Rammaáætlunin

Rammaaaetlun-kort-2Rammaáætlun um vernd og nýtungu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði mjakast vel áfram þessa dagana. Nú eru komin fram drög að þingsályktun þar sem samtals 69 virkjunarkostir eru flokkaðir í þrjá mismunandi flokka; nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Að auki eru þar nefndir nokkrir virkjunarkostir innan svæða sem þegar eru friðlýst og má segja að þeir kostir séu nú þegar komnir í verndunarflokk.

Í þessari færslu Orkubloggsins er þessari flokkun Rammaáætlunarinnar lýst í grófum dráttum. Athugið að númerin framan við hvern virkjunarkost hér í upptalningunni er einkennistala sem notuð er í Rammaáætluninni. Þessi númer eru t.a.m. þægileg til að átta sig á hvar viðkomandi virkjunarkostur er á landakorti (sbr. kortið hér að ofan sem birt var í Fréttablaðinu s.l. föstudag).

1. NÝTINGARFLOKKUR.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni koma 22 virkjunarkostir í nýtingarflokk. Sú flokkun merkir að álitið er að ráðast megi í umræddar virkjanir - að uppfylltum ýmsum skilyrðum (sem t.d. koma til vegna laga um mat á umhverfisáhrifum). Gera má ráð fyrir að virkjunarkostirnir sem settir eru í þennan flokk verði þær virkjanir sem við sjáum rísa hér á landi á næstu árum. Þetta eru 6 vatnsaflsvirkjanir (þar af þrjár í Þjórsá) og 14 jarðhitavirkjanir:

- Vatnsafl:

4     Hvalárvirkjun (Hvalá, Ófeigsfirði á Vestfjörðum).

5     Blönduveita (Blanda).

26   Skrokkölduvirkjun (Kaldakvísl - þ.e. útfallið úr Hágöngulóni).

29   Hvammsvirkjun (Þjórsá).

30   Holtavirkjun (Þjórsá).

31   Urriðafossvirkjun (Þjórsá).

- Jarðhiti:

61    Reykjanes (stækkun Reykjanesvirkjunar).

62    Stóra-Sandvík (Reykjanesi).

63    Eldvörp (Svartsengi).

64    Sandfell (Krýsuvík).

66    Sveifluháls (Krýsuvík).

69    Meitillinn (Hengill).

70    Gráuhnúkar (Hengill).

71    Hverahlíð (Hengill).

91    Hágönguvirkjun, 1. áfangi (við Hágöngulón).

104  Hágönguvirkjun, 2. áfangi (við Hágöngulón).

97    Bjarnarflag.

98    Krafla I (stækkun Kröfluvirkjunar).

99    Krafla II, 1. áfangi.

103  Krafla II, 2. áfangi.

102  Þeistareykir.

101  Þeistareykir, vestursvæði.

Thjorsa-Ketill-2

Samkvæmt þessu eru allir þeir kostir sem Landsvirkjun hefur litið til í sinni stefnumótun afar raunhæfir - að undanskildri virkjun í Hólmsá sem sett er í biðflokk (sjá um biðflokkinn hér neðar í færslunni). Þarna í nýtingarflokknum er einnig að finna marga virkjunarkosti á Reykjanesi og í Henglinum, sem eru hin hefðbundnu virkjunarsvæði HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. Það er því líklegt að niðurstaðan sé viðunandi fyrir öll þrjú stóru orkufyrirtækin.

Að vísu fer Bitruvirkjun í verndarflokk, en þar hefur OR horft til byggingar á jarðvarmavirkjun og lagt verulega fjármuni í rannsóknir. Og Búlandsvirkjun í Skaftá er sett í biðflokk, en þar á HS Orka hagsmuna að gæta (fyrirtækið er stór hluthafi í Suðurorku sem hefur samið við flesta vatnsréttarhafa á svæðinu). Engu að síður hljóta öll stóru orkufyrirtækin þrjú að vera þokkalega sátt við þennan nýtingarflokk - þó eflaust hefðu þau strax viljað fá enn fleiri kosti í þennan flokk.

Að mati Orkubloggarans hefði aftur á móti mátt fara þarna aðeins varlegar í sakirnar. Og t.d. íhuga að friða þann hluta Þjórsár þar sem áin og umhverfi hennar er hvað fegurst - og setja Hvammsvirkjun í verndarflokk eða a.m.k. í biðflokk. En það er einmitt biðflokkurinn sem er stóra spurningin. Þangað eru flestir virkjunarkostirnir settir - og þar með er í reynd ekki tekin afstaða til þess hvort viðkomandi svæði eigi að fara í nýtingarflokk eða verndarflokk. Biðflokkurinn er svohljóðandi:

2. BIÐFLOKKUR.

- Vatnsafl:

1    Kljáfossvirkjun (Hvítá, Borgarfirði).

2    Glámuvirkjun (Vestfjarðarhálendi).

3    Skúfnavatnavirkjun (Þverá, Langadalsströnd, Vestfjörðum).

6    Skatastaðavirkjun B (Jökulárnar í Skagafirði).

7    Skatastaðavirkjun C (Jökulárnar í Skagafirði).

8    Villinganesvirkjun (Jökulárnar í Skagafirði).

9    Fljótshnúksvirkjun (Skjálfandafljót).

10  Hrafnabjargavirkjun A (Skjálfandafljót).

11  Eyjadalsárvirkjun (Skjálfandafljót).

15  Hverfisfljótsvirkjun (Hverfisfljót).

40  Búlandsvirkjun (Skaftá).

19  Hólmsárvirkjun við Einhyrning, án miðlunar (Hólmsá).

21  Hólmsárvirkjun neðri við Atley (Hólmsá).

39  Hagavatnsvirkjun (Farið við Hagavatn).

34  Búðartunguvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

35  Haukholtsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

36  Vörðufellsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

37  Hestvatnsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

38  Selfossvirkjun (Ölfusá).

- Jarðhiti:

65  Trölladyngja (Krýsuvík).

67  Austurengjar (Krýsuvík).

73  Innstidalur (Hengill).

75  Þverárdalur (Hengill).

76  Ölfusdalur (Hengill).

83  Hveravellir.

95  Hrúthálsar (NA-landi; í nágrenni Herðubreiðar).

96  Fremrinámar (NA-landi; suðaustur af Mývatni).

Í biðflokknum er að finna marga umdeilda virkjunarkosti. Þarna eru  t.d. bæði Skjálfandafljót og Austari- og Vestari-Jökulsá í Skagafirði. Þarna eru líka margir virkjunarkostir í jarðhita á SV-horni landsins. Og hver vill sjá háspennulínur í nágrenni Herðubreiðar? Í þessum biðflokki er augljóslega að finna mörg átakamál framtíðarinnar. Þetta minnir okkur á að Rammáætlunin er í reynd einungis eitt hógvært skref - og langt í frá að hún skapi einhverja allsherjar sátt um virkjunarstefnu framtíðarinnar.

-------------------------------------------

dettifoss-girl

Þá er komið að verndarflokknum. Þar hefur náttúruverndarfólk einkum fagnað því að fallið er frá Norðlingaölduveitu og þar með eru Þjórsárver vernduð í núverandi mynd. Að mati Orkubloggarans er líka vel að Kerlingarfjöll og Jökulkvísl suður af Hofsjökli fái að vera í friði. Og ekki er síður ánægjulegt að sjá Hómsá við Einhyrning í þessum flokki. Þar er um að ræða svæði sem ekki ætti að hvarfla að nokkrum manni að hrófla við. Og það yrði ennfremur góð niðurstaða ef við geymum Jökulsá á Fjöllum óspjallaða fyrir kynslóðir framtíðarinnar.

Fyrir orkufyrirtækin er kannski svolítið súrt að sjá fáeina virkjunarkosti á Reykjanesi og í Henglinum lenda í þessum flokki. Og mögulega líka eilítið óvænt að Gjástykki skuli skipað í þennan flokk - í stað þess að fara í biðflokk. En verndarflokkurinn hljóðar þannig:

3. VERNDARFLOKKUR.

- Vatnsafl:

12  Arnardalsvirkjun (Jökulsá á Fjöllum).

13  Helmingsvirkjun (Jökulsá á Fjöllum).

14  Djúpárvirkjun (Djúpá í Fljótshverfi).

20  Hólmsárvirkjun við Einhyrning, með miðlun.

22  Markarfljótsvirkjun A.

23  Markarfljótsvirkjun B.

24  Tungnaárlón (Tungnaá).

25  Bjallavirkjun (Tungnaá).

27  Norðlingaölduveita, 566-567,5 m.y.s. (Þjórsá).

32  Gýgjarfossvirkjun (Jökulfall/Jökulkvísl í nágrenni Kerlingarfjalla; fellur í Hvítá í Árnessýslu).

 33  Bláfellsvirkjun (Hvítá í Árnessýslu).

- Jarðhiti:

68   Brennisteinsfjöll (Reykjanesi).

74   Bitra (Hengill).

77   Grændalur (Hengill).

78   Geysir.

79   Hverabotn (Kerlingarfjöll)

80   Neðri-Hveradalir (Kerlingarfjöll).

81   Kisubotnar (Kerlingarfjöll).

82   Þverfell (Kerlingarfjöll).

100 Gjástykki.

-----------------------------------

Í Rammáætluninni eru ekki flokkaðar þeir virkjunarkostir (né veitur) sem yrðu innan svæða sem nú þegar eru friðlýst. Eins og t.d. Vonarskarð og Askja innan Vatnajökulsþjóðgarðs og virkjunarkostir innan Friðlandsins að Fjallabaki (þ.á m. er Torfajökulssvæðið og Landmannalaugar). Þessi svæði eru jú þegar friðlýst.

Orkubloggarinn er reyndar ekki viss um að það sé endilega skynsamlegt að horfið verði frá þeirri hugmynd að veita Skaftá inn á vatnasvið Tungnaár. Ef unnt er að taka Skaftá þarna vestur eftir - án þess að hrófla við Langasjó - gæti það verið mjög góður kostur. Og er varla til þess fallið að skerða gildi Vatnajökulsþjóðgarðs.

UTAN FLOKKA (SVÆÐI SEM ÞEGAR NJÓTA FRIÐLÝSINGAR):

- Vatnsafl innan Vatnajökulsþjóðgarðs:

16  Skaftárveita með miðlun í Langasjó

17  Skaftárveitu án miðlunar í Langasjó

18  Skaftárvirkjun (ofarlega í Skaftá; ekki Búlandsvirkjun).

- Jarðhiti innan Vatnajökulsþjóðgarðs:

92  Vonarskarð.

93  Kverkfjöll.

94  Askja.

- Svæði innan Friðlands að Fjallabaki (jarðhiti):

84  Blautakvísl.

85  Vestur-Reykjadalir.

86  Austur-Reykjadalir.

87  Ljósártungur.

88  Jökultungur.

89  Kaldaklof.

90  Landmannalaugar. 

---------------------------------

Þegar litið er til Rammaáætlunarinnar eins og hún er sett fram í drögum til þingsályktunar, skiptir mestu hvaða svæði lenda annars vegar í nýtingarflokknum og hins vegar í verndarflokknum. Ef sæmileg pólítísk sátt næst um þingsályktunina er ólíklegt að hróflað verði að marki við þeirri flokkun í framtíðinni. Líklegt er að á næstu árum verði ráðist í að virkja marga ef ekki flesta virkjunarkostina sem lenda í nýtingarflokknum. Og þau svæði sem fara í verndarflokkinn verða sjálfsagt öll friðlýst. Þó svo vel sé unnt að aflétta friðlýsingu er samt líklegast að hún komi til með að standa. Þess vegna skiptir miklu hvaða virkjunarkostir fara í þessa tvo flokka. En í reynd eru allir virkjunarkostirnir sem fara í biðflokk ennþá galopnir.

Holmsa-Ketill-2

Í umræðunni um virkjunarmál er algengt að tala um virkjunarsinna og náttúruverndarsinna - eins og að þjóðin skiptist í þessar tvær andstæðu fylkingar. En Orkubloggarinn sér sjálfan sig alls ekki í öðrum þessara hópa - heldur báðum. Og grunar reyndar að sama eigi við um flesta Íslendinga; að við viljum flest nýta orkulindirnar af skynsemi en jafnframt vernda náttúruperlur og ekki ganga of gróflega að hinni einstæðu náttúru Íslands. Þetta er kannski líka sá stóri hópur sem oft horfir bara þögull á harða virkjunarsinna og forsvarsmenn náttúrverndarsamtaka takast á. Það er algerlega óviðunandi að standa þannig til hliðar. Hér er um að ræða stórmál. Og vonandi að sem flestir gefi sér tíma til að kynna sér þessi drög að þingsályktunartillögu vel og vandlega - og komi sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri - núna meðan drögin eru til umsagnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já ég held að flestir landsmenn séu þarna mitt á milli hörðustu virkjunarsinnanna og náttúruverndarsinnanna.

Mér sýnist þetta vera skynsamleg niðurröðun í flokka þó maður hefði ekki viljað sjá svona marga kosti í biðflokki.  

Nú er bara að vona að alþingismenn sýni skynsemi og samþykki þetta samhljóða, allavega þá kosti sem nú eru komnir í nýtingarflokk og verndarflokk. Þá verðum við komin ansi langt í að ná sátt um þessi mál.

Annars er ég sammála þér með Hvammsvirkjun í Þjórsá. Það er ótrúlega fallegt að keyra þarna upp með Þjórsánni, litlar skógivaxnar eyjar á ánni og blómlegar sveitir í kring.

Páll F (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 11:24

2 identicon

Sæll

Það er gott að þetta plagg er komið fram, og virðist skynsamlegt með nokkrum undantekningum.

Það er skrýtið að menn séu að fetta fingur út í Neðri-Þjórsá. Ef hún væri ekki með í nýtingarflokk yrði hann praktískt tómur hvað vatnsaflið varðar. Vissulega er fallegt að keyra upp með væntanlegu Hagalóni við Hvammsvirkjun, vatn með nýjum eyjum á þessum stað verður líka fallegt, svona smá sárauppbót, en alltaf er nauðsynlegt að fórna einhverju og það er ekkert lengur til sem er náttúrulegt við rennsli Þjórsár neðan virkjana. Því hlýtur það að vera skynsamlegt að nýta hana sem best þannig að sem mest orka fáist úr þeim fórnum sem þar hafa verið færðar.

Það eru engin umhverfisleg rök fyrir því að setja Norðlingaölduveitu í hæð 566 m y.s. í verndarflokk. Hún hefur nákvæmlega ekkert með  Þjórsárver að gera (og það skiptir öllu máli "nákvæmlega ekkert", en meira að segja þú nefnir þetta í sömu andránni). Lónið er eingöngu í sandorpnum farvegi Þjórsár langt neða veranna.  Andstaðan við veituna stafar af ókunnugleika. Verið er að rugla þessari veitu saman við veituna í hæð 575 sem fór í umhverfismat og var alger tælnilegur og umhverfislegur óskapnaður. Þetta er pólítísk ákvörðun en ekki málefnaleg. Hvet þig til að kynna þér aðstæður þarna. 

Ég er ánægður með að þú skulir vera farinn að sjá að það geti verið skynsamlegt að veita Skaftá yfir í Tungnaá ofan Langasjávar. Til að ná þar 600-700 GWh/a þarf þó að gera miðlun í Tungnaá þannig að taka þyrfti hana líka úr verndarflokk ef Skaftárveita yrði fýsileg. Einnig þyrfti að stækka amk.  Búrfellsvirkjun, helst Sultartangavirkjun líka og gott væri að vita hvort þessi veita kæmi til áður en uppsett afl í virkjununum í Neðri-Þjórsá verður ákveðið. Rennsli Þjórsár/Tungnaár ykist um 40 m3/s að vetrarlagi sem er um  10-15%. 

Ef Skjálfandifljót yrði sett í verndarflokk mætti einnig skoða að veita efstu kvírslum hennat til Þjórsár. (Það var reyndar gert tímabundi í Vonarskarði á níunda áratugnum). Málið er að nýta Þjórsá eins vel og hægt ert, því þar er þegar búið að raska miklu, og stækkun virkjana þar veldur ekki meira raski. 

Þá finnst mér lika óþarfi að setha hóflega nýtingu vetrarrennslis Jökulsár á Fjöllum í verndarflokk, þ.e.a.s Helmingsvirkjun eða álíka nýtingu, þó sjálfsagt sé að setja nýtingu sumarrennslisins í verndarflokk (Arnardalsvirkjun). Við slíka hóflega nýtingu næst um helmingur orkuframleiðslunnar í Jökulsá á Fjöllum (4000/2=2000 GWh/a). Sumarrennslið yrði óskert og allur aur færi eftir sem áður til ósa. Eingöngu yrði nýtt hið ótrúlega mikla tæra og stöðuga lindarrennsli sem er um 50 m3/s !!! allann veturinn ofan Herðubreyðalinda.  Virkjuninni mætti síðan loka í um 3 mánuði enda verður erfitt að ráða við aurinn í þessu aurugusta fljóti landsins, nema með stóru lóni sem sjálfsagt er að hafna. 

Þorbergur Steinn Leifsson (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 13:32

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Til að veita Skjálfandakvíslum til Þjórsár þarf að fara að fikta í Vonarskarði og nágrenni þess. Látum það í friði. Látum líka Jökulsá á Fjöllum alveg í friði og þess vegna enga Helmingsvirkjun.

En ég held að það kunni að vera hárrétt sjónarmið að það sé della að vera alveg að sleppa Norðlingaölduveitu. Meira að segja kunnáttufólk úr hópi verndundarsinna segir mér að lægri vatnshæðin myndi að engu marki skerða eða ógna Þjórsárverum. Þ.a. þarna sé verið að henda frá sér mjög hagkvæmum kosti sem hafa sáralítil neikvæð umhverfisáhrif. Sé þetta rétt er undarlegt að þessi kostur skuli vera settur í verndunarflokk.

Ketill Sigurjónsson, 21.8.2011 kl. 18:31

4 identicon

Ætli andstaðan við Norðlingaölduveitu kunni ekki að hafa eitthvað að gera með fossanna í Þjórsá, þ.e. Dynk og Gljúfurleitarfoss?

Haukur (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband