellt sótti á og þrátt fyrir mikla útrýmingu sem fylgdi þessum jesúfríkum náði mannkynið samt að fylla einn milljarð um 1820. Síðan hefur þetta verið exponentíal kúrfa, 1930 voru jarðarbúar tveir millarðar, 1960 þrír, 1974 fjórir, 1987 fimm, 1999 sex og 2010 verða þeir sjö. En kannski er ráðlegast að reikna með opinberri lygamaskínu nútímans og telja þá nú þegar 8-9 milljarða, hver veit. Eitt er víst; þetta er exponentíal J-kúrfa og allar slíkar kúrfur hrynja á endanum með braki og brestum og ætti varla að þurfa að benda á nýleg þjóðargjaldþrot í því sambandi nema síður væri. Meira síðar.

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 23:23

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

enn og aftur kemuru með góðan fróðleik um annars frekar leiðinlegt efni en tekst að gera það áhugavert og skemmtilegt :)  Takk fyrir það

Óskar Þorkelsson, 7.11.2008 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband